Frjálslyndir flýja Sjálfstæðisflokkinn
Viðreisn spratt upp úr óánægju með slit á aðildarviðræðum við ESB. Flokkurinn lýsir sér sem frjálslyndum og alþjóðasinnuðum flokki breytinga, og þar með valkosti við íhaldsaman Sjálfstæðisflokk. Sögulegur klofningur hægrimanna er að eiga sér stað.
Sjálfstæðisflokkurinn varð til við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929. Nú, árið 2016, mun formlega dragast í sundur með frjálslyndum og íhaldsmönnum að nýju. Þ.e. hinir frjálslyndu flykkjast nú til liðs við nýja hægriaflið Viðreisn en íhaldsmennirnir sitja eftir í Sjálfstæðisflokknum.
Munurinn á flokkunum tveimur kristallast vel í orðum sem forvígismenn þeirra beggja, frændurnir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafa látið falla að undanförnu. Bjarni sagði í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi 8. maí síðastliðinn að helsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum yrði að verja stöðugleika á Íslandi með því að standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá. Benedikt sagði í viðtali við Kjarnann 26. júlí að hann hefði tekið eftir þessum orðum Bjarna. „Okkar meginmál eru að koma í gegn róttækum kerfisbreytingum,“ sagði Benedikt. Megináherslur Viðreisnar yrðu markaðsleið í sjávarútvegi, nútímaleg landbúnaðarstefna, að styrkja hag þeirra sem minnst fá út úr almannatryggingakerfinu og auðvitað kosningar um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Síðasta áhersluatriðið sem Benedikt nefndi er mikilvægt, enda má rekja stofnun Viðreisnar beint til þess.
Hófst allt með viðræðuslitum
21. febrúar 2014 verður líklega einn örlagaríkasti dagur í sögu Sjálfstæðisflokksins. Þá lagði Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Framlagning tillögunnar var keyrð áfram af Framsóknarflokknum, sem hafði undirbúið hana vel. Þingflokki Sjálfstæðisflokksins var hins vegar ekki kynnt efni hennar fyrr en sama dag og hún var lögð fram. Samt stóð hann með tillögunni.
Í kjölfar þess að tillagan var lögð fram urðu fjöldamótmæli á Austurvelli og hópur alþjóðasinnaðra sjálfstæðismanna klauf sig opinberlega frá flokknum sínum. Á meðal þeirra sem tilheyra þeim hópi má nefna fyrrverandi flokksformanninn Þorstein Pálsson, áðurnefndar Benedikt Jóhannesson, lífeyrissjóðaáhrifamanninn Helga Magnússon, Þórð Magnússon fjárfesti, fyrrverandi borgarfulltrúann Jórunni Frímannsdóttur og Vilhjálm Egilsson rektor svo fáeinir séu nefndir. Þess utan gagnrýndi fyrrverandi varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stefnu flokksins harðlega og sagði að hún vildi ekki að harðlífið tæki yfir. „Við viljum ekki að svartstakkarnir í flokknum eigi flokkinn meira en ég og þú,“ sagði Þorgerður Katrín í þætti á RÚV skömmu eftir að tillagan var samþykkt.
Ástæða þess að frjálslyndir alþjóðasinnar voru svona reiðir var sú að þeir töldu flokksforystuna hafa lofað því að aðildarviðræðum yrði ekki slitið nema að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Raunar er enginn vafi um að slík loforð voru gefin í aðdraganda þingkosninga 2013, líkt og sjá má á myndbandinu hér að neðan.
Hópur fjársterkra áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi og víðar, sem hafði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum allt sitt líf, hóf að hittast reglulega til að ræða möguleikann á nýju framboði og annar hópur stofnaði lokaða grúppu á Facebook undir nafninu „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn“.
Kjarninn greindi frá því í apríl 2014 að víðtæk vinna við mótun nýs framboðs væri þá þegar hafin. Hún var fjórskipt. Í fyrsta lagi snerist hún um að móta stefnu þess og manna framboðið. Þar var lögð áhersla á að hinn nýi flokkur verði ekki einsmálsflokkur utan um aðild að Evrópusambandinu, þótt mjög skýr utanríkisstefna sem taki mið af nánu samstarfi við vestrænar þjóðir yrði að verða fyrirferðamikil. Mikill vilji var til þess að gera það að einu af aðalstefnumálum flokksins að skera upp íslenska landbúnaðarkerfið og lækka opinbera niðurgreiðslu þess og verndartolla umtalsvert. Þá var stefnt að því að vera með skýra stefnu í sjávarútvegsmálum sem átti að snúast um að útgerðarfyrirtæki greiði meira fyrir afnot af auðlindinni en þau gera nú. Það var líka stefnt að því að ná í fólk til að fara í framboð af báðum kynjum, á mismunandi aldri og úr mörgum stéttum. Var þar sérstaklega horft til fólks úr heilbrigðis- og menntastéttum, frumkvöðla og stjórnenda úr atvinnulífinu.
Í öðru lagi var lögð mikil áhersla á að skipulag framboðsins verði með besta móti. Tímasetning þess að ráðist yrði í það var talin skipta öllu máli til að hægt verði að nýta mögulegan meðbyr sem best.
Í þriðja lagi var unnið að því sem kallað var áróðurs- og fræðslumál. Undir þann lið féll að koma boðskap hins nýja framboðs á framfæri, meðal annars í fjölmiðlum.
Fjórði þátturinn, og einn sá mikilvægasti, snerist síðan um fjármál. Framboðið átti að vera gríðarlega vel fjármagnað frá byrjun. Það átti ekki að vera vandkvæðum bundið þar sem margir mjög fjársterkir aðilar höfðu þegar tengt sig við það. Samkvæmt heimildum Kjarnans var lögð áhersla á að einstaklingar myndu greiða fyrir tilvist framboðsins úr eigin vasa. Einn viðmælanda Kjarnans sagði að þar myndi ekki verða beðið „um hundrað þúsund kalla, heldur milljónir“.
Viðreisn formlega stofnuð
Fyrsti formlegi stefnumótunarfundur hins nýja stjórnmálaafls var haldinn 11. júní 2014. Um svipað leyti var tilkynnt að flokkurinn myndi heita Viðreisn, eftir Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat við völd á Íslandi frá 1959 og fram til ársins 1971. Tæpu ári síðar, 17. mars 2015, var haldinn fyrstu fundur stuðningsmanna flokksins. Flokkurinn var loks formlega stofnaður á fundi í Hörpu 24. maí 2016 sem um 400 manns mættu á. Þar var Benedikt Jóhannesson kjörinn formaður hans. Á fundinum var grunnstefna flokksins samþykkt og greint frá því að flokkurinn ætlaði sér að bjóða fram lista í öllum kjördæmum í næstu þingkosningum, sem þá hafði verið flýtt fram á haustið 2016 vegna Wintris-málsins og afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra í kjölfar þess.
Í viðtölum við fjölmiðla í kjölfar fundarins lagði Benedikt ríka áherslu á að Viðreisn yrði frjálslyndur flokkur. Flokkurinn myndi fyrst og fremst hugsa um neytendur og almenning og standa gegn sérhagsmunum. Í tilkynningu vegna stofnunnar Viðreisnar sagði að grunnstefna flokksins fælist í því „að byggja upp samfélag þar sem einstaklingar vilji og geti nýtt hæfileika sína til fulls. Mikilvægt sé að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að traust ríki í stjórnmálum og í garð stofnana ríkisins. Efla beri málefnalega umræðu og góða stjórnarhætti með áherslu á gegnsæi og gott siðferði.“
Fylgið virðist koma frá Pírötum
Augljóst er að orðræðan í kringum Viðreisn er valin af kostgæfni hjá þeim sem að flokknum standa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur burðast með ásakanir um að vera flokkur sérhagsmuna og varðstöðu um gildandi samfélagsgerð, með réttu eða röngu. Viðreisn, og þeir sem standa að framboðinu, vilja reyna að mála þá skýru mynd að flokkurinn sé andstæður póll við Sjálfstæðisflokkinn á hægri væng stjórnmálanna. Eins og Frjálslyndi flokkurinn var gagnvart Íhaldsflokknum áður en þeir sameinuðust árið 1929.
Eftir að stofnfundur Viðreisnar var haldinn hefur flokkurinn mælst ágætlega í könnunum. Samkvæmt kosningaspá Kjarnans hefur fylgi flokksins farið úr um þremur prósentum fyrir stofnfundinn og hæst upp í 9,5 prósent í byrjun júlí. Nú mælist fylgi Viðreisnar 8,7 prósent, eða nákvæmlega jafn mikið og fylgi Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, tveggja rótgróinna stjórnmálaafla sem átt hafa aðild að ríkisstjórnum á Íslandi að undanförnum árum.
Það vekur þó athygli að Viðreisn virðist ekki hafa verið að taka mikið fylgi af Sjálfstæðisflokknum á undanförnum mánuðum. Þvert á móti hefur fylgi hans aukist lítillega frá því að stofnfundur Viðreisnar var haldinn og mælist nú 25,4 prósent. Það er þó í sögulega samhengi mjög lítið fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann fékk 26,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum sem var næst versta útreið flokksins í slíkum í sögu hans. Einungis í hrunkosningunum 2009 hafði hann fengið færri atkvæði. Samt er fylgi Sjálfstæðisflokksins í hæstu hæðum miðað við kannanir um þessar mundir í samanburði við það hvernig það hefur verið á þessu kjörtímabili. Þar hefur það á stundum farið undir 20 prósent. Bjarni Benediktsson, sagðist á Hrafnaþingi á ÍNN í gær að framboð Viðreisnar trufli sig ekki neitt.
Sá flokkur sem virðist tapa mestu eftir að Viðreisn sýndi á spilin eru Píratar. Fylgi þeirra hefur verið á milli 30-40 prósent samkvæmt könnunum nær óslitið frá byrjun síðasta árs, en hefur dalað skarpt síðustu mánuði. Nú segjast 25,6 prósent landsmanna að þeir styðji Pírata. Þessi staða bendir til þess að óánægjufylgi alls staðar að úr hinu pólitíska litrófi hafi safnast upp á bak við Pírata og að ný framboð sem skilgreina sig sem valkosti ýmist hægra- eða vinstra megin við þá geti vel náð hluta þess fylgis til sín. Það virðist Viðreisn gera.
Það blasir þó við að Viðreisn vill meira og telur sig geta tekið fylgi af fleirum. Þar er einkum horft til „gamla“ flokksins, Sjálfstæðisflokksins, og Samfylkingar. Líklegt verður að teljast að Samfylkingin sé í einhverskonar botnfylgi sem stendur, enda flokkurinn í alvarlegri hættu á að ná ekki inn á þing í næstu kosningum. Samt stendur til að bjóða fram allt sama fólkið og hefur verið í forgrunni flokksins í þeirri vegferð fylgishruns sem hann hefur verið á undanfarin ár. Það gleymist nefnilega oft í umræðunni að Samfylkingin var mjög stórt afl í íslenskum stjórnmálum framan af öldinni. Nú virðast færri ætla að kjósa flokkinn en eru skráðir í hann og fáir flokksmenn virðast vera að horfa inn á við í leit að skýringu á stöðunni.
Framboð Þorsteins reiðarslag
Viðreisn telur sig hins vegar hafa eftir ýmsu að slægjast hjá Sjálfstæðisflokknum. Margir þeirra sem hafa komið að stofnun Viðreisnar störfuðu enda árum og áratugum saman innan þess flokks.
Mótun framboðslista Viðreisnar, sem nú er á lokametrunum, ber merki þessa. Í þessari viku hefur verið tilkynnt um að Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ætli að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið fyrir flokkinn. Það hefði þótt óhugsandi að formaður slíkra hagsmunasamtaka í atvinnulífinu færi í framboð fyrir annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn undanfarna áratugi. Framboð Þorsteins er því reiðarslag fyrir flokkinn.
Það er framboð Pawels Bartoszek, pistlahöfundar og stærðfræðings ekki síður, en hann ætlar sér einnig sæti á lista flokksins í höfuðborginni. Pawel er hluti af Deigluhópnum svokallaða, frjálslyndum armi sem starfaði lengi innan ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins og sameinast í kringum vefritið Deigluna.
Þá er ótalið mögulegt framboð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur fyrir Viðreisn. Fari hún fram fyrir flokkinn mun hún leiða hann í Suðvesturkjördæmi og mæta þar fyrrverandi samherja sínum og vini Bjarna Benediktssyni. Það að fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins fari fram sem oddviti annars stjórnmálaflokks mun svíða mjög innan flokksins.
Jafnt kynjahlutfall á meðal oddvita
Viðreisn ætlar sér að vera með jafnt kynjahlutfall í efstu sætum framboðslista sinna. Líklegt verður að þykja að Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins, leiði í öðru Reykjavíkurkjördæminu og að Þorsteinn Víglundsson leiði í hinu. Ef kona leiðir í Suðvesturkjördæmi er ljóst að konur munu einnig leiða í tveimur af þremur landsbyggðarkjördæmunum. Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Í öðru sæti þar verður þá að öllum líkindum Bjarni Halldór Janusson, formaður ungliðahreyfingar Viðreisnar. Meiri óvissa er um hverjir muni skipa efstu sætin á lista flokksins í Norðvestur- og Norðausturkjördæmunum en Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur hefur sagt að hann sækist eftir einu af efstu sætunum hjá flokknum í Norðvestur.
Endanlegir framboðslistar Viðreisnar verða kynntir á allra næstu dögum, og allir eiga þeir að liggja fyrir áður en ágúst er úti. Þá mun fyrst koma í ljós hversu alvarlega Viðreisn nær að höggva í tilvist Sjálfstæðisflokksins.