Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi
Eigið fé Íslendinga hefur tvöfaldast á sex árum. Fjórar af hverjum tíu krónum sem verða til af nýjum auði á Íslandi fara til ríkustu tíundar landsmanna, alls 20 þúsund manns. Samanlagt á ríkasti fimmtungur landsmanna 87 prósent af öllu eigin fé.
Ísland hefur upplifað mikinn efnahagsbata á undanförnum árum. Alls hefur hrein eign landsmanna aukist um 1.384 milljarða króna frá árslokum 2010 og fram að síðustu áramótum, eða tæplega tvöfaldast. Helsta ástæða þess að auður hefur aukist er vegna þess að eigið fé Íslendinga í fasteignum þeirra hefur tvöfaldast á tímabilinu. Hækkun á fasteignaverði og lækkun skulda útskýrir því 82 prósent af allri eiginfjáraukningu Íslendinga á þessum árum.
En auðurinn sem verður til skiptist ekki jafnt á milli hópa í samfélaginu. Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá 2010 hafa 527,4 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga, alls 20.251 fjölskyldna (einstaklinga og samskattaðra), sem eiga mest. Það þýðir að tæplega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum árum hafa farið til ríkasta hóps landsmanna.
Í fyrra jókst auður þessarar tíundar um 185 milljarða króna, eða um 6,8 milljón krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu sem tilheyrir henni. Alls fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign til þessa hóps á árinu 2015. Á sama tíma og þessi hópur átti hreina eign - þ.e. eignir eftir að skuldir höfðu verið dregnar frá - upp á 1.880 milljarða króna í lok síðasta árs skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar sem hafði tekjur í fyrra - rúmlega 100 þúsund manns - 211 milljarða króna umfram eignir sínar. Munurinn á eiginfjárstöðu fátækari helmings Íslendinga og ríkustu tíu prósenta þjóðarinnar var því 2.091 milljarðar króna um síðustu áramót. Þetta kemur fram í tölum yfir eigna- og skuldastöðu einstaklinga samkvæmt skattframtölum sem Hagstofa Íslands birti í gærmorgun.
Hinir ríkustu eiga 64 prósent
Alls nam eigið fé Íslendinga 2.949 milljörðum króna um síðustu áramót og jókst um 430 milljarða króna á árinu. Í tölum Hagstofunnar er þeim einstaklingum og samsköttuðum sem eru á vinnumarkaði skipt niður í tíu hópa eftir því hversu miklar tekjur þeirra eru.
Ríkasta tíund landsmanna átti 1.880 milljarða króna af þessari eign, eða 64 prósent. Hinn rúmi þriðjungurinn skiptist niður á 90 prósent þjóðarinnar. Ef næsta tíund fyrir neðan er tekin með, og reiknuð er hlutfall ríkasta fimmtungs landsmanna í öllu eigið fé Íslendinga, kemur í ljós að sá hópur, 40.502 fjölskyldur, á 87 prósent af öllu eigin fé landsmanna.
Á sama tíma var hrein eign fátækari helmings þjóðarinnar neikvæð um 211 milljarða króna á síðasta ári. Þ.e. þessi rúmlega eitt hundrað þúsund manna hópur skuldaði 211 milljörðum krónum meira en hann átti. Staða þess helmings landsmanna sem átti minnst batnaði þó umtalsvert á síðasta ári, eða um 58 milljarða króna. Þar af voru 20,6 milljarðar króna vegna hækkunar á eigin fé í fasteignum á árinu 2015, vegna mikillar hækkunar á fasteignaverði sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.
Tvær þjóðir
Það sést glögglega á tölum Hagstofunnar að það búa tvær þjóðir á Íslandi: sú sem er launafólk og skuldar og sú sem hefur fjármagnstekjur og á miklar eignir.
Fjármagnstekjur eru allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri. Í fyrra höfðu Íslendingar alls 114,2 milljarða króna í slíkar tekjur. Þar af fóru 79,2 milljarðar króna til ríkustu tíu prósenta landsmanna og 13,3 milljarðar króna til þeirrar tíundar sem á eftir kom. Því höfðu þessi tveir hópar, 20 prósent landsmanna, 81 prósent af öllum fjármagnstekjum í fyrra.
Sá helmingur Íslendinga sem átti minnst hafði samtals sjö milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2015.
Ríkustu Íslendingarnir áttu einnig nánast öll verðbréf á Íslandi í fyrra. Verðbréf eru hlutabréf í innlendum eða erlendum hlutabréfum, skuldabréf og aðrir slíkir fjármálagjörningar.
Alls nam verðbréfaeign þjóðarinnar 422,3 milljörðum króna í lok árs í fyrra og hafði þá aukist um 38,3 milljarða króna á einu ári. Ríkasta tíu prósent Íslendinga átti 361,5 milljarða króna í verðbréfum um síðustu áramót og því liggur fyrir að 86 prósent allra verðbréfa var í eigu þess hóps. Af þeirri 38,3 milljarða króna virðisaukningu verðbréfa sem varð í fyrra fóru 35,5 milljarðar króna, eða 93 prósent, til ríkustu 20 þúsund Íslendinganna á vinnumarkaði.
Misskipting auðs aukist á undanförnum áratugum
Árið 1997 átti ríkasta tíund landsmanna 56,3 prósent af öllu eigin fé í landinu. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslendinga fjórfaldast, enda banka- og eignabóla þá þanin til hins ítrasta, og ríkustu tæplega 20 þúsund Íslendingarnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt samanlagt tíu árum áður. Þá nam hlutdeild þessarar ríkustu tíundar í heildar eigin fé Íslendinga 62,8 prósentum.
Eftir bankahrunið tapaði stór hluti landsmanna miklu af eignum sínum. Það átti sérstaklega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í húsnæði. Þótt ríkir Íslendingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 prósent alls eigin fjár hjá ríkustu tíund landsmanna á þeim tíma. Ríkasti fimmtungur landsmanna átti á þeim tíma 103 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Það þýðir að restin, 80 prósent landsmanna, var samanlagt með neikvætt eigið fé.
Síðan hefur hlutfallsleg eign þeirra á eigin fé landsmanna dregist saman, sérstaklega samhliða mikilli aukningu á eign allra hópa í fasteignum sínum. Alls hefur eigið fé í fasteignum Íslendinga aukist úr 1.146 milljörðum króna í 2.285 milljarða króna frá lokum árs 2010 og fram að síðustu áramótum.
Nokkur hundruð milljarðar króna eru tilkomnir vegna skuldaniðurfærslna sem áttu sér stað í gegnum 110 prósent leið, sértæka skuldaaðlögun og svo 80 milljarða króna leiðréttingu sitjandi ríkisstjórnar. En meginþorri hinnar bættu stöðu er vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt á örfáum árum, og langt umfram verðbólgu.
Hlutfallsreikningur segir lítinn hluta sögu
Í frétt Hagstofunnar um birtingu talnanna er lögð áhersla á að eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða hafi hlutfallslega batnað á árinu 2015. Þar segir m.a. að eiginfjárstaða einstæðra foreldra hafi batnað um 50 prósent og einstaklinga um 17,1 prósent. Eiginfjárstaða hækki mest milli ára í aldurshópnum 25-39 ára, þar sem hún fer úr 55 í 111 milljarða króna.
Alls voru 76 prósent allra fjölskyldna í landinu með jákvæða eiginfjárstöðu í lok síðastar árs en 22 prósent þeirra með neikvæða eiginfjárstöðu, þ.e. skulduðu meira en þær áttu.
En hlutfallsreikningur segir oft lítinn hluta sögunnar. Sá mikli efnahagsbati sem Ísland hefur upplifað undanfarin ár hefur vitanlega bætt eignastöðu allra hópa. Og þótt að ungt barnafólk virðist vera sigurvegarar þess efnahagsbata þegar aukning á hreinni eign er reiknuð í hlutfallsaukningu þá er sá hópur það ekki þegar aukinn auður er mældur í beinhörðum krónum. Því þá kemur í ljós að þeir sem eru ríkastir fá langstærstan hluta þess viðbótarauðs sem varð til á síðasta ári.
Skýringin hefur verið uppfærð með þeim hætti að tíundirnar endurspegli ekki einstaklinga heldur fjölskyldur (einstaklinga og samskattaða). Auk þess hefur útreikningur á meðaltalsaukningu á nafnvirði eigna efsta tekjuhópsins verið uppfærður. Í upphaflegu fréttinni var hann 9,1 milljónir króna en er nú 6,8 milljónir króna. Ástæðan er upphaflega láðist að taka með fjölgun eininga á milli ára í efstu tíundinni.