Næst stærsta eldfjall Evrópu lætur á sér kræla

Vísindamenn hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna jarðhræringa í Öræfajökli, stærstu eldstöð Íslands og þeirri næst stærstu í Evrópu. En hvað vitum við um Öræfajökul?

Öræfajökull séður frá suðri.
Öræfajökull séður frá suðri.
Auglýsing

Jarðhræringa hefur gætt í Öræfajökli í auknum mæli á undanförnum vikum og á dögunum hefur myndast sigketill í jöklinum miðjum. Þá hefur brennisteinslyktar gætt í og við Kvíá, sem gengur undan einum skriðjökli Öræfajökuls, Kvíárjökli.

Vegna þessa hafa vísindamenn, í samstarfi við Almannavarnir, hækkað viðbúnaðarstig í nágrenni jökulsins í óvissustig. Hafin er vinna við að kortleggja rýmingar á svæðinu og nákvæmari mælitækjum er komið fyrir.

Allt er þetta gert vegna gruns um að hér gæti næst stærsta eldstöð í Evrópu verið að láta á sér kræla. Aðeins eldfjallið Etna á Sikiley situr á stærri eldstöð í Evrópu. Óvissu­stigi almanna­varna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitt­hvað sé að ger­ast af nátt­úru- eða manna­völdum sem á síð­ari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

Auglýsing

Vísindamenn flugu yfir Öræfajökul í morgun með Landhelgisgæslunni til þess að kanna aðstæður og taka sýni. Þannig má huganlega glöggva sig betur á því hvað sé á seiði undir jöklinum.

Öræfajökull

Öræfajökull stendur syðst í Vatnajökli milli Skeiðarársands og Jökulsárlóns, svo nefnd séu kunnug kennileiti í nágrenninu. Í Öræfajökli er einnig Hvannadalshnjúkur, hæsta fjall Íslands.

Tvisvar hefur gosið í Öræfajökli á sögulegum tíma, árin 1362 og árið 1727. Fyrra gosið var stórgos þar sem öll byggð næst jöklinum lagðist í eyði. Nafn svæðisins hvarf með byggðinni, en áður hafði svæðið kallast Litla-Hérað. Öræfajökull kallaðist einnig Hnappafellsjökull, eftir hnöppunum á jöklinum sem rísa rúmlega 1.800 metra yfir sjávarmáli, fyrir gosið.

Heimildir um gosið 1362 eru fremur fátæklegar en sagnir um eldsumbrotin eru að finna í annálum frá ofanverðri 14. öld. Í Gottskálksannál segir til dæmis:

„Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús eftir nema kirkjan.“

Gosið var heilmikið og þeytti upp um 10 rúmkílómetrum af gjósku. Sævar Helgi Bragason hefur fjallað um gosið á Stjörnufræðivefnum. Þar segir meðal annars að þetta hafi verið mesta vikurgos sem orðið hefur á Íslandi síðan í Heklugosi 800 árum fyrir Kristsburð. Eldsumbrotunum fylgdu jökulhlaup undan mörgum skriðjöklunum sem renna niður eftir öskjubarminum utanverðum; Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli og Svínafellsjökli niður Skeiðarársand. Hlaup úr Kvíárjökli (þar sem í dag má nema brennisteinslykt) rann út á sjó.

Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur Íslands. Hann er jökulsker og rís hæstur á öskjubarmi Öræfajökuls. Mynd: Wiki Commons

„Ekki er vitað hversu stór jökulhlaupin voru en leiða má líkum að því að þau hafi ekki verið stórkostleg og til þess benda raunar vegsummerki í fjallinu. Jökullinn var minni þá en nú vegna hlýindatímabils sem á undan var gengið. Hlaupið hefur þó án efa verið skelfilegt og kröftugt vegna mikillar fallhæðar niður fjallshlíðarnar. Úr orku þess dróg um leið og hlaupvatnið var komin niður á flatlendið þar sem það dreifðist um sandana,“ skrifar Sævar Helgi.

Það liðu margir áratugir áður en búið var aftur í Litla-Héraði, því sem var þá farið að kalla Öræfasveit. Orðið Öræfi hafa enda verið réttnefni fyrir þetta svæði og minningarnar um gosið 1362. Á Vísindavefnum er sagt frá því að hugtakið „öræfi“ merki ofsa, óbyggðir, eyðilönd eða hafnleysu. Allt hefur þetta átt við þetta svæði og gerir jafnvel enn.

Gosið 1727 var mun minna. Þrjár manneskjur fórust í jökulhlaupum auk fjölda húsdýra. Á Stjörnufræðivefnum má lesa eftirminningar séra Jóns Þorlákssonar, prests á Sandfelli þegar gosið hófst. Snarpir jarðskjálftar riðu yfir áður en gosið hófst og fundust þeir vel í sveitinni.

Eldstöð utan gosbeltis

Eldkeilan Öræfajökull stendur utan gosbeltanna sem ganga í gegnum jarðskorpuna undir Íslandi þar sem oftast gýs hér á landi. Talið er að eldstöðin standi á leifum tveggja megineldstöðva. Við Skaftafellsjökul sjást leifar megineldstöðvar sem var virk fyrir um 2,7 milljón árum og nálægt Breiðamerkurfjalli má einnig finna leifar gamallar megineldstöðvar.

Á toppi Öræfajökuls er askja í stað venjulegs toppgígs og er askjan full af jökulís. Talið er að ísinn sé 550 metra þykkur. Á brún öskjunnar má svo finna jökulskerið Hvannadalshnjúk sem er hæsti tindur Íslands í um 2.110 metra hæð yfir sjávarmáli.

Öræfajökull og hugsanleg flóð undan jöklinum hafa verið kortlögð og rannsökuð. Matthew J. Roberts og Magnús Tumi Guðmundsson hafa til að mynda rannsakað jarðfræði eldstöðvarinnar og söguleg flóð undan jöklinum. Lesa má rannsókn þeirra á vef Veðurstofunnar.

Jafnvel þó nokkuð hafi verið ritað um eldstöðina Öræfajökul þá eiga vísindamenn ekki mikið af gögnum um virkni og hegðun eldfjallsins. Skýringin er vitanlega sú að langt er síðan þar gaus síðast og þessi gamli þurs hefur blundað vært um langa tíð.

Askja Öræfajökuls, jöklar og næstu byggðir.

Flugu yfir jökullinn í dag

Jarðvísindamenn frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni flugu yfir jökulinn í dag og rannsökuðu. Magnús Tumi var einn þeirra vísindamanna og sagði hann í samtali við fréttastofu RÚV að sigketillinn sem myndast hefur sé í kringum 21 til 25 metra djúpur. Það sé ekki sérlega djúpur sigketill en mikil dýpkun á þeim stutta tíma sem hann hefur myndast.

Lögregluyfirvöld á Suðurlandi segjast ekki vera neitt ofsalega áhyggjufull yfir ástandinu. „Við erum ekkert ofsalega áhyggjufullir en á meðan við erum að skoða þá fylgjum við þessum stigum Almannavarna og förum á óvissustig,“ segir Sveinn Kristján. Engin rýmingaráætlun sé í gangi. Ekkert hafi verið virkjað nema eftirlitskerfið. Þannig hafi lögreglan á Suðurlandi verið með vakt við Kvíá í nótt,“ er haft eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni á Hvolsvelli, á vef RÚV.

„Eins og ég segi þá er ekki alveg vitað hvað er í gangi þarna. Mögulega er þetta einhver atburður sem er búinn. Mögulega er vatnið í katlinum að skila sér í rólegheitum niður Kvíá og það skýri lyktina. Þetta er allt verið að skoða,“ sagði Sveinn Kristján enn fremur.

Frásögn séra Jóns Þorlákssonar af aðdraganda gossins 1727

„Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnu­dagur eftir trini­tatis, þá er guðs­þjón­usta var byrjuð í heima­kirkj­unni á Sand­felli og ég stóð þar fyrir alt­ar­inu, fann ég hreyf­ingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir pré­dikun fóru hrær­ingar þessar mjög vax­andi, og greip menn þá felmt­ur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við bor­ið. Gam­all maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stund­ar­korn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svar­aði hann: „Gætið yðar vel, herra prest­ur, það er kom­inn upp jarð­eld­ur.““

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar