Mynd: Rakel Tómasdóttir
#viðskipti #stjórnmál #sjávarútvegur

Hagnaður sjávarútvegs 287 milljarðar á sjö árum

Sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa upplifað fordæmalaust góðæri eftir hrun. Alls hafa fyrirtækin greitt eigendum sínum 54,3 milljarða í arð frá 2010, þar af 38,2 milljarða vegna áranna 2013-2015. Á sama tíma hafa veiðigjöld lækkað mikið.

Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 287 milljarða króna á árunum 2009 til 2015. Helmingur þess hagnaðar féll til á síðustu þremur árum. Á þessu tímabili hafa skuldir atvinnuvegarins sömuleiðils lækkað um samtals 161 milljarð króna, og stóðu í 333 milljörðum króna um síðustu áramót. Það gerðist þrátt fyrir stóraukna fjárfestingu fyrirtækja í sjávarútvegi á undanförnum tveimur árum, þegar þau fjárfestu samtals fyrir 53 milljarða króna. 

Atvinnuvegurinn hefur reynst ákaflega arðbær fyrir eigendur útgerðarfyrirtækjanna. Alls nema arðgreiðslur til þeirra frá byrjun árs 2010 til loka síðasta árs 54,3 milljörðum króna. Tæpur helmingur þeirra upphæðar, 38,2 milljarðar króna, var greiddur til þeirra vegna áranna 2013, 2014 og 2015. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tölum sem Deloitte vinnur árlega upp úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja og kynntar voru á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem haldin var í gær.

Í samantektinni kemur ekki fram hvert eigið fé sjávarútvegarins var í lok síðasta árs, en það nam 185 milljörðum króna í lok árs 2014. Þá hafði það aukist um 265 milljarða króna frá lokum árs 2008. Ljóst er á bættri skuldastöðu, aukinni fjárfestingu og miklum hagnaði sjávarútvegsfyrirtækjanna að eiginfjárstaðan hefur styrkst um tugi milljarða króna í fyrra.

Veiðigjöld lækkað um átta milljarða

Þessi fordæmalausi hagnaður sem atvinnuvegurinn er að upplifa er að eiga sér stað á sama tíma og veiðigjöld, sú renta sem útgerðir greiða fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni, hefur dregist mikið saman.

Árið 2012 voru samþykkt lög sem skikkuðu útgerðir til að borga mun meira til samfélagsins en þær höfðu áður gert í formi veiðigjalda. Vegna fiskveiðiársins 2012/2013 greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), sem nú heitir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), barðist hatrammlega gegn lagasetningunni. Í júní 2012 boðaði sambandið til að mynda til mikilla mótmæla á Austurvelli. Sjómenn og útgerðarmenn fjölmenntu til að taka þátt í þeim. Skipum íslenskra útgerða var siglt í land til að áhafnir þeirra gætu verið með og blásið var í þokulúðra skipanna þegar inn í höfnina var komið. Mótmælin skiluðu engum árangri.

Vorið 2013 tók ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við völdum á Íslandi og í stefnuyfirlýsingu hennar kom fram að lög um veiðigjöld yrðu endurskoðuð. Það varð eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar að samþykkja lög sem lækkuðu veiðigjöld, og voru þau samþykkt 5. júlí 2013. Samhliða var boðað að til stæði að leggja fram frumvarp um heildarendurskoðun laga um veiðigjöld. Sú heildarendurskoðun hefur enn ekki átt sér stað.

Vegna þeirra breytinga sem ráðist hefur verið í hafa verða veiðigjöld sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs lækkað mikið. Á næsta fiskveiðiári verða þau 4,8 milljarðar króna, eða átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013.

Til viðbótar við veiðigjald greiða sjávarútvegsfyrirtæki landsins einnig umtalsvert í tekjuskatt og tryggingagjald. Samkvæmt samantekt Deloitte hafa tekjuskattsgreiðslur á síðustu sex árum til að mynda numið samtals 36,5 milljörðum króna. Á sama tíma hefur útgerðin greitt 35,2 milljarða króna í tryggingagjald. Samtals námu bein opinber útgjöld sjávarútvegsfyrirtækjanna – veiðigjöld, tekjuskattur og tryggingagjald – 22,6 milljörðum króna í fyrra, sem er nákvæmlega sama upphæð og greidd var af þeim árið 2014.

Á borðinu við stjórnarmyndun

Ljóst er að framundan er enn ein lotan í átökunum um hvernig eigi að fá notendur þjóðarauðlindarinnar í sjónum til að greiða sannvirði til samfélagsins fyrir afnot af henni. Málið var enn og aftur bitbein í nýliðnum kosningum og flokkar með meirihluta á þingi eru með það á stefnuskránni að arðurinn af nýtingu auðlindarinnar eigi að gagnast fólkinu í landinu með meira afgerandi hætti en nú er. Og það verður fyrirferðarmikið í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem nú standa yfir.

Það var reynt að ráðast í breytingar á síðasta kjörtímabili. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu snemma árs 2015. Ljóst var frá fyrstu mínútu að engin sátt yrði um frumvarp milli stjórnarflokkanna og snérust deilur þeirra fyrst og síðast um hver ætti að fara með forræði yfir fiskveiðikvótanum, ríkið eða útgerðin. Á endanum var frumvarpið ekki lagt fram.

Sigurður Ingi Jóhannsson reyndi að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og kvótasetja makríl. Hvorugt tókst. Hann er í dag forsætisráðherra.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Frumvarp um úthlutun makrílkvóta var ekki síður umdeilt. Upphaflega stóð til að kvótasetja makríl og gefa útgerðunum sem veitt höfðu makrílinn heimildir til að veiða hann. Í stað þess að úthluta kvótanum varanlega til útgerðanna, líkt og áður hafði verið gert, þá átti að fara ákveðna millileið og úthluta honum til sex ára með framlengingarákvæði. Miðað við hefðbundna reiknireglu var heildarverðmæti makrílkvótans á bilinu 150 til 170 milljarðar króna. Því stóð til að gefa völdum útgerðum þau verðmæti án endurgjalds.

Í stuttu máli varð allt vitlaust. Ríf­lega 51 þús­und manns skrif­uðu undir áskorun á for­seta Ís­lands að vísa í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu hverjum þeim lög­um ­sem Alþingi sam­þykkir þar sem fisk­veiði­auð­lindum væri ráð­stafað til lengri tíma en eins árs, á meðan ekk­ert ákvæði um ­þjóð­ar­eign á auð­lindum er í stjórn­ar­skrá.

Á endanum komst makrílfrumvarpið ekki út úr atvinnuveganefnd og hefur ekki verið lagt fram á ný.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar