Stjórnmálaflokkur í dauðateygjunum leitar að sökudólgi
Færri virðast ætla að kjósa Samfylkinguna en eru skráðir í flokkinn. Raunverulegar líkur eru á því að Samfylkingin nái ekki inn manni í næstu kosningum. Og fáir flokksmenn virðast vera að horfa inn á við í leit að skýringu á stöðunni.
Samfylkingin var formlega stofnuð í Borgarleikhúsinu 5. maí árið 2000. Hún hafði reyndar boðið fram sem kosningabandalag þriggja flokka: Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista árið áður og fékk þá 26,8 prósent atkvæða. Markmiðið með stofnun flokksins var að sameina stjórnmálaöfl á vinstri væng og miðju stjórnmálalitrofsins og fá umboð kjósenda til að taka forystu í landsstjórninni. Mynda átti annan turn í íslenskum stjórnmálum til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn.
Í stuttu máli má segja að ekkert af höfuðmarkmiðum Samfylkingarinnar hafi náðst. Flokknum hefur ekki tekist að verða stöðugur turn í íslenskum stjórnmálum, honum hefur ekki tekist að sameina vinstrimenn og miðjufólk í breiðfylkingu jafnaðarmanna og honum hefur einungis einu sinni tekist að vera með forystu í landsstjórninni. Sú ríkisstjórn, undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, náði að verða ein óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans. Vorið 2012 mældist stuðningur við hana rétt rúmlega 28 prósent og hún endaði sinn líftíma með því að haltra út kjörtímabilið sem eiginleg minnihlutastjórn.
Síðan þá hefur staðan fjarri því batnað. Fylgið hefur haldið áfram að dala hratt og nú eru raunverulegar líkur á því að Samfylkingin geti horfið af þingi í næstu kosningum, svo lágt er flokkurinn að mælast í könnunum. Í ljósi þess að framundan er mikilvægasta formannskjör í sögu flokksins eftir nokkrar vikur, og þingkosningar sem snúast bókstaflega um líf og dauða flokksins eftir um fimm mánuði, á sér stað mikil sjálfsskoðun, að minnsta kosti á yfirborðinu. En hún virðist að miklu leyti snúast um að finna sökudólga, bæði innan flokks og utan, fyrir því ástandi sem Samfylkingin er í. Ástandi sem vart er hægt að lýsa öðruvísi en sem dauðateygjum.
Margar rangar ákvarðanir
Það er í raun ótrúlegt hversu hratt hefur fjarað undan Samfylkingunni á undanförnum árum. Í kosningunum 2003 fékk flokkurinn 31 prósent atkvæða, 26,8 prósent fjórum árum seinna og meira að segja 29,8 prósent í alþingiskosningunum 2009, þótt þær hafi sannarlega farið fram við afar sérstakar aðstæður.
Í þeim kosningunum, sem kjósendur notuðu helst til að hafna valdakerfisflokkunum Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, fékk Samfylkingin loks það umboð til að leiða ríkisstjórn sem hún sóttist eftir. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð frammi fyrir erfiðasta verkefni sem nokkur ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir, endurreisn og endurskipulagningu efnahagskerfis sem hafði hrunið. Margar ákvarðanir hennar voru mjög mikilvægar og réttar. Aðrar beinlínis rangar og illa ígrundaðar.
Tvær ákvarðanir skiptu kannski mestu máli um að draga úr erindi flokksins. Önnur var sú að binda sig of fast við aðild að Evrópusambandinu sem lausn á öllum vandamálum landsins. Ákvörðunin var illa ígrunduð vegna þess að á þeim tíma sem sótt var um aðild var ekki meirihluti fyrir henni á meðal þjóðarinnar, innan þingsins né innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Annar stjórnarflokkurinn, Vinstri græn, var, að minnsta kosti að hluta, á móti aðild. Sú aðildarvegferð sem ráðist var í á þessum veika grunni gat líklega aldrei endað nema á einn veg. Þótt skoðanakannanir hafi lengi sýnt að mun stærri hluti þjóðarinnar sé á móti aðild en með henni þá er meirihluti hennar hins vegar þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að fá að kjósa um hvort að hætta hefði átt við umsóknarferlið eða ekki. Það er því grundvöllur til þess að fara í gegnum Evrópusambandsaðildarferli með lýðræðislegt umboð frá þjóðinni. Það umboð kaus ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ekki að nýta sér og fyrir það líður Samfylkingin mjög í dag. Í raun má slá því föstu að sú leið sem valin var að fara varðandi Evrópusambandsumsóknina, að sækja um án lýðræðislegs umboðs eða með meirihluta þingheims fylgjandi aðild, hafi gert meira til að koma í veg fyrir mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu en nokkur önnur ákvörðun sem tekin hefur verið á stjórnmálasviðinu á undanförnum árum.
