Veiðigjöld lækka um milljarða þrátt fyrir fordæmalausan hagnað
Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 265 milljarða króna frá lokum 2008 og út 2014. Hagnaðurinn var 242 milljarðar og arðgreiðslurnar tæplega 50 milljarðar. Samt hafa veiðigjöld lækkað úr 12,8 milljörðum í 4,8 milljarða.
Þann 7. júní 2012 var boðað til mikilla mótmæla á Austurvelli. Mótmælin voru skipulögð af Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og sjómenn og útgerðarmenn fjölmenntu til að taka þátt í þeim. Skipum íslenskra útgerða var siglt í land til að áhafnir þeirra gætu verið með og blásið var í þokulúðra skipanna þegar inn í höfnina var komið. Ástæða mótmælanna voru fyrirhugaðar breytingar þáverandi ríkisstjórnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í breytingunum fólst að útgerðir sem nýttu fiskveiðiauðlindina ættu að borga veiðigjöld. Mótmælin báru ekki tilætlaðan árangur og lögin voru samþykkt. Vegna fiskveiðiársins 2012/2013 greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda.
Vorið 2013 tók ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við völdum á Íslandi og í stefnuyfirlýsingu hennar kom fram að lög um veiðigjöld yrðu endurskoðuð. Það varð eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar að samþykkja lög sem lækkuðu veiðigjöld, og voru þau samþykkt 5. júlí 2013. Samhliða var boðað að til stæði að leggja fram frumvarp um heildarendurskoðun laga um veiðigjöld. Sú heildarendurskoðun hefur enn ekki átt sér stað.
Vegna þeirra breytinga sem ráðist hefur verið í hafa verða veiðigjöld sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs lækkað mikið. Á næsta fiskveiðiári verða þau 4,8 milljarðar króna, eða átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013.
265 milljarða viðsnúningur
Í árslok 2008 var staða íslenska sjávarútvegsins ekkert sérlega beysin. Efnahagshrunið hafði leikið geirann, sem var mjög skuldsettur í erlendum gjaldeyri, illa og eigið fé hans var neikvætt um 80 milljarða króna. Síðustu tæpu átta árin hafa hins vegar verið langbestu rekstrarár útvegarins. Veltan hefur farið úr 150 milljörðum króna í 277 milljarða króna árið 2013. Hagnaður sjávarútvegsins frá árslokum 2008 og út árið 2014 var 242 milljarðar króna. Þar spilar einkum tvennt inn í. Í fyrsta lagi gengisfall íslensku krónunnar og í öðru lagi makrílveiðar.
Gengisfallið, og stilling gengis eftir haftasetningu með hagsmuni útflutningsgreina (aðallega sjávarútvegs) að leiðarljósi hefur aukið tekjur útgerðarinnar í krónum talið mjög mikið, enda fiskurinn nær allur seldur fyrir erlendan gjaldeyri. Makrílveiðarnar hafa síðan verið eins og lottívinningur. Heildarútflutningsverðmæti hans hefur verið um 20 milljarðar króna á ári og framlegðin af veiðunum án fordæma í íslenskum sjávarútvegi.
Þessar breytur hafa gert það að verkum að algjör viðsnúningur varð á stöðu íslenska sjávarútvegsins. Í árslok 2014 var eigið fé greinarinnar orðið jákvætt um 185 milljarða króna og viðsnúningurinn því 265 milljarðar króna á sjö árum.
Arðgreiðslur: 49 milljarðar
Þá eru ekki talin með þau verðmæti sem stærstu eigendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér út í arð. Það eru verðmæti sem renna að mestu til mjög fámenns hóps sem hefur komið sér upp sjálfbæru ríkidæmi sem er án fordæma á Íslandi. Alls hafa arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja numið 49 milljörðum króna á tímabilinu 2008-2014. Langhæstu arðgreiðslurnar, annars vegar 11,8 milljarðar króna og hins vegar 13,5 milljarðar króna, hafa átt sér stað á árunum 2013 og 2014.
Á árunum eftir hrun hefur skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja líka batnað mikið. Afborganir umfram nýjar langtímaskuldir á árunum 2008-2014 voru 129 milljarðar króna og frá því að skuldarstaða geirans náði hámarki hafa skuldir hans lækkað um rúm 30 prósent. Auk þess hefur fjárfesting tekið við sér á fullu. Alls hefur verið fjárfest í nýjum skipum og öðrum tilheyrandi fyrir 70 milljarða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2014. Langmest var fjárfestingin á árinu 2014, þegar sjávarútvegsfyrirtækin fjárfestu fyrir 27 milljarða króna.
Samandregið hafa eigendur sjávarútvegsfyrirtækja því greitt sér 49 milljarða króna í arð á árunum eftir hrun, borgað niður skuldir fyrir 129 milljarða króna og fjárfest fyrir 70 milljarða króna.
Þrátt fyrir þessa fordæmalausu velgengni greiða þau sífellt minna fyrir afnot sitt af auðlindinni. Eftir að veiðileyfagjöldin voru lögð á sumarið 2012 þurftu útgerðarfyrirtækin að greiða 12,8 milljarða króna í veiðigjald, bæði almenn og sérstakt. Síðan þá hafa lagabreytingar séð til þess að gjöldin lækka ár frá ári. Fiskveiðiárið 2013/2014 greiddu þau 9,2 milljarða króna, árið eftir voru þau 7,7 milljarðar króna og á yfirstandandi fiskveiðiári eru þau áætluð 7,4 milljarðar króna. Á næsta fiskveiðiári, sem hefst í ágúst næstkomandi og stendur í eitt ár, er hins vegar áætlað að heildarveiðigjöld dragist saman um 40 prósent og verði 4,8 milljarðar króna.
Reyndu að gefa makrílkvótann
Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu snemma árs 2015. Ljóst var frá fyrstu mínútu að engin sátt yrði um frumvarp milli stjórnarflokkanna og snérust deilur þeirra fyrst og síðast um hver ætti að fara með forræði yfir fiskveiðikvótanum, ríkið eða útgerðin. Á endanum var frumvarpið ekki lagt fram.
Frumvarp um úthlutun makrílkvóta var ekki síður umdeilt. Upphaflega stóð til að kvótasetja makríl og gefa útgerðunum sem veitt höfðu makrílinn heimildir til að veiða hann. Í stað þess að úthluta kvótanum varanlega til útgerðanna, líkt og áður hafði verið gert, þá átti að fara ákveðna millileið og úthluta honum til sex ára með framlengingarákvæði. Miðað við hefðbundna reiknireglu var heildarverðmæti makrílkvótans á bilinu 150 til 170 milljarðar króna. Því stóð til að gefa völdum útgerðum þau verðmæti án endurgjalds.
Í stuttu máli varð allt vitlaust. Ríflega 51 þúsund manns skrifuðu undir áskorun á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum væri ráðstafað til lengri tíma en eins árs, á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum er í stjórnarskrá.
Á endanum komst makrílfrumvarpið ekki út úr atvinnuveganefnd og hefur ekki verið lagt fram á ný.
Píratar vilja sækja 30 milljarða á ári
Sögulega hafa núverandi stjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, staðið varðstöðu um það fiskveiðistjórnunarkerfi sem er við lýði og hvernig arðsemi af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar skiptist á milli útgerðarmanna og ríkiskassans. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði til að mynda á Alþingi í maí að honum þótt ekki sanngjart að taka sérstakt gjald af sjávarútveginum umfram aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins með einhverjum hætti.Þau séu í raun aukaskattur á hluta landsbyggðarinnar. Best væri að nýta skattkerfið til að innheimta arð af auðlindum og setja allar atvinnugreinar undir sama hátt.
Fátt bendir til þess að stjórnarflokkarnir sitji áfram við völd að loknum kosningum, fari þær fram í haust líkt og boðað hefur verið. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er samanlagt fylgi þeirra 32,7 prósent og þeir því langt frá þeim meirihluta sem flokkarnir tveir hafa í dag.
Miðað við stöðuna í íslenskum stjórnmálum í dag verður að teljast ólíklegt að einhver hinna flokkanna sem bjóða fram í haust muni vilja mynda ríkisstjórn með öðrum hvorum stjórnarflokknum. Þvert á móti hefur mikið verið rætt í þeirra röðum að mynda kosningabandalag stjórnarandstöðuflokka og mögulega nýrra framboða fyrir kosningar. Hversu djúpstætt það bandalag yrði liggur ekki fyrir, og líkast myndi það ekki snúast um annað en að sameinast um valin mál og heita því að vinna saman eftir kosningar.
Eitt þeirra mála sem mikill samhljómur er á meðal stjórnarandstöðuflokkanna er einmitt breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Píratar, sem hafa mælst stærsti flokkur landsins um margra mánaða skeið, hafa til að mynda samþykkt sjávarútvegsstefnu sem felur í sér að aflaheimildir verði boðnar upp. Samkvæmt stefnunni er gert ráð fyrir að þriðjungur uppboðstekna renni til sveitarfélaga i gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga eða sambærilegan sjóð. Árlegar viðbótatekjur ríkissjóðs af þessari aðgerð eiga að vera 20 milljarðar króna á ári en sveitarfélaga um tíu milljarðar króna.
Samfylkingin hefur sömuleiðis lengi haft þá stefnu að arðurinn af nýtinga auðlinda fari til þjóðarinnar og í stefnu Vinstri-grænna er talað um innköllun aflaheimilda og sanngjarnari úthlutun þeirra sem tryggi aðra skiptingu á arðsemi en nú er við lýði. Í ályktun Bjartrar framtíðar segir að auðlindir „til lands og sjávar skili þjóðinni mun meira fé í sameiginlega sjóði, sem síðan nýtist til þess að bæta almenn skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki af öllu tagi um allt land.“
Eini flokkurinn utan stjórnar sem mælist með nægjanlegt fylgi til að komast inn á þing í síðustu könnunum en er ekki með stefnu sem felur í sér grundvallarbreytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu er hin nýstofnaða Viðreisn. Í varlega orðaðri málefnayfirlýsingu á vef flokksins segir að Viðreisn vilji að Ísland verði áfram í forystu um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og að sett verði fram nýtingarstefna um auðlindir sem byggist á vísindalegum grunni. Í grunnstefnu flokksins stendur þar að auki að hann vilji að náttúruauðlindir landsins sé sameign þjóðarinnar, þær beri að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir.