#Fótbolti #Íþróttir

Er Robert Huth besti fótboltaleikmaður í heimi?

Leicester City er átta leikjum frá því að verða Englandsmeistari í knattspyrnu. Fyrir rúmu ári var liðið í neðsta sæti ensku úrvaldsdeildarinnar. Hvað gerðist? Robert Huth gerðist.

Robert Huth sýnir að hann sé bestur í heimi.

Í janúar 2015 var staða Leicester City í ensku úrvaldsdeildinni ekki beysin. Liðið var í botnsæti deildarinnar með 17 stig eftir 23 leiki. Nær óheyrt var að lið næði að bjarga sér frá falli við slíkar aðstæður. 

Mörg lið fara á taugum við slíkar aðstæður og eyða um efni fram í leikmenn sem þau binda vonir við að bjargi sér frá falli. Gott dæmi um það var Newcastle United, sem eyddi 28,5 milljónum punda í fjóra leikmenn í síðasta félagsskiptaglugga, en er nú nýbúið að reka knattspyrnustjórann sinn og situr enn í fallsæti. 

Króatíski sóknarmaðurinn Andrej Kramaric.Stóra vandamálið hjá Leicester City, sem var þá stýrt af hinum harðgerða Nigel Pearson, virtist vera að liðið væri ekki að skora nægilega mikið af mörkum. Menn eins og Riyad Mahrez, Jamie Vardy og Leonardo Ulloa voru ekki að skila sínu. Því tók Vichai Srivaddhanaprabha, hinn tælenski eigandi Leicester City, upp veskið og snaraði út rúmlega níu milljónum punda fyrir króatíska sóknarmanninn Andrej Kramaric, sem var keyptur frá FC Rijeka. Um var að ræða dýrasta leikmann sem liðið hefur nokkru sinni keypt. Sá hefur náð að skora heil tvö mörk fyrir Leicester City frá því að hann var keyptur og einungis spilað 15 leiki. Kramaric er nú á láni hjá 1899 Hoffenheim í þýsku Bundesligunni. Með öðrum orðum þá hefur hann ekki leikið neitt hlutverk sem máli skiptir hjá Leicester City síðan að hann var keyptur þangað. 

Tveir aðrir leikmenn gengu til liðs við Leicester City í janúarglugganum 2015. Hin aldni Mark Schwarzer gerðist varamarkvörður Kasper Schmeichel og rúmlega þrítugur, hávaxinn og hægur þýskur miðvörður, sem hafði spilað víða og einungis leikið einn deildarleik undanfarið ár, kom til liðsins að láni. Hann heitir Robert Huth.

Þýskur landsliðsmaður endar í ofbeldisliði

Huth þótti gríðarlegt efni á sínum tíma og var fengin frá Þýskalandi til Chelsea ungur að aldri þar sem hann spilaði 42 sinnum áður en hann var seldur til Middlesbrough árið 2006. Sá sem gaf honum tækifærið hjá Chelsea, og stýrði honum í gegnum fyrstu skref ferilisins, var Ítalinn Claudio Ranieri. Þeir áttu eftir að vinna aftur saman síðar, líkt og frægt er orðið. Huth var á þessum árum þýskur landsliðsmaður en eftir að Middlesbrough féll árið 2009 var hann seldur til Stoke City. Á því ári lék Huth líka sinn síðasta landsleik, en þeir hafa alls verið 19 fram til þessa. 

Huth passaði vel inn hjá ofbeldisfullu liði Stoke undir stjórn Tony Pulis. Það var þrennt sem hægt var að slá föstu um Stoke-lið þess tíma: það spilaði mjög varnarsinnað, var mjög gróft og treysti að mestu á furðulega löng innköst frá Rory Delap eða föst leikatriði til að skora flest mörk sem liðið skoraði. 

Þessu átti öllu að breyta með komu Mark Hughes til Stoke. Liðið átti að verða „betra“ knattspyrnulið. Huth hélt þó sæti sínu að mestu þar til að hann meiddist illa á hné í nóvember 2013 og spilaði ekki deildarleik í meira en ár í kjölfarið. 

Hann var kominn í erfiða stöðu. Gerð hans hentaði ekki þeirri framtíðarsýn sem Hughes hafði hjá Stoke, hann var ekki í neinni alvöru leikæfingu eftir að hafa verið meiddur meira og minna í heilt ár og það var ekki eins og að lið stæðu í röðum eftir því að kaupa rúmlega þrítugan leikmann sem þannig áraði hjá. Það var því kærkomið tækifæri fyrir Huth þegar neðsta lið deildarinnar sóttist eftir kröftum hans á síðasta degi félagaskiptagluggans snemma árs 2015. Og sú ákvörðun, að ganga til liðs við Leicester City, átti eftir að endurvekja feril hans á hátt sem varla nokkur maður trúði að væri mögulegt.

Skandall og „fiktarinn“ sem tapaði fyrir Færeyjum

Þrátt fyrir að Leicester City hafi tapað fyrsta leiknum sem Huth lék – 2-1 á móti Arsenal – þá fór liðið á ótrúlegt skrið undir lok tímabilsins og vann sjö af síðustu níu leikjum sínum. 

Sumarið hjá Leicester City varð síðan litað af hneykslismálum eftir að þrír ungir leikmenn liðsins urðu sér, og félaginu, til skammar í æfingarferð sem farin var til Tælands. Mennirnir þrír tóku kynsvall sem þeir áttu með þremur tælenskum stúlkum upp á myndband. Á því heyrast þeir tala afar niðrandi um stúlkurnar og sýndu meðal annars af sér fyrirlitlega kynþáttarfordóma í þeirra garð. Ljóst var að tælenskur eigandi félagsins myndi ekki taka þessu þegjandi og hljóðalaust. Og það gerði stöðuna enn viðkvæmari að einn ungu leikmannanna sem tók þátt í athæfinu var James Pearson, sonur knattspyrnustjórans Nigel Pearson. 

Nigel Pearson var þegar kominn á hálan ís hjá eigendum félagsins þegar atvikið átti sér stað. Hann hafði í raun verið rekin fyrr á árinu 2015 en sá brottrekstur var síðar dreginn til baka. Auk þess þótti viðmót hans og hegðun gagnvart blaðamönnum og stuðningsmönnum ekki til fyrirmyndar. Pearson hafði nefnilega kallað blaðamann sem spurði hann gagnrýnnar spurningar strút og sagt við stuðningsmann sem hafði látið Pearson heyra það að hann ætti að „fuck off and die“. Fyrir seinna atvikið fékk Pearson leikbann og sekt. 

En atvikið í Tælandi fyllti mælinn og þrátt fyrir að hafa bjargað Leicester City á ævintýralegan hátt var Pearson rekinn. 

Leikmenn spútnikliðs Leicester fagna marki gegn Manchester City.
Mynd: EPA

Það er ljóst að eftirmaður hans kveikti ekki í mörgum stuðningsmönnum liðsins. Ítalinn Claudio Ranieri hefur verið kallaður „fiktarinn“ (e. Tinkerman) fyrir þá áráttu sína að vera sífellt að breyta liðsuppstillingu og leikskipulagi liða sinna á milli leikja. Síðasta starf sem Ranieri hafði sinnt áður en hann var ráðinn til Leicester var landsliðsþjálfari Grikklands. Síðasta verk hans í því starfi var að tapa fyrir Færeyjum.

Áttu að falla en eru ellefu stigum á undan Arsenal

Það áttu því ekki margir von á því að Leicester City yrði til stórræðna á þessu tímabili. Raunar spáðu flestir sérfræðingar ensku pressunnar þeim botnsætinu í deildinni. Það hafði enginn trú á þessum leikmönnum og það hafði enginn trú á Ranieri. En nú, þegar átta leikir eru eftir, situr liðið í efsta sæti deildarinnar með fimm stiga forskot á Tottenham og ellefu stiga forskot á Arsenal, sem situr í þriðja sæti. Liðið hefur einungis tapað þremur leikjum á þessum tímabili. Á blaði á það ekki erfiðustu leikina eftir. Fjórir heimaleikir gegn Southampton, West Ham Swansea, og Everton. Útileikir gegn Crystal Palace (sem er slakasta lið deildarinnar það sem af er ári), Sunderland (sem er í bullandi fallbaráttu), Manchester United og Chelsea. 

Það eru helst síðustu þrír leikir tímabilsins, gegn Manchester United, Everton og Chelsea, sem eru taldir af sérfræðingunum að gætu orðið einhvers konar bananahýði sem liðið gæti runnið til á. 

