Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna þénaði samtals tæpa 42 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2015. Alls eru um að ræða 1.922 framteljendur, 629 samskattaða og 1.293 einhleypa. Þessi hópur þénaði alls 44 prósent af öllum fjármagnstekjum sem íslenskir skattgreiðendur þénuðu í fyrra. Það þýðir að 99 prósent þjóðarinnar skipti með sér 56 prósent fjármagnstekna í fyrra. Þetta kemur fram í staðtölum skatta vegna ársins 2015, sem birtar voru á vef Ríkisskattstjóra fyrr í vikunni.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga, samkvæmt staðtölunum, voru 95,3 milljarðar króna. Fjármagnstekjur eru tekjur sem einstaklingar hafa af fjármagnseignum sínum. Þ.e. ekki launum. Þær tekjur geta verið ýmis konar. Til dæmis tekjur af vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Ef tekjurnar eru útleystar, þannig að þær standi eiganda þeirra frjálsar til ráðstöfunar, ber að greiða af þeim 20 prósent fjármagnstekjuskatt sem rennur óskiptur til ríkisins. Ljóst er að einungis lítill hluti af fjármagnstekjum var útleystur í fyrra. Skattur á fjármagnstekjur var 38,8 milljarðar króna í fyrra og jókst úr 30,6 milljörðum króna árið 2014. Alls greiddu íslensk heimili, einstaklingar og samskattaðir, 16,7 milljarða króna. Til viðbótar greiddu fyrirtæki, sjóðir og ríkissjóður rúmlega 20 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt.
Fjármagnstekjur hrundu í Hruninu
Fjármagnstekjur landsmanna hrundu eftir bankahrunið. Á árunum 2007, þegar þær náðu hámarki, námu þær 244,9 milljörðum króna. Þar af runnu 147,3 milljarðar króna til tekjuhæsta prósents landsmanna, eða rúm 60 prósent. Ljóst er að þorri þeirrar upphæðar var vegna gríðarlegrar hækkunar á virði hlutabréfa á íslenska markaðnum, en sú bóla náði hámarki sumarið 2007. Í kjölfarið seytlaði loftið hins vegar hratt út úr henni og við fall íslensku bankanna haustið 2008 hvarf um 93 prósent af markaðsvirði hlutabréfa.
Á árunum 2010 til 2012 voru fjármagnstekjur mun lægri, eða á bilinu 59,2 til 66,4 milljarðar króna. Á þeim árum runnu um 35 prósent fjármagnstekna til ríkasta eins prósents landsmanna. Árið 2013 jukust þær töluvert og voru 78,5 milljarðar króna. Þar af runnu 31,6 milljarðar króna til efsta eins prósents ríkustu landsmanna.
Árið 2014 tóku fjármagnstekjur svo aftur kipp og fóru í 90,5 milljarða króna. Hlutdeild ríkasta prósents landsmanna í þessari eignaaukningu hækkaði einnig umtalsvert, fór úr 40 prósentum í um 47 prósent.
Heildarfjármagnstekjurnar jukust enn á árinu 2015, og voru 95,3 milljarðar króna. Tæplega 44 prósent þeirra tekna fóru til ríkasta prósent landsmanna.
Þeir landsmenn sem teljast til þess eins prósents sem er með hæstu tekjurnar fá langstærstan hluta af tekjum sínum vegna arðsemi eigna sinna. Heildartekjur þeirra voru 88 milljarðar króna í fyrra. Þar af komu 42 milljarðar króna til vegna fjármagnstekna.
Ríkustu taka til sín mest af nýjum auð
Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að hrein eign landsmanna hafi aukist um 1.384 milljarða króna - eða tæplega tvöfaldast - frá árslokum 2010 og fram að síðustu áramótum, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um eiginr og skuldir einstaklinga. Helsta ástæða þess að auður hefur aukist er vegna þess að eigið fé Íslendinga í fasteignum þeirra hefur tvöfaldast á tímabilinu. Hækkun á fasteignaverði og lækkun skulda útskýrir því 82 prósent af allri eiginfjáraukningu Íslendinga á þessum sex árum.
En auðurinn sem verður til skiptist ekki jafnt á milli hópa í samfélaginu. Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá 2010 hafa 527,4 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga, alls 20.251 einstaklinga, sem eiga mest. Það þýðir að tæplega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum sex árum hafa farið til ríkasta hóps landsmanna.
Í fyrra jókst auður þessarar tíundar um 185 milljarða króna, eða um 9,1 milljón krónur að meðaltali á hvern einstakling sem tilheyrir henni. Alls fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign til þessa hóps á árinu 2015. Á sama tíma og þessi rúmlega 20 þúsund manna hópur átti hreina eign - þ.e. eignir eftir að skuldir höfðu verið dregnar frá - upp á 1.880 milljarða króna í lok síðasta árs skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar sem hafði tekjur í fyrra - rúmlega 100 þúsund manns - 211 milljarða króna umfram eignir sínar. Munurinn á eiginfjárstöðu fátækari helmings Íslendinga og ríkustu tíu prósenta þjóðarinnar var því 2.091 milljarðar króna um síðustu áramót.
Alls nam eigið fé Íslendinga 2.949 milljörðum króna um síðustu áramót og jókst um 430 milljarða króna á árinu. Ríkasta tíund landsmanna átti 1.880 milljarða króna af þessari eign, eða 64 prósent. Hinn rúmi þriðjungurinn skiptist niður á 90 prósent þjóðarinnar. Ef næsta tíund fyrir neðan er tekin með, og reiknuð er hlutfall ríkasta fimmtungs landsmanna í öllu eigið fé Íslendinga, kemur í ljós að sá hópur, 40.502 einstaklingar, á 87 prósent af öllu eigin fé landsmanna.