Sótt að Trump vegna ráðningar Bannon
Stephen Bannon er verulega umdeildur maður sem fær bráðum skrifstofu í Hvíta húsinu og mikil völd. Hann hefur undanfarin ár stýrt Breitbart News, sem hefur verið lýst sem miðli fyrir þá sem þykir Fox News of kurteis og hófsamur fjölmiðill.
Enginn skortur er þessa dagana á gagnrýni á Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, frekar en verið hefur undanfarna mánuði og ár. Hann tilkynnti um fyrstu ráðningar sínar sem forseti, og hefur ráðið Reince Priebus, formann landsnefndar Repúblikanaflokksins, í starf starfsmannastjóra Hvíta hússins. Ráðningu Priebus hefur verið fagnað af Repúblikönum, enda innsti koppur í búri þar á bæ. Hin ráðningin vakti minni lukku, og miklu meiri gagnrýni. Í starf yfirmanns stefnumótunar og ráðgjafa réði Trump nefnilega mann að nafni Stephen Bannon. Bannon tók við stjórnartaumunum á kosningabaráttu Trumps undir það síðasta, frá því í ágúst síðastliðnum, en hann var fram að því stjórnarformaður Breitbart News, sem er hægrisinnaður fjölmiðill sem hefur verið lýst sem fréttamiðli þeirra sem finnst Fox News of kurteis og hófsamur fjölmiðill.
„Maður sem hvetur til haturs“
Bannon er meðal annars sakaður um að hafa ýtt undir kynþáttafordóma, gyðingahatur og kynjamismunun í starfi sínu hjá Breitbart. Ýmsir mannréttindahópar gagnrýndu ráðninguna strax, sem og margir Demókratar og þónokkrir Repúblikanar. Flestir þeirra einbeittu sér þó að því að fagna hinni ráðningunni, og minntust ekki á Bannon. En John Weaver, sem var kosningastjóri John Kasich í forkosningunum og áður ráðgjafi John McCain, tjáði sig frjálslega. „Rasíska, fasíska öfgahægrið er með fulltrúa nokkrum skrefum frá skrifstofu forsetans. Vertu á varðbergi Ameríka.“
Elizabeth Warren, hinn áhrifamikli öldungadeildarþingmaður Demókrata, var meðal þeirra sem gagnrýndi ráðninguna harðlega. „Þetta er maður sem hvetur til haturs, hann hefur verið lofaður af stuðningsmönnum KKK og nasista, og hann hefur verið fordæmdur af réttindasamtökum,“ sagði hún meðal annars. „Forseti Bandaríkjanna á að fordæma ofstækismenn – ekki afhenda þeim skrifstofu í Vesturálmunni (e. West Wing) og veita þeim völd til að taka ákvarðanir sem varða framtíð landsins okkar. Donald Trump segist vilja vera forseti fyrir alla Bandaríkjamenn. En ráðning Bannon sýnir að hingað til er verðandi forsetinn Trump á sömu braut ljótleika og sundurlyndis og hann var á alla kosningabaráttuna.“ Nancy Pelosy, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild þingsins, sagði að það væri ekki hægt að sykurhúða þá staðreynd að búið væri að ráða hvítan þjóðernissinna sem yfirmann í stjórn Trump.
Bernie Sanders, keppinautur Hillary Clinton um útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaframbjóðandi, tjáði sig líka um ráðninguna á Bannon og segir að þjóðin ætti að vera „mjög áhyggjufull“ yfir henni. Bandaríkin hafi barist við misrétti, rasisma, karlrembu og fordóma gegn hinsegin fólki í hundruð ára, og mætti ekki við því að stíga skref til baka. „Við munum segja herra Bannon og öðrum ráðgjöfum að við munum ekki snúast gegn hverju öðru. Við munum standa saman.“
Einn hópur fagnar ráðningunni
Og þessir hvítu þjóðernissinnar og kynþáttahyggjuhópar fagna ráðningu hans. Fyrrverandi leiðtogi Ku Klux Klan, David Duke, segir að honum þyki ráðningin framúrskarandi góð. „Það er gott að sjá að hann (Trump) heldur sig við málefnin og hugmyndirnar sem hann setti fram sem frambjóðandi. Nú er hann verðandi forseti og hann heldur sig við þetta og ítrekar þessi málefni.“
Peter Brimelow, sem stjórnar kynþáttahyggjusíðu sem heitir VDARE og einbeitir sér aðallega að mikilli harðlínustefnu gagnvart innflytjendum, fagnaði líka ráðningunni við CNN og sagði hana gefa Trump tengingu við svokallaða alt-hægri hreyfingu á netinu. „Mér finnst þetta frábært. Geturðu ímyndað þér Mitt Romney gera þetta? Það er næstum eins og Trump sé annt um hugmyndir.“ Enn annar stjórnandi kynþáttahyggjusíðu, Brad Griffin, segist telja að Bannon muni halda Trump við efnið þegar kemur að loforðum eins og því að byggja vegg á landamærunum við Mexíkó, vísa innflytjendum burt úr landinu og hætta að taka á móti flóttamönnum.
Leiðtogi bandaríska nasistaflokksins, Rocky J. Suhayda, finnst ráðningin til marks um alvöru Donalds Trump, en hann hafi átt von á að hann myndi ekki velja Bannon vegna mótmæla annarra. „Kannski verður hann þá ekki önnur strengjabrúða...og ætlar í alvöru að rugga bátnum. Tíminn mun leiða það í ljós.“
Annað fólk innan úr kosningateymi Trumps hefur líka komið honum til varnar. Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trump, sagði til að mynda við New York Times að fólk ætti að skoða alla ferilskrána hjá Bannon. Hann væri með gráðu frá Harvard, hefði verið í sjóhernum og náð árangri í skemmtanabransanum. Hún neitaði því að hann hefði nokkra tengingu við öfgafulla hægri þjóðernissinna. Bannon sjálfur hefur sagt að það séu vissulega snertifletir með þessum hópum væru gagnrýnendur hans að „mála með of breiðum bursta.“ Þetta fólk væru föðurlandsvinir sem elska landið sitt.
En hvernig er Breitbart?
Áður en Bannon fór yfir í kosningateymi Trumps var mjög ljóst að hann, og Breitbart News undir hans stjórn, styddu Trump. Í mars síðastliðnum komst fjölmiðillinn í fréttirnar í tengslum við Trump, eftir að blaðamaður þar, Michelle Fields, sakaði þáverandi kosningastjóra Trump um að hafa gripið í sig og ýtt sér í burtu frá Trump. Hún hætti í kjölfar þess að fjölmiðillinn tók ekki undir hennar málstað, heldur birti fréttir um að hún hefði misskilið hlutina eitthvað. Einn ritstjóranna á Breitbart, Ben Shapiro, og þónokkrir blaðamenn til viðbótar, hættu einnig. Shapiro sagði í sinni yfirlýsingu að Steve Bannon væri fantur, tuddi, sem hefði svikið hugsjónina sem fjölmiðillinn hefði verið stofnaður utan um til þess að styðja annan fant, Donald Trump. Bannon hefði gert fyrirtækið að einskonar persónulegri Prövdu fyrir Trump, í svo miklum mæli að hann styddi ekki einu sinni sinn eigin fréttamann gegn enn öðrum fanti, kosningastjóranum þáverandi Corey Lewandowski. Þá var greint frá því að allar fréttir um Trump þyrftu að fara í gegnum Bannon sjálfan áður en þær birtust.
Eftir að Bannon var ráðinn í Hvíta húsið tjáði Shapiro sig enn frekar um málið. Þá sagði hann sjálfur að Bannon hefði tekið rasistum opnum örmum, auk þess sem hann væri hefnigjarn og ógeðfelldur maður sem væri þekktur fyrir að atyrða bæði vini sína og hóta óvinum. Hann væri klárari útgáfa af Trump.
Um leið og Breitbart studdi Trump, gagnrýndi miðillinn um leið fjölmarga hefðbundnari Repúblikana. Steve Bannon tók við stjórnartaumunum þar árið 2012 eftir að stofnandinn og vinur hans Andrew Breitbart lést. Flestir eru þeirrar skoðunar að Bannon hafi togað miðilinn enn lengra til hægri en áður var, og jafnvel íhaldsmenn sem áður höfðu tengsl við Breitbart hafa afneitað miðlinum sem hatursáróðri, sem ýti undir misrétti og fordóma. New York Times hefur tekið saman nokkrar af umdeildustu fréttunum sem miðillinn hefur birt undir stjórn Bannon.
Meðal frétta á vefnum er þessi hér til vinstri, um að getnaðarvarnir geri konur óaðlaðandi og klikkaðar. Þá eru þar greinar um að Huma Abedin, einn helsti ráðgjafi Hillary Clinton, sé að öllum líkindum njósnari frá Sádi-Arabíu með mikil tengsl við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Þá er talað með mjög niðrandi hætti um transfólk, samkynhneigða og konur.
Meðal þess sem sagt er um konur er að það halli í raun ekkert á konur í ráðningum í tæknigeiranum. Þær séu bara mjög lélegar í viðtölum.
Þá er sagt að lausnin við áreiti á netinu sé einföld, konur eigi einfaldlega að hætta á netinu.
Einnig er talað með niðrandi hætti um gyðinga, og Bannon sjálfur hefur skrifað um kæru gegn yfirmanni Fox News sem plott til að auka líkur Hillary Clinton á að verða forseti. Roger Ailes, yfirmaður á Fox, var kærður fyrir kynferðislega áreitni, en Bannon sagði þetta ekki bara ætlað til að auka líkur Hillary heldur líka til að gefa samtökum eins og Black Lives Matter „og öllum hinum klikkhausunum“ meira vægi.
Mótmælunum vegna þessarar ráðningar virðist ekki vera að linna, og þegar er fjöldinn allur af undirskriftasöfnunum kominn af stað til að krefjast þess að Trump standi ekki við ráðninguna og hleypi Bannon í þessa ábyrgðarstöðu.