Neyðarlán Kaupþings: Hvað gerðist, hvenær, hverjir tóku ákvörðun og hvert fóru peningarnir?

Nýjar upplýsingar hafa verið opinberaðar um símtal sem leiddi af sér 500 milljóna evra neyðarlán til Kaupþings. Enn eru upplýsingar um hver ákvað að veita lánið misvísandi og á huldi í hvað það fór.

Neyðarlán Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008 hefur reglulega ratað í fréttir á undanförnum árum. Það var upp á 500 milljónir evra, tæplega 78 milljarða króna á gengi þess dags sem lánið var veitt. Tæpur helmingur lánsins endurheimtist aldrei þar sem veðið sem sett var fyrir láninu, danski bankinn FIH, var fjarri því jafn verðmætur og talið var í fyrstu.

Lánið komst aftur í hámæli í gærkvöldi eftir að Kastljós og fréttir Stöðvar 2 birtu vitnaskýrslu frá 2012 þar sem það er til umfjöllunar. Þar komu fram upplýsingar um innihald símtals milli Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem átti sér stað skömmu fyrir hádegi 6. október 2008. Eftir símtalið lá fyrir ákvörðun um að veita lánið til Kaupþings.

Blaðamenn Kjarnans hafa fjallað ítarlega um þessa lánveitingu árum saman. Hér að neðan eru helstu þættir málsins skýrðir.

Hvernig var ákvörðunin tekin?

Ljóst er að ákvörðun um veitingu lánsins var tekin samdægurs, þann 6. október 2008. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nokkrir vitnisburðir sem varpa frekara ljósi á hvernig ákvörðun um lánveitinguna var tekin.

Hún lá til dæmis ekki fyrir klukkan 8:30 um morguninn þegar Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp sem síðar varð þekkt undir heitinu neyðarlögin. Í því frumvarpi var ekki ákvæði sem gerði Seðlabankanum kleift að taka veð í FIH bankanum.

Það breyttist síðar um daginn. Í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni segir Sigríður Logadóttir, yfirlögfræðingur Seðlabankans, að þennan morgun hafi það komið upp að Kaupþing er í vandræðum og það endar með því að Seðlabankinn ákveður að lána Kaupþingi gegn veði í öllu FIH-bankanum og það er sem sagt ákveðið á hádegi.“

Í vitna­skýrslu yfir Sturlu Páls­syni, fram­kvæmda­stjóra mark­aðsvið­skipta og fjarstýringar hjá Seðla­banka Íslands, hjá sér­stökum sak­sókn­ara árið 2012 kemur fram að símtal milli Dav­íðs Oddssonar og Geirs H. Haarde, þar sem rætt var um lánveitinguna, hafi átt sér stað klukkan 11.57 mánu­dag­inn 6. októ­ber. Þar segir einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var við­staddur sím­tal­ið. Við skýrslu­tök­una sagði Sturla að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóð­rit­aður og því frekar tekið sím­talið úr síma sam­starfs­manns síns en úr sínum eig­in. Eng­inn annar var við­staddur sím­tal­ið.

Í vitna­skýrsl­unni er birt end­ur­rit af hluta sím­tals­ins, og er það í fyrsta sinn sem slíkt er birt opin­ber­lega. Þar er haft eftir Dav­íð: „Í dag getum við skrapað saman 500 millj­ónir evra og erum þá nátt­úru­lega komnir inn að beini. Getum þá hjálpað Kaup­þingi í ein­hverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Lands­bank­anum líka sko.“

Eftir að sím­tal­inu lauk hringdi Davíð í Hreiðar Má Sig­urðs­son, þáverandi for­stjóra Kaup­þings, og til­kynnti honum að Kaup­þing myndi fá fyr­ir­greiðsl­una sem beðið hefði verið um. Í vitna­skýrsl­unni segir að: „Aðspurður um hvenær sú ákvörðun hefði legið fyrir að SÍ ætl­aði að hjálpa Kaup­þingi en ekki  kvað SP að DO hafa sagt að ekki yrði hæg að bjarga báðum bönk­un­um. DO hafi sagt GHH að þeir fengju þennan pen­ing ekki til baka og að ákvörð­unin hafi í raun verið GHH.“

Klukkan 13:34 bárust skilaboð frá forsætisráðuneytinu til viðskiptaráðuneytisins þar sem það var beðið um að bæta þessu ákvæði inn.

