Fréttaskýring#Tónlist#Bretland
Adele og metin sem aldrei verða slegin
Tónlistarkonan Adele hefur sett hvert metið á fætur öðru frá því að nýjasta plata hennar, 25, kom út í nóvember síðastliðnum. Í heimi minnkandi tónlistarsölu er Adele í algjörum sérflokki.
Adele er ein allra stærsta stjarna samtímans. Það er staðreynd, frekar en huglægt mat. Frá því að nýjasta platan hennar, 25, kom út í lok síðasta árs hefur hún slegið hvert metið á fætur öðru. Og hún virðist ekki geta slegið feilnótu, í óeiginlegum skilningi.
Reyndar var hún byrjuð að slá met áður en platan kom út. Fyrsta smáskífan af plötunni, lagið Hello, kom út 23. október síðastliðinn og byrjaði að slá met strax á fyrsta degi. Þá var horft á myndbandið við lagið 27 milljón sinnum á Youtube. Það tók fimm daga að komast yfir 100 milljónir, sem var líka met. Núna, 9. mars, er áhorfstalan komin yfir 1,3 milljarða, sem samsvarar því að næstum einn af hverjum fimm jarðarbúum hafi horft einu sinni á myndbandið.
Strax í fyrstu vikunni varð smáskífan mest selda lag ársins 2015 í Bretlandi. Í Bandaríkjunum var yfir milljón eintökum hlaðið niður fyrstu vikuna. Aldrei áður hafði lag náð yfir milljón á einni viku, og það sem meira er, þetta var hálfri milljón meira en lagið Right Round með Flo Rida, sem átti metið fram að því. Fyrir tíma niðurhals hefur eitt lag náð meiri sölu sem smáskífa en Hello, og það var endurútgáfan af Candle in the Wind, sem Elton John gaf út eftir að Díana prinsessa dó árið 1997.
Og hún sem sagðist hafa haldið að eftir svona langan tíma án þess að gefa nokkuð út væri öllum orðið sama um hana.
Langlífu orðrómarnir
Síðasta plata Adele kom út í byrjun árs 2011, og ári síðar gaf hún út lag fyrir James Bond myndina Skyfall. Eftir það hafði hún sig mjög lítið í frammi. Áður en 25 kom svo út höfðu lengi verið orðrómar á kreiki um nýju plötuna hennar, sem fólk þóttist alla tíð visst um að myndi heita 25. Hún hafði líka fram að þessu gefið út plöturnar 19 og 21, eftir aldri hennar þegar plöturnar voru gerðar. Þegar hún átti 25 ára afmæli ýtti hún heldur betur undir orðrómana í gegnum Twitter-síðu sína, eins og sjá má hér að neðan.
Árið 2014 kom þó og fór og ekkert heyrðist frá henni. Seinna kom í ljós að hún gerði fullt af tónlist sem henni þótti ekki nógu góð þegar á hólminn var komið. Árið 2015 voru sögusagnirnar orðnar háværar, enda vitað að verið væri að vinna í plötu með aðstoð ýmissa tónlistarmanna, og talið var víst á seinni hluta ársins að nú myndi fara að draga til tíðinda. Billboard sagði frá því síðastliðið haust að platan kæmi í nóvember, en það var ekki 100% staðfest.
Svo allt í einu og upp úr þurru birtist auglýsingin hér að neðan, í auglýsingahléi á X-Factor þætti í breska sjónvarpinu þann 18. október.
Ekkert meira fylgdi auglýsingunni, en það ætlaði strax allt um koll að keyra. Var þetta í alvörunni hún, var hún að tilkynna formlega um útgáfu plötunnar og var þetta þá lag af nýju plötunni? Svarið var já.
Nokkrum dögum seinna birti hún skilaboð til aðdáenda sinna á Twitter, og sýndi svo plötuumslagið og tilkynnti útgáfudaginn 20. nóvember á Instagram. Í skilaboðunum á Twitter útskýrði hún fjarveru sína og það hversu langan tíma hefði tekið að koma plötunni út. Útskýringin var reyndar einföld, lífið gerðist. Meðal þess sem gerðist í lífi hennar var að hún eignaðist son, sem er nú þriggja ára.
Sló met 'NSYNC, Oasis og Susan Boyle
Það væri of löng upptalning að skrifa um öll metin sem Adele hefur slegið með útgáfu 25, en hér koma samt nokkur í viðbót. Fyrstu vikuna voru tæplega 3,4 milljónir eintök seld af plötunni í Bandaríkjunum, samkvæmt mælingum Nielsen Music, sem hefur mælt plötusölu frá árinu 1991 og tekið inn í mælingar sínar streymi og sölu á einstaka lögum. Ekki að einstaka lög hafi skipt miklu máli hjá Adele, næstum því hver einn og einasti keypti plötuna í heild sinni.
25 er fyrsta platan í sögu þessara mælinga til þess að seljast í yfir þremur milljónum eintaka á einni viku. Áður en platan kom út hafði því verið velt upp í fjölmiðlum hvort hún gæti mögulega jafnað sölumetið, sem strákasveitin 'NSYNC átti þá. Þeir seldu 2,4 milljónir af No Strings Attached í vikunni eftir að hún kom út árið 2000. Adele jafnaði ekki bara metið heldur sló það svo rækilega að talið er ólíklegt að nokkur muni ná henni.
Og í Bretlandi var sömu sögu að segja. 800 þúsund eintök og gott betur seldust í fyrstu vikunni þar, yfir 100 þúsundum meira en söluhæsta platan þar í landi fram að því. Fyrsta daginn seldust 300 þúsund eintök. Be Here Now með Oasis, hafði áður verið mest selda platan á einni viku, en hún seldist í 696 þúsund eintökum vikuna sem hún kom út árið 1997.
Hún sló alls konar önnur met í öðrum löndum. Til að mynda setti hún sölumet á Nýja-Sjálandi og sló þar út Susan Boyle, sem hafði átt metið þar í landi.
25 fór í fyrsta sæti á iTunes listanum í 106 af 119 löndum þessa fyrstu viku og seldist þar í 900 þúsund eintökum. Nýjustu tölur segja að platan hafi selst í nítján milljón eintökum um allan heim.
Ekki platan sem bjargar tónlistarheiminum
Það er mjög vel þekkt að tónlistarsala og neysla á tónlist hefur breyst gríðarlega síðustu ár, og plötusala dregst verulega saman ár frá ári. Það gerir gríðarlega velgengni plötu eins og 25 sérstaka, það að hún slái svona mörg met þrátt fyrir stöðuna á markaðnum. Adele ákvað að setja plötuna ekki á streymissíður eins og Spotify, og hún kemst upp með slíka ákvörðun, sem líklega jók bara söluna.
En það þýðir ekki neitt fyrir almenna plötusölu, segja sérfræðingar. „Þetta er óvenjulegt. Þetta er ekki merki um það hvert iðnaðurinn stefnir, og bara þótt við höfum eina stóra og farsæla plötusölu þýðir það ekki að allir fari að kaupa plötur aftur,“ sagði tónlistargreinandinn Mark Mulligan við Guardian þegar 25 var nýkomin út. Þetta væri ekki platan sem bjargaði tónlistarheiminum, miklu nær væri að líta aðeins neðar á listana til þess að finna raunverulega stöðu iðnaðarins. Raunin er sú að efsta eina prósentið af tónlistarmönnum fái 77% allra tekna. Með öðrum orðum, súperstjörnurnar græða peninga og selja plötur, en hin 99% tónlistarmannanna lenda í vandræðum.
Fleiri sem græða
Það eru samt ekki bara Adele og plötufyrirtækið hennar sem græða stórkostlega á þessari velgengni. Tónlistarsíðan djbooth hefur reynt að meta hvað aðrir sem unnu að plötunni, eins og upptökustjórar og lagahöfundar, hafi fengið í sinn hlut. Til að mynda er sagt að Greg Kurstin, sem gerði Hello með Adele, hafi grætt meira en tvær milljónir dollara. Eins og síðan segir: það þýðir að maður sem enginn veit hver er, er að græða meiri peninga en 90% þeirra tónlistamanna sem gefa út plötur.
Áætlað er að auðæfi Adele séu í kringum 75 milljónir dollara, tæplega 10 milljarðar íslenskra króna. Það er bara af tónlist, vegna þess að þrátt fyrir fjölmörg boð þar um, hefur hún sagt nei við hverju einasta tilboði um að auglýsa eða gerast talskona hluta. Í viðtali við Guardian í haust sagði hún að henni hefði verið boðið að auglýsa allt mögulegt. Bækur, föt, drykki, mat, bíla, leikföng, smáforrit og kerti, tók hún sem dæmi. „Milljón pund fyrir að syngja í afmælisveislunni þinnig? Ég myndi frekar gera það ókeypis ef ég geri það á annað borð, takk,“ sagði hún.
Tónleikaferðalagið heldur henni á toppnum áfram
Í síðustu viku hóf Adele svo fyrsta tónleikaferðalagið sitt í fjögur ár. Hún neyddist til að hætta að koma fram árið 2011 vegna raddvandræða, sem hún fór í aðgerð til að laga. Upphaflega var því haldið fram að hún myndi ekki fara í neina tónleikaferð vegna nýju plötunnar, en svo notaði hún samfélagsmiðla enn á ný til þess að tilkynna að hún hygðist víst ætla að halda tónleika.
Hún byrjaði í Belfast, og fer nú um Evrópu fram á sumar. Þá fer hún til Norður-Ameríku, þar sem hún heldur tónleika fram til 15. nóvember, en síðustu tónleikarnir hennar verða í Mexíkóborg það kvöld. 105 tónleikar eru áformaðir, 49 í Evrópu, 56 í Norður-Ameríku. Uppselt er á alla tónleikana, en það seldist upp á Evróputúrinn strax svo að fleiri tónleikum var bætt við.
Dæmi eru um að miðar á tónleika með henni séu í endursölu fyrir meira en 290 sinnum upphaflegt verð. Sæti sem kostuðu 85 pund á tónleika í London eru í sölu fyrir tæplega 25 þúsund pund, sem eru rúmlega 4,5 milljónir króna.
Síðasta plata Adele, 21, var í fyrsta sæti á Billboard listanum í 24 vikur, sem var met. Aldrei fyrr hafði kona náð viðlíka árangri á listanum. Hún var í 23 vikur á toppi breska vinsældarlistans og fór á toppinn í yfir 30 löndum. Allar líkur eru taldar á því að hún slái sitt eigið met með 25. Nú í upphafi tónleikaferðalagsins hefur platan þegar setið í toppsæti Billboard í 10 vikur og á breska vinsældarlistanum í níu.