Elítan gegn kröfu kjósenda um breytingar
Óvinsælasti frambjóðandinn fær mesta umfjöllun og flest atkvæði í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Hvernig stendur á þessu og hvað hyggist flokksforystan gera? Bryndís Ísfold skrifar frá New York um forval stóru flokkanna.
Það er ekki eitt, heldur flestallt sem er óvenjulegt við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Í vikunni sem leið kom í ljós að auðkýfingurinn Donald Trump, sem slegið hefur öll met í óvinsældum hjá kjósendum í Bandaríkjunum, heldur þrátt fyrir það áfram sigurgöngu sinni, ótrauður í að næla sér í útnefningu repúblikana, ríki eftir ríki.
Á sama tíma birtir stuðningshópur teboðsleiðtogans Ted Cruz, sem þykir nú það næsta sem kemst norminu hjá repúblikönum, djarfar myndir af eiginkonu Trump fáklæddri í hjarta íhaldssins, Utah, undir fyrirsögninni „Er þetta næsta forsetfrú Bandaríkjanna?“. Á sama tíma arkar Hillary Clinton á sviðið hjá stærstu og áhrifamestu samtökum ísraelskra lobbýista í landinu og lýsir því yfir enn einu sinni hvernig Bandaríkin skulu og munu verja Ísraelsríki sama hvað á dynur. Undir þetta taka bæði Trump og Cruz.
Bernie Sanders sem er jafnframt eini gyðingurinn í forsetaframboðshópnum, afþakkaði boðið og fyllti hverja ráðstefnuhöllina á fætur annarri í miðvesturríkjum landsins. Hann sigraði svo þrjú ríki á einum degi og náði að minnka forskot Clinton í forvali demókrata. Krafa kjósenda um breytingar er hávær hjá báðum flokkum en á sama tíma virðist valdaelíta beggja flokka hafa öryggisventla sem þau geta gripið til.
Er Sanders með „comeback“?
Eftir stórsigur Sanders í þremur ríkjum í síðustu viku (Alaska, Washington og Hawaii) virðist enn meiri kraftur hafa færst í framboðið. Eins og staðan er nú hefur hann náð að tryggja sér 975 kjörmenn á móti þeim 1.243 kjörmönnum sem Hillary hefur nælt sér í. Enn á eftir að kjósa um fjölda kjörmanna í stórum ríkjum eins og New York (247 kjörmenn), Pennsylvaníu (189) og Kaliforníu (475). Kannanir sýna að Clinton er enn í sterkari stöðu en Sanders. Myndi hann nú þurfa að ná meirihluta þeirra kjörmanna sem eftir eru í pottinum, þá eru ótaldir þeir 712 ofurkjörmenn – elíta flokksins – sem nær allir hafa lofað Hillary stuðningi sínum eða 469 á móti 29 sem hafa lofað að styðja Sanders. Til þess að tryggja sér útnefninguna þarf 2.383 kjörmenn.
Óvænt atvik geta þó breytt stöðunni. Skemmtilegt myndbrot af óvæntu atviki á kosningafundi Sanders í Portland hefur farið sem eldur í sinu um samfélagsmiðla. Þar stóð hann í stórum sal og var í miðri ræðu þegar lítill fugl settist á ræðupúltið hjá honum. Sanders brást við með því að segja að þessi litli fugl væri hvatning um að tryggja heimsfrið. Atvikið er án efa ein allra besta stuðningsyfirlýsing sem Sanders gat óskað sér og svona leikur enginn auglýsingabrellumaður eftir. Stuðningsmenn Sanders voru fljótir að setja frambjóðandan í búning smáfuglsins og rauk mynd af honum í líki fuglsins um alla króka og kima veraldarvefsins í kjölfarið. Ólíklegt er að stuðningsyfirlýsing smáfuglsins muni hafa afgerandi áhrif þó skemmtigildið hafi verið ótvírætt.
Þrátt fyrir þetta ævintýrilega atvik þarf Sanders að tryggja sér um tvo þriðju atkvæða sem eru eftir til að ná að hafa útnefninguna af Hillary Clinton. Hann gæti einnig reynt að leggjast í vegferð að snúa elítu flokksins. Þó það sé fræðilega hægt þá eru fáir sem skipta um skoðun þegar svona langt er liðið á forvalið. Þetta er ekki útilokað en yrði að teljast hálfgert kraftaverk.
