NATO verður fyrir óbeinum áhrifum af Brexit

Leiðtogar aðildarríkja NATO munu samþykkja gamalgróna tvíbenta stefnu gagnvart Rússum á leiðtogafundi sem hófst í dag. Áframhaldandi samskipti við Rússa og aukinn herafli við landamærin í austri. Óvíst er hver viðbrögð Rússa verða.

Donald Tusk, Barack Obama og Jean-Claude Junker koma sér fyrir á sameiginlegum blaðamannafundi í upphafi leiðtogafundar NATO í Varsjá í Póllandi.
Donald Tusk, Barack Obama og Jean-Claude Junker koma sér fyrir á sameiginlegum blaðamannafundi í upphafi leiðtogafundar NATO í Varsjá í Póllandi.
Auglýsing

NATO-leiðtogar vonast til að geta treyst vestræn tengsl í kjölfar ákvörðunar Breta að segja sig úr Evrópusambandinu á leiðtogafundi Atlantsahafsbandalagsins sem hefst í Varsjá í dag. Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, sækja fundinn fyrir hönd Íslands. Fundurinn stendur í tvo daga, í dag og á morgun.

Á leiðtogafundinum er ætlunin að samþykkja flutning alþjóðlegra herfylkja til Póllands og allra þriggja Eistrasaltsríkjanna til að mæta rússneskri ógn sem hefur aukist mikið undanfarin ár, til dæmis með íhlutunum Rússa í Úkraínu. Þau NATO-ríki sem eiga landamæri að Rússlandi hafa lýst yfir ótta um að Rússar muni beita sömu brögðum gagnvart sér og þeir gerðu í Úkraínu. Einnig er talið að leiðtogarnir muni kynna nýtt eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu.

Þetta er fyrsti leiðtogafundur hernaðarbandalagsins síðan Bretar ákváðu að ganga út úr ESB í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni. Leiðtogar kosningabaráttu Evrópuandstöðunnar í Bretlandi lögðu á það áherslu að NATO gæti orðið vettvangur aukins samstarfs Breta við önnur Evrópuríki yrði Brexit að veruleika. Aðrir bentu á að klofningur frá ESB myndi síður en svo treysta raðir NATO-ríkja í Evrópu.

Staða Breta óbreytt?

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skrifar í pistli í Financial Times að hann trúi að Bretar verði áfram lykilþátttakandi í öryggisgæslu Evrópu. Evrópa og NATO ættu að auka öryggissamstarf sitt og ákveða að halda viðskiptaþvingunum gegn Rússum til streitu.

Auglýsing

Andrzej Duda, forseti Póllands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sögðu í morgun að styrkur hernaðarbandalagsins liði ekki fyrir Brexit. „ESB og NATO eru nokkuð ólíkar stofnanir,“ sagði Duda. „Bretland er eitt af sterkustu aðildarríkjum NATO og ég efast ekki um að þátttaka og samstarf í bandalaginu verði áfram sú sama.“

Brexit gerir það óhjákvæmilega að verkum að ESB hefur ekki eins mikil áhrif á alþjóðavettvangi og það gerði. Til að bæta upp fyrir það ætti Evrópa að efla hernaðarmátt sinn, að mati Bogdan Klich, fyrrverandi varnarmálaráðherra Póllands. 

Utanríkisráðherrar Frakklands og Bretlands, þeir Frank-Walter Steinmeier og Jean-Marc Ayrault, hafa lagt það sama til í sameiginlegri stefnuyfirlýsingu í kjölfar Brexit. Stefnuyfirlýsingin var gefin út undir fyrirsögninni „Sterkari Evrópa í heimi óvissu“. Plaggið fór fyrir brjóstið á Bandaríkjunum og Kanada sem vilja ekki að Evrópusambandið búi til aðra hernaðarblokk á meginlandi Evrópu.

Í samtali við breska blaðið The Guardian segir Krzysztof Blusz, hernaðarsérfræðingur í Póllandi, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði margar óbeinar afleiðingar fyrir samstarf hernaðarbandalagsins. „Útganga Breta úr ESB mun skapa þá stöðu að aðildarríkin fara að huga meira að högum sínum heimafyrir. Löngunin er þegar til staðar en Brexit mun auka þessa heimahneigð enn frekar. Stjórnvöld í Moskvu munu ekki missa af tækifærinu til að nýta sér stöðuna.“

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, funduðu í Varsjá í dag.