Var allur gjaldeyrisvaraforðinn lánaður?

Lánið sem Kaupþing fékk var nánast allur nettó gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans, eða sá gjaldeyrir sem var vistaður í bankanum og var á pari við eigin fé hans.

Til viðbótar hafði Seðlabankinn hins vegar yfir erlendu reiðufé sem var vistað annars staðar og lánalínum sem hægt væri að draga á. Það er því rétt að nánast allur gjaldeyrir í Seðlabankanum hafi verið lánaður, en rangt að allur gjaldeyrisvaraforðinn hafi verið lánaður.

Hver fór með yfirráð yfir FIH bankanum?

Upphaflega var lánið veitt til fjögurra daga. Kaupþing féll hins vegar í millitíðinni og Fjármálaeftirlitið tók yfir bankann 9. október 2008. Það var því ljóst að bankinn þyrfti að ganga að veðinu. En upp kom vandamál. Það var ekki ljóst hvort seðlabankinn mátti raunverulega eiga fjármálafyrirtæki á borð við FIH.

Á neyðarlagadaginn, eftir hádegið, sendi forsætisráðuneytið bón á viðskiptaráðuneytið um að breyta neyðarlögunum þannig að seðlabankanum væri gert kleift að eiga fjármálafyrirtæki, svo Seðlabankinn gæti tekið FIH sem veð fyrir láninu til Kaupþings. Davíð Oddsson þrýsti á þetta ákvæði í símtali við ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins.

Líkt og frægt er orðið þá breytti ráðuneytið frumvarpinu með þeim hætti að nafn FIH var sérstaklega tekið fram í stað þess að ákvæðið væri almennt. Við það varð allt vitlaust, enda vægast sagt ekki gott fyrir banka að það sé sérstaklega tiltekið í lögum að ríki geti tekið hann yfir.  Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að seðlabankafólk hafi fengið „"sjokk“ og Davíð náttúrulega trompaðist, þannig að hann hérna talar við Jóninu [Lárusdóttur þá ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu] og bara gjöra svo vel að taka þetta út „med det samme“.

Viðskiptaráðuneytið brást við með því að fella ákvæðið með öllu út úr neyðarlögunum, ekki með því að gera það almennt.

Þar sem heimild Seðlabankans að halda á FIH var ekki til staðar í lögunum skapaðist mikil óvissa um það eftir fall Kaupþings hvort Seðlabankinn gæti raunverulega gengið að veðinu. Mikil átök áttu sér stað milli hans og slitastjórnar Kaupþings um hvor færi með forræði yfir FIH sem stuðaði dönsk stjórnvöld mikið.

Var FIH gott veð?

Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í Kastljósinu sama dag og neyðarlánið var veitt að hann „réttlæti það að við höfum fengið þessa fyrirgreiðslu vegna þess að þetta er mjög öruggt lán. Vegna þess að við stöndum mjög vel og Seðlabankinn er öruggur um að fá þessa peninga til baka […] Ég get sagt það kinnroðalaust“.

Davíð Oddsson sagði daginn eftir í sama þætti að ef lánið fengist ekki greitt þá myndi „Seðlabankinn eignast mjög góðan banka í Danmörku, FIH“.

Það kom fljótlega í ljós að FIH, sem var á þessum tíma sjötti stærsti banki Danmerkur, var ekki sá happafengur sem bæði lánveitendur og lántakendur stórs hluta gjaldeyrisforða íslensku þjóðarinnar á þeim tíma þegar lánið var veitt vildu meina. Staða bankans var verri en haldið hafði verið fram.

Þann 30. júní 2009 þurfti danska ríkið að veita FIH víkjandi lán upp á 1,9 milljarða danskra króna. Til viðbótar ábyrgðist danska ríkið mánuði síðar skuldabréfaútgáfu FIH upp á 50 milljarða danskra króna, um eitt þúsund milljarða íslenskra króna. Aðstoðin var veitt undir formerkjum svokallaðs „Bankapakka II“ sem danska ríkið hafði sett saman til að bjarga sínu bankakerfi. Pakkinn snerist um að ábyrgjast innlán og skuldabréfaútgáfu danskra fjármálafyrirtækja sem eftir því óskuðu. Danska ríkið var því í reynd búið að bjarga eign íslenska Seðlabankans.

Danska bankasýslan (Finansiel Stabilittet) og danska fjármálaeftirlitið (Finanstilsynet) fylgdust náið með því hvernig FIH braggaðist og þrýstu mikið á að leyst yrði úr eigendamálum bankans til að hann gæti fjármagnað sig á markaði.

FIH bankinn í Danmörku hefur reynst örlagavaldur í íslensku efnahagslífi.

Þegar leið á haustið 2010 taldi Seðlabanki Íslands, samkvæmt heimildum Kjarnans, raunverulega hættu á því að FIH yrði tekinn yfir af dönskum stjórnvöldum ef ekki tækist að selja bankann mjög hratt. Um miðjan september var þeim skilaboðum komið á framfæri við Seðlabankann að allt hlutafé í FIH yrði mögulega skrifað niður og hann tekinn yfir af danska fjármálaeftirlitinu ef bankinn yrði ekki seldur fyrir þriðjudaginn 21. september 2010. Ef það hefði verið gert hefði veð Seðlabankans í FIH orðið verðlaust og krafa hans yrði almenn krafa í þrotabú Kaupþings.

Var hægt að fá meira fyrir FIH?

Því var sagt frá því í september 2010 að FIH hefði verið seldur. Tveir hópar voru sagðir hafa barist um að kaupa FIHBerlinske Tidende sagði frá því að hærra tilboðið væri aðeins hærra en 500 milljónir evra en að hitt væri aðeins lægra og byði upp á auknar greiðslur síðar meir. Í dönskum fjölmiðlum var sagt að Seðlabanki Íslands vildi taka fyrra tilboðinu. Þessi atburðarás og tilurð hærra tilboðsins hefur hins vegar ekki verið staðfest af þeim aðilum sem áttu hlut að máli.

Því síðara var hins vegar tekið og hefur ekki verið upplýst af hverju það var. Vert er hins vegar að taka fram að danska bankasýslan myndi á endanum taka ákvörðun um hver fengið að eignast bankann. Inn í þá ákvörðun gæti ýmislegt annað spilað en bara upphæð, til dæmis hæfi til að eiga banka.

Í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands var sagt að kaupverðið á FIH væri 103 milljarðar króna, eða 670 milljónir evra. Því virtist sem Seðlabankinn hefði hagnast verulega á þessari „fjárfestingu“. Það átti eftir að reynast fjarri sannleikanum.

Nýir eigendur staðgreiddu einungis um helming þeirra upphæðar sem Kaupþing hafði fengið lánaða, 39 milljarða króna eða um 255 milljónir evra. Afgangurinn var seljendalán sem Seðlabankinn veitti nýjum eigendum og átti að endurgreiðast að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fram til loka ársins 2014.

Seljendalánið bar enga vexti. Auk þess var samþykkt að afskriftir allra eigna sem voru á efnahagsreikningi FIH þegar hann var seldur myndu dragast frá láninu. Á hinn bóginn myndi virði þess aukast ef helmingshlutur sem FIH átti óbeint í skartgripaframleiðandanum Pandoru myndi hækka. Að lokum var sett inn ákvæði um að endurheimt Seðlabankans yrði meiri ef kaupendahópurinn næði fjárfestingu sinni til baka fyrir árslok 2015.

Hvernig spilaðist úr FIH?

Síðan kaupsamningurinn var gerður hefur FIH afskrifað upphæð sem samsvarar upphæð seljendalánsins. Í ljós kom að útlán bankans voru fjarri því að vera jafn trygg og af var látið. Það átti sérstalega við um lán til félaga í fasteignarekstri og byggingaiðnaði. Berlingske Tidende greindi frá því árið 2011 að FIH hefði verið peningabaukur fyrir áhættufjárfesta í þessum geirum, sem gengu undir nafninu Milljarðamæringaklúbburinn, á meðan bankinn var í eigu Kaupþings. Flestallir meðlimir þess klúbbs eru gjaldþrota í dag og greiddu ekki lán sín til baka.

Í maí síðastliðnum hætti FIH í raun að vera banki þegar það seldi 2/3 af viðskiptavinum sínum til Spar Nord. Í ágúst var síðan samþykkt að selja lán 24 stóra viðskiptavina til viðbótar til Nykredit-bankans. FIH lánar því ekki lengur út fé og tekur ekki við nýjum innlánum. Frá og með marsmánuði munu innlánseigendur sem enn eiga innstæður hjá bankanum meira að segja að þurfa að borga honum fyrir að geyma peninganna sína. Eina sem eftir er af upphaflegri starfsemi FIH er fyrirtækjaráðgjöf bankans.

Það spilaðist því ekki vel úr FIH.

Hvað varð um peningana?

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, skrifaði grein í Fréttablaðið í október 2014 þar sem hann sagði að ekkert „af fjármagninu sem Kaupþing fékk frá Seðlabanka Íslands var notað til kaupa á eigin skuldabréfum Kaupþings eins og haldið hefur verið fram. Allt fjármagnið var nýtt til að tryggja aðgang viðskiptavina bankans í fjölmörgum löndum Evrópu að bankainnistæðum sínum, tryggja aðgang dótturbanka Kaupþings í Evrópu að lausafé og mæta veðköllum bankans vegna fjármögnunar hans og viðskiptavina hans á verðbréfum hjá alþjóðlegum bönkum í Evrópu. Með öðrum orðum þá var allt féð notað til að tryggja sem frekast var kostur rekstur og hag Kaupþings og viðskiptavina bankans.

Enginn eigandi, viðskiptavinur, stjórnandi eða starfsmaður bankans hagnaðist um svo mikið sem um eina evru vegna láns Seðlabanka Íslands. Engar óeðlilegar fjármagnshreyfingar áttu sér stað með andvirði lánsins og starfsmenn Kaupþings sem komu að ráðstöfun lánsins gengu til sinna starfa af heiðarleika.“

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, frá árinu 2010 segir hins vegar að lánveitingar til ýmissa vildarviðskiptavina bankans, kaup á eigin skuldabréfum og aðrir fjármálagerningar sem hafa verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara hafi verið framkvæmdir eftir veitingu neyðarlánsins. Þar segir einnig að „umræddar lánveitingar hafi falið í sér mjög mikla fjártjónshættu fyrir Kaupþing banka hf. Gríðarlega háar fjárhæðir hafi verið lánaðar eignarlausum félögum til afar áhættusamra viðskipta og hagsmunum hluthafa og kröfuhafa með því stefnt í stórfellda hættu. Síðustu lánveitingarnar hafi átt sér stað eftir gildistöku neyðarlaganna og veitingu Seðlabanka Íslands á 500.000.000 EUR neyðarláni til Kaupþings banka hf.“

Í febrúar í fyrra sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri við RÚV að hann ætlaði að láta taka saman opinbera skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlánið. Ekkert hefur spurst til þeirrar skýrslu.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Komið hefur fram í gögnum að sérstakur saksóknari telur að tilgangur hluta þessara viðskiptavina hafi verið að „flytja fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendum þeirra og yfir á Kaupþing á Íslandi“.

Hvaða máli skiptir að upplýsa þetta?

Í október 2014 greindi Kjarninn frá því að tap skattgreiðenda vegna lánsins til Kaupþings sé 35 milljarðar króna. Þá er ekki tekið inn í dæmið sá vaxtakostnaður sem til dæmis hefði verið hægt að spara ef þeir fjármunir hefðu verið nýttir í að greiða niður lán íslenska ríkisins, eða sá þjóðhagslegi ábati sem orðið hefði ef féð væri notað til annarra samfélagslegra verkefna.

Þrátt fyrir gríðarlega mikla fjölmiðlaumfjöllun um málið eru hins vegar enn misvísandi meiningar um það hver tók ákvörðun um veitingu lánsins. Yfirlögfræðingur Seðlabankans sagði við rannsóknarnefnd Alþingis að Seðlabankinn hefði ákveðið að veita lánið. Geir H. Haarde sagði í sjónvarpsviðtali í október 2014 að Seðlabankinn hefði haft fulla heimild til að veita lánið. Björn Þorvaldsson, saksóknari í Al Thani-málinu svokallaða, sagði í málflutningi fyrir héraðsdómi telja að þau fölsku hughrif sem kaupin hefðu valdið hefðu átt þátt í að Seðlabankinn veitti umrætt lán. Davíð Oddsson sagði í Reykjavíkurbréfi um liðna helgi að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði tekið ákvörðunina. Már Guðmundsson, núverandi Seðlabankastjóri, hefur hins vegar síðar sagt að ábyrgðin á láninu hvíli alltaf á endanum á Seðlabankanum. Það liggur því alls ekki fyrir hvernig lánið var veitt.

Til er símtal milli Geirs og Davíðs frá 6. október 2008 þar sem þeir ræða lánveitinguna. Geir hefur ekki viljað veita heimild fyrir því að upptakan verði gerð opinber.

Í febr­úar 2015 skrif­aði Davíð Reykja­vík­ur­bréf í Morg­un­blað­ið. Þar sagði að þar sem gjald­eyr­is­vara­­forði Seðla­­banka Íslands í októ­ber 2008 var til­­kom­inn vegna skulda­bréfa­út­­­gáfu rík­­is­­sjóðs hafi banka­­stjórar Seðla­­bank­ans litið svo á að það það yrði að vera vilji rík­­is­­stjórn­­­ar­inn­­ar, ekki bank­ans, sem réði því hvort Kaup­­þing fengi hann nán­­ast allan að láni þennan dag. Í Reykja­vík­ur­bréf­inu stóð: „Þeir sem báðu um aðstoð­ina [Kaup­­þing] héldu því fram, að rík­­is­­stjórnin vildi að þessi fyr­ir­greiðsla yrði veitt. Þess vegna fór sím­talið við for­­sæt­is­ráð­herr­ann fram. Til­­viljun réð því að það sím­­tal var hljóð­­rit­að. Þess vegna átti fyr­ir­greiðslan sér að lokum stað gegn alls­herj­­­ar­veði í banka sem tal­inn var standa mjög ríf­­lega undir því.“ Að sögn Dav­íðs var það því Geir sem tók ákvörð­un­ina um að lána Kaup­þingi.

Geir, sem er núver­andi send­i­herra Íslands í Banda­­ríkj­un­um, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 í maí í fyrra að það hafi verið mis­­tök að veita Kaup­­þingi lánið. Því miður hafi ekki allt verið sem sýnd­ist hjá bank­­anum og hann staðið veikar en látið var. Lánið hefði því aldrei dugað til að bjarga bank­­anum og pen­ing­­arnir ekki farið í það sem þeir áttu að fara.  

Í svari við fyrirspurn Kastljóss vegna nýrra upplýsinga í málinu, sem sagt var frá í gær, sagði Geir að for­sæt­is­ráð­herra ætti ekki að þurfa að sæta því að emb­ætt­is­menn rík­is­ins hljóð­riti sam­töl við hann „án hans vit­und­ar“. Þá sagði hann það alveg skýrt að Seðla­bank­inn hafi borið ábyrgð á lán­inu, þó hann hafi talið það til­raun­ar­innar virði. Það séu von­brigði að veð sem Seðla­bank­inn taldi trygg, skyldu ekki hafa duga fyrir lán­inu.

Enn liggur heldur ekki fyrir í hvað peningarnir sem Kaupþing fékk lánað fóru. Um það eru frásagnir misvísandi. Mikil vilji virðist vera fyrir því að fá skýr og endanleg svör við þessum tveimur spurningum: hver tók ákvörðunina og í hvað fór lánið.

Hefur málið verið rannsakað?

Engin formleg rannsókn hefur hins vegar farið fram á neyðarlánsveitingunni. Rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði lánveitinguna ítarlega en hún var ekki á meðal þeirra mála sem nefndin tilkynnti til ríkissaksóknara þegar hún lauk störfum. Embætti sérstaks saksóknara, sem nú heitir héraðssaksóknari, hefur ennfremur ekki formlega rannsakað málið, en það getur tekið mál upp að eigin frumkvæði.  Fjárlaganefnd Alþingis fjallaði lengi um málið og kallaði eftir ýmsum upplýsingum um það, en á vegum hennar fór ekki fram formleg rannsókn.

Í febrúar í fyrra sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri við RÚV að hann ætlaði að láta taka saman opinbera skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlánið. Ekkert hefur spurst til þeirrar skýrslu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar