Hin fullkomna hnignun íslensks handbolta

Íslenska þjóðin hefur undanfarna tvo áratugi tengst íslenska karlalandsliðinu í handbolta sterkum böndum. En tengslin milli þjóðar og „Strákanna okkar" virðast vera að rofna. Og mögulega er ástarsambandinu lokið.

Þórður Snær Júlíusson|20. janúar 2016
Mynd: EPA

Íslenska hand­boltalands­liðið sýndi eina and­laus­ustu frammi­stöðu sem sést hefur hjá íslensku hóp­í­þrótta­lands­liði í gær þegar liðið tap­aði leik sínum gegn Króa­tíu á fyrstu tíu mín­útum hans. Leik­ur­inn skipti Ísland gríð­ar­legu máli. Undir var áfram­hald­andi vera á Evr­ópu­mót­inu (EM) í hand­bolta og mögu­leik­inn á sæti á Ólymp­íu­leik­unum í Ríó. And- eða getu­leysi liðs­ins, sem nokkrum dögum áður hafði tapað fyrir mun lægra skrif­uðum Hvít-Rússum, var samt sem áður algjört. 

Gull­ald­ar­tíma­bili íslensks hand­bolta, „Strák­anna okk­ar“, leið undir lok með þess­ari afleitu frammi­stöðu. Tíma­bil sem hófst á Evr­ópu­mót­inu árið 2002 þegar nokkrir af bestu hand­bolta­mönnum Íslands­sög­unnar stigu sín fyrstu spor sem burða­rásar í lands­lið­inu. Hápunktar þessa tíma­bils voru silf­ur­verð­laun á Ólymp­íu­leik­unum í Pekíng 2008 og brons­verð­laun á EM tveimur árum síð­ar.

Sjö leik­menn sem tóku þátt í EM í Pól­landi fyrir Íslands hönd spil­uðu á Ólymp­íu­leik­unum 2008. Tíu á EM 2010. Margir þeirra eru komnir á loka­sprett­inn á sínum ferli og því miður virð­ist blasa við að þeir sem eiga að feta í fót­spor þeirra eru fjarri því að vera í sama klassa. Vand­séð er að íslenskt hand­boltalands­lið með menn á sama getu­stigi og Ólafur Stef­áns­son, Alex­ander Pet­ers­son, Guð­jón Val Sig­urðs­son, Aron Pálm­ars­son og Snorra Stein Guð­jóns­son alla inn­an­borðs verði aftur til. Og ekki víst að ný kyn­slóð afburða­hand­bolta­manna, sem gæti komið upp eftir nokkur ár, myndi duga til að halda þeim sterku tengslum sem hafa verið á milli íslenska hand­boltalands­liðs­ins og þjóð­ar­inn­ar.

Það er nefni­lega ekki þannig að mis­heppnuð kyn­slóða­skipti séu eina ástæða þess að venju­legir Íslend­ingar eru að fjar­lægj­ast hand­bolta. Í næstum tvo ára­tugi hefur hand­bolta­á­horf í jan­úar verið jafn reglu­legur við­burður og jól, páskar og rign­ing í júní. Í aðdrag­anda þess móts sem íslenska liðið var að ljúka þátt­töku á var hins vegar eins og eitt­hvað hefði breyst. Áhug­inn var ein­hvern veg­inn miklu minni. Öll umfjöllun og stemmn­ing virt­ist þröngv­uð. Og einu aðil­arnir sem töl­uðu um hand­boltalands­liðið sem „Strák­ana okk­ar“ voru bens­ín­stöðvar í leit að við­skipta­vinum sem falla fyrir mögu­legum elds­neyt­isend­ur­greiðslum sem byggja á íþrótta­úr­slit­um.

„Strákarnir okkar" unnu silfur á Ólympíuleikunum í Pekíng 2008. Það var eitt magnaðasta íþróttaafrek Íslandssögunnar.
Mynd: EPA

Það eru fjöl­margar ástæður fyrir þeirri stöðu sem íslenskur hand­bolti er í. Að sumu leyti getur hand­bolta­hreyf­ingin sjálfri sér um kennt að hafa ekki staðið sig nægi­lega vel í að tryggja aðstæður og umgjörð. Lík­legra er þó að helsta ástæðan sé sú að Íslend­ingar eru bara orðnir miklu betri í öðrum íþrótt­um. Nú á Ísland karla­lið á loka­keppnum í tveimur vin­sæl­ustu íþrótta­greinum heims og þjóðin þarf ekki að sam­ein­ast um jaðar­í­þrótt­ina hand­bolta til að von­ast eftir íþrótta­legri upp­hefð á alþjóða­vett­vang­i. 

Knatt­spyrnu­menn æfa ekki lengur hand­bolta

Það má eig­in­lega segja að hand­bolt­inn sé fórn­ar­lamb kap­ít­al­ism­ans. Hann er ein­fald­lega ekki nógu arð­væn­leg afþrey­ing. Þess vegna leita pen­ing­arnir sem fjár­fest er í íþrótta­heim­inum annað og skilja jaðar­í­þróttir eins og hand­bolta eft­ir. 

Til að setja þessa þróun í íslenskt sam­hengi ber lík­ast til fyrst að nefna þá gríð­ar­legu fjár­fest­ingu sem lögð hefur verið í bætta aðstöðu og þjálfun í knatt­spyrnu. Á annan tug knatt­spyrnu­halla, á þriðja tug gervi­gras­valla og 130 sparkvellir hafa gert það að verkum að aðstaðan til knatt­spyrnu­iðk­unar á Íslandi allt árið í kring hefur umbylst. Sú til­hneig­ing ungra íþrótta­manna sem áður þótti sjálf­sögð, að æfa hand­bolta á vet­urna en knatt­spyrnu á sumr­in, er ekki lengur til staðar sem regla heldur er frekar und­an­tekn­ing. Þeir sem ætla sér langt í knatt­spyrnu æfa hana ein­fald­lega allt árið um kring. 

Þá hefur fjár­fest­ing í knatt­spyrnu­þjálf­urum verið stór­aukin hér­lend­is. Með­al­knatt­spyrnu­þjálf­ari á Íslandi er nú yngri, með meiri reynslu af knatt­spyrnu­iðkun og miklu mennt­aðri í þjálf­un­ar­fræðum en kollegar hans erlend­is, sem eru iðu­lega for­eldrar iðk­enda og þjálfa í sjálf­boða­vinnu. Það sama á við um margar aðrar hóp­í­þróttir sem stund­aðar eru hér­lend­is. Fjár­fest­ing í þjálfun og aðstöðu fyrir knatt­spyrnu­iðk­endur hefur skilað því að íslenskir atvinnu­menn í íþrótt­inni eru á átt­unda tug tals­ins.

Þessi áhersla á knatt­spyrnu er auð­vitað til­komin vegna vin­sælda hennar um allan heim, sem hefur leitt til þess að pen­ingar vegna sjón­varps­rétt­ar­samn­inga, aug­lýs­inga og ann­arra þátta streyma inn í íþrótta­grein­ina. KSÍ, sem fær þorra sinna tekna í formi styrkja og fram­laga frá UEFA og vegna seldra sjón­varps­rétta, velti tæpum 1,1 millj­arði króna árið 2014, sem er miklu meira en öll önnur sér­sam­bönd Íslands velta til sam­ans á ári. Knatt­spyrnan er því risi íþrótt­anna sama hvaða mæli­kvarði er not­að­ur. Hún hefur flesta iðk­end­ur, þénar lang­mest og er vin­sælust bæði meðal iðk­enda og áhorf­enda. 

Þegar allt ofan­greint er talið saman er kannski ekki skrýtið að margir ungir og efni­legir íþrótta­menn velji knatt­spyrnu fram yfir hand­bolta. Mögu­leikar þeirra eru mun meiri, sama hvernig á málið er lit­ið. Jafn­vel þótt þeir nái ekki lengra en að spila í efstu deild á Íslandi geta þeir átt von á því að fá mán­að­ar­laun sem eru ekki ósvipuð því sem atvinnu­maður í hand­bolta fær fyrir að spila með aust­ur-þýsku miðl­ungs­liði í þýsku Bund­erslig­unni, bestu hand­bolta­deild heims.

Svo er Ísland auð­vitað orðið stór­kost­lega gott í knatt­spyrnu karla og komið á loka­mót. Alls hafa 29.985 Íslend­ing­ar, 8,15 pró­sent þjóð­ar­inn­ar, sótt um miða á leiki liðs­ins á EM í Frakk­landi næsta sum­ar. Búast má við því að fjöldi þeirra Íslend­inga sem fer á mótið verði umtals­vert hærri, þegar fjöl­skyldur knatt­spyrnugal­inna áhan­genda og aðrir sem kaupa sér miða í almennri sölu bæt­ast við. Á sama tíma virt­ist fjöld­inn sem fylgd­ist með hand­boltalands­lið­inu á EM í Pól­landi í vik­unni rúm­ast í lang­ferða­bíl. Him­inn og haf virð­ist vera á milli áhug­ans á þessum tveimur mótum hjá þjóð­inni.

Hand­bolti er illa launuð jaðar­í­þrótt

Á lista heima­síð­unnar big­gest­globals­ports.com er hand­bolti í 25. sæti yfir vin­sæl­ustu íþróttir í heimi, sæti á undan list­dansi á skaut­um. Þar segir að hann sé mjög vin­sæl íþrótt í ein­ungis tveimur lönd­um, Þýska­landi og Spáni. Vef­síðan mælir vin­sældir íþrótta­greina með töl­fræði­grein­ingu og gefur hverri íþrótt stig. Í efstu tveimur sæt­unum eru knatt­spyrna, sem er lang­vin­sælasta íþrótt í heimi, með 2.313 stig og körfu­bolti með 1.372 stig. Hand­bolti er með 65 stig, tæp þrjú pró­sent þeirra stiga sem fót­bolti fékk og tæp fimm pró­sent af þeim sem körfu­bolti fékk. Þó að big­gest­globals­ports.com, eða aðrar sam­bæri­legar síð­ur, séu eng­inn end­an­legur mæli­kvarði þá gefa þær góða vís­bend­ingu um stöðu hand­bolt­ans á heims­vísu. Þar er hann jaðar­í­þrótt. 

Þrátt fyrir að íslenskir hand­bolta­menn hafi löngum verið í efsta klassa í heim­inum þá eru launa­kjör þeirra langt frá því sem t.d. íslenskir knatt­spyrnu­menn fá. Á lista tíma­rits­ins Ára­móta, sem Við­skipta­blaðið gefur út í lok hvers árs, um launa­hæstu íþrótta­menn þjóð­ar­innar kom í ljós að 13 efstu voru knatt­spyrnu­menn. Raunar voru 17 af 20 hæst­laun­uðu íþrótta­mönnum þjóð­ar­innar knatt­spyrnu­menn. Tveir þeirra spila hand­bolta, þeir Aron Pálm­ars­son (42 millj­ónir króna í árs­tekj­ur) og Guð­jón Valur Sig­urðs­son (48 millj­ónir króna í árs­tekj­ur). Óum­deilt er að bæði Aron og Guð­jón Valur eru á meðal bestu hand­bolta­manna í heimi. Þeir eru samt sem áður með lægri árs­laun en Rúrik Gísla­son (50 millj­ónir króna í árs­laun), sem spilar í þýsku annarri deild­inni í knatt­spyrnu.

Það tek­ur Gylfa Sig­urðs­son, tekju­hæsta íþrótta­mann íslensku þjóð­ar­inn­ar, tvo mán­uði og átta daga að þéna það sem Aron og Guð­jón Valur þéna til sam­ans á einu ári. Gylfi spilar með liði sem er í harðri botn­bar­áttu í ensku deild­inni. Sex knatt­spyrnu­menn þéna meira en tvisvar sinnum þá upp­hæð sem hand­bolta­stjörn­urnar þéna á ári. Fyrir utan Gylfa spila þeir í Grikk­landi, hjá miðl­ungs­liði í Frakk­landi, miðl­ungs­liðum í Kína og í ensku B-deild­inni. Eng­inn þeirra er að leika með bestu knatt­spyrnu­liðum heims. Þeir eru raunar langt frá því. Bæði Aron og Guð­jón Valur kom­ast hins vegar í raun ekki mikið lengra á sínum ferli en í þau lið sem þeir leika með nún­a. 

