Hinir miklu pólitísku leikir

Vinstri græn eru pólitískt sætasta stelpan á ballinu í stjórnarmyndunarviðræðum. Mikið er lagt upp úr því að sannfæra flokkinn um að hann eigi meira sameiginlegt með höfuðandstæðingi sínum en hann hafi áttað sig á, og óábyrgt sé að gera ekki málamiðlanir.

Það er pattstaða í íslenskum stjórnmálum og engin hefðbundin leið út úr henni í augsýn. Leikjafræðingar stjórnmálaflokka skiptast á að greina landið og segja öðrum hvað sé augljóslega það eina í stöðunni, hverju kjósendur hafi verið að kalla eftir og hvað sé pólitískur ómöguleiki. Flestir leikjafræðingarnir eru, kannski eðlilega, innan þess flokks sem mótað hefur íslenskt samfélag og stjórnsýslu, og er vanur því að stýra báðu. Þ.e. Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að hann vilji mynda „sterka ríkisstjórn“ á Íslandi. Nokkuð ljóst er að það í því felst að ná fleirum að borðinu en Bjartri framtíð og Viðreisn, enda myndi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og þeirra tveggja flokka einungis vera með eins manns meirihluta.

Viðreisn hefur útilokað að setjast í ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og nær ómögulegt verður að teljast að Björt framtíð samþykki að verða þriðja hjólið undir þeim vagni.

Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að gefa ansi mikið eftir til að mynda hina tæpu þriggja flokka miðju-hægri stjórn með eins manns meirihlutann. Þess vegna róa flokksmenn, Morgunblaðið og aðrir íhaldssinnaðir áhrifamenn sem þátt taka í umræðunni nú að því fullum fetum að fá Vinstri græna um borð í sterka ríkisstjórn undir forsæti Bjarna. Í þeirri leikjafræði felst líka orðræða um að nú þurfi stjórnmálaflokkar að sýna ábyrgð, koma sér saman um stuttan og hnitmiðaðan stjórnarsáttmála um helstu mál sem fram undan séu á komandi kjörtímabili. Það sem aðskilji flokkanna eigi að taka út fyrir sviga og halda utan stjórnarsamstarfs.

Lykilverkefni og engar breytingar

Þessi skilaboð komu til að mynda mjög skýrt fram í fréttaskýringu og forsíðufrétt sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag. Fyrirsögnin var: „Fá en stór lykilverkefni“. 

Þar sagði að nást „verði eins konar samnefnari um lykilmál sem skipti grundvallaratriði en taka önnur mál, sem skipti minna máli, út fyrir sviga þannig að hver þingflokkur eða einstakir þingmenn flytji slík mál á Alþingi án þess að um stjórnarfrumvörp verði að ræða.“

Þau mál sem þar er rætt um sem lykilmál eru nokkuð skýr. Á meðal þeirra eru endurreisn heilbrigðiskerfisins, fjárfesting í menntakerfinu, stóraukin önnur innviðafjárfesting, lausnir á bráðavanda á húsnæðismarkaði og samkomulag um aðgerðir í vinnumarkaðsmálum. Samandregið, mál sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru nokkuð sammála um, og allar ríkisstjórnir óháð samsetningu myndu ráðast í á næsta kjörtímabili.

Í útvarpsviðtali 8. maí 2016 sagði Bjarni Benediktsson að helstu kosningamál Sjálfstæðisflokksins í kosningunum sem fram undan voru yrðu að verja stöðugleika, standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá. Því næst myndi flokkur hans beita sér fyrir bættri stöðu ungs fólks í velferðar- og heilbrigðismálum.

Og það er Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna, sem virðist nú heilla Sjálfstæðismenn mest. Sjálfstæðismenn segja í samtölum að hann hafi oft sýnt það í verki að hann er tilbúinn að gera málamiðlanir fyrir sitt heimakjördæmi. Þar nefna þeir t.d. málamiðlanir þegar kom að stóriðjuuppbyggingu á Bakka og olíuleit á Drekasvæðinu. Þar hafi verið gefinn afsláttur af öðrum stefnumálum Vinstri grænna – umhverfismálum – til að koma á fót verkefnum í kjördæmi Steingríms. Það sé í raun ekki langt á milli hans og Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að sjávarútvegs-, landbúnaðar- og Evrópumálum og að hægt sé að ná sátt um að ýta breytingum á þeim málum til hliðar á komandi kjörtímabili.

Sjálfstæðismenn kjósa hins vegar að líta framhjá því að Steingrímur var annar leiðtoga einu ríkisstjórnar Íslandssögunnar sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu og settist sjálfur sérstaklega í sjávarútvegsráðuneytið til að leggja á há veiðigjöld á sjávarútveginn, sem varð m.a. til þess að útgerðarmenn sigldu flotanum í land árið 2012. Samlegðin við hann í alþjóða- og sjávarútvegsmálum er því ekki jafn augljós og margir vilja af láta.

Mjög augljósir átakapunktar

Það er ýmislegt annað sem gengur ekki upp í þessum samkvæmisleik þar sem Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur eru paraðir upp sem flokkar með mikla samlegð. Þar ber fyrst að nefna að samþykktar stefnuskrár flokkanna eru í grundvallaratriðum gjörólíkar. 

Vinstri græn vilja stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir, banna nýtingu aflandsfélaga, þrepaskipt skattkerfi sem nýtt verði til jöfnunar og eru með sérstaka áherslu á aukin framlög þeirra ríkustu. Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sköttum í lágmarki og að skattkerfið verði einfalt, gagnsætt og ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, ekki til að jafna stöðu fólks. Hann vill afnema lágmarksútsvar svo valin sveitarfélög geti orðið skattaparadísir til að auka samkeppni á milli þeirra. Hann vill draga úr umsvifum hins opinbera, meðal annars með frekari sölu ríkiseigna.

Það virðist allt í einu gleymt hjá Sjálfstæðismönnum að Steingrímur J. Sigfússon var sá sem lagði aukin veiðigjöld á útgerðir landsins og hefur verið holdgervingur allrar þeirrar pólitíkur sem þeir hafa þóst standa gegn. Nú er hann skínandi ljós mögulegrar samvinnu í ríkisstjórn.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Vinstri græn vilja að gjald verði innheimt af nýtingu auðlinda, meðal annars í sjávarútvegi, og þannig verði tryggt að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar renni til hennar ef þær eru ekki þegar nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings. Sjálfstæðisflokkurinn leggur á hinn bóginn áherslu á að virða beri „eignar- og tingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga þegar slíkt er ekki brýn nauðsyn vegna þjóðarhags.“

Í stjórnarskrármálum er stefna flokkanna eins og svart og hvítt. Vinstri græn vilja að þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 verði lokið og að nýja stjórnarskrá eigi að klára sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs. Sjálfstæðisflokkurinn vill fara varlega í breytingar á stjórnarskránni og telur að heildarendurskoðun hennar sé alls ekki æskileg.

Því er ljóst að ef þessir tveir flokkar eigi að ná saman þá þarf að felast í því málamiðlun þar sem annar þeirra gefur eftir grundvallarstefnu sína í skattamálum, auðlindamálum og stjórnarskrármálum.

Flokkur Steingríms verður flokkur Katrínar

Annað sem taka verður með í reikninginn er að Vinstri græn eru flokkur sem er að breytast. Hann var lengi vel flokkurinn hans Steingríms, og mótaðist mjög af foringja sínum. Styrkleiki Steingríms í Norðausturkjördæmi var hryggjarstykkið í stöðu flokksins og fylgið því mun frekar sótt á landsbyggðina en í þéttbýlið.

Það er nú gjörbreytt. Vinstri græn sækja nú flest atkvæði sín til höfuðborgarinnar. Í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins leiddi lista, fékk flokkurinn 20,9 prósent atkvæða. Það er meira en hann fékk í Norðausturkjördæmi, þar sem Steingrímur leiddi. Í kjördæmi Katrínar fengu kerfisvarnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, minnstan hlutfallslegan fjölda atkvæða, eða samanlagt 30,1 prósent. Þar er því rík eftirspurn eftir grundvallarbreytingum á lykilkerfum samfélagsins.

Þingmannahópur Vinstri grænna sem nú sest á Alþingi endurspeglar líka að flokkurinn hefur tekið stórt skref frá því að vera flokkur Steingríms í að vera flokkur Katrínar. Helmingur þingmannanna eru úr Reykjavíkurkjördæmunum og 60 prósent þeirra af höfuðborgarsvæðinu.

Andrés Ingi Jónsson er þingmaður Vinstri grænna.Því fer fjarri að það sé vinsælt í þéttbýliskreðsum Vinstri grænna að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki. Það sést til að mynda ágætlega á myndinni hér til hliðar. Sá sem „tengir“ við stöðuuppfærsluna er Andrés Ingi Jónsson, nýr þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík norður.

Þessi afstaða hefur skinið í gegn víðar. Freyr Rögnvaldsson, blaðamaður á DV sem var á sínum tíma á meðal stofnfélaga Vinstri grænna en er nú óflokksbundinn, setti stöðuuppfærslu á Facebook um liðna helgi þar sem hann sagði: Stuðningsmenn VG, og raunar ýmsir vinstrimenn aðrir, anarkistar, krútt og hipsterar, eru nú með böggum hildar af hræðslu um að VG samþykki samstarf við Sjálfstæðisflokk. Ég sé heitstrengingar á Facebook um íkveikjur á skrifstofum VG og annað í slíkum dúr ef af yrði. Þó það sé nú líklega í nösunum á fólki er augljóst að það er mikill titringur og þar með er Katrín Jakobsdóttir sett í stöðu sem elur af sér „pólitískan ómöguleika“.

Þess í stað eru líkur til að á Íslandi verði mynduð hægrisinnaðasta frjálshyggjustjórn sem sögur fara af með Sýru-stjórninni (ACiD). Ef af verður og afstöðu VG liða verður um að kenna, þá skulu þeir spyrja sig hvort til mikils hafi verið unnið.“

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, svarar þessum áhyggjum Freys í stöðuuppfærslu og segir:

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, segir á heimasíðu sinni um helgina að skilaboð kjósenda hafi verið þau að stjórnmálamenn ættu að ræða sig saman til lausna, þvert á flokka. „Það kallar á málamiðlanir, það kallar á markvissa vinnu um að ná utan um verkefni sem verður að leysa. Þetta vissu kjósendur fyrir kosningar. Það eru því engin vörusvik af hálfu stjórnmálamanna í því að miðla málum sín á milli. Þvert á móti reynir nú á stjórnmálamenn að gegna kjósendum og finna leiðir til að stjórna landinu á grunni þeirra skilaboða sem kjósendur sendu þeim í kosningunum.“

Sjálfur er Steingrímur svo til viðtals í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að sem annar stærsti flokkur landsins geti Vinstri græn ekki skellt í lás á fyrir fram ákveðna flokka í stjórnarmyndunarviðræðum. „Ef þetta fer svo að flækjast mikið munum við í VG sjálfsagt ekki skorast undan ábyrgð þó að áherslur okkar og Sjálfstæðisflokksins séu fjarlægar hvor annarri. Okkur í VG væri heldur enginn vandi á höndum í stjórnarandstöðu gagnvart væntanlega veikum stjórnarmeirihluta. Katrín hins vegar heldur á þessum viðræðum og sjálfur er ég afar sáttur við að vera kominn á hliðarlínuna.“

Það er því ljóst að afstaða lykilfólks innan Vinstri grænna til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn er mjög tvístruð.

Vinstri græn eiga fleiri möguleika, Sjálfstæðisflokkurinn ekki

Opinber afstaða Katrínar Jakobsdóttur hefur verið nokkuð stöðug: hún telur að of langt sé á milli flokkanna tveggja til að þeir geti myndað ríkisstjórn og að hugur hennar standi fyrst til að reyna á myndun ríkisstjórnar frá miðju til vinstri. Sú afstaða kom fyrst nokkuð skýrt fram í viðtali við Kjarnann í júlí, þegar hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði stimplað sig „frá sam­starfi við stjórn­ar­and­stöð­una þegar hann lýsti því yfir að hann muni berj­ast gegn öllum kerf­is­breyt­ing­um.“ Hún sagði einnig:

„Við höfum verið algjör­lega afdrátt­ar­laus með það allan tím­ann að við viljum vinna til vinstri. Þannig viljum við vinna og ég tel eðli­legt að ef stjórn­ar­and­staðan fær til þess um umboð þá er eðli­legt að hún myndi rík­is­stjórn byggða á mál­efn­um[...]Við liggjum lengst frá Sjálf­stæð­is­flokknum í okkar stefn­u.“

Fyrir liggur að Vinstri grænum liggur ekkert á að flýta sér í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn í þeirri viðræðulotu sem nú stendur yfir. Standi vilyrði nær allra flokka um að þeir muni ekki vinna með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki er ljóst að staða Sjálfstæðisflokks er þröng. Hann hefur í raun tvo möguleika: þriggja flokka ríkisstjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn með lítinn meirihluta og miklar kröfur um kerfisbreytingar, eða þriggja til fjögurra flokka ríkisstjórn þar sem Vinstri grænum er bætt við.

Hinir þrír flokkarnir, Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð, hafa annan möguleika í stöðunni, og það er að mynda minnihlutastjórn til vinstri, með eða án Framsóknarflokksins en með aðkomu eða stuðningi Pírata og Samfylkingar. Það yrði alltaf mjög flókin stjórnarmyndun, og ákaflega erfitt stjórnarmynstur, en líklegra að allir flokkarnir þrír – Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð – myndu fá fleiri af sínum grundvallarstefnumálum í gegn þar en í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Gangi slík stjórnarmyndun ekki þá er alltaf hægt að reyna aðra lotu af viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn þar sem allir geta borið fyrir sig ábyrgð og nauðsyn þess að leysa stjórnarkreppu. Það gæti þó liðið nokkuð langur tíma þar til að sú staða kæmi upp.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar