Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk í dag stjórnarmyndunarumboð.
Mynd:Birgir Þór Harðarson
#stjórnmál #kosningar2016

Viðreisn og Björt framtíð reyna að stilla Sjálfstæðisflokki upp við vegg

Bjarni Benediktsson reynir nú að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Litlar líkur eru á því að aðrir flokkar bætist við þá ríkisstjórn, þrátt fyrir vilja Sjálfstæðisflokksins þar um. Vinstri græn bíða róleg á hliðarlínunni eftir tækifæri til að mynda minnihlutastjórn frá miðju til vinstri mistakist Bjarna ætlunarverk sitt.

Óform­leg­ar við­ræður standa yfir um myndun rík­is­stjórnar Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíð­ar. Tveir síð­ar­nefndu flokk­arnir hafa læst sig saman í þessum við­ræðum og koma því fram sem frjáls­lynt miðju afl með 18 pró­sent fylgi og ell­efu þing­menn.

Sjálf­stæð­is­menn hafa þrýst mjög á það und­an­farna daga að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn verði hluti af slíkri rík­is­stjórn í sam­tölum við for­ystu­menn hinna flokk­anna og lagt þar áherslu á að um gjör­breyttan flokk sé að ræða undir stjórn Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar. Slíkri mála­leitan hefur verið tekið afar fálega, enda telur áhrifa­fólk innan bæði Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar að það væri nokk­urs konar póli­tískur koss dauð­ans að verða þriðja og fjórða hjólið undir rík­is­stjórn sitj­andi stjórn­ar­flokka. Það telur sig líka vera í betri stöðu til að ná fram mik­il­vægum stefnu­málum ef við­semj­and­inn er bara Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn. Þau stefnu­mál snú­ast um tákn­rænar breyt­ingar á land­bún­að­ar­kerf­inu, mark­aðs­lausnir í sjáv­ar­út­vegi, stjórn­ar­skrár­breyt­ingar (sér­stak­lega varð­andi það að gera landið að einu kjör­dæmi) og, síð­ast en ekki síst, þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um áfram­hald­andi við­ræður um Evr­ópu­sam­bandið. Ljóst er að það verður erfitt fyrir ýmsa innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins að kyngja þessum kröf­um.

Gangi við­ræður þessa þriggja flokka ekki eftir er næsti kostur minni­hluta­stjórn frá miðju til vinstri sem myndi mögu­lega inni­halda Fram­sókn­ar­flokk­inn og njóta þátt­töku eða stuðn­ings Sam­fylk­ingar og Pírata. Slík stjórn er mun ofar á óska­lista Vinstri grænna en nokkru sinni sam­starf við Sjálf­stæð­is­flokk­inn.

Bjarni fékk umboðið

Guðni Th. Jóhann­es­son, for­seti Íslands, afhenti Bjarna Bene­dikts­syni, for­manni Sjálf­stæð­is­flokks­ins, stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð fyrr í dag. Það kom fæstum á óvart, enda nán­ast for­dæma­laus staða uppi í íslenskum stjórn­málum þar sem engir tveggja flokka rík­is­stjórn­ar­mögu­leikar eru í boði. Því var rök­rétt að fela for­manni stærsta þing­flokks­ins umboðið í ljósi þess að for­ystu­menn nokk­urra ann­arra flokka höfðu ekki úti­lokað að mynda stjórn með hon­um.

Þreif­ingar um rík­is­stjórn­ar­myndun voru þó löngu byrj­aðar og hafa staðið allt frá því á kosn­inga­nótt. Frjáls­lyndu miðju­flokk­arnir tveir, Björt fram­tíð og Við­reisn, hafa bundið sig saman í þeim við­ræðum sem nú standa yfir. Mikil sam­legð er á milli flokk­anna varð­andi stefnu­mál og báðir leggja mikla áherslu á kerf­is­breyt­ingar í sjáv­ar­út­vegs-, land­bún­að­ar- og alþjóða­mál­um.

Kjarn­inn í þeirri rík­is­stjórn sem nú er verið að reyna að mynda er þetta frjáls­lynda miðju­banda­lag og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem leggur reyndar mikla áherslu á að fá fjórða flokk­inn að borð­inu til að styrkja meiri­hlut­ann. Bjarni sagði það síð­ast á Bessa­stöðum í dag, þegar hann var spurður um rík­is­stjórn­ar­sam­starf við Við­reisn og Bjarta fram­tíð, að gall­inn „við þann mög­u­­leika er hversu knappur meiri­hluti það er,“ en flokk­­arnir þrír hafa 32 þing­­menn sam­an­lag­t.

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að Sjálf­stæð­is­menn hafi þrýst mjög á það í sam­tölum sínum við for­svars­menn Bjartrar fram­tíðar og Við­reisnar að þeim mögu­leika yrði haldið opnum að taka Fram­sókn­ar­flokk­inn inn í nýja stjórn. Söluræðan sé sú að Fram­sókn sé allt annar flokkur með Sig­urð Inga Jóhanns­son í brúnni og að vil­yrði liggi fyrir að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi for­maður flokks­ins, verði ein­angr­aður á kom­andi þingi. Fram­sókn sé að tala um sig sem sjö manna þing­flokk þegar hún er að bjóða sig fram sem mögu­leika í rík­is­stjórn.

Þessum umleit­unum Sjálf­stæð­is­manna hefur verið tekið fálega, og nokkuð ljóst er að lít­ill sem eng­inn vilji er hjá miðju­flokk­unum að vinna bæði með Sjálf­stæð­is­flokki og Fram­sókn­ar­flokki. Það fram­lengi líf kerf­is­varn­ar­rík­is­stjórnar og geri Bjartri fram­tíð og Við­reisn, sem vilja ákveðnar kerf­is­breyt­ing­ar, erfitt fyrir að koma sínum áherslum fram. Flokk­arnir séu í mun betri stöðu til þess sam­ein­aðir gegn Sjálf­stæð­is­flokknum einum í mjög tæpum meiri­hluta.

Stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar við hann muni snú­ast um hversu langt hann sé til­bú­inn að ganga í eft­ir­gjöf gagn­vart helstu mál­efna­á­herslum Bjartrar fram­tíðar og Við­reisn­ar. Flokk­arnir eru von­góðir um að þar sé tölu­vert svig­rúm til að semja. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi sýnt það t.d. í síð­ustu stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum að hann sé til­bú­inn að ganga gegn sínum eigin stefnum til að mynda stjórn, eins og sást með því að hann sam­þykkti Leið­rétt­ingu Fram­sókn­ar­flokks­ins, 80 millj­arða króna milli­færslu úr rík­is­sjóði til val­ins hóps Íslend­inga.

Minni­hluta­stjórn til vinstri hinn kost­ur­inn

Gangi þessar við­ræður ekki þá á Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ekki marga mögu­leika í stöð­unni. Marga innan flokks­ins dreymir um sam­starf við Vinstri græna vegna þess að þeir telja að þá yrðu lyk­il­mál eins og Evr­ópu­sam­bands­að­ild og breyt­ingar á sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­kerf­inu auð­veld­ari við­fangs. Mun styttra sé á milli þess­ara tveggja flokka í þeim málum en ann­arra, utan Fram­sókn­ar­flokks­ins.



Katrín Jakobsdóttir hefur ítrekað lýst því yfir að lítill vilji sé hjá hennar flokki að vinna með Sjálfstæðisflokki. Hún vill fá tækifæri til að mynda minnihlutastjórn frá miðju til vinstri.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Við­mæl­endur Kjarn­ans innan Vinstri grænna segja hins vegar að það yrði ein­ungis eftir margra mán­aða stjórn­ar­kreppu sem það yrði snef­ill af mögu­leika að flokk­ur­inn myndi skoða að mynda rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Og jafn­vel þá væri meiri áhugi á nýjum kosn­ingum en slíku sam­starfi. Þar er ein­fald­lega ekki áhugi að bæt­ast við rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Bjartrar fram­tíðar og Við­reisn­ar, að minnsta kosti ekki fyrr en að reynt hafi verið á hvort hægt sé að mynda stjórn frá miðju til vinstri án Sjálf­stæð­is­flokks. Það er líka kergja á vinstri vængnum gagn­vart Óttarri Proppé fyrir að hafa svona auð­veld­lega snúið sér í við­ræður við aðra flokka en stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna. Yfir­lýs­ing hans í sam­tali við Stund­ina fyrr í dag, þar sem hann seg­ist ekk­ert vera neitt sér­stak­lega spenntur fyrir þriggja flokka stjórn­ar­sam­starfi með Við­reisn og Sjálf­stæð­is­flokki,­vegna þess að það væri svo langt á milli þeirra og Sjálf­stæð­is­flokks, sé fyrst og fremst taktísk þar sem óform­legar við­ræður séu þegar í gangi.

Fari þær við­ræður út um þúfur er hins vegar lítið annað í stöð­unni fyrir Bjarna Bene­dikts­son en að skila stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð­inu. Það færi þá annað hvort til Bene­dikts Jóhann­es­son­ar, for­manns Við­reisn­ar, eða Katrínar Jak­obs­dótt­ur, for­manns Vinstri grænna, og til­raun yrði gerð til að mynda rík­is­stjórn minni­hluta­stjórn frá miðju til vinstri, með eða án aðkomu Fram­sókn­ar­flokks­ins, og með stuðn­ingi Pírata. Þá virð­ist það vera skoðun margra að hljóðið í Sam­fylk­ing­unni hafi breyst umtals­vert með for­manns­skipt­unum í byrjun viku. Logi Ein­ars­son, nýr for­maður flokks­ins, sé ekki jafn afdrátt­ar­laus gagn­vart því að Sam­fylk­ingin verði utan rík­is­stjórnar og Oddný Harð­ar­dóttir var. Þar séu því þrír þing­menn sem mætti bæta inn í slíka stjórn.

Gangi hvorug ofan­greindra leiða eftir er ljóst að stjórn­ar­kreppa verður í land­inu og lítið annað að gera en að kalla þing saman og fyrir starfs­stjórn Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar að leggja fram fjár­laga­frum­varp Bjarna Bene­dikts­son­ar. Í ljósi þess að sú starfs­stjórn er ekki með meiri­hluta á þingi gæti það ferli orðið ansi áhuga­vert. Í kjöl­farið yrði reynt til þrautar að mynda ólík­legra rík­is­stjórn ólíkra flokka. Tæk­ist það ekki væri fátt annað eftir en að boða til nýrra kosn­inga á næsta ári.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar