Framsókn orðinn valkostur fyrir stjórn til vinstri
Tveir möguleikar virðast vera til staðar við myndun ríkisstjórnar. Annars vegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, sem verið er að ræða óformlega um. Gangi það ekki er vilji til að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Framsóknarflokks.
Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem enginn annar stjórnmálaflokkur virtist vilja mynda ríkisstjórn með. Enginn flokkur hefur lýst því yfir opinberlega að ríkisstjórn með Framsókn innanborðs væri eitthvað sem hann gæti hugsað sér. Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi forsætisráðherra og formaður flokksins, hefur þó sagt að hann sé reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn ef kallið kæmi og í samstarfi við „hvern sem er“. Í samtali við mbl.is í gær, þegar hann var á leið á fund forseta Íslands, sagði hann að samstarf við aðra flokka hafi gengið vel á síðustu sex mánuðum, eftir að hann tók við sem forsætisráðherra.
Þetta er mjög í takt við það sem þingmenn flestra flokka segja. Vinnufriður hafi komist á á Alþingi og ólíkir flokkar hafi getað sammælst um að laga vinnubrögð og veita völdum málum brautargengi. Sigurður Ingi hafi komið með ró, virðingu, samstarfsvilja og kurteisi inn í verkstjórnina á landsmálunum eftir að hann tók við af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í apríl.
En af hverju hafa hinir flokkarnir þá ekki viljað vinna með Framsókn, sem hefur átta þingmenn og er sögulega miðjuflokkur sem er opinn í báða enda? Viðmælendur Kjarnans í öllum flokkum segja þá ástæðu blasa við. Hún heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Og það vandamál virðist vera að leysast.
Takist ekki að mynda meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar – sem hefði minnsta mögulega meirihluta – í þessari viku er ljóst að einungis einn skýr valkostur er á borðinu. Það er ríkisstjórn Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Framsóknarflokks með aðkomu eða stuðningi Pírata og stuðningi Samfylkingar. Slík ríkisstjórn yrði með 42 manna þingmeirihluta að meðtöldum stuðningsþingmönnum og myndi einangra Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu. Það væri líka hægt að mynda þessa stjórn án aðkomu Viðreisnar. Samanlagður þingmanna- og stuðningsmannafjöldi yrði þá 35 þingmenn. Fari þessar viðræður út um þúfur einnig stöndum við frammi fyrir störukeppni í íslenskum stjórnmálum, og mögulegri stjórnarkreppu.
Sigmundur Davíð er að einangra sig upp á eigin spýtur
Stríð hefur geisaði í Framsóknarflokknum undanfarin misseri. Eftir að Sigurður Ingi vann sigur í formannskosningum í Framsóknarflokknum í byrjun október hefur verið nokkuð skýrt að Sigmundur Davíð ætlaði ekki að taka þeim ósigri þegjandi. Hann rauk út úr Háskólabíói undir sigurræðu Sigurðar Inga og næstu daga gaf hann það sterkt til kynna að andstæðingar hans innan flokks hefðu haft rangt við til að tryggja Sigurði Inga sigur.
Á endanum ákvað hann þó að helga sig málefnum Norðausturkjördæmis síðustu daganna fyrir kosningar og birti meðal annars sérstaka Norðaustur-stefnu á bloggi sínu.
Flestir aðrir þingmenn og leiðtogar Framsóknarflokksins sameinuðust í kosningabaráttunni, utan við Gunnar Braga Sveinsson sem stóð áfram með Sigmundi Davíð.
Kosningarnar fóru ekki vel fyrir Framsóknarflokkinn. Stefnumál hans sem kynnt voru í aðdraganda kosninga náðu engu flugi og þegar búið var að telja upp úr kjörkössunum var niðurstaðan versti árangur flokksins í kosningum í 100 ára sögu hans, eða 11,5 prósent atkvæða. Þingmennirnir urðu átta talsins en höfðu verið 19.
Það vekur þó athygli að flestir herskáustu og umdeildustu þingmenn Framsóknarflokksins eru horfnir á braut. Í raun má segja að einungis Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi séu mjög umdeildir af þeim átta sem í þingflokknum sitja. Ásýnd þingflokksins hefur breyst mjög og er orðin álitlegri fyrir félagshyggjuflokkanna sem samstarfsmöguleiki, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
Sigmundur Davíð var með svör á reiðum höndum yfir því hvers vegna hefði farið svo sem fór í kosningunum. Átökin á flokksþingi, þar sem hann var felldur sem formaður, hafi verið helsta ástæða þess að flokkurinn tapaði svona miklu fylgi. „Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu hefðum við getað hækkað fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi,“ sagði Sigmundur Davíð við Fréttablaðið á mánudag. Í sama blaði í dag er því haldið fram að hann sé að einangra sig frá öðrum þingmönnum flokksins og að honum hugnist ekki að vinna með Sigurði Inga og þingflokknum í sátt.
Niðurstöður kosninganna voru reyndar ekkert sérstaklega góðar fyrir Sigmund Davíð, og virðast ekki styðja þessa kenningu hans. Flokkurinn fékk 20 prósent atkvæða í Norðausturkjördæmi, sem er minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni fengið í kjördæminu frá því að hann hóf að bjóða fram. Þess utan var Sigmundur Davíð sá frambjóðandi kjördæmisins sem var oftast strikaður út af kjósendum.
Framsókn allt í einu stjórntækur flokkur
Framsóknarflokkurinn veit að enginn annar stjórnmálaflokkur mun vinna með honum nema búið sé að taka á „Sigmundar-vandamálinu“. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð hafa varla talað saman síðan að Sigmundur sagði af sér og innan raða Sjálfstæðisflokksins er forsætisráðherrann fyrrverandi almennt ekki hátt skrifaður, utan hirðarinnar í kringum Davíð Oddsson, sem hefur mikið dálæti á honum. Staða hans er hins vegar enn verri hjá stjórnarandstöðuflokkunum. Þar bætist mikil persónuleg óvild í garð Sigmundar Davíðs við það að lykilfólk í flokkunum fjórum telur gjörsamlega ómögulegt að starfa með forsætisráðherranum fyrrverandi.
Sigurður Ingi hefur lagt mikla áherslu á að koma því að í nær öllum umræðuþáttum og viðtölum sem hann hefur mætt í undanfarna daga að vel hafi tekist að vinna saman innan þings eftir að hann tók við sem forsætisráðherra í apríl. Stjórnunarstíll hans er öðruvísi en Sigmundar Davíðs. Stjórnarandstöðuþingmenn segja til að mynda að Sigurður Ingi hafi verið kurteis og auðmjúkur í samskiptum og sýnt mikla viðleitni til að eiga í samtali við stjórnarandstöðuna á sínum tíma, þótt ekki væri nema til að halda henni upplýstri. Allt hafi þetta verið þættir sem skort hafi alla þá tíð sem Sigmundur Davíð stýrði þjóðarskútunni. Einn viðmælenda Kjarnans sagði að Sigurður Ingi hefði gert meira til að gera Framsóknarflokkinn stjórntækari á síðustu tveimur dögum en hann hefði gert á þeim sex mánuðum sem hann hefur setið sem forsætisráðherra.
Í gær birti svo Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stöðuuppfærslu á Facebook, en hann hafði stutt Sigmund Davíð dyggilega í gegnum þann ólgusjó sem gengið hefur yfir Framsóknarflokkinn undanfarin misseri. Þar segir Gunnar Bragi að þessir dagar séu flokknum erfiðir „eftir slæm úrslit kosninga og mikla vinnu þarf til að græða sár og jafna deilur. Hvert og eitt þurfum við að líta í eigin barm og meta hvað við höfum getað gert öðruvísi og betur. Nú er ekki tími upphrópana heldur þarf að setja niður ágreining. Oft hefur verið sagt að enginn sé stærri en flokkurinn. Það á við nú sem áður enda verður flokkurinn okkar ekki 100 ára af sjálfu sér.“
Með þessari yfirlýsingu er Gunnar Bragi, sem hefur verið með herskárri ráðherrunum á þessu kjörtímabili, augljóslega að rétta fram sáttarhönd og einangra Sigmund Davíð þannig enn frekar innan þingflokksins. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, hafði verið náinn samstarfsmaður Sigmundar Davíðs um langt skeið og stutt hann í formannskosningunum. Hún ákvað hins vegar strax eftir þær að vinna með nýjum formanni og þau tvö voru andlit flokksins í nýliðinni kosningabaráttu.
Miðju-vinstri stjórn gæti verið í kortunum
Sigmundur Davíð er því orðinn nokkuð einangraður innan Framsóknarflokksins og viðmælendur Kjarnans segja að þannig verði það áfram. Ætli flokkurinn sér í ríkisstjórn er ljóst að hann þarf að horfa til vinstri þar sem allir flokkar útiloka, að minnsta kosti í orði, ríkisstjórn sem inniheldur bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Það er hins vegar sögulega ekkert vandamál fyrir Framsóknarflokkinn að vinna til vinstri. Það hefur hann margoft gert og félagshyggjuáherslur hans eiga í raun mun meiri samleið með flokkunum þar en með Sjálfstæðisflokknum.
Ef Sigurði Inga tekst að selja það að Sigmundur Davíð verði ekki vandamál og að restin af þingflokknum sé sameinaður að baki honum gæti það vel gerst að Framsókn yrði aftur valkostur í ríkisstjórn. Sérstaklega í miðju-vinstri stjórn sem mynduð yrði af Vinstri grænum, Bjartri framtíð, Viðreisn og Framsóknarflokki með aðkomu eða stuðningi Pírata og mögulega stuðningi Samfylkingar. Slík stjórn hefði 39-42 þingmenn eða stuðningsmenn og rúman meirihluta á þingi. Það væri meira að segja hægt að mynda þá stjórn án aðkomu Viðreisnar og hún væri samt með 35 manna meirihluta gegn 28 manna andstöðu.