Samsett mynd

Skuld við Glitni greidd af Panamafélagi og með Íbúðalánasjóðsbréfum

Félag frá Panama kom að því að greiða 2,4 milljarða króna skuld tveggja félaga í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á árinu 2010. Félagið er í eigu eiginkonu hans. Skuldin var greidd í reiðufé og með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.

skrifar úr Panamaskjölunum
skrifar úr Panamaskjölunum

Félag, sem stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, með heimilisfesti á Panama, greiddi hluta af skuldum Fjárfestingafélagsins Gaums og félags í eigu þess við Glitni árið 2010. Alls fékk slitabú Glitnir þá 2,4 milljarða króna greiðslu upp í 3,3 milljarða króna skuld sem Gaumur og félagið 101 Chalet ehf. höfðu stofnað til en ekki getað greitt. Skuldin var annars vegar greidd með 200 milljóna króna greiðslu í reiðufé og hins vegar með afhendingu skuldabréfa útgefnum af Íbúðalánasjóði, að andvirði 2,2 milljarða króna. Með þessari greiðslu var komist hjá því að Glitnir gæti sett Gaum og 101 Chalet ehf. í þrot. Gaumur óskaði ekki eftir gjaldþrotaskiptum fyrr en í september 2013 og 101 Chalet er enn starfrækt. Það er nú í eigu Moon Capital S.a.r.l. í Lúxemborg, félags Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur.

Samkomulag um skuldauppgjörið og hvernig því var háttað er hluti af gögnum sem lekið hafa frá Mossack Fonseca, lögfræðistofu í Panama. Kjarninn, í samstarfi við Reykjavík Media, er á meðal þeirra fjölmiðla sem vinna nú fréttir upp úr þeim gögnum.

Hægt er að lesa það í heild sinni hér.

Afleiðing skíðaskálakaupa

Skuldirnar sem verið var að gera upp voru tvær. Annars vegar var um að ræða yfirdrátt upp á 2.563 milljónir króna sem Glitnir hafði veitt íslenska félaginu 101 Chalet ehf. í júlí 2008. Félagið var stofnað í sama mánuði og átti engar eignir þegar yfirdrátturinn var veittur. Peningana notaði 101 Chalet til að kaupa skíðaskála í Frakklandi. Félagið var á þeim tíma í eigu BG Denmark, dótturfélags Baugs Group. Yfirdrátturinn var til skamms tíma, hann átti að renna út 22. nóvember 2008. Þegar sú dagsetning rann upp gat 101 Chalet ekki greitt hann til baka. 

101 Chalet var ein þeirra eigna sem færð var út úr BG Denmark yfir til Fjárfestingafélagsins Gaums eftir hrun. Þær eignatilfærslur voru gerðar án þess að nokkurt fé skipti um hendur. Þess í stað féll niður krafa sem Gaumur átti á Baug. Gaumur var auk þess, ásamt félaginu Piano Holding sem skráð var til heimilis á Cayman-eyjum, í sjálfskuldarábyrgð vegna lánveitingarinnar. Piano Holding er talið hafa verið í eigu Jóns Ásgeirs og Ingibjargar og var stofnað í kringum lántöku til kaupa á snekkju sem hlaut nafnið 101 og var sjósett árið 2007. Hún var seld eftir hrun og slitastjórnir Glitnis og Kaupþings drógu báðar í efa að hluta af söluandvirðinu hafi ekki verið skotið undan í stað þess að ganga upp í skuldir Jóns Ásgeirs við þær. Fram á það var þó ekki sýnt. 

Tæpu einu og hálfu ári eftir að yfirdrátturinn rann út lét slitastjórn Glitnis senda innheimtuviðvörun til Gaums vegna yfirdráttar 101 Chalet. Í henni voru gefnir tíu dagar til að greiða yfirdráttinn. Á sama tíma hafði sambærileg innheimtuviðvörun verið send á Gaum vegna láns upp á 723 milljónir króna sem var í vanskilum. 

Panamafélag kemur að samkomulagi sem greiðandi

Í kjölfarið áttu sér stað viðræður um að lenda málinu. Niðurstaðan varð sú að í lok júní 2010 var gert samkomulag um greiðslur vegna skuldanna sem Gaumur gat ekki greitt. Í því fólst að samtals yrði greitt andvirði 2,4 milljarða króna gegn því að Glitnir myndi láta af innheimtu sinni og telja lánin greidd. Greiðsluna átti að inna af hendi annars vegar með 200 milljónum króna í reiðufé og hins vegar með afhendingu skuldabréfa útgefnum af Íbúðalánasjóði sem eru á gjalddaga árið 2024 (HFF 150224), en markaðsvirði þeirra var sagt 2,2 milljarðar króna í samkomulaginu. 

Aðilar samkomulagsins voru nokkrir. Glitnir var þar sem lánveitandi, Gaumur sem skuldari og sjálfskuldarábyrgaraðili, 101 Chalet sem skuldari og Piano Holding sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Til viðbótar við þessa aðila, sem allir áttu beina aðkomu að málinu, var einn aðili enn tilgreindur í samkomulaginu: Moon Capital S.A. 

Það félag hafði áður heitið OneOOne Entertainment S.A. og átti heimilisfesti í Panama. Félagið var stofnað af Mossack Fonseca og því eru gögn sem tengjast því hluti af þeim gagnaleka sem Kjarninn vinnur nú úr í samstarfi við Reykjavík Media. Prókúruhafar þessa félags voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, sem einnig var skráður endanlegur eigandi þess. 

Aðkoma Moon Capital að þessu skuldauppgjöri var þannig að félagið greiddi hluta þess sem greitt var til að gera upp skuld 101 Chalet við Glitni. Hversu mikið Moon Capital greiddi kemur ekki fram. 

Lá á afgreiðslu Mossack Fonseca

Í Panamaskjölunum kemur fram að Þorsteinn Ólafsson, sem sér um málefni félaga Ingibjargar og Jóns Ásgeirs hjá Arena Wealth Management S.A. í Lúxemborg, þurfti að fá undirskriftir stjórnarmanna í Moon Capital til að hægt væri að ganga frá greiðslunum. Þeir stjórnarmenn eru starfsmenn lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama, þar sem heimilisfesti Moon Capital var. 

Undirskriftirnar þurfti að inna af hendi fyrir 30. júní 2010. Frá 25. júní og fram til 29. júní sendi Þorsteinn alls átta pósta á Mossack Fonseca til að ganga frá málinu. Ljóst var að mikið lá á niðurstöðunni.

Samkvæmt fyrsta póstinum er ljóst að Þorsteinn var að fylgja fyrirmælum frá manni sem heitir Jeff Blue. Blue segir í pósti sínum til Þorsteins, sem er einnig sendur á bæði Ingibjörgu og Jón Ásgeir, að hann þurfi að fá að vita hvenær hægt verði að fá Glitnis-samkomulagið undirritað af Moon Capital. Jeff Blue þessi hafði lengi starfað með Jóni Ásgeiri. Árið 2007, þegar Jón Ásgeir ákvað að stíga til hliðar sem forstjóri Baugs og gerast starfandi stjórnarformaður samstæðunnar, tók Gunnar Sigurðsson, þá framkvæmdastjóri smásölu hjá Baugi, við starfi Jóns Ásgeirs. Við starfi Gunnars tók Jeff Blue. 

Þorsteinn áframsendi póst Jeff Blue á Mossack Fonseca og kallaði eftir því að stjórnarmenn Moon Capital S.A. myndu skrifa undir í fimmriti. „Ég þarf að fá PDF útgáfu strax,“ skrifaði Þorsteinn á ensku. Hann óskaði síðar eftir lítillegum breytingum en 29. júní, daginn áður en frestur til að greiða skuldina rann út, þá sendi Mossack Fonseca undirritað skjal til Þorsteins. Undir það skrifa Carmine Wong og Jaqueline Alexander, atvinnustjórnarmenn hjá Mossack Fonseca. 

Ljóst er að frágangur samkomulagsins dróst á langinn. Þorsteinn Ólafsson bað Mossack Fonseca um að vinna fyrir sig lögfræðiálit á framkvæmd samkomulagsins og lögmæti þess að Moon Capital greiddi greiðslu vegna yfirdráttar 101 Chalet. Þorsteinn var upphaflega nefndur sem sá sem bað um lögfræðiálitið í skjölum þess, en eftir að hann bað sérstaklega um að nafn sitt yrði fjarlægt úr skjölunum með tölvupósti 13. júní 2010 breyttist það. Nú var það Moon Capital sjálft sem bað um lögfræðiálitið.

Eignir Jóns Ásgeirs frystar

Á þessum tíma hafði slitastjórn Glitnis fryst þekktar eignir Jóns Ásgeirs vegna málaferla sem hún stóð í gagnvart honum. Á meðal þeirra gagna sem er að finna í Panamaskjölunum er yfirlit yfir þær eignir sem frystar voru. Samkvæmt frystingartilskipuninni var Jóni Ásgeiri gert að upplýsa slitastjórnina um allar eignir sínar sem voru yfir tíu þúsund punda virði, hvar sem þær voru í heiminum. Sérstaklega var honum gert að veita upplýsingar um hvar söluandvirði snekkju sem nefndist OneOOne í eigu Piano Holding, og hafði verið skráð til heimilis á Cayman-eyjum, og skíðaskála í Courcheval, sem félagið 101 Chalet keypti af Baugi með yfirdrætti frá Glitni sumarið 2008. 

Samkvæmt tilskipuninni, sem var samþykkt fyrir breskum dómstólum, var tilgangur hennar að tryggja að Jón Ásgeir gæti greitt allt að sex milljarða króna sem slitastjórn Glitnis var að falast eftir hjá honum. Honum var heimilit að eyða allt að 2.500 pundum á viku í að lifa samkvæmt henni en annað mátti hann ekki snerta. 

Hægt er að lesa tilskipunina hér.

Átti að losa fé

Í gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum, og eru ekki hluti af Panamaskjölunum, kemur fram að skíðaskálinn sem geymdur var inni í 101 Chalet lék lykilhlutverk í áætlun sem Jón Ásgeir ætlaði að hrinda í framkvæmd skömmu eftir hrun til að losa fé. Áætlunin, sem sett var fram í tölvupósti hans til lögmanns síns sem er dagsettur 18. nóvember 2008, snérist um að endurfjármagna, í tveimur skrefum, félagið með láni frá Fortis-bankanum og selja hann svo. Við þennan gjörning átti að losna um 17,6 milljónir evra, sem á þeim tíma voru um þrír milljarðar króna. Sú upphæð átti síðan að renna til Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Lánið frá Fortis fékkst þó ekki og áætlunin féll því um sjálfa sig. 

Líkt og hægt er að lesa um hér þá var nafni Moon Capital í Panama breytt í Guru Invest skömmu eftir að samkomulagið við Glitni var klárað. Það félag hefur síðan fjármagnað ýmis viðskiptatækifæri sem Jón Ásgeir og Ingibjörg hafa komið nálægt. 

Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None