Gamla góða tvíbenta stefna NATO

„NATO er ekki að leita að átökum. Við viljum ekki annað Kalt stríð. Kalda stríðið er í fortíðinni og ætti  að vera þar áfram,“ sagði Jens Stoltenberg í ræðu sinni í dag og lagði áherslu á að samtali yrði haldið áfram við Rússa. Niðurstaða NATO-fundarins verður því að öllum líkindum sú sama og oft áður: tvíbent stefna um aukið samtal í kjölfar orða um aukin hernaðarumsvif við landamæri að Rússlandi.

Óvíst er hvernig Rússar eiga eftir að bregðast við leiðtogafundinum í Póllandi. Að líkindum verður viðbragðið táknræn yfirlýsing um uppfærðan herafla og ný hernaðartæki. Lukasz Kulesa, rannsóknarstjóri hjá European Leadership Network, samtökum sem sérhæfa sig í rannsókum á utanríkis-, hernaðar- og öryggisstefnu Evrópusambandsins, telur að stjórnvöld í Moskvu muni að öllum líkindum tína til tilbúnar áætlanir og setja í nýjan búning sem viðbragð við leiðtogafundi NATO í Póllandi.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur talað óljóst um hvernig Rússar þurfi að auka hermátt sinn á meðan aðrir embættismenn hafa sagt að Kreml muni mæta aðgerðum NATO á sama hátt; færa herfylki að landamærum í vestri og efla eldflaugavarnarkerfi.

Barack Obama lætur af embætti Bandaríkjaforseta í janúar 2017. Óvissa um hver verði nýr forseti veikir stöðu Bandaríkjanna og um leið NATO.

Kulesa telur að Rússar geti hins vegar gert tvennskonar mistök í viðbrögðum sínum við útkomu leiðtogafundsins. Bæði munu á endanum leiða til þess að samskiptin stirðni enn frekar. Fyrstu mistökin, að mati Kulesa, yrðu þau ef Rússar læsu of mikið í útkomu fundarins og héldu að nú væri NATO að undirbúa átök. Vesturveldin myndu um leið bæta í herafla sinn við landamærin að Rússlandi og fjölga aðildarríkjum frá Austur-Evrópu og Skandinavíu. Af Norðurlöndum eru Ísland, Danmörk og Noregur aðilar að NATO en ekki Svíþjóð og Finnland. Eystrasaltsríkin hlutu öll aðild árið 2004.

Hin mistök Rússa væru að taka niðurstöðu leiðtogafundarins of létt. Rússar gætu allt eins metið stöðuna á Vesturlöndum þannig að bandalagsríkin gangi ekki í takt. Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, lét til dæmis hafa eftir sér á dögunum að herfylking NATO við landamærin væru eins og táknrænar hergagnasýningar. Kulesa bendir einnig á að Rússar gætu talið Bandaríkin veikari nú en oft áður sökum þess að nýr forseti verður kosinn þar á komandi vetri. Hann nefnir einnig að Rússar gætu talið aðgerðir aðildarríkja NATO gegn sér nokkuð bitlausan ljá í þúfu.

„Afleiðingar þessara hugsanlegu mistaka gætu orðið alvarlegar,“ skrifar Kulesa á vef European Leadership Network. „Rússar gætu ákveðið að hefja miklar breytingar á herafla sínum sem stillt er upp við landamærin og gert mun meira en að spegla vesturveldin hinumegin við landamærin. Viðbrögð NATO við slíkum tilfærslum yrðu að efla mátt sinn í Austur-Evrópu til að geta auðveldlega brugðist við grein 5 í stofnsáttmála NATO. Grein 5 vísar í skuldbindingu allra aðildarríkja um að árás á eitt aðildarríki þýði árás á þau öll.

Séu stjórnvöld í Kreml hins vegar með puttan á púlsinum og taka rökrétta ákvörðun þá verður auðvelt fyrir Pútín að sjá að aðildarríkin hafa engan sérstakan áhuga á átökum eða aukinni öryggisgæslu við landamærin.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None