Mynd: EPA

Fjármunum ráðstafað frá Panama til Íslands

Eignarhald og fjármögnun á Sports Direct á Íslandi er að hluta til tengt Guru Invest í Panama. Eigandi þess félags er Ingibjörg Pálmadóttir. Félag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Panama lánaði Þú Blásól 1,1 milljón evra.

skrifar úr Panamaskjölunum
skrifar úr Panamaskjölunum

Rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi er í eigu félags í Lúxemborg sem heitir Rhapshody Investments (Europe) Luxemborg. Það félag er meðal annars í eigu Guru Invest sem skráð er til heimilis í Panama og er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Það félag er í umsjón panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Upplýsingar um stofnun móðurfélags Sports Direct á Íslandi koma fram í gögnum frá Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim.

Þar má sömuleiðis finna upplýsingar um félagið Jovita Inc. í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það félag lánaði íslensku félagi í eigu Jóns Ásgeirs, Þú Blásól, 1,1 milljón evra nokkrum vikum fyrir hrun.

Því sýna Panamaskjölin fram á ráðstöfun fjármuna sem geymdir hafa verið á bankareikningum félaga Ingibjargar og Jóns Ásgeirs í Panama til íslenskra félaga.

Á árinu 2012 opnaði íþróttavöruverslunin Sports Direct verslun á Íslandi. Tilkynnt var formlega um opnunina í maímánuði það sama ár. Sá sem stýrt hefur fyrirtækinu og komið fram fyrir hönd þess á Íslandi er Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, sonur Ingibjargar Pálmadóttur.

Eignarhald á félaginu utan um rekstur Sports Direct á Íslandi, sem heitir NDS ehf., er í höndum félags skráð í Lúxemborg sem heitir Rhapsody Investments (Europe) Luxemborg. Í Panamaskjölunum er að finna upplýsingar um hvernig stofnað var til félagsins, hverjir eigendur þess eru og hversu mikið fé var lagt til rekstursins.

Lánasamningur milli Guru Invest og Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar.Þar má meðal annars finna lánasamning frá því í maí 2012 milli Guru Invest, félags skráð í Panama í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og Sigurður Pálma sonar hennar um lánveitingu til hans upp á 115 þúsund pund til að fjármagna hans hlut í stofnun Rhapsody. Guru Invest tekur hins vegar veð í hlut hans fyrir endurgreiðslu lánsins.

Í ágúst sama ár er félagið svo sett á laggirnar. Í tölvupóstum sem starfsmenn frá fjármálaþjónustufyrirtækinu SGG Group sendu Jeff Blue, samstarfsmanni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna stofnunar félagsins kemur skýrt fram að Mike Ashley eigi að koma að stofnun félagsins. Í pósti frá þeim er um vegabréfanúmer Ashley svo hægt sé að gera hann að eiganda auk staðfestingar á heimilisfangi hans.Tölvupóstarnir eru hluti af Panamaskjölunum.

Þar er einnig að finna hluthafasamkomulag vegna Rhapsody sem gert var á milli allra væntanlegra eigenda félagsins. Þar segir að eignaskipting, eftir að hlutafé verði greitt inn, verði með þeim hætti að SportsDirect.com Retail Ltd. (fyrirtæki Mike Ashley), muni eiga 25 prósent hlut, Guru Invest (félag Ingibjargar í Panama) eigi 27 prósent, Sigurður Pálmi eigi 33 prósent og Jeff Blue 15 prósent. Afrit af póstum vegna gerðar hluthafasamkomulagsins voru send til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Jón Ásgeir er ekki alls ókunnungur Panama og viðskiptum við Mossack Fonseca. Árið 2007 stofnaði hann félag þar sem hlaut nafnvið Jovita Inc. Í lok ágúst 2008, nokkrum vikum fyrir bankahrun, lánaði Jovita Inc. íslenska félaginu Þú Blásól 1,1 milljón evra, rúmlega 150 milljónir króna á núvirði. Í lánasamningi milli félagsins og Þú Blásólar kom fram að hann ætti að gilda frá 18. október 2007. Engar skýringar voru gefnar á því af hverju Mossack Fonseca ætti að dagsetja hann næstum heilt ár aftur í tímann. Lánið var til þriggja ára og átti því að endurgreiðast í október 2010. Jón Ásgeir var einnig eigandi Þú Blásólar. Örfáum vikum eftir að lánið var veitt hrundi íslenska bankakerfið.

Þú Blásól var úrskurðað gjaldþrota 20. maí í fyrra. Lýstar kröfur í búið námu rúmum 102 milljónum króna, en engar eignir fundust í því. Ljóst er að Jovita hefur því ekki lýst ofangreiddu láni sem kröfu í búið.

Lánasamningur milli Jovita og Þú Blásólar sem gerður var skömmu fyrir hrun.Þú Blásól hefur verið nokkuð í fréttum á undanförnum árum. Það kom meðal annars fyrir í ákæruskjali í Aurum málinu svokallaða, sem hefur verið til meðferðar í dómskerfinu frá því að ákært var í desember 2012. Til stóð að aðalmeðferð í málinu færi fram að nýju fyrir héraðsdómi í þessum mánuði en það hefur frestast vegna matsbeiðni. Jón Ásgeir er einn þeirra sem ákærður er í málinu.

Í ákærunni í Aurum-málinu var greint frá því að Glitnir hefði lánað eignarlausu félagi, FS38 ehf., sex milljarða króna þann 21. júlí 2008. Tveir milljarðar króna af lánsfjárhæðinni fóru beint inn á reikning Fons, félags sem Pálmi Haraldsson átti í og stýrði. Þaðan átti einn milljarður króna að fara inn á reikning Þú Blásólar og notast m.a. til að kaupa hlut í Formúlu 1 kappakstursliðinu Williams. Þegar Aurum-málið var fyrir héraðsdómi í fyrra skiptið sagði Jón Ásgeir að peningarnir hafi fyrir mistök verið millifærðir inn á einkareikning hans og nýttust þannig fyrir slysni til að greiða niður rúmlega 700 milljóna króna yfirdrátt sem hann var með hjá bankanum. Þú Blásól átti reyndar ekki bankareikning á þessum tíma, samkvæmt því sem fram kom í dómsal vegna málsins, og því erfitt að millifæra inn á félagið.

Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None