#Fótbolti #Íþróttir

Er Robert Huth besti fótboltaleikmaður í heimi?

Leicester City er átta leikjum frá því að verða Englandsmeistari í knattspyrnu. Fyrir rúmu ári var liðið í neðsta sæti ensku úrvaldsdeildarinnar. Hvað gerðist? Robert Huth gerðist.

Robert Huth sýnir að hann sé bestur í heimi.

Í jan­úar 2015 var staða Leicester City í ensku úrvalds­deild­inni ekki beys­in. Liðið var í botns­æti deild­ar­innar með 17 stig eftir 23 leiki. Nær óheyrt var að lið næði að bjarga sér frá falli við slíkar aðstæð­ur. 

Mörg lið fara á taugum við slíkar aðstæður og eyða um efni fram í leik­menn sem þau binda vonir við að bjargi sér frá falli. Gott dæmi um það var Newcastle United, sem eyddi 28,5 millj­ónum punda í fjóra leik­menn í síð­asta félags­skipta­glugga, en er nú nýbúið að reka knatt­spyrnu­stjór­ann sinn og situr enn í fall­sæt­i. 

Króatíski sóknarmaðurinn Andrej Kramaric.Stóra vanda­málið hjá Leicester City, sem var þá stýrt af hinum harð­gerða Nigel Pear­son, virt­ist vera að liðið væri ekki að skora nægi­lega mikið af mörk­um. Menn eins og Riyad Mahrez, Jamie Vardy og Leon­ardo Ulloa voru ekki að skila sínu. Því tók Vichai Srivadd­hanaprabha, hinn tælenski eig­andi Leicester City, upp veskið og snar­aði út rúm­lega níu millj­ónum punda fyrir króat­íska sókn­ar­mann­inn Andrej Kram­aric, sem var keyptur frá FC Rijeka. Um var að ræða dýrasta leik­mann sem liðið hefur nokkru sinni keypt. Sá hefur náð að skora heil tvö mörk fyrir Leicester City frá því að hann var keyptur og ein­ungis spilað 15 leiki. Kram­aric er nú á láni hjá 1899 Hof­fen­heim í þýsku Bundeslig­unni. Með öðrum orðum þá hefur hann ekki leikið neitt hlut­verk sem máli skiptir hjá Leicester City síðan að hann var keyptur þang­að. 

Tveir aðrir leik­menn gengu til liðs við Leicester City í jan­ú­ar­glugg­anum 2015. Hin aldni Mark Schwarzer gerð­ist vara­mark­vörður Kasper Sch­meichel og rúm­lega þrí­tug­ur, hávax­inn og hægur þýskur mið­vörð­ur, sem hafði spilað víða og ein­ungis leikið einn deild­ar­leik und­an­farið ár, kom til liðs­ins að láni. Hann heitir Robert Huth.

Þýskur lands­liðs­maður endar í ofbeld­is­liði

Huth þótti gríð­ar­legt efni á sínum tíma og var fengin frá Þýska­landi til Chel­sea ungur að aldri þar sem hann spil­aði 42 sinnum áður en hann var seldur til Midd­les­brough árið 2006. Sá sem gaf honum tæki­færið hjá Chel­sea, og stýrði honum í gegnum fyrstu skref fer­il­is­ins, var Ítal­inn Claudio Rani­eri. Þeir áttu eftir að vinna aftur saman síð­ar, líkt og frægt er orð­ið. Huth var á þessum árum þýskur lands­liðs­maður en eftir að Midd­les­brough féll árið 2009 var hann seldur til Stoke City. Á því ári lék Huth líka sinn síð­asta lands­leik, en þeir hafa alls verið 19 fram til þessa. 

Huth pass­aði vel inn hjá ofbeld­is­fullu liði Stoke undir stjórn Tony Pul­is. Það var þrennt sem hægt var að slá föstu um Stoke-lið þess tíma: það spil­aði mjög varn­ar­sinn­að, var mjög gróft og treysti að mestu á furðu­lega löng inn­köst frá Rory Delap eða föst leikatriði til að skora flest mörk sem liðið skor­að­i. 

Þessu átti öllu að breyta með komu Mark Hug­hes til Stoke. Liðið átti að verða „betra“ knatt­spyrnu­lið. Huth hélt þó sæti sínu að mestu þar til að hann meidd­ist illa á hné í nóv­em­ber 2013 og spil­aði ekki deild­ar­leik í meira en ár í kjöl­far­ið. 

Hann var kom­inn í erf­iða stöðu. Gerð hans hent­aði ekki þeirri fram­tíð­ar­sýn sem Hug­hes hafði hjá Stoke, hann var ekki í neinni alvöru leikæf­ingu eftir að hafa verið meiddur meira og minna í heilt ár og það var ekki eins og að lið stæðu í röðum eftir því að kaupa rúm­lega þrí­tugan leik­mann sem þannig áraði hjá. Það var því kær­komið tæki­færi fyrir Huth þegar neðsta lið deild­ar­innar sótt­ist eftir kröftum hans á síð­asta degi félaga­skipta­glugg­ans snemma árs 2015. Og sú ákvörð­un, að ganga til liðs við Leicester City, átti eftir að end­ur­vekja feril hans á hátt sem varla nokkur maður trúði að væri mögu­legt.

Skandall og „fikt­ar­inn“ sem tap­aði fyrir Fær­eyjum

Þrátt fyrir að Leicester City hafi tapað fyrsta leiknum sem Huth lék – 2-1 á móti Arsenal – þá fór liðið á ótrú­legt skrið undir lok tíma­bils­ins og vann sjö af síð­ustu níu leikjum sín­um. 

Sum­arið hjá Leicester City varð síðan litað af hneyksl­is­málum eftir að þrír ungir leik­menn liðs­ins urðu sér, og félag­inu, til skammar í æfing­ar­ferð sem farin var til Tælands. Menn­irnir þrír tóku kyns­vall sem þeir áttu með þremur tælenskum stúlkum upp á mynd­band. Á því heyr­ast þeir tala afar niðr­andi um stúlk­urnar og sýndu meðal ann­ars af sér fyr­ir­lit­lega kyn­þátt­ar­for­dóma í þeirra garð. Ljóst var að tælenskur eig­andi félags­ins myndi ekki taka þessu þegj­andi og hljóða­laust. Og það gerði stöð­una enn við­kvæm­ari að einn ungu leik­mann­anna sem tók þátt í athæf­inu var James Pear­son, sonur knatt­spyrnu­stjór­ans Nigel Pear­son. 

Nigel Pear­son var þegar kom­inn á hálan ís hjá eig­endum félags­ins þegar atvikið átti sér stað. Hann hafði í raun verið rekin fyrr á árinu 2015 en sá brott­rekstur var síðar dreg­inn til baka. Auk þess þótti við­mót hans og hegðun gagn­vart blaða­mönnum og stuðn­ings­mönnum ekki til fyr­ir­mynd­ar. Pear­son hafði nefni­lega kallað blaða­mann sem spurði hann gagn­rýnnar spurn­ingar strút og sagt við stuðn­ings­mann sem hafði látið Pear­son heyra það að hann ætti að „fuck off and die“. Fyrir seinna atvikið fékk Pear­son leik­bann og sekt. 

En atvikið í Tælandi fyllti mæl­inn og þrátt fyrir að hafa bjargað Leicester City á ævin­týra­legan hátt var Pear­son rek­inn. 

Leikmenn spútnikliðs Leicester fagna marki gegn Manchester City.
Mynd: EPA

Það er ljóst að eft­ir­maður hans kveikti ekki í mörgum stuðn­ings­mönnum liðs­ins. Ítal­inn Claudio Rani­eri hefur verið kall­aður „fikt­ar­inn“ (e. Tin­kerman) fyrir þá áráttu sína að vera sífellt að breyta liðs­upp­still­ingu og leik­skipu­lagi liða sinna á milli leikja. Síð­asta starf sem Rani­eri hafði sinnt áður en hann var ráð­inn til Leicester var lands­liðs­þjálf­ari Grikk­lands. Síð­asta verk hans í því starfi var að tapa fyrir Fær­eyj­um.

Áttu að falla en eru ell­efu stigum á undan Arsenal

Það áttu því ekki margir von á því að Leicester City yrði til stór­ræðna á þessu tíma­bili. Raunar spáðu flestir sér­fræð­ingar ensku pressunnar þeim botns­æt­inu í deild­inni. Það hafði eng­inn trú á þessum leik­mönnum og það hafði eng­inn trú á Rani­eri. En nú, þegar átta leikir eru eft­ir, situr liðið í efsta sæti deild­ar­innar með fimm stiga for­skot á Totten­ham og ell­efu stiga for­skot á Arsenal, sem situr í þriðja sæti. Liðið hefur ein­ungis tapað þremur leikjum á þessum tíma­bili. Á blaði á það ekki erf­ið­ustu leik­ina eft­ir. Fjórir heima­leikir gegn Sout­hampton, West Ham Swan­sea, og Everton. Úti­leikir gegn Crys­tal Palace (sem er slakasta lið deild­ar­innar það sem af er ári), Sund­er­land (sem er í bull­andi fall­bar­átt­u), Manchester United og Chel­sea. 

Það eru helst síð­ustu þrír leikir tíma­bils­ins, gegn Manchester United, Everton og Chel­sea, sem eru taldir af sér­fræð­ing­unum að gætu orðið ein­hvers konar ban­ana­hýði sem liðið gæti runnið til á. 

Liðið virkjað

Þegar Robert Huth kom til Leicester City voru margir þeirra leik­manna sem nú leika lyk­il­hlut­verk hjá lið­inu þegar komnir þang­að. Jamie Var­dy, marka­hæsti leik­manni deild­ar­inn­ar, var ekk­ert að skora. Riyad Mahrez, sem þykir jafn­vel lík­legur til að verða val­inn bestur á þessu tíma­bili, var enn algjör­lega óþekktur leik­maður sem hafði ekki náð að festa sig í sessi. Kasper Sch­meicel var enn þekkt­astur fyrir að vera sonur Pet­ers og Daniel Drinkwa­ter komst sjaldn­ast í frétt­irnar nema þegar verið var að gera grín að skrýtnum nöfnum knatt­spyrnu­leik­manna. Aðal­hetja Leicester City á þessum tíma var Esteban Cambi­asso, argentíski miðju­mað­ur­inn sem þá var að verða 35 ára gam­all. Mark Albrighton var efni­legi leik­mað­ur­inn sem hafði aldrei ná að springa út. Danny Simp­son og Wes Morgan voru ein­fald­lega dæmdir sem allt of daprir leik­menn til að spila í efstu deild.

Við­bæt­urnar síð­asta sumar voru ekki þess eðlis að þær hafi ollið mik­illi spennu. Varn­ar­miðju­buffið N´Golo Kante var keyptur í stað Cambi­asso, sem fór til Grikk­lands af öllum stöðum til að spila meist­ara­deild­ar­fót­bolta, og hefur verið stór­kost­leg­ur. Jap­an­inn Shinji Okazaki varð dýr­ustu kaup félags­ins í þeim félaga­skipta­glugga þegar hann kom frá Mainz. Aust­ur­rík­is­mað­ur­inn Christ­ian Fuchs kom loks frítt frá Schalke til að leika í vinstri bak­varð­ar­stöð­unn­i. 

Leicester City leikur ekki knatt­spyrnu sem snýst um að halda bolt­anum og byggja upp spil. Liðið byggir sína leik­á­ætlun á því að verj­ast gíf­ur­lega skipu­lega, nýta sér mis­tök and­stæð­inga sinna og refsa þeim hratt. Og með því að skora úr föstum leikatrið­um. Robert Huth leikur lyk­il­hlut­verk í þessu plani. Hann, félagar hans þrír í vörn­inni með þá Drinkwa­ter/­Kante fyrir framan sig og Sch­meichel fyrir aft­an, eru grunn­ur­inn sem hinir hröðu sókn­ar­menn liðs­ins blómstra á. 

Barry Lineker: Fuck­ing brill

Gary Lineker í búningi Leicester.Það er ljóst að kapp­hlaupið að enska titl­inum er nú á milli tveggja liða, Leicester City og Totten­ham. Of langt er í liðin fyrir neðan til að þau eigi mögu­leika úr þessu. Og það er eitt­hvað ótrú­lega magnað við þá stöðu, líkt og Gary Lineker skrif­aði um í pistli sem birt­ist á The Guar­dian á sunnu­dag, og var óvænt stór­skemmti­leg­ur. 

Lineker er fæddur og upp­al­inn í Leicester og harður stuðn­ings­maður liðs­ins. Hann sá liðið tapa í bik­ar­úr­slitum árið 1969 þegar hann var átta ára og grét alla leið­ina heim. Pabbi hans, afi og þrír synir eru, eða voru, allir eld­heitir stuðn­ings­menn. Lineker bjarg­aði meira að segja lið­inu frá greiðslu­þroti fyrir nokkrum árum ásamt nokkrum stuðn­ings­mönnum og vinum sem höfðu sterkar taugar til félags­ins. En hann segir í pistl­inum að ekk­ert sem hafi gerst fyrir hann í knatt­spyrnu – og Lineker hefur orðið marka­hæstur á heims­meist­ara­móti – sé hægt að bera saman við það sem nú er að ger­ast hjá Leicester City. „Hlutir eins og þessir ger­ast ein­fald­lega ekki fyrir félög eins og mitt,“ segir Lineker og seg­ist aldrei hafa óskað neins jafn heitt og að Leicester haldi dampi og vinni tit­il­inn. Hann segir að til­finn­ingin sem knatt­spyrnu­á­huga­menn út um allan heim fái vegna þessa - að litla óspenn­andi liðið sem allir héldu að myndu falla en eru nú að vinna – megi lýsa með tísti sem pabbi hans, Barry Lineker, setti inn í febr­ú­ar:

Lineker telur upp allt það sem hefur gengið upp hjá Leicester til að vera í þeirri stöðu sem þeir eru. Alla leik­menn­ina sem hafa lagt sitt að mörkum og blómstrað umfram allar vænt­ing­ar. En að hans mati er undra­verð­asti hluti liðs­ins vörn­in. Sam­an­safn knatt­spyrnu­legra far­ands­verka­manna (e. jour­ney­men) sem hafi náð sam­an, náð að tengj­ast og búa til hug­ar­far Gandálfs sem útlegst svona: Þú skalt ekki kom­ast fram­hjá okkur (e. thou shalt not pass).

Þar leikur þýska tröllið Robert Huth, sem umbreytti Leicester City úr léleg­asta liði ensku úrvalds­deild­ar­innar í það besta, algjört lyk­il­hlut­verk.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar