Bjórpönkarar sem leiða nýja kapítalismann
BrewDog hefur á tæpum áratug búið til á sjötta tug tegunda af handverksbjórum, sett heimsmet í hópfjármögnun, sent fjármálafyrirtækjum ítrekað fingurinn og látið til sín taka í mannréttindamálum.
Allt áhugafólk um handverksbjór (e. craft beer) þekkir skoska brugghúsið BrewDog. Eða ættu að minnsta kosti að þekkja það. Á tæpum áratug hefur þessu hugarfóstri tveggja þá rúmlega tvítugra Skota, sem voru komnir með ógeð af bragðlausum og flötum lagerbjór, náð að verða eitt af mest vaxandi drykkjarvöruframleiðendum í Bretlandi, gefa fjármálakerfinu risastóran puttann og standa fyrir stærsta hópfjármögnunarverkefni heims. Án þess að gefa neinn afslátt að því sem gerir fyrirtækið sérstakt.
Og nú ætla þessir pönkarar bjórheimsins að sigra Bandaríkin. Án bankalána en vopnaðir viðskiptaáætlun sem þeir kalla „and-viðskiptalega“.
Skoskir hugsjónarmenn og hundurinn þeirra
BrewDog var stofnað árið 2007 í Fraserburg í Skotlandi af tveimur hugsjónamönnum, James Watt og Martin Dickie. Fyrirtækið verður því tíu ára á næsta ári. Þeir eru hugsjónamenn af mörgum ástæðum. Á Twitter-síðu Watt segir til að mynda að hann sé kapteinn BrewDog, og verkefni hans sé að bjarga heiminum frá vondum bjór.
Þegar þeir stofnuðu BrewDog voru mennirnir tveir einungis 24 ára gamlir. Til að byrja með voru þeir Watt og Dickie einu hluthafarnir, framleiddu bjórinn sjálfir, settu hann á flöskur og seldu annað hvort beint til kaupmanna eða út um skottið á gömlum sendibíl sem þeir áttu. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim að útvega sér það sem þeir kalla „skelfileg“ bankalán til að koma starfseminni af stað.
Ári síðar voru starfsmennirnir orðnir níu, auk eins hunds. Sá hundur, sem nú er látinn, var af labrador kyni og hét Bracken. BrewDog-fyrirtækið er nefnt eftir honum.
Strax á því ári, 2008, varð BrewDog stærsta sjálfstæða bjórbrugghús Skotlands. 2009 var fyrirtækið orðið mest ört vaxandi „alternative“ bjórframleiðandi í Bretlandi og flaggskipsbjórinn þeirra, hinn dásamlegi Punk IPA, varð mest seldi IPA (India Pale Ale) bjórinn í Skandinavíu. Á grunni þessa vaxtar varð til það sem Watt og Dickie kalla and-viðskipta viðskiptaáætlunin þeirra, „Equity for Punks“. Grunnhugmyndin er sú að fjármagna rekstur fyrirtækisins, og vöxt þess, án aðkomu hefðbundinna fjármálastofnana. Þ.e. engin fleiri bankalán og engir ríkir stórir fjárfestar í jakkafötum.
Í lok árs 2009 hafði hluthöfum fjölgað í 1.329 þótt að stofnendurnir tveir, og starfsfólk þeirra, ættu enn langstærstan hlut í BrewDog.
Bankar gera bjór lélegan
Síðan þá hefur leiðin legið hratt upp á við hjá þessu eina áhugaverðasta fyrirtæki Evrópu. Það hóf að opna BrewDog bari víða um Bretland og sækja sér fé í gegnum hópfjármögnun. Þ.e. áhugasömum BrewDog aðdáendum var gefið tækifæri til þess að fjárfesta í fyrirtækinu sem framleiddi uppáhaldsbjórinn þeirra. Þeir gátu orðið virðulegir eigendur að brugghúsi.