Hin ákvörðunin var sú klára ekki vinnu við nýja stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili. Nokkrum mánuðum áður en að kjörtímabilinu lauk, í október 2012, höfðu 64,2 prósent þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu sagt að þeir vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Það voru 73.408 manns. Á hinn bóginn mættu 36.252 manns á kjörstað til að greiða atkvæði gegn nýrri stjórnarskrá. Augljóst var að á meðal þeirra sem létu sig málið varða það mikið að þeir mættu á kjörstað var yfirgnæfandi meirihluti fylgjandi því að ný stjórnarskrá yrði að veruleika.
Fyrir þessi ákvarðanir var flokknum refsað harkalega í kosningunum 2013. Þar fékk hann einungis 12,9 prósent atkvæða. Alls ákváðu 31 þúsund manns sem kusu Samfylkinguna 2009 að gera það ekki fjórum árum síðar. Þingflokkur flokksins fór úr 20 í níu.
Það afhroð sem Samfylkingin beið í þingkosningunum 2013 var
ekki einungis stjórnmálalegt og sálfræðilegt áfall. Það var líka fjárhagslegt
áfall. Stór hluti af rekstri flokksins er drifinn áfram af ríkisframlögum sem
ráðast af því hversu vel honum gengur í kosningum. Á milli áranna 2013 og 2014
rúmlega helminguðust þau framlög, sem gerðu það að verkum að draga þurfti mjög
úr rekstrarútgjöldum Samfylkingarinnar.
Flokkurinn stóð því frammi fyrir því að vera í þröngri fjárhagsstöðu á sama tíma og hann var, að minnsta kosti út á við, í hugmyndafræðilegri krísu. Upplifun kjósenda af Samfylkingunni var nefnilega ekki þannig að um væri að ræða breiðfylkingu jafnaðarmanna sem legði áherslu á jöfn tækifæri, berðist fyrir betra og sanngjarnara velferðarkerfi og gegn sífellt aukinni misskiptingu auðs. Þvert á móti virtist flokkurinn hverfast utan um lokaðan hóp einstaklinga, sem í háðung voru kallaðir „Epal-kommar“, og hafði bundið tilveru flokksins of fast við inngöngu í Evrópusambandið og var í vandræðum með að finna flokknum persónuleika að nýja þegar sú vegferð gekk ekki eftir. Í stuttu máli þá var elítubragur á Samfylkingunni. Það var eins og að hún væri til fyrir þá sem mynduðu þingflokkinn, ekki eins og þeir væru að þjónusta alla hina sem í flokknum eru.
Innanflokksátök milli einstaklinga
Á þessari tilvistakreppu hefur ekki verið tekið á þessu kjörtímabili. Þótt meginþorri Íslendinga séu líklega einhvers konar jafnaðarmenn - í þeim skilningi að þeir aðhyllast sterkt velferðarkerfi greitt af samneyslunni og jöfn tækifæri en eru líka fylgjandi kapítalísku markaðshagkerfi – þá segjast einungis örfá prósent vera tilbúin til að kjósa flokkinn sem á skrásetta vörumerkið Jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Í stað þess að ráðast í harkalega skoðun á eigin vinnubrögðum og nálgun, í stað þess að skerpa málefnastöðu sína þannig að hún liggi fyrir sem skýr valkostur fyrir kjósendur sem eru ósáttir við stefnu sitjandi stjórnvalda, hefur flokkurinn eytt þessu kjörtímabili í innanflokksátök milli einstaklinga.
Og hann hefur gert það að mestu bakvið luktar dyr, sem styður enn þá tilfinningu sem margir hafa fyrir flokknum að í honum þrífist elíta.
Fylgið hægt og rólega verið að hverfa
Nú er staðan sú að kosinn verður nýr formaður á allra næstu vikum. Þingkosningar verða haldnar eftir fimm mánuði og Samfylkingin mælist með undir átta prósent fylgi í kosningum. Flokkurinn hefur í raun verið í frjálsu fylgisfalli í nokkuð langan tíma og haldi sú þróun áfram er raunverulega mögulegt að Samfylkingin nái ekki fimm prósent atkvæða í október og þurrkist þar með út af þingi, 17 árum eftir að flokkurinn bauð fyrst fram sem breiðfylking jafnaðarmanna. Það þýðir að mögulega munu ekki einu sinni þeir 16 þúsund sem skráðir eru í Samfylkinguna allir að kjósa flokkinn.
Margir hafa verið kallaðir til sem sökudólgar fyrir þessu gengi. Innan efsta lags Samfylkingarinnar vildu margir meina að höfnun kjósenda væri bundin við formanninn, Árna Pál Árnason. Sjálfur leitaði Árni Páll skýringa víða á stöðu flokksins. Í júní 2015 viðurkenndi hann að það væri áfellisdómur yfir sér sjálfum og flokknum að hafa ekki náð í það fylgi sem fór fyrst til Bjartrar framtíðar en færðist svo yfir til Pírata. Þar væri um að ræða kjósendur sem talaði fyrir opnu samfélagi, áframhaldandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu, beinu lýðræði, stjórnkerfisumbótum og réttindum minnihlutahópa. Allt hafi þetta verið málefni sem Samfylkingin hefði barist fyrir „á hæl og hnakka“ frá því að hún var stofnuð. Samt vildu þessir kjósendur ekki kjósa flokkinn. Ástæðan væri sú ranghugmynd að Samfylkingin væri hluti af fjórflokknum, þegar hún hefði verið stofnuð til höfuðs honum. Bregðast þyrfti við strax og Samfylkingin þyrfti að verða sú fjöldahreyfing sem hún var stofnuð til að vera.
Nokkrum mánuðum áður hafði farið fram landsfundur Samfylkingarinnar. Þar fékk Árni Páll mjög óvænt mótframboð frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur daginn áður en formannskosning fór fram. Einungis þeir sem sátu landsfundinn höfðu atkvæðisrétt, en þeir voru færri en 500. Það var ekki til að draga úr upplifun fólks á því að um elítustjórnmálaflokk væri að ræða, þegar efsta lagið tókst með þessum hætti á um völdin. Árni Páll sigraði að lokum með einu atkvæði, fékk 241 á móti 240, og við það má segja að formannsferli hans hafi verið lokið, þótt hann sitji enn formlega fram í byrjun næsta mánaðar. Átakalínurnar í flokknum opinberuðust mjög greinilega í þessum formannskosningum.
Árni Páll hefur síðar ítrekað kennt mótframboði Sigríðar Ingibjargar og afleiðingum þess um að gengi flokksins hafi dalað hratt á undanförnum mánuðum. Sigríður Ingibjörg hefur hafnað því og sagt að fylgið hafi þegar verið byrjað að hverfa. Bæði hafa nokkuð til síns máls. Það er rétt hjá Árna Páli að Samfylkingin hafi mælst ágætlega í skoðanakönnunum á fyrri hluta kjörtímabilsins. Nokkrum dögum fyrir landsfundinn í fyrra mældist fylgi flokksins hins vegar 12,4 prósent, sem er minna en hann hafði fengið í kosningunum 2013. Nokkrum dögum eftir landsfundinn mældist fylgi flokksins 11,4 prósent og í ágúst var það komið niður fyrir tíu prósent. Auk þess var Árni Páll með mjög lítið persónufylgi. Í könnun MMR sem birt var í lok apríl 2015 sögðu til dæmis þrjú prósent aðspurðra að hann væri fæddur leiðtogi.
Landsfundi flýtt
Það var öllum ljóst að Samfylkingin þurfti að taka róttækt á ástandi flokksins. Í ár var ákveðið að flýta landsfundi og halda formannskosningar. Í tilkynningu var gefið sterklega í skyn að nota þyrfti landsfundinn til málefnavinnu og til að ræða kosningaáherslur. Síðan að þessi tilkynning var send út hefur hins vegar lítið verið rætt um málefni, og mun meira verið rætt um persónur.
Fimm hafa tilkynnt að þeir vilji verða næsti formaður flokksins, þótt Árni Páll hafi síðan dregið framboð sitt til baka. Þrír þeirra sem sækjast eftir formennsku eru hluti þess þingflokks sem kjósendur hafa verið að hafna samkvæmt skoðanakönnunum, annað hvort sem sitjandi þingmenn eða sem varaþingmenn. Sá eini sem ekki er hluti af núverandi valdalagi flokksins er Guðmundur Ari Sigurjónsson, 27 ára bæjarfulltrúi af Seltjarnarnesi.
Í viðtali við síðasta helgarblað DV endurtók Árni Páll þá söguskýringu sína að það hefði gengið mjög vel hjá flokknum fram að síðasta landsfundi, þegar óvænt mótframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gegn honum kom fram. Árni Páll telur enn fremur að Samfylkingin hafi mikla sérstöðu í íslenskum stjórnmálum en að hún hafi ekki náð að nýta hana með nægilega skýrum hætti. Ásýnd flokksins hafi ekki verið samhent. Það sé ekki nóg að skipta um formann heldur þurfi ný vinnubrögð og nálgun. Í máli Árna Páls kom einnig fram að hann telur Samfylkinguna vera eina núverandi stjórnarandstöðuaflið sem mælist með tilveru á næsta kjörtímabili sem geti leitt ríkisstjórn.
Skömmu áður hafði formannsframbjóðandinn Magnús Orri Schram skrifað grein í Fréttablaðið þar sem hann sagði að leggja ætti hana niður og stefna að því að stofna „nýja nútímalega stjórnmálahreyfingu“. Samfylkingin þurfi að taka verulegum breytingum á næstu vikum til að geta gengt lykilhlutverki sem valkostur jafnaðarfólks í kosningunum í haust. Vinni hann formannskosninguna í byrjun júní muni Magnús Orri hefja samtal við aðra stjórnmálaflokka og fólk utan flokka, um mótun nýrrar hreyfingar með áherslu á auðlindir í almannaþágu, umhverfisvernd, nýja stjórnarskrá, jöfn tækifæri, öflugt velferðarkerfi og samkeppni í heilbrigðu atvinnulífi.
Ef mennirnir tveir, fráfarandi formaður og einn þeirra sem vill taka við keflinu, töldu að þetta uppgjör þeirra við stöðu flokksins myndi njóta breiðs stuðnings þá varð þeim ekki af ósk sinni. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður flokksins, setti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem sagði:
Sigríður Ingibjörg sendi yfirlýsingu á fjölmiðla vegna viðtals DV við Árna Pál þar sem hún ásakar fráfarandi formann sinn um að reyna að skrifa söguna eftir sínu nefi, sérstaklega varðandi formannsframboð hennar. Þar sagði m.a.: „Eftir því sem nær dró landsfundi varð ljóst að þátttaka yrði í algjöru lágmarki og vitað að margir myndu lýsa óánægju sinni með formanninn með því að skila auðu í formannskjöri á fundinum. Óánægjan og doðinn í flokknum var skelfilegur. Ég tók því þá ákvörðun síðdegis á fimmtudegi fyrir landsfund, þann 19. mars, að gefa kost á mér til formennsku. Viðbrögðin voru miklu sterkari og jákvæðari en ég bjóst við, ekki bara frá Samfylkingarfólki heldur ýmsu fólki á vinstri vængnum. Á landsfundi kom í ljós hversu djúpstæð óánægjan var, enda sigraði sitjandi formaður kjörið með aðeins einu atkvæði. Digurmæli og samsæriskenningar helstu stuðningsmanna formannsins eftir kjörið verða lengi í minnum höfð. Í stað þess að horfast í augu við vandann, var tilvalið að kenna öðrum um hann.“
Það virðist því alls ekki vera svo að innanflokksátökum innan Samfylkingarinnar sé lokið. Því fer raunar fjarri. Og það virðist heldur ekki vera mikill vilji hjá þorra þingflokksins, sem er elsti þingflokkur landsins, til að víkja fyrir yngra fólki. Líklega verða allir sem tilheyra honum utan tveggja í framboði í haust. Fólkið sem talar um hvort annað sem vandamálið ætlar nær allt að sækjast eftir áframhaldandi þingsetu.
Svo virðist, að minnsta kosti á orðum Árna Páls og Magnúsar Orra, að Samfylkingin ætli að veðja á að nýtt vörumerki og nafn, ásamt kosningabandalagi við vinsælli flokka, muni tryggja áframhaldandi tilveru hennar. Árni Páll virðist auk þess telja að enginn annar stjórnarandstöðuflokkur geti leitt ríkisstjórn en Samfylkingin, hvort sem hún muni heita það í haust eða eitthvað annað.
Það eru digurbarkarlegar yfirlýsingar í ljósi þess að flokkurinn er nánast ekki með neitt fylgi og þegar fylgi Pírata fór að minnka ( það er enn í kringum 30 prósent) þá færðist það yfir til Vinstri grænna, ekki til Samfylkingarinnar. Ástæðan er mögulega sú að þeir kjósendur sem ætla sér að styðja stjórnarandstöðuflokkanna til valda eru að færa fylgi sitt til þess flokks sem inniheldur leiðtogann sem það vill að leiði þá ríkisstjórn. Sá leiðtogi er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og einn vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.
Því verður að teljast ólíklegt að Vinstri grænir eða Píratar - sem saman mælast með yfir helmingsfylgi - muni taka umleitunum Samfylkingarinnar - sem mælist með undir átta prósent fylgi - um að móta nýja stjórnmálahreyfingu þar sem Samfylkingarfólk er í forystu opnum örmum. Eina sem Samfylkingin kemur með að því borði er slatti af þingmönnum sem lítil eftirspurn virðist vera eftir, en eiga það allir sameiginlegt að vilja rosalega mikið halda áfram í þingmennsku. Mun líklegra er að óformlegt kosningabandalag verði myndað meðal stjórnarandstöðuflokkanna sem felst í vilyrði um að starfa saman eftir kosningar.
Samfylkingin mun því, enn sem komið er, ekki ná að færa tilvistakreppu sína inn í nýjan stjórnmálahreyfingu. Hún þarf sjálf að takast á við hana áður en að slíkt getur orðið raunhæfur möguleiki.