Fréttaskýring#Efnahagsmál#Stjórnmál

Þjóð sem þolir ekki verðtryggingu tekur nær eingöngu verðtryggð lán

Átta af hverjum tíu Íslendingum hafa sagst vera hlynntir afnámi verðtryggingar. Samt taka Íslendingar nánast einvörðungu verðtryggð lán þótt aðrir lánakostir séu í boði. Og ásóknin í verðtryggðu lánin er bara að aukast.

Þórður Snær Júlíusson8. mars 2016
Mynd: Birgir Þór

Eftir verðbólguskot eftirhrunsáranna, eilífar deilur um réttmæti leiðréttinga á ætluðum forsendubrestum vegna þeirra og mikinn samfélagslegan og pólitískan þrýsting um afnám verðtryggingar mætti ætla að Íslendingar hefðu í hrönnum yfirgefið það umdeilda lánaform sem verðtryggð húsnæðislán eru. Sérstaklega í ljósi þess að bæði viðskiptabankar og lífeyrissjóðir hafa nú um nokkuð langt skeið boðið upp á ýmsar útfærslur af óverðtryggðum lánum. Könnun sem Capacent gerði fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, sem barist hafa hart fyrir afnámi verðtryggingar, í nóvember 2011 sýndi að 80 prósent svarenda var hlynnt því að afnema hana. Stuðningurinn við þær kröfur samtakanna var þverpólitískur.

Vandamálið við óverðtryggðu lánin er auðvitað það að þá hækka mánaðarlegar afborganir, enda vextir mun hærri en á verðtryggðum lánum. Vandamálið við verðtryggðu lánin er síðan það að þegar verðbólga hækkar á Íslandi, sem hún hefur sögulega alltaf gert nokkuð skarpt á nokkurra ára bili, þá hækkar höfuðstóll lána þeirra sem eru með verðtryggð lán í takti við þá hækkun. Tímabundið tapast ætluð eign í fasteign með því að greiðslum vegna verðbólguskotsins er dreift yfir lánatímabilið.

Verðtrygging þýðir enda að fjárhagslegar skuldbindingar, bæði sparifé og lánsfé, halda verðgildi sínu þrátt fyrir breytingar á verðlagi. Með öðrum orðum er sá sem leggur inn eða lánar peninga að tryggja það að hann fái jafngildi fjársins til baka.

En hafa Íslendingar tekið önnur lánaform fram yfir verðtryggðu lánin? Stutta svarið er nei. Þvert á móti virðast þeir mun fremur velja þennan gamla óvin til að fjármagna húsnæðiskaup sín en aðrar lánategundir sem eru í boði. Um 82 prósent allra húsnæðislána sem stærstu húsnæðislánveitendur Íslands veita eru nefnilega verðtryggð.

82 prósent húsnæðislána verðtryggð

Kjarninn kallaði eftir upplýsingum frá öllum viðskiptabönkunum þremur: Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka um hvernig húsnæðislán þeirra skiptast eftir lánaformum. Húsnæðislán Landsbankans voru 217 milljarðar króna um síðustu áramót og höfðu vaxið mikið á árinu 2015, en þau voru 169 milljarðar króna í byrjun þess árs. Ný og endurfjármögnuð lán hjá bankanum voru 70 milljarðar króna í fyrra og þar af voru 48 milljarðar króna vegna nýrra lána. Af þeim nýju lánum voru 63 prósent verðtryggð en 37 prósent óverðtryggð. Alls er skipting húsnæðislánasafns Landsbankans þannig að 144 milljarðar króna, eða 66 prósent, eru verðtryggð lán. Óverðtryggð lán eru 73 milljarðar króna, eða 34 prósent af húsnæðislánum bankans. 

Íslandsbanki á íbúðalán upp á 197,3 milljarða króna. Þau hækkuðu um tæpa þrettán milljarða króna í fyrra. Skipting húsnæðislánasafnsins er þannig að 66 prósent þess eru verðtryggð lán en 34 prósent óverðtryggð lán. 

Arion banki á síðan stærsta safn húsnæðislána af öllum viðskiptabönkunum. Alls nema húsnæðislán bankans 268 milljörðum króna. Það minnkaði um fjóra milljarða króna á árinu 2015 og samkvæmt upplýsingum frá Arion banka er sú lækkun aðallega tilkomin vegna leiðréttingar ríkisstjórnarinnar sem greiddi upp ellefu milljarða króna af lánum hjá bankanum á árinu. Í árslok var skipting húsnæðislána Arion banka þannig að 73 prósent þeirra voru verðtryggð en 27 prósent óverðtryggð. 

Stærsti húsnæðislánveitandi landsins er enn Íbúðalánasjóður, þótt hann hafi vart verið þátttakandi í nýjum útlánum á undanförnum árum. Hann lánar einungis verðtryggt og húsnæðislán hans til einstaklinga námu 560,4 milljörðum króna í lok síðasta árs.

Samkvæmt ofangreindum tölum nema heildarútlán viðskiptabankanna þriggja og Íbúðalánasjóðs til húsnæðiskaupa því um 1.200,5 milljörðum króna. Þar af voru verðtryggð húsnæðislán 988 milljarðar króna. Því voru 82 prósent allra húsnæðislána aðilanna verðtryggð.

Verðbólga sögulega lág

Það skiptir auðvitað miklu máli þegar þessar tölur eru skoðaðar að verðbólga hefur verið sögulega lág í mjög langan tíma á Íslandi. Hún hefur raunar verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, sem er 2,5 prósent, í tvö ár, eða frá því í febrúar 2014. Það er met. 

Ástæður þessa eru margþættar. Þrátt fyrir aukna þenslu í íslenska hagkerfinu vegna hagsældar, aukins kaupmáttar , launahækkanna, fjárfestinga og hækkandi fasteignaverðs hafi skapað töluverða innlenda verðbólgu þá hafa aðrir utanaðkomandi þættir togað á móti og haldið verðbólgunni niðri. Þar ber helst að nefna hríðlækkandi heimsmarkaðsverð á hrávöru, aðallega olíu, og styrkingu krónunnar, en Seðlabankinn hefur haft mjög sterka stjórn á gengi hennar vegna þeirra fjármagnshafta sem hafa verið hérlendis frá haustinu 2008. Nú stendur hins vegar til að losa um höftin og það hefur margoft sýnt sig að heimsmarkaðsverð á hrávöru getur sveiflast nokkuð hratt í báðar áttir. Því gæti verðbólga rokið upp tiltölulega hratt á Íslandi ef ytri aðstæður breytast. Og það mun hafa mikil áhrif þá þúsund milljarða króna sem lánastofnanir hafa lánað af verðtryggðum lánum.

Sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks brást við síðasta stóra verðbólguskoti, sem varð í kjölfar hrunsins, með því að greiða hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 svokallaða leiðréttingu á lánum sínum. Sú greiðsla var greidd úr ríkissjóði sem hefur sótt sér aukið rekstrarfé til fjármálafyrirtækja með viðbótarskattlagningu á undanförnum árum, meðal annars til að fjármagna leiðréttinguna. Því er komið fordæmi fyrir því að ríkissjóður greiði skaðabætur til þeirra sem eru með verðtryggð lán ef verðbólguskot á sér stað. 

Lofuðu afnámi verðtryggingar

Tilurð verðtryggingar er mikið hitamál í íslenskum stjórnmálum. Framsóknarflokkurin ræddi til að mynda mikið um afnám hennar í aðdraganda síðustu kosninga og lofaði að það yrði að veruleika kæmist flokkurinn til valda. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fjallað nokkuð mikið um verðtryggingu. Þar kom meðal annars fram að leiðrétta ætti verðtryggð lán sem hefðu orðið fyrir verðbólguskoti og að samhliða þeirri skuldaleiðréttingu ætti að „breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð“. Strax eftir kosningar var skipuð sérfræðinganefnd um afnám verðtryggingar sem skilaði af sér í byrjun árs 2014. Hún lagði til að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð Íslandslán, yrðu tekin af markaði. Síðan þá hefur verið unnið að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hugmyndin var að fara með lengstu verðtryggðu lánin niður í 25 ár. 

Í febrúar fór hins vegar fram sérstök umræða um verðtrygginu á Alþingi og þá var komið annað hljóð í ríkisstjórnarskrokkinn. Þar kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að 40 prósent þeirra sem taka verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð Íslandslán, myndi ekki standast greiðslumatfyrir styttri lán. Þetta hefði komið fram í mjög marktækum gögnum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði fengið um málið. 