Það hefur tekist illa að verja stöðu íslensks handbolta. Jafn illa og Björgvini Páli tókst að verja skot Króata í gær á bakvið lélega íslenska vörn.
Mynd: EPA

Auð­vitað eru laun ekki end­an­legur mæli­kvarði á árang­ur. Þessi sam­an­burður er heldur ekki gerður til þess að gera lítið úr hand­bolta­mönnum sem náð hafa frá­bærum árangri, heldur til að sýna fram á að best laun­uðu hand­bolta­menn ver­aldar eru að þéna svipað og franska knatt­spyrnu­liðið Guingamp eða hið jap­anska Urawa Red Diamonds borgar leik­mönnum sínum að með­al­tali á ári.

Umgjörð og iðk­endur

Ljóst er að íslenska deild­ar­keppnin í hand­bolta hefur gengið í gegnum mikið hnign­un­ar­skeið sem staðið hefur yfir árum sam­an. Í ung­dómi grein­ar­höf­undar voru úrslita­leikir í íslenskum hand­bolta risa­stórt mál. Þeir eru það því miður ekki leng­ur. 

Þótt nýlegar áhorf­enda­tölur séu ekki aðgengi­legar sýn­ist manni á þeim leikjum sem sýndir eru í sjón­varpi, og í þeim sjón­varps­fréttum sem enn eru sagðar af deild­ar­keppn­inni, að aðsókn sé dræm. Umgjörðin í kringum deild­ina er líka, að því er virð­ist, ekk­ert sér­stök. Á sama tíma hefur verið lagt mikið í að bæta alla umgjörð í kringum knatt­spyrnu og körfu­bolta hér­lend­is. Stöð 2 Sport á til að mynda hrós skilið fyrir hvernig hún hefur umbylt umfjöllun um körfu­bolta á þessu tíma­bili með metn­að­ar­fullri þátta­gerð í formi Dom­in­o’s Körfu­bolta­kvölda og langt er síðan að umgjörð­in, að minnsta kosti í kringum úrvalds­deild karla í knatt­spyrnu, tók stór­stígum fram­för­um. Það hefur ekki gerst í hand­boltaum­fjöll­un.

Sam­kvæmt nýj­ustu tölum sem aðgengi­legar eru á heima­síðu Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands, frá árinu 2013, er knatt­spyrna lang­vin­sælasta íþrótt sem stunduð er á Íslandi. Skráðir iðk­endur hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Íslands (KSÍ) voru 20.715 og KSÍ býst við að um tíu þús­und til við­bótar hið minnsta stundi knatt­spyrnu í allskyns hóp­um. 

Skráðir hand­bolta­iðk­endur voru 7.344 í lok árs 2013, aðeins fleiri en körfu­bolta­iðk­end­ur, sem voru 6.639 tals­ins. Athygli vekur hins vegar hand­bolti er mun vin­sælli hjá konum en körl­um. Rúm­lega 45 pró­sent fleiri konur æfa hand­bolta en körfu­bolta. Tæp­lega 200 fleiri karl­menn æfa hins vegar körfu­bolta en hand­bolta.

Eru sumir íslenskir hand­bolta­menn feit­ir?

Iðk­endur þurfa þó ekk­ert að vera margir ef þeir eru góð­ir. En eru íslenskir hand­bolta­menn sem eru að koma upp nógu góð­ir? Um það eru skiptar skoð­anir og grein­ar­höf­und skortir yfir­sýn til að meta það.

Það hefur þó vakið athygli að umræða hefur lengi verið um að lík­am­legt ástand hand­bolta­manna í íslensku deild­inni sé ein­fald­lega ekki nógu gott. Þeir hafa verið sagðir hreint út sagt feit­ir. Íþrótta­f­rétta­mað­ur­inn Guð­jón Guð­munds­son (Gaupi), sem hefur yfir­burð­ar­þekk­ingu á hand­bolta, gagn­rýndi þetta til að mynda í sam­tali við vef­inn sport.is fyrir rúmum tveimur árum. Þar sagði hann: „Það sem skelfir mig er lík­am­legt atgervi leik­manna í mörgum lið­um. Rass­síðir og með bumbu, það sæmir ekki þjóð sem er og hefur verið með eitt besta lands­lið heims síð­ustu ár. Hvað eru menn að æfa? Hvað eru menn að borða?[...] Höldum við áfram á sömu braut er stutt í fallið og menn skulu hafa það í huga að sé þjálfunin ekki í lagi þá er voð­inn vís. Aðvör­un­ar­bjöllur hringja lát­laust. Takið ykkur taki. Þetta er til skamm­ar.“ Kannski reynd­ist Gaupi sann­spár, að ekki væri langt í fall­ið.

Ljóst er að gagn­rýnin hefur að minnsta kosti hreyft við hand­bolta­hreyf­ing­unni. Hand­knatt­leiks­sam­band Íslands (HSÍ) sá sig að minnsta kosti knúið til að ráð­ast í sér­stakt átak til að stuðla að betri lík­am­legri upp­bygg­ingu íslensks hand­bolta­fólks. Fyrsta skrefið sem stigið var í þá átt var sér­stakt nám­skeið sem haldið var í sept­em­ber í fyrra. 

Ein áhuga­verð­asta sagan um íslenska hand­boltalands­liðið sem spurst hefur út er þegar töfra­mað­ur­inn og einn besti hand­bolta­maður heims­sög­unn­ar, Ólafur Stef­áns­son, reyndi að fá lands­liðs­fyr­ir­liða körfu­boltalands­liðs­ins, Hlyn Bær­ings­son, í íslenska hand­boltalands­lið­ið. Hug­myndin var að Hlynur yrði not­aður í varn­ar­leik íslenska lands­liðs­ins. Hlynur er frá­bær íþrótta­mað­ur, með frá­bæra fóta­vinnu, mik­inn lík­am­legan styrk og yfir­burð­ar­leikskiln­ing á sinni íþrótt. En hann hafði aldrei keppt í hand­bolta áður þegar þessi bón var lögð fram. Samt hafði Ólafur trölla­trú á að Hlynur gæti styrkt íslenska hand­boltalands­liðið til muna. Og lík­lega hefur hann rétt fyrir sér. En í því liggur líka vandi hand­bolt­ans.

Sér ein­hver það fyrir sér að Aron Einar Gunn­ars­son, eða Hlynur Bær­ings­son sjálf­ur, myndu reyna að telja ein­hvern sem hefði aldrei spilað þeirra íþróttir á að hefja sinn feril í þeim með knatt­spyrnu- eða körfu­boltalands­lið­inu á stór­móti? Nei, það myndi aldrei ger­ast.

Skiln­aður milli þjóðar og hand­bolta

Það virð­ist því vera við ramman reip að draga fyrir þjóðar­í­þrótt­ina. Þjóðin virð­ist vera að missa áhuga á henni og sá við­skiln­aður verður mun hrað­ari ef sá magn­aði árangur sem hand­boltalands­liðið hefur náð á und­an­förnum tveimur ára­tugum mun ekki eiga sér fram­halds­líf. 

Á allra næstu árum mun hand­bolta­ferli stærsta hluta „Strák­anna okk­ar“ sem hefur ekki enn lagt skóna á hill­una ljúka. Eini sýni­legi fram­tíð­ar­lands­liðs­maður Íslands sem er í sama klassa og þeir sem unnu til verð­launa á stór­mót­unum 2008 og 2010 er Aron Pálm­ars­son. Á sama tíma er ljóst að vin­sældir knatt­spyrnu, og að ein­hverju leyti körfu­bolta, sem vin­sæl­ustu hóp­í­þrótta­greina Íslands og heims­ins eru síst að fara að dvína. Þær munu áfram laða til sín nýja iðk­endur og áhan­gend­ur.

Saman munu þessir kraft­ar; verri árang­ur, slæ­leg umgjörð, minni áhugi og jað­ar­setn­ing hand­bolta sem íþrótt­ar, gera það að verkum að gull­ald­ar­skeið hand­bolt­ans verður góð minn­ing um tíma sem var. Í fram­tíð­inni mun hann ekki skipa jafn fyr­ir­ferð­ar­mik­inn sess. Sem er miður að mörgu leyti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar