Samsett mynd

Bakkavararbræður áttu sex félög á Bresku Jómfrúareyjunum

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir áttu að minnsta kosti sex félög á Tortóla-eyju. Eitt félaganna lýsti kröfu í bú Kaupþings, bankans sem þeir áttu stóran eignarhlut í fyrir hrun. Erlent félag þeirra fékk greitt um níu milljarða í arð á árunum 2005-2007.

skrifar úr Panamaskjölunum
skrifar úr Panamaskjölunum

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, áttu að minnsta kosti sex félög sem skráð eru til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Eitt þeirra félaga var á meðal kröfuhafa í bú Kaupþings. Félagið, New Ortland II Equities Ltd., gerði samtals kröfu upp á 2,9 milljarða króna í búið. Um var að ræða skaðabótakröfu. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi ehf., sem stofnað er á grunni slitabús Kaupþings, var skaðabótakröfunni hafnað með endanlegum hætti við slitameðferð Kaupþings. Talsmaður félagsins vildi að öðru leyti ekki tjá sig um innihald eða uppruna kröfunnar og bræðurnir svöruðu ekki fyrirspurn Kjarnans um málið.

Bræðurnir voru stærstu einstöku eigendur Kaupþings fyrir fall bankans í gegnum fjárfestingarfélagið Exista. Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður þeirra, sat í stjórn bankans fyrir þeirra hönd og félög bræðranna voru á meðal stærstu skuldara Kaupþings. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skuldaði Exista og tengd félög Kaupþingi, sem breyttist í Arion banka við kennitöluflakk í hruninu, 239 milljarða króna. Eitthvað hefur fengist upp í þær kröfur vegna nauðasamninga Existu og Bakkavarar, og sölu á hlut í Bakkavör, en ljóst er að sú upphæð er fjarri þeirri fjárhæð sem Kaupþing lánaði samstæðunni. 

Upplýsingar um sex félög

Í Panamaskjölunum, sem Kjarninn flytur fréttir úr í samvinnu við Reykjavík Media, eru upplýsingar um sex félög sem Ágúst og Lýður eiga og stofnuð voru í gegnum panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca, sem sérhæfir sig í stofnun og umsýslu skúffufélaga með heimilisfesti á lágskattarsvæðum og aflandseyjum. Bræðurnir eru skráðir eigendur fimm félaganna, annað hvort hvor um sig eða saman, en eiginkona Lýðs er skráð eigandi eins félagsins á móti honum. Félögin sex eru:

  • Barello Global S.A.
  • Jukebox Group Corp.
  • New Ortland II Equities Ltd.
  • Ortland Equities Corp
  • AI Pension Ltd.
  • SARN Investment Ltd.

Eitt félaganna, Ortland Equities Corp. var stofnað árið 2002. Það var afskráð í apríl 2010. Félagið var í jafnri eigu Ágústs og Lýðs. Ástæðan fyrir því að félagið var afskráð er, samkvæmt gagnagrunni ICIJ, vanskil. Hin félögin fimm eru öll stofnuð á árunum 2005 til 2007. Það síðasta, AI Pension Ltd., var stofnað í lok maí 2007.

Litlar sem engar upplýsingar eru um hvers konar starfsemi er í félögunum í Panamaskjölunum. Þar er ekki að vinna neina lánasamninga þeirra  við önnur félög, yfirlit yfir hverjar eignir félaganna sex hafa verið né hver tilgangur þeirra er.

Ein ástæða þess er sú að strax á árinu 2009 skrifuðu bræðurnir undir beiðni um að umsjón með félögunum sex yrði færð frá Mossack Fonseca til annars fyrirtækis sem sérhæfir sig í sambærilegri aflandsþjónustu, Ogier Fiduciary Services (BVI) Limited. Sá flutningur gekk formlega í gegn tveimur árum síðar, í maí 2011. Sá íslenski aðili sem sá um öll samskipti við Mossack Fonseca fyrir hönd bræðranna var íslenska lögmannsstofan LOGOS. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum sem hægt er að finna í Panamaskjölunum var það aðalleg Bjarnfreður Ólafsson sem sá um þau samskipti. Eftir að sá flutningur var kláraður, og umsýsla félaganna fór frá Mossack Fonseca til Ogier, eru engar upplýsingar um starfsemi félaganna í Panamaskjölunum, enda eru þau byggð á gagnaleka frá Mossack Fonseca.

Kaupþing veitti ábyrgðir vegna milljarða skuldbindinga

Líkt og áður sagði lýsti eitt félaganna, New Ortland II Equities Ltd., kröfu í bú Kaupþings upp á 2,9 milljarða króna. Um var að ræða skaðabótakröfu sem slitastjórn Kaupþings frestaði fyrst um sinn að taka afstöðu til en hafnaði svo. Félagið fékk því ekki greitt út úr slitabúi Kaupþings þegar það greiddi kröfuhöfum sínum fyrr á þessu ári.

Ljóst er að New Ortland II Equities var með starfsemi á Íslandi á árunum fyrir hrun. Félagið fékk úthlutað íslenskri kennitölu svo það gæti stofnað bankareikning hérlendis. Sú kennitala var gefin út 17. desember 2007, tíu mánuðum fyrir bankahrun. Íslenskur umboðsaðili félagsins var Kaupþing. New Ortland II Equities var í sameiginlegri eigu Ágústs og Lýðs, sem áttu sinn helming þess hvor.

Minnst er á félagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem kom út í apríl 2010. Þar segir að Kaupþing hafi veitt ábyrgðir vegna skuldbindinga „New Ortland II Equity Limited en félagið var í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, Ábyrgðirnar sveifluðust nokkuð en fóru hæst í rúmar 50 milljónir evra í febrúar 2008.“ Þetta kom fram í lánaumsókn til lánanefndar samstæðu Kaupþings frá 10. desember 2007.

Á gengi dagsins í dag eru 50 milljónir evra um sjö milljarðar króna.

Hlutu hagstæða sérmeðferð hjá bankanum

Fleiri félög sem stofnuð voru af Mossack Fonseca fyrir bræðurna er að finna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þar er meðal annars fjalla sérstaklega um Barello Global S.A. sem dæmi um „að Bakkabræður hafi hlotið hagstæða sérmeðferð hjá Kaupþingi.“ Sú hagstæða meðferð fólst í því að hinn 24. júlí 2007 leysti bankinn Lýð Guðmundsson undan persónulegri ábyrgð vegna skuldbindinga Barello Global. Á móti fékk bankinn veð í hlutabréfum í Barello Global. Bankinn gaf því frá sér hina endanlegu tryggingu á láninu gegn ímynduðu veði.

Þau félög sem skráð eru í eigu bræðranna eru ekki einu félögin sem skráð eru á Bresku Jómfrúareyjunum í eigu þeirra. Þar eiga þeir einnig félag sem heitir Alloa Finance Limited. DV og Morgunblaðið hafa greint frá því á undanförnum árum að það félag hafi fjármagnað að hluta kaup Ágústs og Lýðs á hlutabréfum í breska matvælafyrirtækinu Bakkavör, sem þeir stofnuðu á sínum tíma og hafa nú náð yfirráðum yfir á ný eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Kjarninn greindi ítarlega frá baráttunni um Bakkavör í fréttaskýringu fyrr á þessu ári.

Alloa Finance á íslenskt félag sem heitir Korkur Invest ehf. og í árslok 2014 hafði Alloa Finance lánað Korki Invest tæplega 4,4 milljarða króna til að kaupa bréf í Bakkavör.

Fjármunirnir voru fluttir til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem tryggði virðisaukningu upp á að minnsta kosti 20 prósent þegar fjármununum var skipt í íslenskar krónur.

Það ætti ekki að koma mörgum á óvart að Ágúst og Lýður ættu mikla fjármuni erlendis. Fyrir hrun var hollenskt félag í þeirra eigu, Bakkabræður Holding B.V., aðaleigandi fjárfestingafélagsins Existu sem hélt meðal annars á eignarhlut þeirra í Bakkavör auk þess að vera stærsti eigandi Kaupþings.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arðgreiðslur á uppgangsárunum fyrir hrun. Alls fékk félagið tæpa níu milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2005 til 2007.

Svöruðu ekki spurningum um félögin

Kjarninn sendi Ágústi og Lýð, og Bjarnfreði Ólafssyni, spurningar um félögin sex í síðustu viku. Þar var meðal annars spurst fyrir um hvaða eignir væru í umræddum félögum, hvort uppruin þeirra fjármuna sem þar eru vistaðir hafi verið á Íslandi og hvort fé hafi farið úr þeim til félaga eða einstaklinga á Íslandi.

Þar var einnig spurt hvort eignir félaganna sex hefðu verið á meðal þeirra eigna sem uppgefnar voru í skulduppgjörum bræðranna og félaga í þeirra eigu við kröfuhafa sem fram hafi farið á undanförnum árum. Spurt var af hverju félögin væru með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, hvar þau hafi greitt skatta og gjöld og hvort allir skattar og gjöld hafi verið greiddir. Þá var einnig spurt sérstaklega út í kröfu New Ortland II Equities Corp. í bú Kaupþings og hver grundvöllur þeirrar kröfu hafi verið.

Engin svör hafa borist við fyrirspurn Kjarnans.

Umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None