Þótt það hljómi ótrúlega þá eru tuttugu ár liðin frá því að fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar Spice Girls kom út og skaut þeim rækilega upp á stjörnuhimininn. Lagið hét Wannabe og í stuttu máli sagt var það upphafið að byltingu í tónlistarheiminum, allavega fyrir ungar stelpur um allan heim.
Það tók ekki nema nokkra daga fyrir lagið að verða gríðarlega vinsælt, og komast í fyrsta sæti vinsældarlista. Það var í sjö vikur í röð á toppi breska vinsældarlistans. Í heildina fór lagið í fyrsta sæti vinsældarlista í næstum 40 löndum um allan heim. Það var bara byrjunin að brjálæðinu og innan nokkurra vikna nánast voru þær orðnar heimsfrægar.
Sagan á bak við hljómsveitina er nokkuð þekkt. Þær voru meðal nokkur hundruð ungra kvenna sem svöruðu auglýsingu feðganna Bob og Chris Herbert sem vildu stofna stúlknasveit. Fjórar þeirra sem enduðu í hljómsveitinni, Melanie Brown, Melanie Chishom, Victoria Adams, seinna Beckham, og Geri Halliwell, voru allar valdar í sveitina, ásamt fimmtu stúlkunni. Sú hét Michelle en fljótlega kom í ljós að hún féll ekki inn í hópinn og Emma Bunton kom í staðinn.
Þótt þær hafi vissulega verið settar saman af öðrum og þannig búnar til þá létu þær ekki auðveldlega að stjórn. Þær sættu sig ekki við að aðrir stjórnuðu ferðinni, og áður en þær höfðu gefið nokkuð efni út eða voru orðnar neitt þekktar losuðu þær sig við feðgana. Það gátu þær vegna þess að þær höfðu aldrei skrifað undir samning við þá. Þá kom til sögunnar Simon Fuller, sem varð umboðsmaðurinn þeirra og fylgdi þeim í gegnum mestu frægðina. Þær ráku hann reyndar á hátindi frægðarinnar, þegar þeim þótti hann farinn að ráða ferðinni of mikið. Geri Halliwell, sem stuttu síðar yfirgaf hljómsveitina, hefur líkt tímabilinu eftir að þær ráku hann og fóru að stjórna öllu sjálfar við „sex ára börn að keyra vörubíla.“
Árið 2007 voru hins vegar allir kallaðir saman á ný, þar á meðal bæði Geri Halliwell og Simon Fuller. Þá fóru þær í tónleikaferð víða um heim, og sögðu þá að þetta yrði í síðasta skipti sem þær kæmu saman. Þær stóðu reyndar ekki við það og komu saman allar fimm á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Og núna - á 20 ára afmælinu, ætla þrjár af fimm að koma saman á ný undir nafninu Spice Girls GEM. GEM stendur fyrir Geri, Emma, Melanie B. en hinar tvær ætla ekki að láta sjá sig.
Réðu ferðinni sjálfar meira en fólk hélt
Myndbandið við lagið Wannabe, sem má sjá hér að ofan, var ágætt dæmi um það að fimmmenningarnir létu ekki vaða yfir sig. Það þótti svo ofboðslega óvenjulegt að yfirmenn hjá Virgin vildu henda því og láta taka upp nýtt myndband. Þær börðust hins vegar fyrir þessu skrýtna myndbandi og það sló alveg jafn mikið í gegn og lagið sjálft, á þessari gullöld tónlistarmyndbanda sem þá ríkti.
Það voru líka þær sem börðust fyrir því að lagið yrði fyrsta smáskífan þeirra. Þær voru alveg vissar á því að lagið ætti að vera fyrsta lagið þeirra, á meðan fyrrnefndir yfirmenn hjá Virgin vildu að Say You'll be There yrði fyrsta smáskífan, enda væri það svalara lag. Þær höfðu betur í þeirri baráttu líka.
Við vorum sífellt að reka okkur á hindranir, þú veist, það snérist allt um stráka. Strákar, strákar, strákar. Strákar selja plötur, strákar selja myndbönd, strákar selja tímarit og við sögðum bara kommon, það er kominn tími til að breyta til.
Femínismi fyrir byrjendur
Þótt þær kölluðu það ekki femínisma, þá kenndu Spice Girls heilli kynslóð stúlkna heilmargt um jafnréttismál. Þær töluðu í sífellu um Girl Power, hugtak sem verður ekki reynt að þýða hér, og það hafði veruleg áhrif, þótt margir haldi því fram að um innantóman frasa hafi verið að ræða.
„Girl Power snýst um að sætta sig við sjálfan sig, hafa gaman og ef þig langar að vera í stuttu pilsi og wonderbra-brjóstahaldara, gerðu það en vertu örugg með þig og skemmtu þér vel,“ segir Victoria Beckham t.d. í viðtali snemma á ferlinum. „Og ekki láta neinn annan stjórna lífi þínu því það eruð þið sem stjórnið ykkar lífi,“ bætir Emma Bunton við.
Líkt og kemur fram í heimildarmyndinni Giving you everything, sem gerð var þegar Spice Girls komu saman á ný árið 2007, þá var poppbransinn smekkfullur af strákum og strákasveitum á þessum tíma. „Við vorum sífellt að reka okkur á hindranir, þú veist, það snérist allt um stráka. Strákar, strákar, strákar. Strákar selja plötur, strákar selja myndbönd, strákar selja tímarit og við sögðum bara kommon, það er kominn tími til að breyta til. Þetta snýst um stelpur, þetta er Girl power,“ segir Victoria Beckham í myndinni.
Þær töluðu fyrir og sungu um sjálfstæði og vináttu og þær létu bara eins og þær vildu. Kysstu Karl Bretaprins og létu menn heyra það. Klæddust skrýtnum fötum, sem voru iðulega mjög efnislítil.
Og núna, á tuttugu ára afmæli fyrstu smáskífunnar, er lagið Wannabe orðið að einkennislagi nýrrar herferðar Sameinuðu þjóðanna, eins og sjá má hér að neðan.
Markaðssetning á sterum
Platan Spice kom út í nóvember 1996 og seldist í 31 milljón eintökum, sem er met. Aldrei hefur kvennasveit selt eins mörg eintök af plötu. Sömu sögu má segja af fyrsta laginu Wannabe. Platan seldist hraðar í Bretlandi en nokkur önnur frá því að Bítlarnir voru og hétu. Næsta plata, Spiceworld, seldist í yfir 20 milljónum eintaka og í heildina hafa þær selt yfir 80 milljónir eintaka af plötunum sínum. Það er líka met – engin önnur kvennasveit hefur selt eins mikið. Þær eru líka á meðal mest seldu poppsveita í sögunni.
Þá eru þær iðulega sagðar stærsta og vinsælasta poppfyrirbærið frá Bretlandi á eftir Bítlunum. Eða voru það allavega þar til Adele kom til sögunnar.
En þær settu líka met í markaðssetningu, sem seint verða slegin. Þær voru fáránlegt markaðsafl, og ástæðan fyrir því var margþætt. Auðvitað spilaði mikið inn í að þær voru vinsælastar á meðal ungra barna, og það var kannski auðvelt að markaðssetja gagnvart þeim. Þær voru líka fimm, þær voru ólíkar, og það hjálpaði til. Ungar stelpur völdu sína uppáhalds eða þá sem þær tengdu mest við, og gælunöfnin sem þær höfðu hjálpuðu líka til við þá tengingu. Varstu Sporty, Scary, Ginger, Baby eða Posh?
Þótt ótrúlegt megi virðast þá voru það ekki þær eða markaðsvélin þeirra sem fann upp á þessum gælunöfnum sem þær gengust svo mikið upp í. Það var Top of the Pops tímaritið sem bjó til gælunöfnin fyrir þær, og þær tóku þeim fagnandi og notuðu þau sér til hagsbóta. Mel B. hefur reyndar sagt að það hafi bara verið „latur blaðamaður“ hjá Top of the Pops sem nennti ekki að læra nöfnin þeirra sem hafi búið þetta til.
Dúkkurnar sem má sjá hér að ofan voru bara toppurinn á ísjakanum. Þær gáfu út plötur og eins og tíðkaðist þá gáfu þær líka út smáskífur. Þær gáfu út myndbandsspólur með myndböndunum sínum og viðtölum, og þær bjuggu til heila bíómynd sem heldur betur var hægt að selja út á.
Það var hægt að fá þvílíkt úrval af fatnaði, pennaveski, blýanta, skólatöskur, bolla, skó, myndavélar og svo framvegis. Næstum því allt mögulegt var hægt að fá í Spice Girls útgáfu. Það er meira að segja búið að taka saman og gera sýningu um allan varninginn sem til var. Þá er eftir að nefna allar bækurnar og myndaalbúmin sem hægt var að kaupa myndir í. Nú eða límmiðabækurnar, sem líka var auðvitað hægt að kaupa límmiða inn í.
Þær léku líka í svo mörgum auglýsingum að fljótt varð bakslag, fólki fannst þær vera að selja sig of mikið. Eins og Emma Bunton segir í áðurnefndri heimildarmynd, þá hugsaði hún með sér að hún hefði tekið upp fleiri auglýsingar en tónlistarmyndbönd. En þær völdu þetta sjálfar, og vildu að umboðsmaðurinn Fuller gerði þær að eins miklum stjörnum og hægt var. Þetta var hluti af því.
Markmiðið þeirra var nefnilega alltaf að sigra heiminn. Þær vildu verða þekkt nöfn á hverju heimili og frægar um allan heim. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist það, og að það sé enn þannig 20 árum seinna. Og þær verða áfram hluti af lífi kvenna um allan heim, kvenna sem nú eru á þrítugs- og fertugsaldri. Þær konur munu halda áfram að syngja Wannabe í partýum og karókí á meðan þær lifa.