Trump heldur sínu forskoti
Ted Cruz sigraði kjörfund repúblikana í Utah með 69 prósent atkvæða og hefur nú tryggt sér 463 kjörmenn. Trump, sem sigraði Arizona í síðustu viku með 47 prósent atkvæða, hefur tryggt sér 738 kjörmenn, John Kasich er með 143 kjörmenn og hefur ekki fræðilegan möguleika á að fá útnefninguna. Mikið er rætt um þann möguleika að á flokksþingi repúblikana verði þinginu breytt í svokallað „Brokered Convention“ sem þýðir að ef enginn frambjóðandi hefur tryggt sér meirihluta kjörmanna eða að lágmarki 1.237, þá getur fundurinn hafið flókið ferli sem snýst um að ríkin beri fram atkvæði sín eftir reglum hvers ríkis og kosið er þar til einhver frambjóðandi fær minnst 51 prósent atkvæða. Þetta ferli getur orðið langt og er óvíst hvort það myndi breyta niðurstöðunni ef Trump er mjög nálægt lágmarkinu sem hann þarf til að tryggja sér útnefninguna.
Kannanir benda til þess að Trump sé nokkuð öruggur með að verða sér út um þá kjörmenn sem að venju þarf til að tryggja sér útnefningu flokksins með formlegum hætti á landsfundi flokksins. Það er nú orðið nánast daglegur viðburður að fréttir berast af mótmælendum sem mæta á framboðsfundi Trump sé mætt með rasískum hrópum og köllum og þeir jafnvel beittir ofbeldi af stuðningsmönnum Trump. Lýsingar af viðburðum Trump vekja mikinn óhug meðal margra almenna borgara sem almennt státa sig af fjölbreytileika Bandaríkjanna en viðbrögð sumra stuðningsmanna Trump bera merki um rasíska tilburði og mikla heift gagnvart innflytjendum.
Það er í takt við þetta sem kannanir sýna að almennir kjósendur hafa mikla óbeit á Trump á sama tíma og hann rakar inn atkvæðum í forvali repúblikana. Elstu menn segjast ekki muna eftir jafn óvinsælum stjórnmálamanni og Trump. Könnun Gallup sýnir að 63 prósent kjósenda segja hann ekki vera þeirra val (e. unfavorable), á meðan 30 prósent segjast kunna vel við hann (e. favorable). Hillary Clinton er einnig mjög óvinsæl meðal almennra kjósenda en 53 prósent kjósenda segjast ekki líka við hana (e. unfavorable) en 41 prósent líkar við hana.
Villtra Vestrið hjá Repúblikönum
Önnur grein stjórnarskrár Bandaríkjanna er margumrædd í stjórnmálum en hún tryggir að öllum sé heimilt að bera vopn. (e. A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed.) Þessi litla klausa hefur orðið til þess að í mörgum ríkjum má ganga með vopn um allar götur og jafnvel í opinberum byggingum. Ár hvert deyja meira en 30.000 manns í Bandaríkjunum eftir að hafa verið skotnir með byssu. Þess vegna hefur verið mikill þrýstingur á stjórnmálamenn að takmarka þetta „frelsisákvæði“ í stjórnaskránni með því að krefjast þess að fólk þurfi að fá metið hvort það sé hæft til þess að eiga skotvopn. Í þeim ríkjum þar sem lögum hefur verið breytt í þessa veru er helst skoðaður bakgrunnur fólks, með tilliti til þess hvort þau hafi gerst sek um glæpi eða séu með geðraskanir sem gætu sett þau eða aðra í hættu, ættu þau vopn.
Flestir repúblikanar eru alfarið á móti þessu og nú stefnir í mikil átök á landsfundi flokksins sem haldinn verður í Cleveland dagana 18. til 21. júlí næstkomandi. Þar er mögulegt að flokkselítan muni láta kjósa á staðnum þeirra fulltrúa til að freista þess að koma í veg fyrir að Donald Trump verði frambjóðandi þeirra. Einhver hefur lagt til að flokksmönnum verði heimilt að bera vopn á flokksfundinum. Safnast hafa yfir fjörtíu þúsund undirskriftir þessu til stuðnings en leiða má líkur að því að um hrekk sé að ræða. Haldi undirskriftalistinn áfram að stækka verður áhugavert að heyra og sjá hvernig byssuglöðu forsetaframbjóðendurnir repúblikanamegin bregðast við.
En það var í þessum anda sem vikan leið, Donald Trump og Ted Cruz notuðu Twitter til að slá sjálfa sig til riddara á sama tíma og þeir notuðu konur hvers annars sem vopn í sínum eigin sandkassaleik. Leikar hófust, eins og áður sagði, þegar stuðningshópur Cruz (e. PAC) birti djarfa mynd úr GQ-tímaritinu af Melaniu Trump, en hún hefur, eins og þekkt er, starfað lengi sem fyrirsæta. Myndirnar sína Melaniu fáklædda og voru þessar myndir nýttar í auglýsingar í Utah þar sem afar íhaldssamir kjósendur búa, undir yfirskriftinni, „Er þetta næsta forsetafrú Bandaríkjanna?“. Trump brást hinn versti við og tvítaði að hann myndi segja frá öllu (e. Spill the beans) um eiginkonu Cruz. Þetta leikrit varð eins fáránlegt og hugsast getur.
Krafan um breytingar
Umræða sérfræðinga hér vestanhafs er með einkennilegum hætti þessa dagana. Á sama tíma og fjölmiðlamenn saka sjálfa sig um að hafa leyft Trump að stýra algjörlega umræðunni segja aðrir að þrátt fyrir harða gagnrýni sem Trump hefur þurft að þola frá stærstu fjölmiðlunum og stöðugar ábendingar um rangfærslur hans og lygar, hafi kjósendur hans ákveðið að það skipti ekki máli í vali sínu á frambjóðanda.
Hver svo sem ástæðan er má vera ljóst að stór hluti kjósenda á sér þá ósk heitasta að hin svokallaða elíta í Washington fái ekki að ráða hver verði næsti forseti. Á báðum vængjum stjórnmálanna eru þeir Sanders og Trump að draga að stjórnmálunum fjölda fólks sem hafði gefið upp alla von og sér nú fyrir sér miklar breytingar; þar sem stjórnmál fara að snúast um hluti sem varðar það sjálft. Hægt er að merkja þennan ákafa og von um breytingar með því að skoða þann fjölda sem mætir til að sjá bæði Sanders og Trump á framboðsfundum. Báðir fylla risastórar ráðstefnuhallir á meðan bæði Cruz og Clinton láta sér næga minni sali og fámennari samkomur. Velgengni Sanders þar sem kosið er með kjörfundaleiðinni (e. caucus), þar sem allir geta haldið ræðu og gengur að hluta út á að sannfæra óákveðna kjósendur á staðnum, sýnir að hans kjósendur eru tilbúnir að leggja mikið á sig.
Verði hins vegar niðurstaðan sú, eins og flest bendir til, að Hillary Clinton fái útnefninguna í krafti öryggisventis í kosningareglum demókrata með ofurkjörmönnum elítunnar, og að flokksráðstefna Repúblikana grípi til síns öryggisventis og komi í veg fyrir að Trump verði þeirra forsetaframbjóðandi, má búast við að upp úr sjóði í samfélaginu. Þó þeir Sanders og Trump séu að mörgu leiti afar ólíkir í fasi og skoðunum eru kjósendur þeirra að sumu leiti líkir og kannanir hafa sýnt að hluti kjósenda þeirra myndu snúa sér að hinum ef þeirra maður tapaði útnefningunni. En krafan um að elítan fái ekki að stjórna hvern flokkarnir velja sem forsetaframbjóðanda og að hagsmunir fólksins fái að ráða í Washington er sú sem tengir hópana mest. Sú krafa hefur gersamlega sett hefðbundna forskrift forsetaframboða úr skorðum og færustu spekúlantar í kosningafræðum hér vestra vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Það er því ljóst að landslagið í forsetakosningum í Bandaríkjunum er að taka miklum breytingum, óháð því hvort sem þessi háværi hópur sem kallar á breytingar fái sinn frambjóðenda í Hvíta húsið eða ekki.