Íslendingar eiga þúsund milljarða erlendis - 32 milljarðar eru á Tortóla
Eignir Íslendinga erlendis drógust lítillega saman í fyrra. Mikil styrking krónunnar og aukið innflæði til að taka þátt í fjárfestingum hérlendis spilar þar rullu. Tugir milljarða eru geymdar á lágskattarsvæðum og yfir 100 milljarðar króna eru með „óflokkað“ heimilisfesti.
Íslendingar áttu samtals 1.004 milljarða króna í beinni erlendri fjármunaeign um síðustu áramót. Það er aðeins lægri upphæð en landsmenn áttu utan landssteinanna ári áður, þegar hún nam 1.067 milljörðum króna. Stærsti hluti þeirra eigna er í félögum sem skráð eru til heimilis í Hollandi (324 milljarðar króna), Bretlandi (213 milljarðar króna) og Lúxemborg (98 milljarðar króna] sem allt eru þekktar fjármálamiðstöðvar. Íslendingar eiga líka töluverðar eignir í þekktum lágskattasvæðum á borð við Bresku Jómfrúareyjarnar. Þar eiga Íslendingar 32,2 milljarða króna. Bein fjármunaeign Íslendinga þar hefur aukist mikið frá því fyrir hrun, en í árslok 2007 áttu Íslendingar 8,6 milljarða króna á eyjunum, en frægust þeirra er Tortóla. Gengisfall krónunnar skýrir aukninguna að einhverju leyti.
Þetta kemur fram í nýjustu tölum Seðlabanka Íslands um beina fjármunaeign Íslendinga erlendis.
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur. Alls eru eiga Íslendingar „óflokkaðar“ eignir upp á 111 milljarða króna.
Fjármunaeign Íslendinga erlendis hefur verið að dragast saman á undanförnum árum í krónum talið. Þar hefur áhrif að fallandi gengi krónu eftir bankahrunið 2008 hafði mikið áhrif á eignina til hækkunar. Mestar voru þær tæplega 1.600 milljarðar króna í lok árs 2012 þegar krónan var enn afar veik. Umfang beinnar fjármunaeignar Íslendinga erlendis hafði þá 6,5 faldast í krónum talið frá árinu 2004, þegar þjóðin átti um 245 milljarða króna af beinum eignum í öðrum löndum.
Krónan hefur vitaskuld styrkst mikið á undanförnum tveimur árum. Frá byrjun árs 2015 hefur hún styrkst um 25 prósent gagnvart evru, 16,5 prósent gagnvart Bandaríkjadal og um 43 prósent gagnvart breska pundinu, en þar á Brexit hlut að máli.
Íslenskir ráðherrar með eignir í aflandsfélögum
Erlend fjármunaeign Íslendinga hefur verið í kastljósi heimsins í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem gerður var opinber í apríl. Í þeim kom fram að um 600 Íslendingar tengist um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins.
Á meðal þeirra Íslendinga sem koma fram í gögnunum, og eru með tengsl við aflandsfélög, eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og nokkrir stjórnmálamenn af sveitarstjórnarstíginu.
Kjarninn hafði ítrekað beint fyrirspurnum til Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eða fjölskyldur þeirra, ættu eignir erlendis. Hinn 15. mars 2015 voru fyrirspurnir sendar til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem fyrrnefnd fyrirspurn var borin upp. Sá sem svaraði fyrir hönd forsætisráðuneytisins, skrifstofustjóri innan þess, neitaði að svara fyrirspurninni, og sagði það ekki í verkahring forsætisráðuneytsins að gera það, og lög krefðust þess ekki. Fyrirspurnin var ítrekuð í nokkur skipti, eftir að eftirgrennslan ritstjórnar benti til þess að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu hugsanlega eignir erlendis, sem hvergi hefði verið greint frá. Fyrirspurnir Kjarnans báru ekki árangur.
Í Panamaskjölunum var einnig að finna stjórnendur úr lífeyrissjóðakerfinu og fjölmarga einstaklinga sem hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Þar á meðal voru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, Finnur Ingólfsson, Sigurður Bollason, Hannes Smárason, Björgólfur Thor Björgólfsson ofl. Hluti þessa hóps er skráður með lögheimili erlendis.
Hafa getað fengið virðisaukningu og keypt upp íslenskar eignir
Líkt og áður sagði hefur styrking krónunnar haft áhrif á heildarvirði erlendrar fjármunaeignar Íslendinga á undanförnum árum, og gert það að verkum að það hefur lækkað um tæplega 600 milljarða króna frá árslokum 2012. En það getur líka spilað inn í að hún lækki að Íslendingar hafa verið að ferja fé erlendis frá heim til að fjárfesta hérlendis.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands á meðan þau voru í boði, frá febrúar 2012 til febrúar 2015. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Þegar Kjarninn hefur spurst fyrir um hverjir það eru sem hafa notið þessarar leiðar hefur Seðlabankinn svarað því til að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Gagnrýni á fjárfestingarleiðina kom úr mörgum áttum, áður en ákveðið var að hætta útboðum hennar. Bjarni Benediktsson gagnrýndi hana meðal annars fyrir að vera ósanngjarna. Í samtali við Kjarnann í febrúar 2014 sagði hann leiðina fela í sér aðstöðumun milli innlendra og erlendra aðila.
Einungis fyrir efnað fólk
Fjölmiðlar hafa verið duglegir við að segja fréttir af þeim aðilum sem blasað hefur við að hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina við að flytja peninga erlendis frá til landsins. Félög í eigu þeirra aðila hafa þá oftar en ekki ráðist í skuldabréfaútgáfu sem sömu aðilar hafa keypt fyrir krónurnar sem þeir fá fyrir gjaldeyrinn sinn, og þar með hefur ákvæði um bindingu í verðbréfum verið fullnægt. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Fjárfestingarleiðin var einungis fyrir efnað fólk. Lengi vel þurfti viðkomandi að eiga að minnsta kosti 50 þúsund evrur sem hann vildi skipta í krónur til að taka þátt en sú upphæð var lækkuð í 25 þúsund evrur allra síðustu mánuðina sem hún var við lýði. Lengst af þurfti því að minnsta kosti að eiga andvirði um sjö milljóna króna í reiðufé til að taka þátt.
Ákveðin skilyrði voru fyrir því að mega fara í gegnum fjárfestingarleiðina. Á meðal þeirra er að fjárfestirinn væri raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem hann ætlar sér að flytja inn til landsins. Auk þess er óheimilt að flytja fjármuni fyrir hönd annars eða annarra aðila. Annað skilyrði var að fjárfestir lægi„ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu“.
Skilmálunum var þó breytt í desember 2012 þegar því var bætt inn að þeir aðilar sem lágu undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot mættu ekki heldur taka þátt í útboðum fjárfestingarleiðarinnar.
Engar takmarkanir voru hins vegar á þátttöku í fjárfestingarleiðinni fyrir aðila sem voru til rannsóknar eða jafnvel í ákæruferli hjá öðrum embættum en gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Þannig gat einstaklingur setið í dómssal að morgni þar sem honum var gefið að hafa framið stórkostlega efnahagsglæpi. Síðdegis gat hann tekið þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og tryggt sér tugprósentaafslátt af íslenskum krónum. Um kvöldið gat hann keypt sér íslenskt fyrirtæki fyrir þessar sömu krónur.