Liðið virkjað

Þegar Robert Huth kom til Leicester City voru margir þeirra leikmanna sem nú leika lykilhlutverk hjá liðinu þegar komnir þangað. Jamie Vardy, markahæsti leikmanni deildarinnar, var ekkert að skora. Riyad Mahrez, sem þykir jafnvel líklegur til að verða valinn bestur á þessu tímabili, var enn algjörlega óþekktur leikmaður sem hafði ekki náð að festa sig í sessi. Kasper Schmeicel var enn þekktastur fyrir að vera sonur Peters og Daniel Drinkwater komst sjaldnast í fréttirnar nema þegar verið var að gera grín að skrýtnum nöfnum knattspyrnuleikmanna. Aðalhetja Leicester City á þessum tíma var Esteban Cambiasso, argentíski miðjumaðurinn sem þá var að verða 35 ára gamall. Mark Albrighton var efnilegi leikmaðurinn sem hafði aldrei ná að springa út. Danny Simpson og Wes Morgan voru einfaldlega dæmdir sem allt of daprir leikmenn til að spila í efstu deild.

Viðbæturnar síðasta sumar voru ekki þess eðlis að þær hafi ollið mikilli spennu. Varnarmiðjubuffið N´Golo Kante var keyptur í stað Cambiasso, sem fór til Grikklands af öllum stöðum til að spila meistaradeildarfótbolta, og hefur verið stórkostlegur. Japaninn Shinji Okazaki varð dýrustu kaup félagsins í þeim félagaskiptaglugga þegar hann kom frá Mainz. Austurríkismaðurinn Christian Fuchs kom loks frítt frá Schalke til að leika í vinstri bakvarðarstöðunni. 

Leicester City leikur ekki knattspyrnu sem snýst um að halda boltanum og byggja upp spil. Liðið byggir sína leikáætlun á því að verjast gífurlega skipulega, nýta sér mistök andstæðinga sinna og refsa þeim hratt. Og með því að skora úr föstum leikatriðum. Robert Huth leikur lykilhlutverk í þessu plani. Hann, félagar hans þrír í vörninni með þá Drinkwater/Kante fyrir framan sig og Schmeichel fyrir aftan, eru grunnurinn sem hinir hröðu sóknarmenn liðsins blómstra á. 

Barry Lineker: Fucking brill

Gary Lineker í búningi Leicester.Það er ljóst að kapphlaupið að enska titlinum er nú á milli tveggja liða, Leicester City og Tottenham. Of langt er í liðin fyrir neðan til að þau eigi möguleika úr þessu. Og það er eitthvað ótrúlega magnað við þá stöðu, líkt og Gary Lineker skrifaði um í pistli sem birtist á The Guardian á sunnudag, og var óvænt stórskemmtilegur. 

Lineker er fæddur og uppalinn í Leicester og harður stuðningsmaður liðsins. Hann sá liðið tapa í bikarúrslitum árið 1969 þegar hann var átta ára og grét alla leiðina heim. Pabbi hans, afi og þrír synir eru, eða voru, allir eldheitir stuðningsmenn. Lineker bjargaði meira að segja liðinu frá greiðsluþroti fyrir nokkrum árum ásamt nokkrum stuðningsmönnum og vinum sem höfðu sterkar taugar til félagsins. En hann segir í pistlinum að ekkert sem hafi gerst fyrir hann í knattspyrnu – og Lineker hefur orðið markahæstur á heimsmeistaramóti – sé hægt að bera saman við það sem nú er að gerast hjá Leicester City. „Hlutir eins og þessir gerast einfaldlega ekki fyrir félög eins og mitt,“ segir Lineker og segist aldrei hafa óskað neins jafn heitt og að Leicester haldi dampi og vinni titilinn. Hann segir að tilfinningin sem knattspyrnuáhugamenn út um allan heim fái vegna þessa - að litla óspennandi liðið sem allir héldu að myndu falla en eru nú að vinna – megi lýsa með tísti sem pabbi hans, Barry Lineker, setti inn í febrúar:

Lineker telur upp allt það sem hefur gengið upp hjá Leicester til að vera í þeirri stöðu sem þeir eru. Alla leikmennina sem hafa lagt sitt að mörkum og blómstrað umfram allar væntingar. En að hans mati er undraverðasti hluti liðsins vörnin. Samansafn knattspyrnulegra farandsverkamanna (e. journeymen) sem hafi náð saman, náð að tengjast og búa til hugarfar Gandálfs sem útlegst svona: Þú skalt ekki komast framhjá okkur (e. thou shalt not pass).

Þar leikur þýska tröllið Robert Huth, sem umbreytti Leicester City úr lélegasta liði ensku úrvaldsdeildarinnar í það besta, algjört lykilhlutverk.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar