#Fótbolti #Íþróttir

Er Robert Huth besti fótboltaleikmaður í heimi?

Leicester City er átta leikjum frá því að verða Englandsmeistari í knattspyrnu. Fyrir rúmu ári var liðið í neðsta sæti ensku úrvaldsdeildarinnar. Hvað gerðist? Robert Huth gerðist.

Robert Huth sýnir að hann sé bestur í heimi.

Í jan­úar 2015 var staða Leicester City í ensku úrvalds­deild­inni ekki beys­in. Liðið var í botns­æti deild­ar­innar með 17 stig eftir 23 leiki. Nær óheyrt var að lið næði að bjarga sér frá falli við slíkar aðstæð­ur. 

Mörg lið fara á taugum við slíkar aðstæður og eyða um efni fram í leik­menn sem þau binda vonir við að bjargi sér frá falli. Gott dæmi um það var Newcastle United, sem eyddi 28,5 millj­ónum punda í fjóra leik­menn í síð­asta félags­skipta­glugga, en er nú nýbúið að reka knatt­spyrnu­stjór­ann sinn og situr enn í fall­sæt­i. 

Króatíski sóknarmaðurinn Andrej Kramaric.Stóra vanda­málið hjá Leicester City, sem var þá stýrt af hinum harð­gerða Nigel Pear­son, virt­ist vera að liðið væri ekki að skora nægi­lega mikið af mörk­um. Menn eins og Riyad Mahrez, Jamie Vardy og Leon­ardo Ulloa voru ekki að skila sínu. Því tók Vichai Srivadd­hanaprabha, hinn tælenski eig­andi Leicester City, upp veskið og snar­aði út rúm­lega níu millj­ónum punda fyrir króat­íska sókn­ar­mann­inn Andrej Kram­aric, sem var keyptur frá FC Rijeka. Um var að ræða dýrasta leik­mann sem liðið hefur nokkru sinni keypt. Sá hefur náð að skora heil tvö mörk fyrir Leicester City frá því að hann var keyptur og ein­ungis spilað 15 leiki. Kram­aric er nú á láni hjá 1899 Hof­fen­heim í þýsku Bundeslig­unni. Með öðrum orðum þá hefur hann ekki leikið neitt hlut­verk sem máli skiptir hjá Leicester City síðan að hann var keyptur þang­að. 

Tveir aðrir leik­menn gengu til liðs við Leicester City í jan­ú­ar­glugg­anum 2015. Hin aldni Mark Schwarzer gerð­ist vara­mark­vörður Kasper Sch­meichel og rúm­lega þrí­tug­ur, hávax­inn og hægur þýskur mið­vörð­ur, sem hafði spilað víða og ein­ungis leikið einn deild­ar­leik und­an­farið ár, kom til liðs­ins að láni. Hann heitir Robert Huth.

Þýskur lands­liðs­maður endar í ofbeld­is­liði

Huth þótti gríð­ar­legt efni á sínum tíma og var fengin frá Þýska­landi til Chel­sea ungur að aldri þar sem hann spil­aði 42 sinnum áður en hann var seldur til Midd­les­brough árið 2006. Sá sem gaf honum tæki­færið hjá Chel­sea, og stýrði honum í gegnum fyrstu skref fer­il­is­ins, var Ítal­inn Claudio Rani­eri. Þeir áttu eftir að vinna aftur saman síð­ar, líkt og frægt er orð­ið. Huth var á þessum árum þýskur lands­liðs­maður en eftir að Midd­les­brough féll árið 2009 var hann seldur til Stoke City. Á því ári lék Huth líka sinn síð­asta lands­leik, en þeir hafa alls verið 19 fram til þessa. 

Huth pass­aði vel inn hjá ofbeld­is­fullu liði Stoke undir stjórn Tony Pul­is. Það var þrennt sem hægt var að slá föstu um Stoke-lið þess tíma: það spil­aði mjög varn­ar­sinn­að, var mjög gróft og treysti að mestu á furðu­lega löng inn­köst frá Rory Delap eða föst leikatriði til að skora flest mörk sem liðið skor­að­i. 

Þessu átti öllu að breyta með komu Mark Hug­hes til Stoke. Liðið átti að verða „betra“ knatt­spyrnu­lið. Huth hélt þó sæti sínu að mestu þar til að hann meidd­ist illa á hné í nóv­em­ber 2013 og spil­aði ekki deild­ar­leik í meira en ár í kjöl­far­ið. 

Hann var kom­inn í erf­iða stöðu. Gerð hans hent­aði ekki þeirri fram­tíð­ar­sýn sem Hug­hes hafði hjá Stoke, hann var ekki í neinni alvöru leikæf­ingu eftir að hafa verið meiddur meira og minna í heilt ár og það var ekki eins og að lið stæðu í röðum eftir því að kaupa rúm­lega þrí­tugan leik­mann sem þannig áraði hjá. Það var því kær­komið tæki­færi fyrir Huth þegar neðsta lið deild­ar­innar sótt­ist eftir kröftum hans á síð­asta degi félaga­skipta­glugg­ans snemma árs 2015. Og sú ákvörð­un, að ganga til liðs við Leicester City, átti eftir að end­ur­vekja feril hans á hátt sem varla nokkur maður trúði að væri mögu­legt.

Skandall og „fikt­ar­inn“ sem tap­aði fyrir Fær­eyjum

Þrátt fyrir að Leicester City hafi tapað fyrsta leiknum sem Huth lék – 2-1 á móti Arsenal – þá fór liðið á ótrú­legt skrið undir lok tíma­bils­ins og vann sjö af síð­ustu níu leikjum sín­um. 

Sum­arið hjá Leicester City varð síðan litað af hneyksl­is­málum eftir að þrír ungir leik­menn liðs­ins urðu sér, og félag­inu, til skammar í æfing­ar­ferð sem farin var til Tælands. Menn­irnir þrír tóku kyns­vall sem þeir áttu með þremur tælenskum stúlkum upp á mynd­band. Á því heyr­ast þeir tala afar niðr­andi um stúlk­urnar og sýndu meðal ann­ars af sér fyr­ir­lit­lega kyn­þátt­ar­for­dóma í þeirra garð. Ljóst var að tælenskur eig­andi félags­ins myndi ekki taka þessu þegj­andi og hljóða­laust. Og það gerði stöð­una enn við­kvæm­ari að einn ungu leik­mann­anna sem tók þátt í athæf­inu var James Pear­son, sonur knatt­spyrnu­stjór­ans Nigel Pear­son. 

Nigel Pear­son var þegar kom­inn á hálan ís hjá eig­endum félags­ins þegar atvikið átti sér stað. Hann hafði í raun verið rekin fyrr á árinu 2015 en sá brott­rekstur var síðar dreg­inn til baka. Auk þess þótti við­mót hans og hegðun gagn­vart blaða­mönnum og stuðn­ings­mönnum ekki til fyr­ir­mynd­ar. Pear­son hafði nefni­lega kallað blaða­mann sem spurði hann gagn­rýnnar spurn­ingar strút og sagt við stuðn­ings­mann sem hafði látið Pear­son heyra það að hann ætti að „fuck off and die“. Fyrir seinna atvikið fékk Pear­son leik­bann og sekt. 

En atvikið í Tælandi fyllti mæl­inn og þrátt fyrir að hafa bjargað Leicester City á ævin­týra­legan hátt var Pear­son rek­inn. 

Leikmenn spútnikliðs Leicester fagna marki gegn Manchester City.
Mynd: EPA

Það er ljóst að eft­ir­maður hans kveikti ekki í mörgum stuðn­ings­mönnum liðs­ins. Ítal­inn Claudio Rani­eri hefur verið kall­aður „fikt­ar­inn“ (e. Tin­kerman) fyrir þá áráttu sína að vera sífellt að breyta liðs­upp­still­ingu og leik­skipu­lagi liða sinna á milli leikja. Síð­asta starf sem Rani­eri hafði sinnt áður en hann var ráð­inn til Leicester var lands­liðs­þjálf­ari Grikk­lands. Síð­asta verk hans í því starfi var að tapa fyrir Fær­eyj­um.

Áttu að falla en eru ell­efu stigum á undan Arsenal

Það áttu því ekki margir von á því að Leicester City yrði til stór­ræðna á þessu tíma­bili. Raunar spáðu flestir sér­fræð­ingar ensku pressunnar þeim botns­æt­inu í deild­inni. Það hafði eng­inn trú á þessum leik­mönnum og það hafði eng­inn trú á Rani­eri. En nú, þegar átta leikir eru eft­ir, situr liðið í efsta sæti deild­ar­innar með fimm stiga for­skot á Totten­ham og ell­efu stiga for­skot á Arsenal, sem situr í þriðja sæti. Liðið hefur ein­ungis tapað þremur leikjum á þessum tíma­bili. Á blaði á það ekki erf­ið­ustu leik­ina eft­ir. Fjórir heima­leikir gegn Sout­hampton, West Ham Swan­sea, og Everton. Úti­leikir gegn Crys­tal Palace (sem er slakasta lið deild­ar­innar það sem af er ári), Sund­er­land (sem er í bull­andi fall­bar­átt­u), Manchester United og Chel­sea. 

Það eru helst síð­ustu þrír leikir tíma­bils­ins, gegn Manchester United, Everton og Chel­sea, sem eru taldir af sér­fræð­ing­unum að gætu orðið ein­hvers konar ban­ana­hýði sem liðið gæti runnið til á. 

Liðið virkjað

Þegar Robert Huth kom til Leicester City voru margir þeirra leik­manna sem nú leika lyk­il­hlut­verk hjá lið­inu þegar komnir þang­að. Jamie Var­dy, marka­hæsti leik­manni deild­ar­inn­ar, var ekk­ert að skora. Riyad Mahrez, sem þykir jafn­vel lík­legur til að verða val­inn bestur á þessu tíma­bili, var enn algjör­lega óþekktur leik­maður sem hafði ekki náð að festa sig í sessi. Kasper Sch­meicel var enn þekkt­astur fyrir að vera sonur Pet­ers og Daniel Drinkwa­ter komst sjaldn­ast í frétt­irnar nema þegar verið var að gera grín að skrýtnum nöfnum knatt­spyrnu­leik­manna. Aðal­hetja Leicester City á þessum tíma var Esteban Cambi­asso, argentíski miðju­mað­ur­inn sem þá var að verða 35 ára gam­all. Mark Albrighton var efni­legi leik­mað­ur­inn sem hafði aldrei ná að springa út. Danny Simp­son og Wes Morgan voru ein­fald­lega dæmdir sem allt of daprir leik­menn til að spila í efstu deild.

Við­bæt­urnar síð­asta sumar voru ekki þess eðlis að þær hafi ollið mik­illi spennu. Varn­ar­miðju­buffið N´Golo Kante var keyptur í stað Cambi­asso, sem fór til Grikk­lands af öllum stöðum til að spila meist­ara­deild­ar­fót­bolta, og hefur verið stór­kost­leg­ur. Jap­an­inn Shinji Okazaki varð dýr­ustu kaup félags­ins í þeim félaga­skipta­glugga þegar hann kom frá Mainz. Aust­ur­rík­is­mað­ur­inn Christ­ian Fuchs kom loks frítt frá Schalke til að leika í vinstri bak­varð­ar­stöð­unn­i. 

Leicester City leikur ekki knatt­spyrnu sem snýst um að halda bolt­anum og byggja upp spil. Liðið byggir sína leik­á­ætlun á því að verj­ast gíf­ur­lega skipu­lega, nýta sér mis­tök and­stæð­inga sinna og refsa þeim hratt. Og með því að skora úr föstum leikatrið­um. Robert Huth leikur lyk­il­hlut­verk í þessu plani. Hann, félagar hans þrír í vörn­inni með þá Drinkwa­ter/­Kante fyrir framan sig og Sch­meichel fyrir aft­an, eru grunn­ur­inn sem hinir hröðu sókn­ar­menn liðs­ins blómstra á. 

Barry Lineker: Fuck­ing brill

Gary Lineker í búningi Leicester.Það er ljóst að kapp­hlaupið að enska titl­inum er nú á milli tveggja liða, Leicester City og Totten­ham. Of langt er í liðin fyrir neðan til að þau eigi mögu­leika úr þessu. Og það er eitt­hvað ótrú­lega magnað við þá stöðu, líkt og Gary Lineker skrif­aði um í pistli sem birt­ist á The Guar­dian á sunnu­dag, og var óvænt stór­skemmti­leg­ur. 

Lineker er fæddur og upp­al­inn í Leicester og harður stuðn­ings­maður liðs­ins. Hann sá liðið tapa í bik­ar­úr­slitum árið 1969 þegar hann var átta ára og grét alla leið­ina heim. Pabbi hans, afi og þrír synir eru, eða voru, allir eld­heitir stuðn­ings­menn. Lineker bjarg­aði meira að segja lið­inu frá greiðslu­þroti fyrir nokkrum árum ásamt nokkrum stuðn­ings­mönnum og vinum sem höfðu sterkar taugar til félags­ins. En hann segir í pistl­inum að ekk­ert sem hafi gerst fyrir hann í knatt­spyrnu – og Lineker hefur orðið marka­hæstur á heims­meist­ara­móti – sé hægt að bera saman við það sem nú er að ger­ast hjá Leicester City. „Hlutir eins og þessir ger­ast ein­fald­lega ekki fyrir félög eins og mitt,“ segir Lineker og seg­ist aldrei hafa óskað neins jafn heitt og að Leicester haldi dampi og vinni tit­il­inn. Hann segir að til­finn­ingin sem knatt­spyrnu­á­huga­menn út um allan heim fái vegna þessa - að litla óspenn­andi liðið sem allir héldu að myndu falla en eru nú að vinna – megi lýsa með tísti sem pabbi hans, Barry Lineker, setti inn í febr­ú­ar:

Lineker telur upp allt það sem hefur gengið upp hjá Leicester til að vera í þeirri stöðu sem þeir eru. Alla leik­menn­ina sem hafa lagt sitt að mörkum og blómstrað umfram allar vænt­ing­ar. En að hans mati er undra­verð­asti hluti liðs­ins vörn­in. Sam­an­safn knatt­spyrnu­legra far­ands­verka­manna (e. jour­ney­men) sem hafi náð sam­an, náð að tengj­ast og búa til hug­ar­far Gandálfs sem útlegst svona: Þú skalt ekki kom­ast fram­hjá okkur (e. thou shalt not pass).

Þar leikur þýska tröllið Robert Huth, sem umbreytti Leicester City úr léleg­asta liði ensku úrvalds­deild­ar­innar í það besta, algjört lyk­il­hlut­verk.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar