Áætlun um losun hafta hefur misst allan trúverðugleika
Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar segir að ein helsta ástæðan fyrir nauðsyn hennar sé að klára þurfi haftalosun. En áætlun um losun hafta er í vanda vegna aðgerða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, bæði innanlands sem erlendis.
Stærsta mál undanfarinna ára hefur verið endurreisn íslenska efnahagskerfisins. Lokahnykkur þeirrar vinnu, sem staðið hefur nær linnulítið yfir frá bankahruni, er framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta í kjölfar þess að lausn fékkst varðandi slitabú Landsbankans, Kaupþings og Glitnis. Sú lausn fól í sér að slitabúin myndu greiða stöðugleikaframlag í stað 39 prósent stöðugleikaskatts og hefur víða hlotið lof. Seðlabankinn fullyrðir að lausnin ógni ekki greiðslujafnvægi íslenska hagkerfisins og að staða íslenska þjóðarbúsins hafi ekki verið betri en í kjölfar hennar síðan á Síldarárunum. Matsfyrirtækin umdeildu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa ausið lofi á niðurstöðuna og nokkuð góð þverpólitísk sátt hefur verið um að veita henni brautargengi.
Þótt slitabúin séu byrjuð að greiða út til kröfuhafa þá er enn eftir lokahnykkur áætlunar stjórnvalda. Það á eftir að halda aflandskrónuútboð, koma í gegn ýmsum lagabreytingum og auðvitað losa um höft fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi svo þeir geti tekið þátt í alþjóðavæddum heimi án milligöngu Seðlabanka Íslands.
Þessi lokahnykkur er orðin að helstu röksemdarfærslu nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Sigurðar Inga jóhannssonar um að hún verði að sitja fram á haust. Nauðsynlegt sé að hún hnýti lausa enda fyrir losun haftanna og hrindi málinu í framkvæmd áður en að ný stjórn verði kosin. Það sé nauðsynlegt fyrir trúverðugleika áætlunarinnar.
Vandamálið við þessa röksemdarfærslu er að áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta hefur misst allan trúverðugleika. Jafnt innanlands sem utan. Og samkvæmt fundi sem fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins héldu með InDefence-hópnum á miðvikudag þá munu höft á almenning og fyrirtæki alls ekkert verða losuð að neinu marki á næstunni, að þeirra mati.
Stærsta ástæðan þess er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var lykilmaður í mótun og framkvæmd áætlunar
um losun hafta og samningunum sem náð var við kröfuhafa. Á undanförnum vikum
hefur hins vegar verið opinberað að félag í eigu eiginkonu hans er kröfuhafi.
Það á kröfur upp á 523 milljónir króna vegna skuldabréfa sem það átti á
Landsbankann, Kaupþing og Glitni. Félagið, sem heitir Wintris og er skráð til
heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, lýsti kröfum í bú bankanna síðla árs 2009.
Þegar það var gert átti Sigmundur Davíð sjálfur helmingshlut í félaginu.
Forsætisráðherrann sat því beggja vegna borðsins. Félag eiginkonu hans átti
ríka fjárhagslega hagsmuni undir í þeirri niðurstöðu sem yrði í málinu. Og á
endanum er ljóst að það hagnaðist af því að stöðugleikaframlagsleiðin var farin
frekar en álagning stöðugleikaskatts. Hagsmunaárekstrarnir eru eins augljósir
og þeir verða.
Kjarninn kallaði eftir upplýsingum um erlendar eignir allra íslenskra ráðherra 15. mars 2015. Ástæðan var meðal annars sú að kanna hvort einhverjir þeirra gætu átt fjárhagslega hagsmuni af því hvernig uppgjör slitabúanna, sem þá blasti við að var framundan, yrði. Engin svör fengust við fyrirspurninni né þegar hún var ítrekuð.
En svörin byrjuðu að berast 15. mars 2016, nákvæmlega einu ári eftir að fyrsta fyrirspurn Kjarnans var send, þegar Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, setti fræga stöðuuppfærslu á Facebook til að þagga niður í „Gróu á leiti“. Gróa reyndist vera sænski rannsóknarblaðamaðurinn Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media sem höfðu tekið viðtal við forsætisráðherrann fjórum dögum áður og spurt hann út í eign hans á aflandsfélaginu Wintris.Sigmundur Davíð laug í tilsvörum og rauk á endanum út úr viðtalinu. Stöðuuppfærsla Önnu Sigurlaugar var því fyrsta skrefið í varnartaktík Sigmundar Davíðs vegna þess sem var yfirvofandi. Sunnudaginn 3. apríl var hann svo afhjúpaður og innan við 50 klukkustundum síðar hafði Sigmundur Davíð tilkynnt um afsögn sína.
Stórum spurningum ósvarað
Málinu er hins vegar fjarri lokið. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar Sigmundar Davíðs um að skattskil Wintris hafi verið í lagi þá hafa ekki verið lögð fram nein skjöl sem sýna raunverulega fram á það. Hann hefur auk þess neitað að svara því hvort að þau hjónin hafi skilað svokölluðu CFC-framtali með skattskýrslum sínum líkt og lög gera ráð fyrir.
Þá á enn eftir að rannsaka alla aðkomu Sigmundar Davíðs að mótun og framkvæmd áætlunar um losun hafta. Það á eftir að fara í gegnum allar ákvarðanir sem hann kom að í ferlinu og kanna hvort einhver þeirra hafi verið þess eðlis að Wintris hafi getað hagnast á þeim.
Það á eftir að svara spurningum um hvernig forsætisráðherrahjónin fyrrverandi eignuðust kröfu á slitabú föllnu bankanna. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, hefur sagt við Kjarnann að það sé vegna kaupa á skuldabréfum á bankana fyrir hrun. Engar dagsetningar hafa hins vegar verið gefnar út í þeim efnum og ekki er hægt að staðfesta þessar fullyrðingar í ársreikningum Wintris. Þeir eru ekki til.
Sérfræðingar sem Kjarninn hefur rætt við hafa líka sett mikið spurningamerki við þessar skýringar. Afar óvenjulegt, og nær óheyrt, sé að einstaklingar hafi verið að taka svona stórar stöður í skuldabréfum íslensku bankanna á síðustu mánuðunum fyrir hrun. Auk þess hafi það fyrst og fremst verið stórir fagfjárfestar, fjármálafyrirtæki, fjárfestinga- eða vogunarsjóðir og lífeyrissjóðir, sem tóku þátt í skuldabréfaútboðum íslensku bankanna.
Þá vekur það athygli að fjárfestirinn Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs, hagaði fjárfestingum sínum með allt öðrum hætti en þeim sem Wintris gerði fyrir hrun. Félagið Teton, sem var í eigu Gunnlaugs, Vilhjálms Þorsteinssonar og Arnar Karlssonar, sérhæfði sig meðal annars í gnóttar- og skortstöðum og hagnaðist um 1.150 milljónir króna á hrunárinu 2008, samkvæmt fréttum sem birtust í DV. Augljóst var að sá hagnaður var ekki tilkominn vegna kaupa á þá verðlitlum skuldabréfum á fallna banka.
Með opinberun á stöðu Sigmundar Davíðs eru allir aðrir sem komu að mótun og framkvæmd áætlunar hafta orðnir ótrúverðugir einnig, að minnsta kosti þar til að þeir hafa sýnt fram á að þeir hafi ekki haft neina fjárhagslega hagsmuni af málinu. Í frægum Kastljósþætti um aflandsfélagaeign íslenskra ráðamanna var til að mynda greint frá því að sá sem sá um Wintris fyrir hjónin var Sigurður Atli Jónsson, sem er giftur systur Sigmundar Davíðs.
Sigurður Atli er í dag forstjóri Kviku, banka sem varð til við sameiningu MP banka og Straums í fyrra. Margir lykilmenn í framkvæmdahópi um losun hafta, komu úr þeim banka. Þar má nefna Sigurð Hannesson, sem einnig er trúnaðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Benedikt Gíslason og Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason.
Upplýsa þarf, með framlagningu gagna, hvort að MP banki, Straumur og síðar Kvika, og allir þessir einstaklingar hafi haft einhverja fjáhagslega hagsmuni af þeirri leið sem farið var við losun hafta. Sömu sögu er að segja að öllum sérfræðingum Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins sem að vinnunni komu. Og stjórnmálamennirnir sem fremstir hafa farið í málinu þurfa auðvitað að gera þetta líka.
Þar ber helst að nefna Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann þarf að sýna fram á að hann persónulega og þeir ættingjar hans sem eru umsvifamiklir í viðskiptum hafi ekki beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðunni.
Þetta er óvenjuleg krafa, en það eru óvenjulegir tímar. Traust á stofnanir samfélagsins og stjórnmálamenn þess er ekkert.
Þess utan er einn mikilvægasti þátturinn í því að hægt verður að ráðast í síðustu skref haftalosunaráætlunarinnar að Ísland hafi trúverðugleika á alþjóðavettvangi. Að pólitískur stöðugleiki ríki. Sú staða er ekki uppi. Ný ríkisstjórn nýtur stuðnings og trausts 26 prósent þjóðarinnar. Aldrei í lýðveldissögunni hefur stjórn sest að völdum jafn veik og löskuð og sú sem tók við á fimmtudag. Íslendingar hafa lengi stært sig af því að helsta landkynning okkar sé fólgin í jákvæðu umtali um náttúru og frábæra listamenn okkar. Nú er Sigmundur Davíð það sem vekur helst athygli á landinu, líkt og sést á grafinu hér að neðan.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa rauk til að mynda upp í byrjun viku og erlendir fjárfestar halda að sér höndum, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá því á fimmtudag. Þar er einnig haft eftir Þorsteini Víglundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að pólitískur óstöðugleiki valdi efnahagslífinu miklu tjóni. Greiningaraðilar sem Kjarninn hefur rætt við segja að krónan gæti fallið hratt ef skref í átt að losun hafta eru stigin við þessar aðstæður.