„Þetta virðist gerast í mestu rólegheitum“

Þrjú gosop hafa opnast á miðjum kvikuganginum á Reykjanesi og við hann eru gönguleiðir að gosstöðvunum. „Það verður að minna á að eldgos eru hættuleg í eðli sínu,“ segir Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur.

Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur hefur undanfarna mánuði kortlagt sprungur á Reykjanesi á þeim slóðum sem síðan fór að gjósa.
Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur hefur undanfarna mánuði kortlagt sprungur á Reykjanesi á þeim slóðum sem síðan fór að gjósa.
Auglýsing

Fyrst tróð hún sér upp á einum stað. Nokkru síðar á öðrum. Og svo enn einum. Jarðeldarnir í Fagradalsfjalli eru allt að því kurteisislegir – svo góðan stað hefur kvikan glóðheita úr iðrum jarðar fundið sér til að vella upp á yfirborðið, fjarri byggð og mannvirkjum. Fyllt einn dal. Síðan tekið að renna allt að því mjúklega í fagur appelsínugulri á, hraunelfi, niður í þann næsta. En þó að hún hafi ekki gert ákveðið boð á undan sér, lítill órói mælst, rétt áður en hún þrýsti sér upp í gegnum jarðskorpuna, kemur staðsetning hinna þriggja gosstaða jarðvísindamönnum ekki á óvart.

Við vitum öll hvað gekk á í aðdragandanum. Hvernig jörðin skalf, eins og svæðið væri að hrista sig fyrir átök, og hvað gervitunglamyndir og aðrar rannsóknir höfðu leitt í ljós: Þarna hafði myndast kvikugangur á litlu dýpi, líklega um átta kílómetra langur. Fullur af kviku djúpt neðan úr sjálfum möttli plánetunnar okkar. Hún fann sér svo leiðina upp í gegnum sprungur.

Auglýsing

„Við byrjuðum að skoða sprungur sem myndast höfðu fyrir gosið,“ segir Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur og rannsóknarsérfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Hún hefur gengið um svæðið þvert og endilangt síðustu vikur og rýnt í jarðveginn.

Litlar sprungur austan við Meradali fimm dögum áður en gosið hófst í Geldingadölum. Mynd: Ásta Rut Hjartardóttir

Reykjanesið er allt mjög eldbrunnið og sprungið, svokallaða sprungusveima er þar að finna. Ekki hafði gosið þar í tæp 800 ár og ekki í Fagradalsfjalli í að minnsta kosti 6.000 ár. En í tengslum við jarðskjálftahrinuna miklu fyrr á árinu höfðu Ásta og samstarfsmenn hennar fundið fullt af litlum sprungum sem voru rétt sjáanlegar á yfirborðinu. Sprungurnar fundust á nokkuð stóru svæði, allt frá Sýlingafelli norðan við Grindavík og austur fyrir gosstöðvarnar, eða á því svæði sem jarðskjálftarnir áttu upptök sín. „Þær tengjast kvikunni óbeint. Kvikugangurinn við Fagradalsfjall myndast þegar kvika þrýstir sér grunnt inn í jarðskorpuna. Þar sem kvikan tekur pláss, þá ýtir hún landinu frá sér sitt hvorum megin við sig, og ýtir þar með á gamlar sprungur fjær kvikuganginum. Þessar sprungur gáfu sig, sem olli jarðskjálftum og sprunguhreyfingum á mun stærra svæði en því sem kvikugangurinn nær yfir,“ útskýrir Ásta.

Svo litlar eru sumar sprungurnar sem urðu á vegi Ástu að þjálfað auga þarf til að finna þær. Til að sjá hvort að um t.d. frosthreyfingu sé að ræða eða eitthvað annað og meira. „Já, það þarf að vita að hverju maður er að leita þegar þær eru svona litlar,“ segir hún. Sumar þeirra hafa aðeins verið nokkrir millimetrar eða sentímetrar á breidd. „Þetta eru í raun jafnvel aðeins örfínar línur í jarðveginum en þegar maður eltir þær þá sést að þær mynda sprungumynstur á stærra svæði“.

Sprunga norðan eldgossins í Geldingadölum. Mynd: Ásta Rut Hjartardóttir

Kvikugangurinn sem uppgötvaðist með alls konar mælingum úr lofti og af landi liggur í norðaustur-suðvestur stefnu. „Og það er í rauninni þannig að miðjan á honum er nálægt því svæði sem fyrst gaus á í Geldingadölum. Gosið kom hreinlega upp beint ofan á honum.“

Sömu sögu er að segja um hina tvo staðina sem nú gýs á. Þeir eru ofan á miðju kvikugangsins. Þar höfðu sést sprungur sem kvikugangurinn hefur væntanlega gert er hann ólmaðist undir.

En af hverju fann kvikan sér nýjan stað til að koma upp – var Geldingadalur ekki nóg fyrir hana?

„Þetta er góð spurning,“ segir Ásta og hlær. „Ein skýringin kann að vera sú að gígurinn byggðist upp og vökvaþrýstingurinn varð hærri og því var þetta orðið of erfitt fyrir hana og hún varð að leita sér að nýjum leiðum.“

Engar nýjar sprungur sjáanlegar

Fjölmargir, líklega tugþúsundir manna, hafa lagt leið sína að gosstöðvunum frá því að það byrjaði að gjósa. Margir hafa vakið athygli á því að gönguleiðirnar liggi ofan á eða skammt frá kvikuganginum sjálfum. Ásta bendir á að líklega séu grynnstu hlutar gangsins þar þegar storknaðir svo ólíklegt verði að teljast að kvika komi þar upp, nema að kvikugangurinn leiti aftur þangað. Hún segir að gönguleiðin liggi vissulega nálægt kvikuganginum en að engar nýjar sprungur líkar þeim sem sem sáust norðan gossprungunnar í Geldingadölum hafi sést sunnan megin við gosstöðvarnar, á þeim slóðum sem ein helsta gönguleiðin liggur. „En það verður að minna á að eldgos eru hættuleg í eðli sínu,“ segir hún.

Getur séð jörðina opnast

Hún minnir líka á að nýjum gosstað fylgi enginn skarkali. Þú gætir bókstaflega staðið fyrir framan hann og séð jörðina opnast. Engin stórkostleg læti verða sem gefa merki um hvað sé að fara að gerast. „Þetta opnast rólega, fyrst kemur gas upp og svo vellur kvikan einfaldlega upp. Þetta virðist gerast í mestu rólegheitum,“ segir Ásta. „Ég elska vefmyndavélar,“ bætir hún hlæjandi við en það er einmitt á þeim sem sást vel hvernig gosið hófst á þriðja staðnum í fyrrakvöld.

En hvað gæti svo gerst? Munu fleiri gosstaðir opnast?

Svarið við því er ekki einfalt. Ekki heldur svarið við spurningunni hvort að önnur eldgosakerfi á Reykjanesskaga muni nú vakna af nokkurra alda Þyrnirósarsvefni. „Ef við skoðum söguna þá segir hún okkur að það hafi verið ákveðin tilhneiging til að kerfin verði virk á svipuðum tíma,“ segir Ásta og bætir við að í jarðsögunni geti orðalagið „svipaður tími“ þýtt áratugir eða jafnvel aldir. „Það gæti orðið þögn á svæðinu eftir þetta gos en svo gæti aftur byrjað að gjósa síðar og þá annars staðar. En já, sagan bendir til þess að þegar eitt kerfið byrjar þá rumski hin.“

Lítið og fallegt gos

Gosstöðvarnar í dag eru á mjög „heppilegum stað“ ef svo má að orði komast. „Fyrst það fór að gjósa á Reykjanesi er þetta einn af skástu stöðunum,“ segir Ásta. Á skaganum séu margvísleg mannvirki og mikilvægir innviðir sem ekki séu í hættu vegna þessa goss. „Svo er þetta lítið og fallegt gos.“

Núna liggur snjóföl yfir svæðinu og því erfitt og jafnvel ómögulegt að greina nýjar sprungur ef einhverjar eru. „En við munum halda áfram að fylgjast með og kortleggja um leið og færi gefst.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira úr sama flokkiViðtal