Hannes eyddi Pace-peningunum í sig og nána tengslamenn
Hannes Þór Smárason átti panamska félagið Pace, sem fékk þrjá milljarða króna frá Fons árið 2007. Hann eyddi peningunum mest megnis í eigin þágu og í þágu „náinna tengslamanna“. Fordæmi úr hæstaréttardómum komu í veg fyrir að ákært yrði í málinu.
Hannes Þór Smárason ráðstafaði þeim þremur milljörðum króna sem Fons lánaði til panamska félagsins Pace Associates þann 24. apríl 2007. 900 milljónir króna fóru inn á reikning aflandsfélags fjárfestisins Magnúsar Ármann vegna þátttöku Hannesar í fasteignaverkefni í Indlandi en að öðru leyti var fjármununum ráðstafað „að stærstum hluta til hlutabréfaviðskipta erlendis fyrir reikning Pace eða annars með öðrum hætti í eigin þágu, annað hvort þá með greiðslu persónulegra skuldbindinga eða beinum greiðslum til hans eða náinna tengslamanna eða hins vegar með beinum greiðslum til innlendra og erlendra félaga á hans vegum.“
Þetta kemur fram í rökstuðningi embættis héraðssaksóknara fyrir því að ákæra ekki þrjá menn sem hafa verið til rannsóknar hjá því árum saman vegna millifærslunnar á milljörðunum þremur. Þyngst vó í ákvörðun saksóknara um að kæra ekki sú staðreynd að tveir hæstaréttardómar hafa fallið þar sem fallist er á Fons hafi verið gjaldfært og með góða eiginfjárstöðu allt fram að efnahagshruninu. Þau fordæmi sem fyrir liggi í hæstaréttardómunum skapi „raunhæfa varnarástæðu“ fyrir gjörningnum og því meti embættið sem svo að minni líkur sé á því að sakfelling fáist í málinu en að mennirnir yrðu sýknaðir.
Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Fons, óskaði eftir rökstuðningnum og samkvæmt upplýsingum frá honum er hann nú með málið til skoðunar. Unnt er að kæra ákvörðun héraðssaksóknara um að ákæra ekki í málinu til ríkissaksóknara innan mánaðar frá því að sú ákvörðun liggur fyrir. Kjarninn hefur rökstuðninginn, sem er ítarlegur, undir höndum. Hann er hægt að lesa hér.
Þrír með réttarstöðu sakbornings til enda
Fons varð gjaldþrota snemma árs 2009. Kröfur í búið námu um 40 milljörðum króna, þótt þær hafi ekki allar verið samþykktar. Skiptum á búinu er ekki lokið og því ekki ljóst hvað fæst upp í lýstar kröfur í búið. Fyrir liggur þó að lítið brot af þeim kröfum sem lýst var í búið fást greiddar.
Mennirnir þrír sem höfðu réttarstöðu sakbornings í málinu voru Hannes Þór Smárason, fyrrum forstjóri FL Group og umsvifamikill fjárfestir á árum áður, Pálmi Haraldsson, fyrrum aðaleigandi Fons, og Þorsteinn Ólafsson, nú framkvæmdastjóri Arena Wealth Management í Lúxemborg en áður starfsmaður Landsbankans þar í landi. Þorsteinn var grunaður um hlutdeild í brotum Hannesar og Pálma.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að héraðssaksóknari hefði ákveðið að ákæra mennina ekki. Samkvæmt rökstuðningnum var sú ákvörðun tekin vegna þess að minni líkur þóttu til þess að fá mennina sakfellda en taldar voru á sýknu þeirra. Tveir aðrir menn, sem sátu í stjórn Fons, voru líka með réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins á upphafsstigum hennar. Fljótlega leiddi rannsókn þó í ljós að þeir höfðu ekki raunhæfa vitneskju um fjármagnsflutninganna sem um ræðir. Pálmi Haraldsson tók ákvörðun um þá einsamall samkvæmt því sem fram kemur í rökstuðningnum.
Eitt þekktasta „hrunmálið“
Pace-málið er á meðal þekktustu „hrunmálanna“. Alls hafa verið sagðar hátt í hundrað fréttir þar sem minnst er á málið í íslenskum fjölmiðlum frá byrjun árs 2010 og fram til dagsins í dag. Málið komst fyrst upp á yfirborðið þegar slitabú Fons fór að rannsaka hvað hefði orðið um þrjá milljarða króna sem millifærðir höfðu verið af reikningum félagsins í apríl 2007 og inn á bankareikning í eigu panamska félagsins Pace Associates, sem var í umsýslu aflandsfélagaveitunar Mossack Fonseca. Það var ekki síst aflandshluti málsins sem vakti mikinn áhuga á því. Og sú leynd sem hvíldi yfir því hvaða einstaklingur eða einstaklingar áttu aflandsfélagið sem tók við peningunum.
Slitabúið hafði nefnilega engar upplýsingar um af hverju peningarnir hefðu verið millifærðir né hver væri eigandi Pace, sem tók við peningunum. Það vakti enn fremur furðu að gjörningurinn var ekki færður endanlega í bókhald Fons fyrr en rúmu ári eftir að hann átti sér stað, eða í júlí 2008. Þá var hann færður inn sem lán og það lán afskrifað samhliða án útskýringa. Skiptastóri bús Fons kærði málið til embættis sérstaks saksóknara, sem nú heitir héraðssaksóknari, í nóvember 2010. Skömmu síðar hófst formleg rannsókn. Að hans mati áttu milljarðarnir þrír að fara til kröfuhafa Fons, sem fá lítið sem ekkert upp í himinháar kröfur sínar, en ekki til Pace.
Pálmi segist hafa verið blekktur
Í rökstuðningi saksóknara fyrir að ákæra ekki í málinu er það reifað nokkuð ítarlega, og mörgum spurningum sem lengi hefur verið ósvarað, er svarað. Þar segir að mikil lausatök hafi einkennt umræddan fjármagnsflutning. Lengi vel hafi verið óljóst samkvæmt bókhaldi Fons hvort að um hafi verið að ræða fjárfestingu eða lán. Saksóknarinn sem skrifar rökstuðninginn segir þetta vera óvenjulegt, svo vægt sé til orða tekið, sérstaklega þar sem um sé að ræða „ráðstöfun á gríðarmiklum fjármunum félagsins“. Þessi lausatök virðast þó hafa gert saksóknara erfiðara fyrir en ella að ákæra í málinu. Hluti af málflutningi hans myndi þá þurfa að felast í því að sanna hvað gjörningurinn væri, þ.e. hvort hann væri fjárfesting eða lán.
Pálmi Haraldsson stýrði öllu sem hann vildi stýra innan Fons og afar óformlegt skipulag var á stjórn félagsins. Hann var grunaður um að hafa framið umboðssvik eða að hafa dregið að sér fé með aðkomu sinni að flutningi á milljörðunum þremur til Pace.
Framburður Pálma við yfirheyrslur saksóknara þótti „óljós“. Í meginatriðum útskýrði hann málið þannig að peningarnir hefðu verið lánaðir til Pace út af fjárfestingaverkefni á Indlandi, sem tengdist kaupum á fasteignum. Magnús Ármann, þekktur fjárfestir, var forgöngumaður þess verkefnis. Í framburði Pálma kom hins vegar afdráttarlaust fram að „hann hafi ekki haft vitneskju um hvernig þeirri fjárhæð sem barst Pace frá Fons hafi að endingu verið ráðstafað“. Þegar Pálma voru kynnt gögn sem sýndu að fénu hefði ekki verið ráðstafað nema að hluta til fjárfestingaverkefnisins á Indlandi bar hann ítrekað fyrir sig að „svo líti út að hann hefði verið blekktur“.
Pálmi gekkst við því við yfirheyrslur að hafa tekið ákvörðun um að afskrifa lánið í bókum Fons en skýrði forsendur þeirrar ákvörðunar ekki að neinu marki. Svo virðist sem að Landsbankinn í Lúxemborg, þar sem Þorsteinn Ólafsson starfaði fyrir hrun, hafi veitt Pálma upplýsingar um að lánið væri tapað og að hann hafi metið allar þær upplýsingar réttar. Við rannsókn málsins hafi hins vegar ekkert komið fram sem studdi þær upplýsingar, né heldur sem dró úr trúverðugleika þeirra.
Pálmi sagði þó ítrekað við yfirheyrslur að lánveitingin til Pace hafi verið viðskiptalegs eðlis. Fons hefði staðið mjög vel á þessum tíma og átt mikið laust fé. Því fé hafi hann viljað koma í ávöxtun með einhverjum hætti. Vel mætti efast um að lánveitingin hafi verið rétt ákvörðun og „hann hefði líklega betur sleppt því.“ Þetta hafi því verið umdeilanleg eða slæm viðskiptaákvörðun, en ekki glæpur.
Hæstaréttardómar vógu þyngst gegn saksókn
Eitt þeirra atriða sem vó þyngst í ákvörðun saksóknara að ákæra ekki mennina var sú staðreynd að fyrir liggja tveir hæstaréttardómar frá árinu 2013 í riftunarmálum gegn Pálma og fleirum þar sem niðurstöður matsgerða dómkvaddra matsmanna um „gjaldfærni og góða eiginfjárstöðu Fons hf. allt fram að efnahagshruninu í byrjun október 2008“.
Í rökstuðningi saksóknara segir: „Meðal annars með hliðsjón af þeim fordæmum Hæstaréttar, og að öðru leyti því sem ráða má af gögnum málsins um fjárhagsstöðu Fons hf. á þessum tíma, telur embættið að hvað sem öllu líður væri hér um að ræða raunhæfa varnarástæðu af hálfu PH [Pálma Haraldssonar] í hugsanlegu sakamáli út af þessum sakargiftum[...]Að virtum framangreindum atriðum var niðurstaða embættisins um þessi ætluðu brot að enda þótt færa mætti rök fyrir að tiltekin hugtaksskilyrði umboðssvikaákvæðisins væru uppfyllt yrði engu að síður að leggja til grundvallar að á skorti[...]að það sem fram væri komið í málinu gæti talist nægilegt eða líklegt til sakfellis að virtum öðrum refsiskilyrðum“.
Hannes átti Pace
Embætti héraðssaksóknara rannsakaði Hannes Þór Smárason vegna gruns um peningaþvætti, ætluð fjársvik og ætluð skilasvik. Fljótlega þótti peningaþvættissakarefnið ekki raunhæft til nánari íhugunar og því var einblínt á hin sakarefnin við rannsókn málsins. Lengi hafa verið getgátur um hverjir eigendur Pace hefðu verið og margir þar nefndir til sögunnar. Í síðustu viku fékkst í fyrsta sinn staðfest, með stuðningi úr Panamaskjölunum sem lekið var frá Mossack Fonseca, að Hannes hafi verið með prókúru í félaginu og því getað ráðstafað fjármunum þess. Í rökstuðningi saksóknara er endanlega staðfest, með vísun í gögn, að Hannes var endanlegur eigandi Pace.
Í rökstuðningnum kemur fram að við rannsókn málsins hafi embættið komist yfir bankagögn frá Landsbankanum í Lúxemborg, meðal annars yfirlit reikninga Pace og þess háttar gögn, sem aflað var með húsleitum í Lúxemborg. Auk þess voru á meðal gagna málsins tölvupóstsamskipti milli Hannesar og Þorsteins Ólafssonar og fleiri, „sem sýna ákvörðunartöku um ráðstöfun fjár af reikningum Pace sem reikningsyfirlitin endurspegla“. Í kjölfarið er skýrt frá því að Hannes hafi sannarlega ráðstafað þeim þremur milljörðum króna sem Fons lánaði til Pace. 900 milljónir króna fór inn á reikning aflandsfélags í eigu Magnúsar Ármann vegna þátttöku Hannesar í fasteignaverkefni í Indlandi en að öðru leyti var fjármununum ráðstafað „að stærstum hluta til hlutabréfaviðskipta erlendis fyrir reikning Pace eða annars með öðrum hætti í eigin þágu, annað hvort þá með greiðslu persónulegra skuldbindinga eða beinum greiðslum til hans eða náinna tengslamanna eða hins vegar með beinum greiðslum til innlendra og erlendra félaga á hans vegum.“ Ekki er greint sérstaklega frá því hvaða nánu tengslamenn Hannesar fengu hluta af greiðslum Pace til sín.
Í rökstuðningi saksóknara segir að skiptastjóri Fons geti fengið aðgang að þessum gögnum, sem aflað var með húsleit í Lúxemborg og sýna fram á ráðstöfun milljarðanna þriggja, ef hann vilji, en skiptastjórinn gæti reynt að endurheimta féð í einkamáli. Ekki verði þó hægt að ákæra Hannes fyrir að þiggja lán né fyrir að ráðstafa því með þeim hætti sem gert var, enda voru lausatök við lánveitinguna slík að hún var alls ekkert formlega bundin með samningi við það að peningarnir rötuðu í eitt frekar en annað.
Hannes fékkst ekki til að skýra hvernig hann ráðstafaði fénu né af hverju. Hann fékkst raunar ekki til að tjá sig neitt vegna þess að hann nýtti sér rétt sinn við skýrslutöku að tjá sig ekki um sakargiftir á hendur sér. Það sama gerði Þorsteinn Ólafsson.
Allar sakargiftir á hendur Þorsteini voru reistar á því að hann hefði átti hlutdeild í meintum brotum Hannesar og Pálma. Þegar fyrir lá ákvörðun um að þeir yrðu ekki ákærðir gat ekki verið um neina hlutdeildarábyrgð af hálfu Þorsteins að ræða. Því féll saksókn á hendur honum eðlilega niður samhliða ákvörðun um að saksækja ekki Hannes og Pálma.