Mynd:Birgir Þór Harðarson
#stjórnmál #efnahagsmál

Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi

Eigið fé Íslendinga hefur tvöfaldast á sex árum. Fjórar af hverjum tíu krónum sem verða til af nýjum auði á Íslandi fara til ríkustu tíundar landsmanna, alls 20 þúsund manns. Samanlagt á ríkasti fimmtungur landsmanna 87 prósent af öllu eigin fé.

Ísland hefur upp­lifað mik­inn efna­hags­bata á und­an­förnum árum. Alls hefur hrein eign lands­manna auk­ist um 1.384 millj­arða króna frá árs­lokum 2010 og fram að síð­ustu ára­mót­um, eða tæp­lega tvö­fald­ast. Helsta ástæða þess að auður hefur auk­ist er vegna þess að eigið fé Íslend­inga í fast­eignum þeirra hefur tvö­fald­ast á tíma­bil­inu. Hækkun á fast­eigna­verði og lækkun skulda útskýrir því 82 pró­sent af allri eig­in­fjár­aukn­ingu Íslend­inga á þessum árum.

En auð­ur­inn sem verður til skipt­ist ekki jafnt á milli hópa í sam­fé­lag­inu. Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá 2010 hafa 527,4 millj­arðar króna runnið til þeirra tíu pró­sent Íslend­inga, alls 20.251 fjöl­skyldna (ein­stak­linga og sam­skatt­aðra), sem eiga mest. Það þýðir að tæp­lega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum árum hafa farið til rík­asta hóps lands­manna.

Í fyrra jókst auður þess­arar tíundar um 185 millj­arða króna, eða um 6,8 milljón krónur að með­al­tali á hverja fjöl­skyldu sem til­heyrir henni. Alls fór 43 pró­sent af allri nýrri hreinni eign til þessa hóps á árinu 2015. Á sama tíma og þessi hópur átti hreina eign - þ.e. eignir eftir að skuldir höfðu verið dregnar frá - upp á 1.880 millj­arða króna í lok síð­asta árs skuld­aði fátæk­ari helm­ingur þjóð­ar­innar sem hafði tekjur í fyrra - rúm­lega 100 þús­und manns - 211 millj­arða króna umfram eignir sín­ar. Mun­ur­inn á eig­in­fjár­stöðu fátæk­ari helm­ings Íslend­inga og rík­ustu tíu pró­senta þjóð­ar­innar var því 2.091 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Þetta kemur fram í tölum yfir eigna- og skulda­stöðu ein­stak­linga sam­kvæmt skatt­fram­tölum sem Hag­stofa Íslands birti í gær­morgun.

Hinir rík­ustu eiga 64 pró­sent

Alls nam eigið fé Íslend­inga 2.949 millj­örðum króna um síð­ustu ára­mót og jókst um 430 millj­arða króna á árinu. Í tölum Hag­­stof­unnar er þeim ein­stak­l­ingum og sam­skött­uðum sem eru á vinn­u­­mark­aði skipt niður í tíu hópa eftir því hversu miklar tekjur þeirra eru.

Rík­asta tíund lands­manna átti 1.880 millj­arða króna af þess­ari eign, eða 64 pró­sent. Hinn rúmi þriðj­ung­ur­inn skipt­ist niður á 90 pró­sent þjóð­ar­inn­ar. Ef næsta tíund fyrir neðan er tekin með, og reiknuð er hlut­fall rík­asta fimmt­ungs lands­manna í öllu eigið fé Íslend­inga, kemur í ljós að sá hóp­ur, 40.502 fjöl­skyld­ur, á 87 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna.

Leiðrétting ríkisstjórnarinnar færði 80 milljarða króna úr ríkissjóði til hluta Íslendinga sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Þessi aðgerð var dropi í hafið í bættri eignastöðu Íslendinga. Hækkun fasteignaverðs hefur aukið hana um hundruð milljarða króna á undanförnum árum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Á sama tíma var hrein eign fátæk­ari helm­ings þjóð­ar­innar nei­kvæð um 211 millj­arða króna á síð­asta ári. Þ.e. þessi rúm­lega eitt hund­rað þús­und manna hópur skuld­aði 211 millj­örðum krónum meira en hann átti. Staða þess helm­ings lands­manna sem átti minnst batn­aði þó umtals­vert á síð­asta ári, eða um 58 millj­arða króna. Þar af voru 20,6 millj­arðar króna vegna hækk­unar á eigin fé í fast­eignum á árinu 2015, vegna mik­illar hækk­unar á fast­eigna­verð­i ­sem átt hefur sér stað á und­an­förnum árum.

Tvær þjóðir

Það sést glögg­lega á tölum Hag­stof­unnar að það búa tvær þjóðir á Íslandi: sú sem er launa­fólk og skuldar og sú sem hefur fjár­magnstekjur og á miklar eign­ir.

Fjár­magnstekjur eru allar vaxta­tekjur auk sölu­hagn­að­ar, arðs og tekna af atvinnu­rekstri. Í fyrra höfðu Íslend­ingar alls 114,2 millj­arða króna í slíkar tekj­ur. Þar af fóru 79,2 millj­arðar króna til rík­ustu tíu pró­senta lands­manna og 13,3 millj­arðar króna til þeirrar tíundar sem á eftir kom. Því höfðu þessi tveir hópar, 20 pró­sent lands­manna, 81 pró­sent af öllum fjár­magnstekjum í fyrra.

Sá helm­ingur Íslend­inga sem átti minnst hafði sam­tals sjö millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2015.

Rík­ustu Íslend­ing­arnir áttu einnig nán­ast öll verð­bréf á Íslandi í fyrra. Verð­bréf eru hluta­bréf í inn­lendum eða erlendum hluta­bréf­um, skulda­bréf og aðrir slíkir fjár­mála­gjörn­ing­ar.

Alls nam verð­bréfa­eign þjóð­ar­innar 422,3 millj­örðum króna í lok árs í fyrra og hafði þá auk­ist um 38,3 millj­arða króna á einu ári. Rík­asta tíu pró­sent Íslend­inga átti 361,5 millj­arða króna í verð­bréfum um síð­ustu ára­mót og því liggur fyrir að 86 pró­sent allra verð­bréfa var í eigu þess hóps. Af þeirri 38,3 millj­arða króna virð­is­aukn­ingu verð­bréfa sem varð í fyrra fóru 35,5 millj­arðar króna, eða 93 pró­sent, til rík­ustu 20 þús­und Íslend­ing­anna á vinnu­mark­aði.

Mis­skipt­ing auðs auk­ist á und­an­förnum ára­tugum

Árið 1997 átti rík­asta tíund lands­manna 56,3 pró­sent af öllu eigin fé í land­inu. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslend­inga fjór­faldast, enda banka- og eigna­bóla þá þanin til hins ítrasta, og rík­ustu tæp­lega 20 þús­und Íslend­ing­arnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt sam­an­lagt tíu árum áður. Þá nam hlut­deild þess­arar rík­ustu tíundar í heildar eigin fé Íslend­inga 62,8 pró­sent­um.

Eftir banka­hrunið tap­aði stór hluti lands­manna miklu af eignum sín­um. Það átti sér­stak­lega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í hús­næði. Þótt ríkir Íslend­ingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 pró­sent alls eigin fjár hjá rík­ustu tíund lands­manna á þeim tíma. Rík­asti fimmt­ungur lands­manna átti á þeim tíma 103 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna. Það þýðir að rest­in, 80 pró­sent lands­manna, var sam­an­lagt með nei­kvætt eigið fé.

Síðan hefur hlut­falls­leg eign þeirra á eigin fé lands­manna dreg­ist sam­an, sér­stak­lega sam­hliða mik­illi aukn­ingu á eign allra hópa í fast­eignum sín­um. Alls hefur eigið fé í fast­eignum Íslend­inga auk­ist úr 1.146 millj­örðum króna í 2.285 millj­arða króna frá lokum árs 2010 og fram að síð­ustu ára­mót­um.

Nokkur hund­ruð millj­arðar króna eru til­komnir vegna skulda­nið­ur­færslna sem áttu sér stað í gegnum 110 pró­sent leið, sér­tæka skulda­að­lögun og svo 80 millj­arða króna leið­rétt­ingu sitj­andi rík­is­stjórn­ar. En meg­in­þorri hinnar bættu stöðu er vegna þess að fast­eigna­verð hefur hækkað gríð­ar­lega hratt á örfáum árum, og langt umfram verð­bólgu.

Hlut­falls­reikn­ingur segir lít­inn hluta sögu

Í frétt Hag­stof­unnar um birt­ingu taln­anna er lögð áhersla á að eig­in­fjár­staða allra fjöl­skyldu­gerða hafi hlut­falls­lega batnað á árinu 2015. Þar segir m.a. að eig­in­fjár­staða ein­stæðra for­eldra hafi batnað um 50 pró­sent og ein­stak­linga um 17,1 pró­sent. Eig­in­fjár­staða hækki mest milli ára í ald­urs­hópnum 25-39 ára, þar sem hún fer úr 55 í 111 millj­arða króna.

Alls voru 76 pró­sent allra fjöl­skyldna í land­inu með jákvæða eig­in­fjár­stöðu í lok síð­astar árs en 22 pró­sent þeirra með nei­kvæða eig­in­fjár­stöðu, þ.e. skuld­uðu meira en þær áttu.

En hlut­­falls­­reikn­ingur segir oft lít­inn hluta sög­unn­­ar. Sá mikli efna­hags­bati sem Ísland hefur upp­­lifað und­an­farin ár hefur vit­an­­lega bætt eigna­stöðu allra hópa. Og þótt að ungt barna­­fólk virð­ist vera sig­­ur­­veg­­arar þess efna­hags­bata þegar aukn­ing á hreinni eign er reiknuð í hlut­­falls­aukn­ingu þá er sá hópur það ekki þegar auk­inn auður er mældur í bein­hörðum krón­­um. Því þá kemur í ljós að þeir sem eru rík­­­astir fá langstærstan hluta þess við­­bót­­ar­auðs sem varð til á síð­­asta ári.

Skýr­ingin hefur verið upp­færð með þeim hætti að tíund­irnar end­ur­spegli ekki ein­stak­linga heldur fjöl­skyldur (ein­stak­linga og sam­skatt­aða). Auk þess hefur útreikn­ingur á með­al­tals­aukn­ingu á nafn­virði eigna efsta tekju­hóps­ins verið upp­færð­ur. Í upp­haf­legu frétt­inni var hann 9,1 millj­ónir króna en er nú 6,8 millj­ónir króna. Ástæðan er upp­haf­lega láð­ist að taka með fjölgun ein­inga á milli ára í efstu tíund­inn­i. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar