#wintris #Stjórnmál

Pizzaríkisstjórnin mun róa lífróður næstu daga

Atburðarás síðustu daga hefur verið farsakennd. Traust á stjórnmálamenn og stofnanir er horfið. Aðstæðurnar minna um margt á stöðuna í janúar 2009. Þá sprakk sterk ríkisstjórn þremur dögum eftir að hafa boðað kosningar.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson kynna nýja ríkisstjórn, skömmu eftir að Höskuldur Þórhallsson hafði óvart gert það.
Mynd: Birgir Þór Harðasson

Það má slá því nokkuð föstu að ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar mun róa mikinn lífróður næstu daga. Alls ekkert er víst að hún muni verða langlíf. Það mun ráðast á allra næstu dögum hvort hún geti haldið, líkt og lagt er upp með, fram á haust þegar kjósa á. Sú atburðarás sem átt hefur sér stað á síðan að opinberað var að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi tengst aflandsfélögum er best lýst sem leikhúsi fáránleikans. Hver farsakenndi atburðurinn hefur rekið annan, og líklega náði ferlið hámarki sínu í í fyrradag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákvað að stíga til hliðar síðdegis, nokkrum klukkutímum áður en að aðstoðarmenn hans sendu í besta falli klaufalega tilkynningu á erlenda miðla – en afsögn Sigmundar Davíðs var og er heimsfrétt - þar sem þeir tiltóku sérstaklega að Sigmundur Davíð væri að stíga til hliðar tímabundið.

Sú atburðarás sem boðið var upp á í gærkvöldi, þegar ný ríkisstjórn var mynduð í hraði og kynnt í stiganum á Alþingi, gaf þriðjudeginum þó lítið eftir.

Pizzur og ný ríkisstjórn tilkynnt óvart

Raunar var atburðarásin í gærkvöldi með miklum ólíkindum. Hún dróst á langinn umfram það sem tilkynnt hafði verið og fréttamenn, innlendir og erlendir, biðu í tómarúmi eftir að þingflokksfundir kláruðust. Einu upplýsingarnar sem bárust út af þeim voru stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum um hvaða álegg væru á þeim pizzum sem pantaðar voru og hverjir hafi verið að borða þær. Mörgum fannst það sýna hversu lítið skynbragð ráðamennirnir hefðu gagnvart alvarleika stöðunnar. Og vegna þess hefur hún verið kölluð pizzaríkisstjórnin.


Sigmundur Davíð kom loks niður og óskaði þjóðinni til hamingju með nýja forsætisráðherrann sinn. Hann sagði þó ekki berum orðum hver það yrði, þótt nokkuð ljóst lægi fyrir að Sigurður Ingi væri að fara að setjast í þann stól. Það gerði hins vegar Höskuldur Þórhallsson.


Hann ræddi lengi við fjölmiðla, greindi þeim frá því hvernig ný ríkisstjórn yrði mönnuð og frá ýmsum öðrum atriðum þess samkomulags sem lá fyrir. Höskuldur virtist hafa haldið að forystumenn nýrrar ríkisstjórnar hefðu þegar rætt við þingmenn. Það höfðu þeir ekki gert. Eins og hann sagði sjálfur á Facebook-síðu sinni í gær: „Það hvarflaði ekki að mér annað en að oddvitarnir væru þegar búnir að svara blaðamönnum um niðurstöðu dagsins.

Þetta var ferlegt - ég viðurkenni það - en svona er þetta - ég ætlaði mér sko aldeilis ekki að vera einhverskonar ”blaðafulltrúi” nýju stjórnarinnar.“

Í kjölfarið komu oddvitarnir niður og komu, að flestra mati sem á horfðu, ekkert sérstaklega vel fyrir. Bjarni var reiður og árásargjarn og Sigurður Ingi virkaði ekki öruggur í því hlutverki sem hann var kominn í. Eftir að hafa rætt við innlenda fréttamenn þá snéru þeir sér að þeim fjölmörgu erlendu sem hér eru vegna ástandsins. Þeir hafa ítrekað lýst yfir furðu sinni á því sem gengið hefur á hérlendis undanfarna daga við kollega sína. Ekki minnkaði furða þeirra við atburði gærdagsins. Einn hinna erlendu blaðamanna spurði Sigurð Inga hvernig hann myndi bregðast við væntanlegu „no confidence vote“. Sigurður Ingi virtist ekki skilja spurninguna.

Þegar rætt er við erlendu blaðamennina sem hér eru staddir og hafa fylgst með atburðarás síðustu daga, og erlendir stórmiðlar eru lesnir, þá liggur fyrir að heimsbyggðin er furðu lostin yfir því sem hér er í gangi. Ísland er athlægi.

Það er öllum ljóst að mikil óeining er innan þingflokka beggja stjórnarflokka með þá leið sem var farin við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Mikilvæg félög í Sjálfstæðisflokksvélinni, t.d. Vörður, höfðu sett sig skýrt á móti því að Framsóknarflokkurinn fengi forsætisráðuneytið. Þá hafði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, komið því skýrt á framfæri á samfélagsmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki búinn að samþykkja Sigurð Inga í starfið.

Eftir að fundi með þingflokknum lauk í gær sögðu þingmenn frá því að ekki hefðu verið greidd atkvæði um hina nýju ríkisstjórn. Um væri að ræða ákvörðun formanns flokksins og hún var tilkynnt þingflokknum. Um hana er alls ekki full sátt.

Framsóknarmegin er staðan enn verri. Samkvæmt heimildum Kjarnans stóð til að Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður og sérstakur trúnaðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, myndi verða ráðherra. Þannig var staðan þegar lykilfólki í Sjálfstæðisflokknum var tilkynnt um samsetningu nýrrar ríkisstjórnar síðdegis í gær. Sú ráðstöfun átti þó enn eftir að fara í gegnum þingflokk Framsóknarflokksins. Þar var þó hart tekist á um bitlingana og völdin.

Höskuldur Þórhallsson, annar þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi á eftir formanninum, gerði kröfu um hann yrði gerður að ráðherra. Fylgi við flokkinn væri enda langmest í hans kjördæmi. Höskuldur hefur verið á hliðarlínunni í flokknum í lengri tíma, og í raun allt frá því að hann tapaði, eftir að hafa unnið í nokkrar mínútur, formannskosningu gegn Sigmundi Davíð snemma árs 2009. Fyrir kosningarnar 2013 jók formaðurinn svo á niðurlægingu Höskuldar með því að færa sig í kjördæmið hans og hirða af honum leiðtogasætið þar. Höskuldur hefur aldrei fengið í sinn hlut nein áhrifamikil embætti í stjórnartíð þessarrar ríkisstjórnar. Þrátt fyrir sterka stöðu í sterkasta kjördæminu hefur hann aldrei komið til greina sem ráðherra og aldrei verið þingflokksformaður. Mestu vegtyllur hans hafa verið formennska í umhverfis- og samgöngunefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs.

Höskuldur var því ekki í miklum vandræðum með að taka ákvörðun um að kjósa gegn tillögu Sigmundar Davíð um að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra. Sú ákvörðun snérist reyndar mun meira um Sigmund Davíð en Sigurð Inga. Höskuldur, og mjög sterkir aðilar innan Framsóknarflokksins sem tilheyra ekki þingflokki hans, eru sagðir þeirrar skoðunar að það gangi ekki að Sigmundur Davíð sitji áfram á þingi sem einhverskonar skuggaforsætisráðherra. Hann verði að víkja af vettvangi stjórnmálanna alveg. Heimildir Kjarnans herma að ráðist verði í aðgerðir til að þrýsta á þá niðurstöðu nú þegar stjórnarskiptum verður lokið. Staða Sigmundar Davíðs í flokknum í dag er, vægast sagt, veik. Sigmundur Davíð virðist hins vegar ekki ætla að víkja frekar og mun án efa, miðað við fyrri starfshætti sína, reyna að hafa eins mikil áhrif á starf ríkisstjórnarinnar og hann kemst upp með úr aftursæti ríkisstjórnarinnar.

Vigdís Hauksdóttir er ósátt með að gengið hafi verið framhjá sér.Vigdís Hauksdóttir, fyrsti þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, var líka ósátt með að ekki væri litið til hennar varðandi ráðherraskipan. Hún hefur ýmislegt til síns máls, enda vann Vigdís stærsta kosningasigur Framsóknarflokksins á mölinni frá upphafi í síðustu kosningum. Hún er hins vegar gríðarlega umdeildur stjórnmálamaður. Líklega er einungis Sigmundur Davíð sjálfur umdeildari í stjórnmálum nútímans. Það hefur því verið litið svo á að það yrði eins og að skvetta olíu á eld að gera Vigdísi að ráðherra.

Niðurstaða kvöldsins varð hins vegar málamiðlunartillaga sem Sigmundur Davíð, hinn afar laskaði fráfarandi forsætisráðherra, lagði fram um að gera einn sinn helsta trúnaðarmann, Lilju Alfreðsdóttur, að utanþingsráðherra. Ásmundur Einar studdi á endanum þá tillögu fremur en að hann sjálfur yrði ráðherra. Ákveðið var að halda leynilega atkvæðagreiðslu um hvort þeirra yrði ráðherra og þar bar Lilja sigur úr býtum.

Lilja, sem er dóttir sjálfs Alfreðs Þorsteinssonar, er hluti af handfylli fólks sem Sigmundur Davíð hefur hleypt nálægt sér í stjórnartíð sinni sem forsætisráðherra. Því líta margir svo á, bæði innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að hún sé nokkurs konar framlenging á formanni flokksins inn í ríkisstjórn. Hans fulltrúi þar inni.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu gaman af svörum Bjarna Benediktssonar í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, virkaði mjög reiður þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir þingflokksfund í gærkvöldi. Út í hvern hann var reiður liggur ekki fyrir. Mögulega var hann reiður út í Framsóknarflokkinn, mögulega eigin þingflokk sem sætti sig ekki að öllu leyti við þær væringar sem hann tilkynnti í gær, og mögulega fjölmiðla, sem fjallað hafa ítarlega um leka á upplýsingum um að hann ætti félag á aflandseyju. En það fór ekki fram hjá neinum að hann var reiður.

Sú reiði birtist meðal annars í hörkulegum svörum um að mótmæli stjórnuðu ekki þessu landi, að það væri stjórnarandstaðan sem væri í „rusli“, að ríkisstjórnarflokkarnir væru með sterkan meirihluta og að skoðanakannanir skiptu engu máli. Nauðsynlegt væri að núverandi ríkisstjórn kláraði sín mál, sérstaklega áætlun um losun hafta, áður en að hægt væri að kjósa.

Sambærileg staða og var í janúar 2009

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslensk stjórnmál eru í stjórnarkreppu eins og þeirri sem nú er uppi. Þvert á móti var sambærileg staða uppi í lok janúar 2009. Þá höfðu fjölmenn mótmæli verið á Austurvelli vikum saman og ný skoðanakönnun hafði sýnt að einungis fjórðungur kjósenda,  25 prósent þeirra, studdi ríkisstjórn Geirs H. Haarde, samansett af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.

Þá gerðist það, 23. janúar 2009, að Geir H. Haarde boðaði til kosninga 9. maí í ljósi þess vantrausts sem var á ríkisstjórnina, tveimur árum áður en kosningar áttu að fara fram. Þessi lausn hélt þó ekki nema í örfáa daga. Eftir áframhaldandi mótmæli gekk Geir á fund forseta Íslands og baðst lausnar þremur dögum síðar, þann 26. janúar 2009.

