Það þarf þorp til að þagga niður
Kynferðisbrot innan kirkjunnar eru orðin þekkt alþjóðleg fyrirbæri. Ýmsar hliðstæður er að finna í kvikmyndinni Spotlight og íslenskum veruleika.
Kvikmyndin Spotlight hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið. Hún var tilnefnd til Golden Globe verðlauna, sem fram fóru í gær, sem besta myndin og Tom McCarthy var tilnefndur sem besti leikstjóri og fyrir besta handrit.
Myndin segir sanna sögu rannsóknarblaðamennskuteymisins Spotlight hjá dagblaðinu Boston Globe, sem afhjúpar gríðarlegt umfang kynferðisbrota innan kaþólsku kirkjunnar í Boston í Bandaríkjunum 2001 og 2002. Umfjöllun Spotlight leiddi til þess að kardinálinn í Boston, Bernard Law, var fluttur til í starfi og kynferðisbrot 249 presta litu dagsins ljós, eftir áratugalanga þöggun. Fjöldi þolenda sem kaþólskir prestar höfðu níðst á, var yfir þúsund. Langflest fórnarlömbin voru ungir drengir, en einnig stúlkur.
Kynferðisbrot án landamæra
Myndin leyfir áhorfendum að skyggnast inn í líf og aðstæður blaðamannanna sem vinna að málinu, og ritstjórnarinnar allrar, og sýnir á grímulausan og raunsæjan hátt hvernig samfélagið var orðið gegnsýrt af spillingu og þöggun í kring um glæpi prestanna. Vitneskja um brotin var til staðar innan allra helstu innviða samfélagsins; kirkjunnar, skólanna, dómskerfisins og fjölmiðlanna sjálfra.
Söguþráðurinn er á vissan hátt keimlíkur þeim atburðum sem skóku íslenskt samfélag fyrir nokkrum árum þegar kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar, og síðar kaþólsku kirkjunnar og sértrúarsafnaðarins Krossins, litu dagsins ljós.
Í Reykjavík, rétt eins og í Boston, komu langflest fórnarlömbin ekki fram fyrr en löngu eftir að brotin voru framin. Þau voru því flest fyrnd að lögum. Og, eðlilega, vildu fæst þeirra koma fram í fjölmiðlum eða segja sögu sína. Skömmin var slík.
Í Boston-málinu voru gögn send á Boston Globe árið 1996, fimm árum áður en Spotlight-teymið hóf rannsókn á málunum. En 1996 höfðu málin fengið litla sem enga umfjöllun. Það sama ár komu fyrst fram ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi Íslands, um kynferðisbrot. Það sama gerðist í Reykjavík og Boston: Málin rötuðu ekki fram í dagsljósið nema að örlitlu leyti og kirkjan hélt þeim fyrir sig. Fagráði íslensku þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot var komið á laggirnar árið 1998, en það fór ekki hátt.
„Prestar eiga að vera góðu gæjarnir”
Stærsta afrek Spotlight teymisins er án efa það að ná að afhjúpa rotið kerfi. Kardinálinn vissi af brotum prestanna án þess að færa þá til í starfi eða tilkynna þá til lögreglu. Lögmenn þáðu greiðslur frá fórnarlömbum fyrir að knýja fram örlitlar „sanngirnisbætur” fyrir að kæra ekki málin.
Law, kardínáli kaþólsku kirkjunnar í Boston, hafði fengið fjölda bréfa þar sem greint var frá kynferðislegri misnotkun af hálfu presta í hans umdæmi. Þau bréf enduðu þó einungis ofan í skúffu á Kardínálaskrifstofunni, rétt eins og bréfi Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur um kynferðisbrot föður hennar, Ólafs Skúlasonar biskups, var stungið ofan í skúffu á Biskupsstofu. Bréfið var ekki skráð í skjalaskrá Biskupsstofu Íslands fyrr en einu og hálfu síðar.
„Ef það þarf þorp til að ala upp barn - þarf þorp til að misnota það,” segir Mitchell Garabedian, lögmaður fórnarlambanna í Spotlight.
Fyrir nokkrum árum varð morgunljóst að vitneskja um að ekki væri allt með felldu innan tveggja öflugustu trúarstofnana landsins, þjóðkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar, var til staðar löngu áður en kynferðisbrotamálin komu fram í dagsljósið. Tugir einstaklinga höfðu lagt fram kvartanir á einn eða annan hátt eftir að hafa orðið fyrir kynferðisbrotum af hendi biskups, presta eða annarra starfsmanna kirkjunnar, án þess að nokkuð hafi verið að gert.
Skýrslur og rannsóknir - en enginn dæmdur
Allt í einu brast stíflan. Ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi, komu fram hver á fætur annarri, rannsóknarnefnd um þær ásakanir var stofnuð og skilaði hún af sér ítarlegri skýrslu í júní 2011, þar sem niðurstaðan var sú að Karli Sigurbjörnssyni, þáverandi biskupi, og öðrum vígðum þjónum kirkjunnar hafi orðið á mistök í biskupsmálinu.
Hann baðst afsökunar „ef hann hefði gert eitthvað rangt.” Það stakk í stúf við öllu skýrari ummæli hans frá árinu 2009, þegar hann bað þær konur og börn sem brotið hefur verið á af hálfu þjóna kirkjunnar, opinberlega afsökunar. Mál Guðrúnar Ebbu kom inn á borð Biskupsstofu það ár.
Í kjölfarið reið svipuð alda yfir kaþólsku kirkjuna á Íslandi. Á annan tug einstaklinga greindu frá grófu kynferðisofbeldi sem þau urðu fyrir í Landakotsskóla af hendi prests og starfsmanns þar. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar gaf einnig út skýrslu um viðbrögð stofnunarinnar við ásökununum í nóvember árið 2012.
Sanngirnisbætur voru greiddar til þolenda þjóðkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar. Enginn var dæmdur.
Í Spotlight segir eitt fórnarlambanna, maður sem hafði verið misnotaður kynferðislega af presti þegar hann var 11 ára gamall:
„Þeir segja að þetta hafi bara verið líkamleg misnotkun, en þetta var meira en það. Þetta var andleg misnotkun. Vitið þið hvers vegna ég samþykkti alltaf? Vegna þess að prestar eiga að vera góðu gæjarnir.”
Í þessu samhengi má rifja upp frásögn íslensks manns sem greindi frá grófri kynferðislegri misnotkun af hendi séra A. George, valdamiklum kaþólskum presti og skólastjóra Landakotsskóla, og Margrétar Müller, kennslukonu við skólann, í samtali við Fréttatímann 2011:
„Mér var líka sagt það strax að þetta væri Guði þóknanlegt. Og þetta væri bara milli mín og Guðs.“
kynferðisbrot@kirkjan.is
Einn blaðamannanna í Spotlight-teyminu, Sacha Pfeiffer, segir í myndinni að hún hafi misst lyst á því að fara í kirkju með ömmu sinni, eitthvað sem hún gerði áður nokkuð reglulega, eftir að þau hófu rannsókn sína.
En þjóðkirkjan reyndi að taka til hjá sér. Hún bjó til bækling sem útskýrði hvað þolendur eiga að gera ef þeir upplifa kynferðislega misnotkun af hendi starfsmanna kirkjunnar. Hún bjó meira að segja til netfangið kynferðisbrot@kirkjan.is til að veita betri aðgang að fagráði sínu. En það dugði ekki til.
Eftir að umræðan um kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar komst í hámæli 2009 fækkaði skráðum félögum gríðarlega á hverju ári. 2009 voru 253.000 meðlimir, en þeir voru orðnir 243.000 í lok árs í fyrra, sem gerir fækkun um 10.000 manns. Á sama tíma fjölgaði Íslendingum um sömu tölu, 10.000 manns.
Eftirlifendur misnotkunar um allan heim
Ásakanir á hendur kaþólskum prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar um kynferðisbrot gegn börnum hafa verið gegnumgangandi í nokkra áratugi um allan heim. Stór mál í Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu hafa ítrekað ratað í heimsfréttirnar. Mörg þúsund prestar hafa verið rannsakaðir og enn fleiri bornir sökum.
Samtök þolenda sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi presta (SNAP - Survivor Network of those Abused by Priests) voru stofuð í Bandaríkjunum árið 1989 og ná nú til 56 landa með 12.000 félaga.
Saga Spotlight í Boston sýnir okkur einungis örlítinn hluta af þessu furðulega alheimsvandamáli, sem hefur náð að grassera og sá sér í áratugi, ef ekki árhundruðir, án þess að nokkuð sé að gert. Og það er vert að rifja upp reglulega.