Samsett mynd

Skuld við Glitni greidd af Panamafélagi og með Íbúðalánasjóðsbréfum

Félag frá Panama kom að því að greiða 2,4 milljarða króna skuld tveggja félaga í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á árinu 2010. Félagið er í eigu eiginkonu hans. Skuldin var greidd í reiðufé og með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.

skrifar úr Panamaskjölunum
skrifar úr Panamaskjölunum

Félag, sem stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni og Ingi­björgu Stef­aníu Pálma­dótt­ur, með heim­il­is­festi á Pana­ma, greiddi hluta af skuldum Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums og félags í eigu þess við Glitni árið 2010. Alls fékk slitabú Glitnir þá 2,4 millj­arða króna greiðslu upp í 3,3 millj­arða króna skuld sem Gaumur og félagið 101 Chalet ehf. höfðu stofnað til en ekki getað greitt. Skuldin var ann­ars vegar greidd með 200 millj­óna króna greiðslu í reiðufé og hins vegar með afhend­ingu skulda­bréfa útgefnum af Íbúða­lána­sjóði, að and­virði 2,2 millj­arða króna. Með þess­ari greiðslu var kom­ist hjá því að Glitnir gæti sett Gaum og 101 Chalet ehf. í þrot. Gaumur óskaði ekki eftir gjald­þrota­skiptum fyrr en í sept­em­ber 2013 og 101 Chalet er enn starf­rækt. Það er nú í eigu Moon Capi­tal S.a.r.l. í Lúx­em­borg, félags Ingi­bjargar Stef­aníu Pálma­dótt­ur.

Sam­komu­lag um skulda­upp­gjörið og hvernig því var háttað er hluti af gögnum sem lekið hafa frá Mossack Fon­seca, lög­fræði­stofu í Panama. Kjarn­inn, í sam­starfi við Reykja­vík Media, er á meðal þeirra fjöl­miðla sem vinna nú fréttir upp úr þeim gögn­um.

Hægt er að lesa það í heild sinni hér.

Afleið­ing skíða­skála­kaupa

Skuld­irnar sem verið var að gera upp voru tvær. Ann­ars vegar var um að ræða yfir­drátt upp á 2.563 millj­ónir króna sem Glitnir hafði veitt íslenska félag­inu 101 Chalet ehf. í júlí 2008. Félagið var stofnað í sama mán­uði og átti engar eignir þegar yfir­drátt­ur­inn var veitt­ur. Pen­ing­ana not­aði 101 Chalet til að kaupa skíða­skála í Frakk­landi. Félagið var á þeim tíma í eigu BG Den­mark, dótt­ur­fé­lags Baugs Group. Yfir­drátt­ur­inn var til skamms tíma, hann átti að renna út 22. nóv­em­ber 2008. Þegar sú dag­setn­ing rann upp gat 101 Chalet ekki greitt hann til bak­a. 

101 Chalet var ein þeirra eigna sem færð var út úr BG Den­mark yfir til Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums eftir hrun. Þær eigna­til­færslur voru gerðar án þess að nokk­urt fé skipti um hend­ur. Þess í stað féll niður krafa sem Gaumur átti á Baug. Gaumur var auk þess, ásamt félag­inu Piano Hold­ing sem skráð var til heim­ilis á Cayman-eyj­um, í sjálf­skuld­ar­á­byrgð vegna lán­veit­ing­ar­inn­ar. Piano Hold­ing er talið hafa verið í eigu Jóns Ásgeirs og Ingi­bjargar og var stofnað í kringum lán­töku til kaupa á snekkju sem hlaut nafnið 101 og var sjó­sett árið 2007. Hún var seld eftir hrun og slita­stjórnir Glitnis og Kaup­þings drógu báðar í efa að hluta af sölu­and­virð­inu hafi ekki verið skotið undan í stað þess að ganga upp í skuldir Jóns Ásgeirs við þær. Fram á það var þó ekki sýnt. 

Tæpu einu og hálfu ári eftir að yfir­drátt­ur­inn rann út lét slita­stjórn Glitnis senda inn­heimtu­við­vörun til Gaums vegna yfir­dráttar 101 Chalet. Í henni voru gefnir tíu dagar til að greiða yfir­drátt­inn. Á sama tíma hafði sam­bæri­leg inn­heimtu­við­vörun verið send á Gaum vegna láns upp á 723 millj­ónir króna sem var í van­skil­u­m. 

Panama­fé­lag kemur að sam­komu­lagi sem greið­andi

Í kjöl­farið áttu sér stað við­ræður um að lenda mál­inu. Nið­ur­staðan varð sú að í lok júní 2010 var gert sam­komu­lag um greiðslur vegna skuld­anna sem Gaumur gat ekki greitt. Í því fólst að sam­tals yrði greitt and­virði 2,4 millj­arða króna gegn því að Glitnir myndi láta af inn­heimtu sinni og telja lánin greidd. Greiðsl­una átti að inna af hendi ann­ars vegar með 200 millj­ónum króna í reiðufé og hins vegar með afhend­ingu skulda­bréfa útgefnum af Íbúða­lána­sjóði sem eru á gjald­daga árið 2024 (HFF 150224), en mark­aðsvirði þeirra var sagt 2,2 millj­arðar króna í sam­komu­lag­in­u. 

Aðilar sam­komu­lags­ins voru nokkr­ir. Glitnir var þar sem lán­veit­andi, Gaumur sem skuld­ari og sjálf­skuld­ar­á­byrg­ar­að­ili, 101 Chalet sem skuld­ari og Piano Hold­ing sem sjálf­skuld­ar­á­byrgð­ar­að­ili. Til við­bótar við þessa aðila, sem allir áttu beina aðkomu að mál­inu, var einn aðili enn til­greindur í sam­komu­lag­inu: Moon Capi­tal S.A. 

Það félag hafði áður heitið OneOOne Enterta­in­ment S.A. og átti heim­il­is­festi í Panama. Félagið var stofnað af Mossack Fon­seca og því eru gögn sem tengj­ast því hluti af þeim gagna­leka sem Kjarn­inn vinnur nú úr í sam­starfi við Reykja­vík Media. Pró­kúru­hafar þessa félags voru Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Ingi­björg Stef­anía Pálma­dótt­ir, sem einnig var skráður end­an­legur eig­andi þess. 

Aðkoma Moon Capi­tal að þessu skulda­upp­gjöri var þannig að félagið greiddi hluta þess sem greitt var til að gera upp skuld 101 Chalet við Glitni. Hversu mikið Moon Capi­tal greiddi kemur ekki fram. 

Lá á afgreiðslu Mossack Fon­seca

Í Panama­skjöl­unum kemur fram að Þor­steinn Ólafs­son, sem sér um mál­efni félaga Ingi­bjargar og Jóns Ásgeirs hjá Arena Wealth Mana­gement S.A. í Lúx­em­borg, þurfti að fá und­ir­skriftir stjórn­ar­manna í Moon Capi­tal til að hægt væri að ganga frá greiðsl­un­um. Þeir stjórn­ar­menn eru starfs­menn lög­fræði­stof­unnar Mossack Fon­seca í Pana­ma, þar sem heim­il­is­festi Moon Capi­tal var. 

Und­ir­skrift­irnar þurfti að inna af hendi fyrir 30. júní 2010. Frá 25. júní og fram til 29. júní sendi Þor­steinn alls átta pósta á Mossack Fon­seca til að ganga frá mál­inu. Ljóst var að mikið lá á nið­ur­stöð­unni.

Sam­kvæmt fyrsta póst­inum er ljóst að Þor­steinn var að fylgja fyr­ir­mælum frá manni sem heitir Jeff Blue. Blue segir í pósti sínum til Þor­steins, sem er einnig sendur á bæði Ingi­björgu og Jón Ásgeir, að hann þurfi að fá að vita hvenær hægt verði að fá Glitn­is-­sam­komu­lagið und­ir­ritað af Moon Capi­tal. Jeff Blue þessi hafði lengi starfað með Jóni Ásgeiri. Árið 2007, þegar Jón Ásgeir ákvað að stíga til hliðar sem for­stjóri Baugs og ger­ast starf­andi stjórn­ar­for­maður sam­stæð­unn­ar, tók Gunnar Sig­urðs­son, þá fram­kvæmda­stjóri smá­sölu hjá Baugi, við starfi Jóns Ásgeirs. Við starfi Gunn­ars tók Jeff Blu­e. 

Þor­steinn áframsendi póst Jeff Blue á Mossack Fon­seca og kall­aði eftir því að stjórn­ar­menn Moon Capi­tal S.A. myndu skrifa undir í fimm­riti. „Ég þarf að fá PDF útgáfu strax,“ skrif­aði Þor­steinn á ensku. Hann óskaði síðar eftir lít­il­legum breyt­ingum en 29. júní, dag­inn áður en frestur til að greiða skuld­ina rann út, þá sendi Mossack Fon­seca und­ir­ritað skjal til Þor­steins. Undir það skrifa Carmine Wong og Jaqueline Alex­and­er, atvinnu­stjórn­ar­menn hjá Mossack Fon­seca. 

Ljóst er að frá­gangur sam­komu­lags­ins dróst á lang­inn. Þor­steinn Ólafs­son bað Mossack Fon­seca um að vinna fyrir sig lög­fræði­á­lit á fram­kvæmd sam­komu­lags­ins og lög­mæti þess að Moon Capi­tal greiddi greiðslu vegna yfir­dráttar 101 Chalet. Þor­steinn var upp­haf­lega nefndur sem sá sem bað um lög­fræði­á­litið í skjölum þess, en eftir að hann bað sér­stak­lega um að nafn sitt yrði fjar­lægt úr skjöl­unum með tölvu­pósti 13. júní 2010 breytt­ist það. Nú var það Moon Capi­tal sjálft sem bað um lög­fræði­á­lit­ið.

Eignir Jóns Ásgeirs frystar

Á þessum tíma hafði slita­stjórn Glitnis fryst þekktar eignir Jóns Ásgeirs vegna mála­ferla sem hún stóð í gagn­vart hon­um. Á meðal þeirra gagna sem er að finna í Panama­skjöl­unum er yfir­lit yfir þær eignir sem frystar voru. Sam­kvæmt fryst­ing­ar­til­skip­un­inni var Jóni Ásgeiri gert að upp­lýsa slita­stjórn­ina um allar eignir sínar sem voru yfir tíu þús­und punda virði, hvar sem þær voru í heim­in­um. Sér­stak­lega var honum gert að veita upp­lýs­ingar um hvar sölu­and­virði snekkju sem nefnd­ist OneOOne í eigu Piano Hold­ing, og hafði verið skráð til heim­ilis á Cayman-eyj­um, og skíða­skála í Courcheval, sem félagið 101 Chalet keypti af Baugi með yfir­drætti frá Glitni sum­arið 2008. 

Sam­kvæmt til­skip­un­inni, sem var sam­þykkt fyrir breskum dóm­stól­um, var til­gangur hennar að tryggja að Jón Ásgeir gæti greitt allt að sex millj­arða króna sem slita­stjórn Glitnis var að fal­ast eftir hjá hon­um. Honum var heim­ilit að eyða allt að 2.500 pundum á viku í að lifa sam­kvæmt henni en annað mátti hann ekki snerta. 

Hægt er að lesa til­skip­un­ina hér.

Átti að losa fé

Í gögnum sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, og eru ekki hluti af Panama­skjöl­un­um, kemur fram að skíða­skál­inn sem geymdur var inni í 101 Chalet lék lyk­il­hlut­verk í áætlun sem Jón Ásgeir ætl­aði að hrinda í fram­kvæmd skömmu eftir hrun til að losa fé. Áætl­un­in, sem sett var fram í tölvu­pósti hans til lög­manns síns sem er dag­settur 18. nóv­em­ber 2008, snérist um að end­ur­fjár­magna, í tveimur skref­um, félagið með láni frá Fortis-­bank­anum og selja hann svo. Við þennan gjörn­ing átti að losna um 17,6 millj­ónir evra, sem á þeim tíma voru um þrír millj­arðar króna. Sú upp­hæð átti síðan að renna til Jóns Ásgeirs og Ingi­bjarg­ar. Lánið frá Fortis fékkst þó ekki og áætl­unin féll því um sjálfa sig. 

Líkt og hægt er að lesa um hér þá var nafni Moon Capi­tal í Panama breytt í Guru Invest skömmu eftir að sam­komu­lagið við Glitni var klárað. Það félag hefur síðan fjár­magnað ýmis við­skipta­tæki­færi sem Jón Ásgeir og Ingi­björg hafa komið nálægt. 

Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None