Umfjöllun Kjarnans

Stærsti gagnaleki sögunnar

Panamaskjölin eru stærsti gagnaleki sögunnar. Þar má finna upplýsingar úr gagnasafni lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca í Panama. Meðal þeirra sem keyptu þjónustu þaðan var fólk úr viðskiptalífinu á Íslandi auk stjórnmálaleiðtoga víðsvegar um heiminn.

Kjarn­inn hefur fengið aðgang að völdum gögnum úr stærsta gagna­leka sög­unn­ar, Panama­skjöl­unum svoköll­uðu. Þýska blaðið Südd­eutsche Zeit­ung komst yfir gögn­in, sem eru frá panömsku lög­fræði­stof­unni Mossack Fon­seca, og deildi með alþjóð­legum sam­tökum rann­sókn­ar­blaða­manna, ICIJ, Reykja­vík Media og 109 öðrum fjöl­miðlum víðs­vegar um heim. Um er að ræða 11,5 millj­ónir skjala upp á tæp þrjú tera­bæti.

Kjarn­inn hefur nú hafið birt­ingu frétta og frétta­skýr­inga úr gögn­unum í sam­starfi við Reykja­vík Media. Upp­lýs­ingar í gögn­unum teygja anga sína víða. Þar má meðal ann­ars finna vís­bend­ingar um hvar efna­mikið fólk hefur komið pen­ingum sínum fyrir í þekktum skatta­skjólum víðs­vegar um heim og hvernig það hefur falið marg­vís­lega lög­fræði­lega gjörn­inga.

Fyrstu frétt­irnar úr gögn­unum voru fluttar sunnu­dag­inn 3. apríl og sam­hliða því var sýndur Kast­ljós­þáttur á RÚV þar sem sagt var frá tengslum íslenskra stjórn­mála­leið­toga við aflands­fé­lög. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, var gerður að aðal­at­riði í umfjöllun fjöl­miðla um allan heim um Panama­skjöl­in. Hann sagði af sér í kjöl­far­ið.

Aldrei stærri leki

Lek­inn frá lög­fræði­stof­unni Mossack Fon­seca er lang stærsti gagna­leki sög­unn­ar. Sam­tals telur stærð hans 2,6 tera­bæti. Þar eru til dæmis meira en 4,8 milljón tölvu­póstar, þrjár millj­ónir gagna­safns­skjala og 2,1 milljón PDF-skjöl. Til að setja þennan leka í sam­hengi við annan stóran gagna­leka má nefna leka Wiki­leaks úr banda­ríska utan­rík­is­ráðu­neyt­inu árið 2010. Sam­an­lögð stærð gagn­anna þaðan var 1,7 gíga­bæti. Í einu tera­bæti eru 1.000 gíga­bæti.

Gögnin ná nærri 40 ár aftur í tíman og sýna vel vöxt Mossack Fon­seca fram til árs­ins 2008 og hnignun þess á und­an­förnum árum. Þar má finna upp­lýs­ingar um 210.000 aflands­fé­lög sem stofnuð hafa verið í 21 landi víðs­vegar um heim­inn. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None