Hópfjármögnunarævintýri BrewDog hefur verið stigið í nokkrum skrefum frá árinu 2010. Árið 2013 safnaði fyrirtækið 4,25 milljónum punda, um 780 milljónum króna, á innan við hálfu ári. Sá árangur var á þeim tíma met í hópfjármögnun.
Í fyrra tilkynnti BrewDog en metnaðarfyllra plan. Fyrirtækið ætlaði sér að safna 25 milljónum punda, um 4,6 milljarða króna, með hópfjármögnun. Enginn sérstakur tímarammi var settur til að ná þessari upphæð. Þeir ætluðu bara að ná henni. Fyrirtækið sagði sem fyrr að ástæða þessa væri sú að það vildi komast hjá því að fjármálafyrirtæki myndu græða á fjármögnun þess. Alls voru 526.316 hlutir í BrewDog boðnir til sölu í skiptum fyrir framlög almennings og lágmarksþáttaka lágmarkið sem þurfti að kaupa voru tveir hlutir á 95 pund, alls tæplega 17.500 krónur.
„Fjármálastofnanir hafi ýtt undir það að bjór sé lélegur og ódýr með því að hafa gróða alltaf að leiðarljósi. Það sætti BrewDog sig ekki við.“
Venju samkvæmt sendi BrewDog frá sér yfirlýsingu vegna fjármögnunarinnar. Hún var hástemmd og herská, líkt og von var á úr þeirri áttinni. Þar er haft eftir Watt að bylting hafi orðið í gerð handverksbjórs á undanförnum árum og með þeirri byltingu hafa tekist að endurskilgreina bjór. Nú væri hins vegar komið að því að endurskilgreina fjármögnunarkerfi heimsins. Fjármálastofnanir hafi ýtt undir það að bjór sé lélegur og ódýr með því að hafa gróða alltaf að leiðarljósi. Það sætti BrewDog sig ekki við.
Heimsmet í hópfjármögnun
Í október 2015 var tilkynnt að metið hefði verið slegið þegar hópfjármögnunin fór yfir tíu milljónir punda, rúmleg 1,8 milljarð króna. Samanlagt hefur Brewdog náð í yfir 20 milljónir punda, um 3,6 milljarða króna, í hópfjármögnun frá árinu 2010. Það er meira en nokkurt annað fyrirtæki hefur náð í í gegnum þetta fjármögnunarform.
Í lok árs 2015 voru hluthafar í BrewDog orðnir fleiri en 32 þúsund talsins. Barir fyrirtækisins víða um heim eru orðnir 44 talsins og það framleiddi 160 þúsund hektólítra (um 16 milljónir lítrar) af bjór á síðasta ári. Það er rúmlega fjórum sinnum meira en það gerði árið 2012 og svipað magn og ÁTVR seldi af bjór allt árið 2014. Til að setja þá tölu í skiljanlegra samhengi þá framleiddi BrewDog alls 2,2 milljónir flaskna og um 400 þúsund dósir af bjór í hverjum mánuði á síðast ári. Alls bruggaði BrewDog 65 mismunandi bjórtegundir á árinu 2015. Og undirbjó sína metnaðarfyllstu útrás til þessa, inn á Bandaríkjamarkað.
Reksturinn hefur, svo vægt sé til orða tekið, gengið vel á undanförnum árum. Í fyrra jókst velta BrewDog um 52 prósent í 45 milljónir punda, um 8,2 milljarða króna. Salan í Bretlandi meira en tvöfaldaðist. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins hefur aukist um 112 prósent á ári að meðaltali frá árinu 2011. Hann var um 1,5 milljarðar króna í fyrra.
Þessi mikli árangur hefur orðið til þess að metnaður BrewDog-manna hefur aukist hratt. Og nú ætla þeir að sigra Bandaríkjamarkað. Fyrirtækið ætlar að opna nýja verksmiðju í Columbus í Ohio-ríki síðar á þessu ári til að styðja við þetta háleita markmið.
Við þetta mun framleiðslugeta BrewDog margfaldast. Hún mun fara úr um 160 þúsund hektólítrum í 1,5 milljón hektólítra. Fyrir lok árs 2016. Samhliða verður Bandaríkjamönnum í fyrsta sinn gert kleift að taka þátt í hópfjármögnun fyrirtækisins, „Equity for Punks“.
Gáfu allar uppskriftirnar sínar
Það er auðvitað mjög djarft að ætla sér í alþjóðlega útrás á þeim skala sem BrewDog er að ráðast í án lánsfjármögnunar. Og í algjörri andstöðu við það sem telst hefðbundið í þeim efnum. Því þarf fyrirtækið reglulega að vekja athygli á sér. Það gerir BrewDog m.a. með því að gefa út bjór sem hét „Hello My Name is Vladimir“, með mynd af Vladimir Putin Rússlandsforseta með farða sem var ekki fyrir samkynhneigða. Bjórinn var sérstaklega framleiddur til að mótmæla framferði rússneskra stjórnvalda gagnvart samkynhneigðum og helmingur ágóðans vegna sölu hans rann til góðgerðasamtaka sem berjast fyrir réttindum kúgaðra minnihlutahópa víðs vegar um heiminn.
Í fyrra setti fyrirtækið á markað „No Label“ bjórinn sem átti að vera sérstaklega fyrir transfólk og sýna baráttu þeirra fyrir aukinni viðurkenningu stuðning.
Snemma á þessu ári settu BrewDog síðan allar uppskriftir af bjórum sem fyrirtækið hefur framleitt frá því að það var stofnsett, á netið. Það ákvað sem sagt, undir því yfirvarpi að gjörningurinn væri einhverskonar virðingarvottur við heimabrugg, að gefa viðskiptavinum sínum leiðarvísinn að því að búa til uppáhaldsbjóranna sína. The Guardian sagði að verkefnið setti BrewDog í framvarðarsveit póst-kapítalísmans. Þess skeiðs sem muni taka við af hinum hreina kapítalisma, þar sem þriðju aðilar á borð við fjármálafyrirtæki högnuðust mest á hugmyndum og frumkvæði annara. Nú sé tími milliliðanna hins vegar að líða undir lok.
Og árangur BrewDog hefur vakið athygli annarra og stærri aðila á markaðnum. Meira að segja þeirra sem BrewDog gagnrýnir mest. En afstaða stofnenda og stjórnenda fyrirtækisins er skýr, og í henni felst líka mikið auglýsingagildi. Hér er tíst frá James Watt, öðrum stofnenda BrewDog, frá því í janúar:
En BrewDog á sína gagnrýnendur líka. Mannréttindabjórarnir þeirra hafa verið kallaðir yfirlætislegar tilraunir til að nýta sér mannréttindabrot til að markaðssetja fyrirtækið. Og þeir hlutir sem fyrirtækið lætur „meðfjárfestum“ sínum í té í hópfjármögnun sinni eru af dýrari gerðinni, enda eiga stofnendurnir tveir enn yfir 60 prósent hlut í BrewDog og starfsmenn þeirra á annan tug prósenta til viðbótar.
BrewDog-bar í Reykjavík?
Hvað sem öllum finnst þá heldur BrewDog ævintýrið áfram. Til viðbótar við Bandaríkjaútrásina ætlar fyrirtækið að halda áfram að opna sérstaka BrewDog-bari í samstarfi við góða rekstraraðila víðs vegar um heiminn á þessu ári. Og þegar áætlanir fyrirtækisins í fyrir árið 2016 voru kunngerðar í janúar vakti athygli að ein þeirra borga sem það hefur augastað á nú er Reykjavík.
Því gæti verið stutt í að handverksbjórþyrstir Íslendingar geti fengið breitt úrval af BrewDog bjór af krana í höfuðborginni.