Hin fullkomna hnignun íslensks handbolta
Íslenska þjóðin hefur undanfarna tvo áratugi tengst íslenska karlalandsliðinu í handbolta sterkum böndum. En tengslin milli þjóðar og „Strákanna okkar" virðast vera að rofna. Og mögulega er ástarsambandinu lokið.
Íslenska handboltalandsliðið sýndi eina andlausustu frammistöðu sem sést hefur hjá íslensku hópíþróttalandsliði í gær þegar liðið tapaði leik sínum gegn Króatíu á fyrstu tíu mínútum hans. Leikurinn skipti Ísland gríðarlegu máli. Undir var áframhaldandi vera á Evrópumótinu (EM) í handbolta og möguleikinn á sæti á Ólympíuleikunum í Ríó. And- eða getuleysi liðsins, sem nokkrum dögum áður hafði tapað fyrir mun lægra skrifuðum Hvít-Rússum, var samt sem áður algjört.
Gullaldartímabili íslensks handbolta, „Strákanna okkar“, leið undir lok með þessari afleitu frammistöðu. Tímabil sem hófst á Evrópumótinu árið 2002 þegar nokkrir af bestu handboltamönnum Íslandssögunnar stigu sín fyrstu spor sem burðarásar í landsliðinu. Hápunktar þessa tímabils voru silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Pekíng 2008 og bronsverðlaun á EM tveimur árum síðar.
Sjö leikmenn sem tóku þátt í EM í Póllandi fyrir Íslands hönd spiluðu á Ólympíuleikunum 2008. Tíu á EM 2010. Margir þeirra eru komnir á lokasprettinn á sínum ferli og því miður virðist blasa við að þeir sem eiga að feta í fótspor þeirra eru fjarri því að vera í sama klassa. Vandséð er að íslenskt handboltalandslið með menn á sama getustigi og Ólafur Stefánsson, Alexander Petersson, Guðjón Val Sigurðsson, Aron Pálmarsson og Snorra Stein Guðjónsson alla innanborðs verði aftur til. Og ekki víst að ný kynslóð afburðahandboltamanna, sem gæti komið upp eftir nokkur ár, myndi duga til að halda þeim sterku tengslum sem hafa verið á milli íslenska handboltalandsliðsins og þjóðarinnar.
Það er nefnilega ekki þannig að misheppnuð kynslóðaskipti séu eina ástæða þess að venjulegir Íslendingar eru að fjarlægjast handbolta. Í næstum tvo áratugi hefur handboltaáhorf í janúar verið jafn reglulegur viðburður og jól, páskar og rigning í júní. Í aðdraganda þess móts sem íslenska liðið var að ljúka þátttöku á var hins vegar eins og eitthvað hefði breyst. Áhuginn var einhvern veginn miklu minni. Öll umfjöllun og stemmning virtist þröngvuð. Og einu aðilarnir sem töluðu um handboltalandsliðið sem „Strákana okkar“ voru bensínstöðvar í leit að viðskiptavinum sem falla fyrir mögulegum eldsneytisendurgreiðslum sem byggja á íþróttaúrslitum.
Það eru fjölmargar ástæður fyrir þeirri stöðu sem íslenskur handbolti er í. Að sumu leyti getur handboltahreyfingin sjálfri sér um kennt að hafa ekki staðið sig nægilega vel í að tryggja aðstæður og umgjörð. Líklegra er þó að helsta ástæðan sé sú að Íslendingar eru bara orðnir miklu betri í öðrum íþróttum. Nú á Ísland karlalið á lokakeppnum í tveimur vinsælustu íþróttagreinum heims og þjóðin þarf ekki að sameinast um jaðaríþróttina handbolta til að vonast eftir íþróttalegri upphefð á alþjóðavettvangi.
Knattspyrnumenn æfa ekki lengur handbolta
Það má eiginlega segja að handboltinn sé fórnarlamb kapítalismans. Hann er einfaldlega ekki nógu arðvænleg afþreying. Þess vegna leita peningarnir sem fjárfest er í íþróttaheiminum annað og skilja jaðaríþróttir eins og handbolta eftir.
Til að setja þessa þróun í íslenskt samhengi ber líkast til fyrst að nefna þá gríðarlegu fjárfestingu sem lögð hefur verið í bætta aðstöðu og þjálfun í knattspyrnu. Á annan tug knattspyrnuhalla, á þriðja tug gervigrasvalla og 130 sparkvellir hafa gert það að verkum að aðstaðan til knattspyrnuiðkunar á Íslandi allt árið í kring hefur umbylst. Sú tilhneiging ungra íþróttamanna sem áður þótti sjálfsögð, að æfa handbolta á veturna en knattspyrnu á sumrin, er ekki lengur til staðar sem regla heldur er frekar undantekning. Þeir sem ætla sér langt í knattspyrnu æfa hana einfaldlega allt árið um kring.
Þá hefur fjárfesting í knattspyrnuþjálfurum verið stóraukin hérlendis. Meðalknattspyrnuþjálfari á Íslandi er nú yngri, með meiri reynslu af knattspyrnuiðkun og miklu menntaðri í þjálfunarfræðum en kollegar hans erlendis, sem eru iðulega foreldrar iðkenda og þjálfa í sjálfboðavinnu. Það sama á við um margar aðrar hópíþróttir sem stundaðar eru hérlendis. Fjárfesting í þjálfun og aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur hefur skilað því að íslenskir atvinnumenn í íþróttinni eru á áttunda tug talsins.
Þessi áhersla á knattspyrnu er auðvitað tilkomin vegna vinsælda hennar um allan heim, sem hefur leitt til þess að peningar vegna sjónvarpsréttarsamninga, auglýsinga og annarra þátta streyma inn í íþróttagreinina. KSÍ, sem fær þorra sinna tekna í formi styrkja og framlaga frá UEFA og vegna seldra sjónvarpsrétta, velti tæpum 1,1 milljarði króna árið 2014, sem er miklu meira en öll önnur sérsambönd Íslands velta til samans á ári. Knattspyrnan er því risi íþróttanna sama hvaða mælikvarði er notaður. Hún hefur flesta iðkendur, þénar langmest og er vinsælust bæði meðal iðkenda og áhorfenda.
Þegar allt ofangreint er talið saman er kannski ekki skrýtið að margir ungir og efnilegir íþróttamenn velji knattspyrnu fram yfir handbolta. Möguleikar þeirra eru mun meiri, sama hvernig á málið er litið. Jafnvel þótt þeir nái ekki lengra en að spila í efstu deild á Íslandi geta þeir átt von á því að fá mánaðarlaun sem eru ekki ósvipuð því sem atvinnumaður í handbolta fær fyrir að spila með austur-þýsku miðlungsliði í þýsku Bundersligunni, bestu handboltadeild heims.
Svo er Ísland auðvitað orðið stórkostlega gott í knattspyrnu karla og komið á lokamót. Alls hafa 29.985 Íslendingar, 8,15 prósent þjóðarinnar, sótt um miða á leiki liðsins á EM í Frakklandi næsta sumar. Búast má við því að fjöldi þeirra Íslendinga sem fer á mótið verði umtalsvert hærri, þegar fjölskyldur knattspyrnugalinna áhangenda og aðrir sem kaupa sér miða í almennri sölu bætast við. Á sama tíma virtist fjöldinn sem fylgdist með handboltalandsliðinu á EM í Póllandi í vikunni rúmast í langferðabíl. Himinn og haf virðist vera á milli áhugans á þessum tveimur mótum hjá þjóðinni.
Handbolti er illa launuð jaðaríþrótt
Á lista heimasíðunnar biggestglobalsports.com er handbolti í 25. sæti yfir vinsælustu íþróttir í heimi, sæti á undan listdansi á skautum. Þar segir að hann sé mjög vinsæl íþrótt í einungis tveimur löndum, Þýskalandi og Spáni. Vefsíðan mælir vinsældir íþróttagreina með tölfræðigreiningu og gefur hverri íþrótt stig. Í efstu tveimur sætunum eru knattspyrna, sem er langvinsælasta íþrótt í heimi, með 2.313 stig og körfubolti með 1.372 stig. Handbolti er með 65 stig, tæp þrjú prósent þeirra stiga sem fótbolti fékk og tæp fimm prósent af þeim sem körfubolti fékk. Þó að biggestglobalsports.com, eða aðrar sambærilegar síður, séu enginn endanlegur mælikvarði þá gefa þær góða vísbendingu um stöðu handboltans á heimsvísu. Þar er hann jaðaríþrótt.
Þrátt fyrir að íslenskir handboltamenn hafi löngum verið í efsta klassa í heiminum þá eru launakjör þeirra langt frá því sem t.d. íslenskir knattspyrnumenn fá. Á lista tímaritsins Áramóta, sem Viðskiptablaðið gefur út í lok hvers árs, um launahæstu íþróttamenn þjóðarinnar kom í ljós að 13 efstu voru knattspyrnumenn. Raunar voru 17 af 20 hæstlaunuðu íþróttamönnum þjóðarinnar knattspyrnumenn. Tveir þeirra spila handbolta, þeir Aron Pálmarsson (42 milljónir króna í árstekjur) og Guðjón Valur Sigurðsson (48 milljónir króna í árstekjur). Óumdeilt er að bæði Aron og Guðjón Valur eru á meðal bestu handboltamanna í heimi. Þeir eru samt sem áður með lægri árslaun en Rúrik Gíslason (50 milljónir króna í árslaun), sem spilar í þýsku annarri deildinni í knattspyrnu.
Það tekur Gylfa Sigurðsson, tekjuhæsta íþróttamann íslensku þjóðarinnar, tvo mánuði og átta daga að þéna það sem Aron og Guðjón Valur þéna til samans á einu ári. Gylfi spilar með liði sem er í harðri botnbaráttu í ensku deildinni. Sex knattspyrnumenn þéna meira en tvisvar sinnum þá upphæð sem handboltastjörnurnar þéna á ári. Fyrir utan Gylfa spila þeir í Grikklandi, hjá miðlungsliði í Frakklandi, miðlungsliðum í Kína og í ensku B-deildinni. Enginn þeirra er að leika með bestu knattspyrnuliðum heims. Þeir eru raunar langt frá því. Bæði Aron og Guðjón Valur komast hins vegar í raun ekki mikið lengra á sínum ferli en í þau lið sem þeir leika með núna.
Auðvitað eru laun ekki endanlegur mælikvarði á árangur. Þessi samanburður er heldur ekki gerður til þess að gera lítið úr handboltamönnum sem náð hafa frábærum árangri, heldur til að sýna fram á að best launuðu handboltamenn veraldar eru að þéna svipað og franska knattspyrnuliðið Guingamp eða hið japanska Urawa Red Diamonds borgar leikmönnum sínum að meðaltali á ári.
Umgjörð og iðkendur
Ljóst er að íslenska deildarkeppnin í handbolta hefur gengið í gegnum mikið hnignunarskeið sem staðið hefur yfir árum saman. Í ungdómi greinarhöfundar voru úrslitaleikir í íslenskum handbolta risastórt mál. Þeir eru það því miður ekki lengur.
Þótt nýlegar áhorfendatölur séu ekki aðgengilegar sýnist manni á þeim leikjum sem sýndir eru í sjónvarpi, og í þeim sjónvarpsfréttum sem enn eru sagðar af deildarkeppninni, að aðsókn sé dræm. Umgjörðin í kringum deildina er líka, að því er virðist, ekkert sérstök. Á sama tíma hefur verið lagt mikið í að bæta alla umgjörð í kringum knattspyrnu og körfubolta hérlendis. Stöð 2 Sport á til að mynda hrós skilið fyrir hvernig hún hefur umbylt umfjöllun um körfubolta á þessu tímabili með metnaðarfullri þáttagerð í formi Domino’s Körfuboltakvölda og langt er síðan að umgjörðin, að minnsta kosti í kringum úrvaldsdeild karla í knattspyrnu, tók stórstígum framförum. Það hefur ekki gerst í handboltaumfjöllun.
Samkvæmt nýjustu tölum sem aðgengilegar eru á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, frá árinu 2013, er knattspyrna langvinsælasta íþrótt sem stunduð er á Íslandi. Skráðir iðkendur hjá Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) voru 20.715 og KSÍ býst við að um tíu þúsund til viðbótar hið minnsta stundi knattspyrnu í allskyns hópum.
Skráðir handboltaiðkendur voru 7.344 í lok árs 2013, aðeins fleiri en körfuboltaiðkendur, sem voru 6.639 talsins. Athygli vekur hins vegar handbolti er mun vinsælli hjá konum en körlum. Rúmlega 45 prósent fleiri konur æfa handbolta en körfubolta. Tæplega 200 fleiri karlmenn æfa hins vegar körfubolta en handbolta.
Eru sumir íslenskir handboltamenn feitir?
Iðkendur þurfa þó ekkert að vera margir ef þeir eru góðir. En eru íslenskir handboltamenn sem eru að koma upp nógu góðir? Um það eru skiptar skoðanir og greinarhöfund skortir yfirsýn til að meta það.
Það hefur þó vakið athygli að umræða hefur lengi verið um að líkamlegt ástand handboltamanna í íslensku deildinni sé einfaldlega ekki nógu gott. Þeir hafa verið sagðir hreint út sagt feitir. Íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson (Gaupi), sem hefur yfirburðarþekkingu á handbolta, gagnrýndi þetta til að mynda í samtali við vefinn sport.is fyrir rúmum tveimur árum. Þar sagði hann: „Það sem skelfir mig er líkamlegt atgervi leikmanna í mörgum liðum. Rasssíðir og með bumbu, það sæmir ekki þjóð sem er og hefur verið með eitt besta landslið heims síðustu ár. Hvað eru menn að æfa? Hvað eru menn að borða?[...] Höldum við áfram á sömu braut er stutt í fallið og menn skulu hafa það í huga að sé þjálfunin ekki í lagi þá er voðinn vís. Aðvörunarbjöllur hringja látlaust. Takið ykkur taki. Þetta er til skammar.“ Kannski reyndist Gaupi sannspár, að ekki væri langt í fallið.
Ljóst er að gagnrýnin hefur að minnsta kosti hreyft við handboltahreyfingunni. Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) sá sig að minnsta kosti knúið til að ráðast í sérstakt átak til að stuðla að betri líkamlegri uppbyggingu íslensks handboltafólks. Fyrsta skrefið sem stigið var í þá átt var sérstakt námskeið sem haldið var í september í fyrra.
Ein áhugaverðasta sagan um íslenska handboltalandsliðið sem spurst hefur út er þegar töframaðurinn og einn besti handboltamaður heimssögunnar, Ólafur Stefánsson, reyndi að fá landsliðsfyrirliða körfuboltalandsliðsins, Hlyn Bæringsson, í íslenska handboltalandsliðið. Hugmyndin var að Hlynur yrði notaður í varnarleik íslenska landsliðsins. Hlynur er frábær íþróttamaður, með frábæra fótavinnu, mikinn líkamlegan styrk og yfirburðarleikskilning á sinni íþrótt. En hann hafði aldrei keppt í handbolta áður þegar þessi bón var lögð fram. Samt hafði Ólafur tröllatrú á að Hlynur gæti styrkt íslenska handboltalandsliðið til muna. Og líklega hefur hann rétt fyrir sér. En í því liggur líka vandi handboltans.
Sér einhver það fyrir sér að Aron Einar Gunnarsson, eða Hlynur Bæringsson sjálfur, myndu reyna að telja einhvern sem hefði aldrei spilað þeirra íþróttir á að hefja sinn feril í þeim með knattspyrnu- eða körfuboltalandsliðinu á stórmóti? Nei, það myndi aldrei gerast.
Skilnaður milli þjóðar og handbolta
Það virðist því vera við ramman reip að draga fyrir þjóðaríþróttina. Þjóðin virðist vera að missa áhuga á henni og sá viðskilnaður verður mun hraðari ef sá magnaði árangur sem handboltalandsliðið hefur náð á undanförnum tveimur áratugum mun ekki eiga sér framhaldslíf.
Á allra næstu árum mun handboltaferli stærsta hluta „Strákanna okkar“ sem hefur ekki enn lagt skóna á hilluna ljúka. Eini sýnilegi framtíðarlandsliðsmaður Íslands sem er í sama klassa og þeir sem unnu til verðlauna á stórmótunum 2008 og 2010 er Aron Pálmarsson. Á sama tíma er ljóst að vinsældir knattspyrnu, og að einhverju leyti körfubolta, sem vinsælustu hópíþróttagreina Íslands og heimsins eru síst að fara að dvína. Þær munu áfram laða til sín nýja iðkendur og áhangendur.
Saman munu þessir kraftar; verri árangur, slæleg umgjörð, minni áhugi og jaðarsetning handbolta sem íþróttar, gera það að verkum að gullaldarskeið handboltans verður góð minning um tíma sem var. Í framtíðinni mun hann ekki skipa jafn fyrirferðarmikinn sess. Sem er miður að mörgu leyti.