Bjarni sagði á þingi að málið væri nokkuð flókið viðfangs. Ef 40 ára lánin verða afnumin gæti þurft að auka stuðninginn við þennan hóp með einhverjum hætti, og Bjarni spurði hvort það væri æskilegt. Mögulegt væri að halda inni valkostinum á 40 ára lánum fyrir allra lægstu tekjuhópana. Aðgerðir í þessum málum verði að vera þannig að ekki sé þrengt að þeim hópum sem minnst hafa milli handanna og hafa verið að nota þennan valkost. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Mynd: Birgir Þór

Hagfræðingurinn Magnús Árni Skúlason hélt erindi um stöðu húsnæðismarkaðarins í síðustu viku. Þar kom m.a. fram að vinsældir 40 ára lána færu vaxandi ár frá ári. Þau væru langvinsælustu húsnæðislánin sem tekin eru á Íslandi. Ástæður þess eru fremur einfaldar: þau gera fleirum kleift að standast greiðslumat og mánaðarlegar afborganir eru mun lægri en á öðrum tegundum lána.

Sér verðtryggingu fyrir sér í þjóðaratkvæði

Umræðan um afnám verðtryggingar á Alþingi, sem vísað er í hér að ofan, fór fram mánuði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafði sagt að hann sjái fyrir sér að hægt yrði að setja verðtryggingu lána í þjóðaratkvæðagreiðslu

Nokkrum dögum síðar lögðu tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, fram frumvarp um bann við verðtryggingu á nýjum neytendalánum á Alþingi. Ekki var einhugur um frumvarpið innan flokksins og var formaður hans, Árni Páll Árnason, og varaformaður, Katrín Júlíusdóttir, meðal annarra á móti því.

Erlendu lánin fyrir ríka fólkið

Ljóst er að stutt verður í að völdum hópi Íslendinga muni bjóðast ný tegund lána. Ef frumvarp sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram um erlend lán verður að lögum munu þeir sem standast greiðslumat geta fengið slík lán á ný. Það verður einungis efnað fólk sem mun þá geta yfirgefið krónuhagkerfið og fengið lægri vexti á sín neytendalán en afgangur þjóðarinnar. Þ.e. hópur einstaklinga sem hefur svo miklar tekjur í krónum talið að hann getur tekið á sig væntar sveiflur á íslenska gjaldmiðlinum án þess að lenda í vanskilum. 

Frumvarpið er tilkomið vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lýst því yfir að bann íslenskra laga við gengistryggingu samrýmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Auk þess reisa lög um vexti og verðtryggingu ekki skorður við lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum. 

Líkt og flestir muna þá voru lán til einstaklinga í erlendum gjaldmiðlum, aðallega til húsnæðis- eða bílakaupa, mjög vinsælt lánaform fyrir bankahrun. Í lok september 2008 námu slík lán um 320 milljörðum króna og voru þau þá um 17 prósent af heildarskuldum einstaklinga. 

Skyndileg lækkun íslensku krónunnar á árinu 2008 bitnaði harkalega á efnahag þessarra lántaka sem ekki voru varðir fyrir gengissveiflum. Í lok árs 2008 voru tæplega 50 prósent heimila með lán tengd erlendum gjaldmiðlum með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði en hlutfallið var rúmlega 20 prósent hjá heimilum sem eingöngu voru með lán í íslenskum krónum sem ekki voru gengistryggð, þrátt fyrir að bankarnir hafi yfirleitt miðað við lægra veðhlutfall vegna erlendra lána. 

Mörg gengislánanna voru hins vegar dæmd ólögmæt af Hæstarétti og í kjölfarið voru þau færð niður um á annan hundrað milljarða króna. 

Með endurlögleiðingu erlendra lána verður aftur til tvöfalt kerfi þar sem ríkt fólk hefur aðgengi að neytendalánum á betri vaxtakjörum en launafólk landsins. Sá hópur mun annað hvort áfram þurfa að taka verðtryggð lán, með þeirri áhættu sem því fylgir, eða óverðtryggð lán á svimandi háum vöxtum, með þeim tilkostnaði sem því fylgir. 

Eina sem er víst að óánægjan með lánamöguleika almennings er ekkert að fara að hverfa.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar