Samsett mynd

Skuld við Glitni greidd af Panamafélagi og með Íbúðalánasjóðsbréfum

Félag frá Panama kom að því að greiða 2,4 milljarða króna skuld tveggja félaga í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á árinu 2010. Félagið er í eigu eiginkonu hans. Skuldin var greidd í reiðufé og með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.

skrifar úr Panamaskjölunum
skrifar úr Panamaskjölunum

Félag, sem stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni og Ingi­björgu Stef­aníu Pálma­dótt­ur, með heim­il­is­festi á Pana­ma, greiddi hluta af skuldum Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums og félags í eigu þess við Glitni árið 2010. Alls fékk slitabú Glitnir þá 2,4 millj­arða króna greiðslu upp í 3,3 millj­arða króna skuld sem Gaumur og félagið 101 Chalet ehf. höfðu stofnað til en ekki getað greitt. Skuldin var ann­ars vegar greidd með 200 millj­óna króna greiðslu í reiðufé og hins vegar með afhend­ingu skulda­bréfa útgefnum af Íbúða­lána­sjóði, að and­virði 2,2 millj­arða króna. Með þess­ari greiðslu var kom­ist hjá því að Glitnir gæti sett Gaum og 101 Chalet ehf. í þrot. Gaumur óskaði ekki eftir gjald­þrota­skiptum fyrr en í sept­em­ber 2013 og 101 Chalet er enn starf­rækt. Það er nú í eigu Moon Capi­tal S.a.r.l. í Lúx­em­borg, félags Ingi­bjargar Stef­aníu Pálma­dótt­ur.

Sam­komu­lag um skulda­upp­gjörið og hvernig því var háttað er hluti af gögnum sem lekið hafa frá Mossack Fon­seca, lög­fræði­stofu í Panama. Kjarn­inn, í sam­starfi við Reykja­vík Media, er á meðal þeirra fjöl­miðla sem vinna nú fréttir upp úr þeim gögn­um.

Hægt er að lesa það í heild sinni hér.

Afleið­ing skíða­skála­kaupa

Skuld­irnar sem verið var að gera upp voru tvær. Ann­ars vegar var um að ræða yfir­drátt upp á 2.563 millj­ónir króna sem Glitnir hafði veitt íslenska félag­inu 101 Chalet ehf. í júlí 2008. Félagið var stofnað í sama mán­uði og átti engar eignir þegar yfir­drátt­ur­inn var veitt­ur. Pen­ing­ana not­aði 101 Chalet til að kaupa skíða­skála í Frakk­landi. Félagið var á þeim tíma í eigu BG Den­mark, dótt­ur­fé­lags Baugs Group. Yfir­drátt­ur­inn var til skamms tíma, hann átti að renna út 22. nóv­em­ber 2008. Þegar sú dag­setn­ing rann upp gat 101 Chalet ekki greitt hann til bak­a. 

101 Chalet var ein þeirra eigna sem færð var út úr BG Den­mark yfir til Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums eftir hrun. Þær eigna­til­færslur voru gerðar án þess að nokk­urt fé skipti um hend­ur. Þess í stað féll niður krafa sem Gaumur átti á Baug. Gaumur var auk þess, ásamt félag­inu Piano Hold­ing sem skráð var til heim­ilis á Cayman-eyj­um, í sjálf­skuld­ar­á­byrgð vegna lán­veit­ing­ar­inn­ar. Piano Hold­ing er talið hafa verið í eigu Jóns Ásgeirs og Ingi­bjargar og var stofnað í kringum lán­töku til kaupa á snekkju sem hlaut nafnið 101 og var sjó­sett árið 2007. Hún var seld eftir hrun og slita­stjórnir Glitnis og Kaup­þings drógu báðar í efa að hluta af sölu­and­virð­inu hafi ekki verið skotið undan í stað þess að ganga upp í skuldir Jóns Ásgeirs við þær. Fram á það var þó ekki sýnt. 

Tæpu einu og hálfu ári eftir að yfir­drátt­ur­inn rann út lét slita­stjórn Glitnis senda inn­heimtu­við­vörun til Gaums vegna yfir­dráttar 101 Chalet. Í henni voru gefnir tíu dagar til að greiða yfir­drátt­inn. Á sama tíma hafði sam­bæri­leg inn­heimtu­við­vörun verið send á Gaum vegna láns upp á 723 millj­ónir króna sem var í van­skil­u­m. 

Panama­fé­lag kemur að sam­komu­lagi sem greið­andi

Í kjöl­farið áttu sér stað við­ræður um að lenda mál­inu. Nið­ur­staðan varð sú að í lok júní 2010 var gert sam­komu­lag um greiðslur vegna skuld­anna sem Gaumur gat ekki greitt. Í því fólst að sam­tals yrði greitt and­virði 2,4 millj­arða króna gegn því að Glitnir myndi láta af inn­heimtu sinni og telja lánin greidd. Greiðsl­una átti að inna af hendi ann­ars vegar með 200 millj­ónum króna í reiðufé og hins vegar með afhend­ingu skulda­bréfa útgefnum af Íbúða­lána­sjóði sem eru á gjald­daga árið 2024 (HFF 150224), en mark­aðsvirði þeirra var sagt 2,2 millj­arðar króna í sam­komu­lag­in­u. 

Aðilar sam­komu­lags­ins voru nokkr­ir. Glitnir var þar sem lán­veit­andi, Gaumur sem skuld­ari og sjálf­skuld­ar­á­byrg­ar­að­ili, 101 Chalet sem skuld­ari og Piano Hold­ing sem sjálf­skuld­ar­á­byrgð­ar­að­ili. Til við­bótar við þessa aðila, sem allir áttu beina aðkomu að mál­inu, var einn aðili enn til­greindur í sam­komu­lag­inu: Moon Capi­tal S.A. 

Það félag hafði áður heitið OneOOne Enterta­in­ment S.A. og átti heim­il­is­festi í Panama. Félagið var stofnað af Mossack Fon­seca og því eru gögn sem tengj­ast því hluti af þeim gagna­leka sem Kjarn­inn vinnur nú úr í sam­starfi við Reykja­vík Media. Pró­kúru­hafar þessa félags voru Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Ingi­björg Stef­anía Pálma­dótt­ir, sem einnig var skráður end­an­legur eig­andi þess. 

Aðkoma Moon Capi­tal að þessu skulda­upp­gjöri var þannig að félagið greiddi hluta þess sem greitt var til að gera upp skuld 101 Chalet við Glitni. Hversu mikið Moon Capi­tal greiddi kemur ekki fram. 

Lá á afgreiðslu Mossack Fon­seca

Í Panama­skjöl­unum kemur fram að Þor­steinn Ólafs­son, sem sér um mál­efni félaga Ingi­bjargar og Jóns Ásgeirs hjá Arena Wealth Mana­gement S.A. í Lúx­em­borg, þurfti að fá und­ir­skriftir stjórn­ar­manna í Moon Capi­tal til að hægt væri að ganga frá greiðsl­un­um. Þeir stjórn­ar­menn eru starfs­menn lög­fræði­stof­unnar Mossack Fon­seca í Pana­ma, þar sem heim­il­is­festi Moon Capi­tal var. 

Und­ir­skrift­irnar þurfti að inna af hendi fyrir 30. júní 2010. Frá 25. júní og fram til 29. júní sendi Þor­steinn alls átta pósta á Mossack Fon­seca til að ganga frá mál­inu. Ljóst var að mikið lá á nið­ur­stöð­unni.

Sam­kvæmt fyrsta póst­inum er ljóst að Þor­steinn var að fylgja fyr­ir­mælum frá manni sem heitir Jeff Blue. Blue segir í pósti sínum til Þor­steins, sem er einnig sendur á bæði Ingi­björgu og Jón Ásgeir, að hann þurfi að fá að vita hvenær hægt verði að fá Glitn­is-­sam­komu­lagið und­ir­ritað af Moon Capi­tal. Jeff Blue þessi hafði lengi starfað með Jóni Ásgeiri. Árið 2007, þegar Jón Ásgeir ákvað að stíga til hliðar sem for­stjóri Baugs og ger­ast starf­andi stjórn­ar­for­maður sam­stæð­unn­ar, tók Gunnar Sig­urðs­son, þá fram­kvæmda­stjóri smá­sölu hjá Baugi, við starfi Jóns Ásgeirs. Við starfi Gunn­ars tók Jeff Blu­e. 

Þor­steinn áframsendi póst Jeff Blue á Mossack Fon­seca og kall­aði eftir því að stjórn­ar­menn Moon Capi­tal S.A. myndu skrifa undir í fimm­riti. „Ég þarf að fá PDF útgáfu strax,“ skrif­aði Þor­steinn á ensku. Hann óskaði síðar eftir lít­il­legum breyt­ingum en 29. júní, dag­inn áður en frestur til að greiða skuld­ina rann út, þá sendi Mossack Fon­seca und­ir­ritað skjal til Þor­steins. Undir það skrifa Carmine Wong og Jaqueline Alex­and­er, atvinnu­stjórn­ar­menn hjá Mossack Fon­seca. 

Ljóst er að frá­gangur sam­komu­lags­ins dróst á lang­inn. Þor­steinn Ólafs­son bað Mossack Fon­seca um að vinna fyrir sig lög­fræði­á­lit á fram­kvæmd sam­komu­lags­ins og lög­mæti þess að Moon Capi­tal greiddi greiðslu vegna yfir­dráttar 101 Chalet. Þor­steinn var upp­haf­lega nefndur sem sá sem bað um lög­fræði­á­litið í skjölum þess, en eftir að hann bað sér­stak­lega um að nafn sitt yrði fjar­lægt úr skjöl­unum með tölvu­pósti 13. júní 2010 breytt­ist það. Nú var það Moon Capi­tal sjálft sem bað um lög­fræði­á­lit­ið.

Eignir Jóns Ásgeirs frystar

Á þessum tíma hafði slita­stjórn Glitnis fryst þekktar eignir Jóns Ásgeirs vegna mála­ferla sem hún stóð í gagn­vart hon­um. Á meðal þeirra gagna sem er að finna í Panama­skjöl­unum er yfir­lit yfir þær eignir sem frystar voru. Sam­kvæmt fryst­ing­ar­til­skip­un­inni var Jóni Ásgeiri gert að upp­lýsa slita­stjórn­ina um allar eignir sínar sem voru yfir tíu þús­und punda virði, hvar sem þær voru í heim­in­um. Sér­stak­lega var honum gert að veita upp­lýs­ingar um hvar sölu­and­virði snekkju sem nefnd­ist OneOOne í eigu Piano Hold­ing, og hafði verið skráð til heim­ilis á Cayman-eyj­um, og skíða­skála í Courcheval, sem félagið 101 Chalet keypti af Baugi með yfir­drætti frá Glitni sum­arið 2008. 

Sam­kvæmt til­skip­un­inni, sem var sam­þykkt fyrir breskum dóm­stól­um, var til­gangur hennar að tryggja að Jón Ásgeir gæti greitt allt að sex millj­arða króna sem slita­stjórn Glitnis var að fal­ast eftir hjá hon­um. Honum var heim­ilit að eyða allt að 2.500 pundum á viku í að lifa sam­kvæmt henni en annað mátti hann ekki snerta. 

Hægt er að lesa til­skip­un­ina hér.

Átti að losa fé

Í gögnum sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, og eru ekki hluti af Panama­skjöl­un­um, kemur fram að skíða­skál­inn sem geymdur var inni í 101 Chalet lék lyk­il­hlut­verk í áætlun sem Jón Ásgeir ætl­aði að hrinda í fram­kvæmd skömmu eftir hrun til að losa fé. Áætl­un­in, sem sett var fram í tölvu­pósti hans til lög­manns síns sem er dag­settur 18. nóv­em­ber 2008, snérist um að end­ur­fjár­magna, í tveimur skref­um, félagið með láni frá Fortis-­bank­anum og selja hann svo. Við þennan gjörn­ing átti að losna um 17,6 millj­ónir evra, sem á þeim tíma voru um þrír millj­arðar króna. Sú upp­hæð átti síðan að renna til Jóns Ásgeirs og Ingi­bjarg­ar. Lánið frá Fortis fékkst þó ekki og áætl­unin féll því um sjálfa sig. 

Líkt og hægt er að lesa um hér þá var nafni Moon Capi­tal í Panama breytt í Guru Invest skömmu eftir að sam­komu­lagið við Glitni var klárað. Það félag hefur síðan fjár­magnað ýmis við­skipta­tæki­færi sem Jón Ásgeir og Ingi­björg hafa komið nálægt. 

Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None