Staðan sem nú er uppi er að mörgu leyti svipuð og þá. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nánast sá sami, en hann er nú 26 prósent samkvæmt nýrri könnun MMR. Þá sat líka ríkisstjórn með gríðarlega  sterkan þingmeirihluta, raunar mun sterkari en sú sem nú situr, enda var sameiginlegur þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir kosningarnar 2007 43. Sú ríkisstjórn hafði því fimm þingmönnum fleiri en sú sem nú situr.

Mótmælin á Austurvelli á mánudag voru þau fjölmennustu sem farið hafa fram á Íslandi.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þótt forsvarsmenn nýrrar ríkisstjórnar hafi verið kokhraustir og ákveðnir í gær og í dag um að halda ótrauðir áfram þá er ljóst að þeirra bíður mikil brekka. Traust á allar helstu stofnanir samfélagsins, og sérstaklega stjórnmálin, hrundi í kjölfar atburðanna haustið 2008. Það traust hefur lítið lagast. Atburðir síðustu daga hafa fært það traust nálægt botni.

Það fékkst staðfest í ýmsum könnunum sem birtar voru í gær, og voru gerðar á mánudag og þriðjudag. Könnun MMR sýndi að stuðningur við ríkisstjórnina væri kominn niður í 26 prósent og samanlagt fylgi þeirra væri rétt rúmlega 30 prósent. Þar kom einnig fram að 81 prósent landsmanna treysti Sigmundi Davíð ekki og 60,6 prósent treysti ekki Bjarna Benediktssyni.

Í könnun Félagsvísindastofnunar kom fram að 78 prósent landsmanna vildi að Sigmundur Davíð segði af sér embætti en 60 prósent töldu að Bjarni ætti að gera það. Þar var einnig spurt hvort umfjöllun Kastljóss síðastliðinn sunnudag hefði dregið úr trausti gagnavart ríkisstjórninni, Alþingi og stjórnmálum almennt. Svarið var yfignæfandi já. 70 prósent misstu traust gagnvart ríkisstjórninni, 63 prósent gagnvart Alþingi og 67 prósent gagnvart stjórnmála almennt.

Almenningi fannst framsetningin fagleg

Það eru ekki eru allir á einu máli um að framsetning Kastljósþáttarins á sunnudag hafi verið sanngjörn. Eða réttara er að segja að ýmsir innan Sjálfstæðisflokksins, meðal annars þingflokks hans, og í ritstjórnarstólum valinna fjölmiðla (Morgunblaðinu og DV) séu þeirrar skoðunar að forsætisráðherra hafi verið leiddur í gildru. Þá hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og fyrrum áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins, farið mikinn á samfélagsmiðlum boðandi þá söguskýringu að umfjöllunin hafi verið vilhöll. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, skrifaði grein í Morgunblaðið í morgun með fyrirsögninni „Aðför“. Þar segir hann að hlutur fréttamanna í málinu sé ófagur. „Það er augljóst að öll uppsetning málsins var hönnuð til að koma höggi á ráðherrann. [...]Ætlunarverkið tókst. Ráðherrann er farinn frá. Fréttamennirnir sem stóðu fyrir þessari uppsetningu leggja gjarnan áherslu á að menn segi satt. Hvað um þá sjálfa? Mega þeir skrökva sig inn á menn til að koma á þá spurningum um atburði sjö ár aftur í tímann án þess að gefa þeim kost á að rifja slíka gamla atburði upp áður en svarað er?“

Ljóst er á niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar að almenningur deilir ekki þessum skoðunum. Þar var spurt um hvort fólk hefði horft á umfjöllun Kastljós um aflandsfélög tengd ráðamönnum síðastliðinn sunnudag. 64 prósent aðspurðra sögðu að þeir hefðu séð þáttinn allan og 19 prósent að þeir hefðu séð hann að hluta. Það þýðir að einungis 16 prósent sá ekki þáttinn. Yfirgnæfandi meirihluti aðspurðra, 78 prósent, sögðu að þeim hafi þótt umfjöllunin mjög eða frekar fagleg. Einungis 14 prósent sögðu að þeim hafi þótt hún ófagleg.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar