Árið 2013 var 22 prósent fylgi „krísa“ – Nú felast í því sóknarfæri
Í aðdraganda síðustu kosninga var staða Bjarna Benendiktssonar sem formanns Sjálfstæðisflokksins veikari en nokkru sinni fyrr. Krísa var sögð í flokknum. Nú er fylgið það nákvæmlega sama en mikill hugur í flokksmönnum og Bjarni öruggari en nokkru sinni fyrr. Hvað breyttist?
16 dögum fyrir alþingiskosningarnar 2013 lék allt á reiðiskjálfi í Sjálfstæðisflokknum. Fylgi flokksins mældist 22,2 prósent í skoðanakönnun sem birtist þennan dag, 11. apríl 2013, og það stefndi í verri útkomu en í sjálfum hrunkosningunum 2009, þar sem turn íslenskra stjórnmála hafði hlotið sína verstu útreið í sögu sinni. Önnur skoðanakönnun, birt í Viðskiptablaðinu, sýndi að leiðtogaskipti myndu að öllum líkindum bæta líkur Sjálfstæðisflokksins til að afla fleiri atkvæða. Formaðurinn sjálfur fór í frægt viðtal um kvöldið, komst við og sagðist vera að íhuga að stíga til hliðar.
15 dögum fyrir komandi kosningar hefur staða sama formanns aldrei verið sterkari. Hann er óskoraður leiðtogi síns flokks og lítið heyrist af óánægjuröddum með stöðu Sjálfstæðisflokksins. Samt mælist fylgi hans, samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans, 22,1 prósent, eða 0,1 prósentustigi minna en þegar hann gekk í gegnum eina af sínum dýpstu krísum fyrir þremur og hálfu ári síðan.
Hvað hefur gerst í millitíðinni? Af hverju er staða sem þótti algjörlega óboðleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn allt í einu orðin ásættanleg?
Erfið fæðing
Bjarni Benediktsson tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum tæpum mánuði fyrir þingkosningar 2009 við erfiðustu mögulegu skilyrði. Flokknum hans, sem hafði setið sleitulaust í ríkisstjórn frá 1991 til 2009 var kennt um að hafa skapað umhverfið sem ól af sér hrunið. Við bættist að stuttu eftir að Bjarni hafði verið kosin formaður var greint frá því í fjölmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við styrkjum upp á 50 milljónir króna frá útrásarfjárfestingafélaginu FL Group, þá aðaleigenda Glitnis, og Landsbanka Íslands, í október 2006. Allt þetta skilaði Sjálfstæðisflokknum verstu niðurstöðu hans í kosningum í sögunni. Flokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða og tapaði níu þingmönnum. Til að strá salti í sárin varð Samfylkingin, höfuðóvinur flestra sjálfstæðismanna, stærsti flokkur landsins í kjölfar kosninganna 2009.
Bjarni var ekki óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins frá því að hann tók við formennskunni. Þvert á móti. Hann hlaut 58 prósent atkvæða þegar hann bauð sig fyrst fram. Kristján Þór Júlíusson, sem sóttist einnig eftir formennsku, fékk 40,4 prósent.
Á kjörtímabilinu sem fylgdi þurfti Bjarni að standa af sér tvö önnur mótframboð til formanns á landsfundi. Fyrst bauð Pétur H. Blöndal sig fram gegn honum árið 2010 og fékk um 30 prósent greiddra atkvæða, og síðan bauð Hanna Birna Kristjánsdóttir sig fram gegn honum ári síðar, of fékk rúmlega 44 prósent atkvæða. Ljóst var að margir innan flokksins gátu hugsað sér annað leiðtoga en Bjarna.
Í aðdraganda kosninganna 2013 hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund og þar fékk Bjarni óskorað umboð, þegar hann var endurkjörinn sem formaður með 80 prósent atkvæða. Halldór í Holti, sem boðið hafði sig fram gegn Bjarna fékk einungis tvö prósent atkvæða en Hanna Birna, sem var ekki í formannsframboði, fékk samt sem áður 19 prósent atkvæða.
Könnun Viðskiptablaðsins
Það óskoraða umboð entist ekki lengi. Sjálfstæðisflokkurinn mældist dapurlega í aðdraganda kosninganna 2013 og margir flokksmenn voru farnir að sjá fyrir sér fjögur ár til viðbótar utan ríkisstjórnar sem raunverulegan möguleika. Á þessum tíma sveiflaðist fylgið úr 19 í um 23 prósent í könnunum og allt stefndi í nýtt lágfylgismet.
Þann 11. apríl birti Viðskiptablaðið niðurstöður skoðanakönnunar þar sem kom fram að mun fleiri sögðust reiðubúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, væri formaður í stað Bjarna Benediktssonar.
Sama kvöld sat Bjarni fyrir svörum í Forystusætinu, kosningaþætti á RÚV. Þar var hann spurður út í þessa skoðanakönnun.
Bjarni sagði að hann hefði aldrei kveinkað sér undan árásum andstæðinga sinna og að sér hefði aldrei komið til hugar að hætta sem formaður þess vegna. Það væri hins vegar erfiðara að takast á við gagnrýni innan flokksins. Hann sagði það augljóst að könnuninni væri beint gegn sér og að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem könnun sem þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem væri í eigu fyrrverandi kosningastjóra Hönnu Birnu og þar væri starfsmenn sem styddu Hönnu Birnu. Könnunin hafi þó fengið Bjarna til að velta hlutunum fyrir sér og íhuga sína stöðu sem formanns.
Í viðtalinu ræddi Bjarni einnig heiðarlega stöðu flokksins í skoðanakönnunum svona skömmu fyrir kosningar.„Þetta fylgistap er okkur mjög mikið áhyggjuefni og fyrir mig persónulega mikil vonbrigði vegna þess að flokkurinn hafði verið með um 30 prósent og yfir frá miðju ári 2010, alveg fram í febrúar á þessu ári[...]Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað mjög miklu fylgi á mjög skömmum tíma og ég held að það sé blanda af mörgum þáttum og ég skal alls ekki taka sjálfan mig út úr þeirri mynd. En ég bendi á að ég hef verið formaður í fjögur ár og að jafnaði hefur fylgið verið langt um meira en það er í dag,“ sagði Bjarni. „Ég hef áhyggjur af fylgi flokksins, ég vil allt gera til að auka það.“ Í framhaldinu sagðist Bjarni ekki vera búinn að taka ákvörðun um afsögn en útilokaði hana ekki. „Í dag verð ég að játa, í þessari krísu sem flokkurinn er í, að ég get ekki útilokað neitt.“
Sama dag, þann 11. apríl 2013, birti Gallup nýjustu skoðanakönnun sína. Þar mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 22,2 prósent 16 dögum fyrir kosningar.
Staða Bjarna aldrei sterkari
Á endanum varð Forystusætis-viðtalið, þar sem Bjarni virtist nánast beygja af um tíma, vítamínsprauta fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Hann afréð að halda áfram sem formaður og flokkurinn fékk á endanum 26,7 prósent atkvæða, 19 þingmenn og gat myndað tveggja flokka ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, sem vann mikinn kosningasigur vorið 2013.
Staða Bjarna Benediktssonar sem formanns Sjálfstæðisflokksins í dag hefur líkast til aldrei verið sterkari. Sjálfstæðisflokknum líður mun betur í kjölfar stjórnarsetu en í stjórnarandstöðu og flokkurinn virðist nú standa heill á bak við óskoraðan formann sinn. Það er samdóma álit flestra áhrifamanna innan flokksins að kjörtímabilið hafi gengið vel, þrátt fyrir að einn ráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi þurft að segja af sér vegna Lekamálsins, að annar ráðherra, Illugi Gunnarsson, hafi verið vændur um spillingu í Orku Energy-málinu og að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal Bjarni sjálfur, hafi verið á meðal þeirra Íslendinga sem nafngreindir voru í Panamaskjölunum. Og þrátt fyrir að skipta hafi þurfti um forsætisráðherra í ríkisstjórninni í apríl eftir afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna Wintris-málsins.
Efnahagsmálin hafa hins vegar gengið afar vel. Viðsnúningur hefur orðið á rekstri ríkissjóðs, samningar náðust við kröfuhafa um stöðugleikaframlög og slit búa gömlu bankanna og búið er að leggja fram og samþykkja frumvarp um losun fjármagnshafta. Þá er hagvöxtur mikill, atvinnuleysi nánast ekkert og verðbólga hefur haldist undir markmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014.
Það hefur samt ekki skort ágreiningsmálin á kjörtímabilinu. Á fyrri hluta þess gekk yfir fordæmalaus kjarabarátta sem skilað sér í gríðarlegum launahækkunum sem ekki sér fyrir endann á. Lækkandi veiðigjöld, slit á viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, færsla stofnanna út á land, skortur á fjárfestingu í vegakerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og í að laga hlut aldraðra og öryrkja hafa allt verið hávær átakamál. Og þá er ótalið þau vandamál sem blasa við á húsnæðismarkaði, þar sem hækkandi eignarverð, skortur á uppbyggingu og fjölgun ferðamanna hefur gert það nánast ókleift fyrir gríðarlegan stóran hóp landsmanna að koma viðunandi þaki yfir höfuðið til lengri tíma, hvort sem um væri að ræða kaup eða leigu.
Sama staða, en allt annað andrúmsloft
Á föstudaginn var voru 15 dagar í kosningar. Engin umræða er um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í „krísu“ vegna fylgisins sem hann mælist með og engin öfl innan flokksins eru að kalla eftir því að Bjarni stigi til hliðar. Þremur dögum fyrr, 11. október 2016, mætti Bjarni í Forystusætið að nýju og sagðist trúa því að geta gert betur en í síðustu kosningum. Staðan sýni að það sé sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Mér finnst vera góð samstaða í flokknum, bæði í þingflokknum og í félögunum vítt og breytt um landið. Við héldum góðan flokksráðsfund fyrir skömmu síðan og það er mikill hugur í sjálfstæðisfólki.“
Eftir kannanir síðustu viku mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt Kosningaspá Kjarnans, hins vegar 22,1 prósent, eða 0,1 prósentustigi minna en það gerði 16 dögum fyrir kosningarnar 2013 þegar hálfgert neyðarástand ríkti í Sjálfstæðisflokknum og angi hans reyndi að steypa Bjarna úr formannsstóli. Verði þetta niðurstaða kosninganna mun það vera slakasta útkoma í sögu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn myndi fá 16-17 þingmenn.
Af hverju kallaði sama staða, sem í dag er talin ásættanleg fyrir formann og flokk, á miklar áhyggjur flokksmanna Sjálfstæðisflokksins fyrir þremur og hálfu ári?
Nokkrar ástæður eru fyrir því. Ein þeirra ástæðna er Viðreisn.
Þótt Viðreisn reyni eftir fremsta megi að aðskilja sig frá Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda komandi kosninga – og hafni því alfarið að verða þriðja hjólið undir íhalds-hægri stjórn eftir þær – þá liggur fyrir að um klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum er að ræða. Frjálslynt og alþjóðasinnað fólk sem fékk ekki framgang og kom málum sínum ekki á dagskrá innan Sjálfstæðisflokksins tók sig saman snemma árs 2014 og fór að undirbúa nýjan stjórnmálafarveg. Það gerðist eftir að Sjálfstæðisflokkurinn sveik það kosningaloforð að setja áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Viðreisn var síðan formlega stofnað fyrr á þessu ári og framboðslistar kynntir í kjölfarið. Á þeim er að finna margt fólk sem áður taldist til áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins, meðal annars fyrrverandi varaformanninn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og formanninn Benedikt Jóhannesson, náfrænda Bjarna Benediktssonar. Þá gekk fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, til liðs við Viðreisn.
En helsta ástæðan er líkast til algjörlega breytt pólitískt landslag. Nú eru tólf flokkar í framboði til Alþingis og þar af níu í öllum kjördæmum. Allt stefnir í að sjö flokkar nái inn fulltrúum á þing, sem er meira en nokkru sinni áður. Tími turna-stjórnmála á Íslandi virðist liðinn, að minnsta kosti um stundarsakir, og fjórflokkurinn – sem áratugum saman gat treyst á um 90 prósent greiddra atkvæða – mælist samanlagt með um 54 prósent fylgi tveimur vikum fyrir kosningar.