Birgir Þór Harðarson

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar strandaði á sjávarútvegsmálum

Andstaða gegn uppboði á aflaheimildum og þjóðaratkvæði um Evrópusambandið varð til þess að stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og frjálslyndu miðjuflokkanna var slitið. Nú verður reynt að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stöðvaði fyrr í dag viðræður við Viðreisn og Bjarta framtíð um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Hann hefur ekki skilað stjórnarmyndunarumboði sínu til forseta Íslands en segist ekki vera með neina viðmælendur um myndun nýrrar ríkisstjórnar í augnablikinu. Ástæðan fyrir viðræðuslitum var sú að Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki sætt sig við að hluti aflaheimilda yrði boðinn upp markaði. Við bætist að andstaða var við málamiðlun í Evrópusambandsmálum innan flokksins, sem ákveðið hafði verið að fresta viðræðum um þar til niðurstaða lægi fyrir um önnur mál. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru lagðar fram tillögur á mánudag um að bjóða upp nokkur prósent aflaheimilda, sem miðjuflokkarnir töldu að skila ættu á annan tug milljarða króna. Taka átti þriðjudaginn í viðræður um sjávarútvegsmál og þegar mætt var til þeirra funda var ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn taldi sig ekki geta gengið að kröfum um að hluti aflaheimilda yrðu settar á uppboð. 

Flokkarnir höfðu þegar náð saman um ýmsa þætti sem viðræðuaðilar voru mjög spenntir fyrir. Þar á meðal einföldun á skattkerfinu sem átti að nýtast atvinnulífinu sérstaklega vel og hugmyndir um afnám ýmissa tolla í landbúnaði höfðu verið ræddar við góðan hljómgrunn. Bjarni staðfesti það í yfirlýsingu fyrr í dag að góður samhljómur hafi verið á milli flokkanna um ýmis mál en viðræður hefðu sýnt áherslumun í öðrum. ,,Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið.  Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið.  Ég útiloka ekkert fyrir fram í þeim efnum,” sagði Bjarni.

Ólíklegt verður þó að teljast að ríkisstjórn með sterkari meirihluta sé í kortunum. Næst í röðinni til að fá stjórnarmyndunarumboð er að öllum líkindum Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún hefur verið boðuð á fund forsetans á morgun og mun reyna að mynda margra flokka stjórn frá miðju til vinstri sem gæti vel orðið minnihlutastjórn með stuðningi eins eða tveggja flokka. 

Generalprufa miðju-hægri stjórnarinnar

Um helgina átti sér stað generalprufa ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks annars vegar og frjálslynds miðjubandalags Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar. Þar fengu flokkarnir nasaþefinn af því hvernig andstaða gegn ríkisstjórn þeirra gæti orðið. Eftir að tilkynnt var um það á föstudag að formlegar viðræður myndu eiga sér stað reis reiðibylgja upp þar sem hin fyrirhugaði ráðahagur var harðlega gagnrýndur í opinberri umræðu og á samfélagsmiðlum.

Andúðin beindist fyrst og fremst að Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar. Hann þótti ekki hafa sýnt heilindi með því að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Pönksöngvarinn sjálfur sem hafði sungið: „Burt með kvótann“.

Hún kom í flestum tilfellum frá stjórnmálamönnum og aðilum sem eru fylgismenn þeirra flokka sem eiga ekki aðild að stjórnarmyndunarviðræðum eða fólki sem er alfarið á móti veru Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Margt af því fólki sem gagnrýndi Óttarr hvað harðast þarf nú að reyna að mynda ríkisstjórn með honum. Má þar nefna Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata, sem sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að Óttarr væri vingjarnlegasti og kurteisasti maður sem hægt væri að hitta. „Eflaust þolir hann ekki að vera hataður eins og mun gerast þegar hann styður aftur og aftur og aftur spillingu forystu XD í þingsal, á nefndarfundum, í atkvæðagreiðslum,“ skrifaði Jón Þór. Hann bætti svo við að Óttarr myndi samþykkja lög um bitlinga, um verkföll á kennara og um einkavæðingu heilbrigðisþjónustu. 

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, blandaði sér einnig í umræðurnar. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún: „Æ, æ, Óttarr Proppé. Ekki láta það gerast að stjórn hægri aflanna i samfélaginu verði í boði Bjartrar framtíðar þegar þið hafið betri kost í augsýn. Ríkisstjórn umbóta og breytinga undir forystu Katrínar Jakobsdóttur er það sem fólk kallar eftir, ekki að Björt Framtíð verðið hækja Engeyjarstjórnar. Það þarf að uppræta spillingu og foréttindi í samfélaginu og auka jöfnuð og réttlæti. Það verður ekki gert í slíkri stjórn.“

Þessi mikla opinbera andúð hafði áhrif á viðræðurnar og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sá sig knúinn til að taka upp hanskann fyrir Óttarr á samfélagsmiðlum á sunnudagskvöld.

Svikalogn

Viðmælendur Kjarnans segja þó að samhljómur hafi verið milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að halda óhrædd áfram viðræðum og sjá hvort að hægt væri að ná þeirra áherslum í gegn. Á fundi í baklandi Bjartrar framtíðar á mánudag var slegið á margar þeirra áhyggja sem settar höfðu verið fram innan flokksins. Þótt ljóst væri að umræður um erfiðustu málin, sjávarútvegsmál og Evrópumál, væru eftir ríkti hófleg bjartsýni um að það tækist að ná saman. Fullur vilji var til að halda viðræðunum til streytu þangað til að stranda myndi á málefnum.

Ein ástæða þess að viðræðurnar milli aðila höfðu gengið nokkuð vel hingað til er fólgin í mannavalinu sem tó þátt í þeim. Bjarni valdi að taka með sér Svanhildi Hólm Valsdóttur og þingmanninn Teit Björn Einarsson, sem hafa verið aðstoðarmenn hans undanfarin ár, og yngsta þingmann flokksins, ritarann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Öll eru talin frjálslynd og ekki hluti af þeim armi flokksins sem er harðastur gegn breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfum eða málamiðlun í Evrópusambandsmálum. Þessi mannaskipan vakti athygli, enda enginn annar oddviti Sjálfstæðisflokksins við viðræðuborðið. 

Það yrði án efa erfiðara að ná málamiðlun ef fyrrverandi formaður Bændasamtakanna Haraldur Benediktsson væri að ræða um landbúnaðarmál, ef Evrópuandstæðingarnir Guðlaugur Þór Þórðarson eða Óli Björn Kárason væru að ræða Evrópumál eða Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi stjórnarformaður Samherja, að ræða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. 

Sú bjartsýni sem ríkti í gær var fljót að hverfa þegar fundir hófust í dag. Ástandið sem ríkt hafði var svikalogn. Tillögur um uppboð á nokkrum prósentum aflaheimilda í sjávarútvegi, sem Viðreisn og Björt framtíð lögðu fram, voru óyfirstíganlegar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Bjarni sleit í kjölfarið viðræðunum. 

Morgunblaðið og þrýstingur um Framsókn

Skoðun þess arms Sjálfstæðisflokksins sem stendur fastast gegn breytingum í sjávarútvegi og landbúnaði birtist oftast nær ágætlega í þeim skoðunum sem fram eru settar í leiðurum Morgunblaðsins. Báðir ritstjórar blaðsins, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, erum áhrifamenn innan þess arms. Í gærmorgun birtist leiðari með fyrirsögninni „Áhyggjuefni“. Þar var reynt að leggja línurnar um hvað stjórnarmyndunarviðræðurnar ættu að snúast um, að mati leiðarahöfundar, og svo voru talin upp brýnustu úrlausnarefnin eins og myndarlegar skattalækkanir, innviðafjárfestingar og bæting í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. „En það eru ekki þessi verkefni og önnur álíka sem mestu ráða um myndun næstu ríkisstjórnar. Sú umræða snýst aðallega um hvernig hægt sé að þóknast Viðreisnarflokkunum í Evrópumálum og í aðförinni að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, en íslenskir krataflokkar hafa af einhverjum ástæðum lengi haft horn í síðu þeirra atvinnugreina[...]Það að umsókn um aðild að ESB skuli þykja eiga erindi inn í jafn mikilvægar umræður og nú standa yfir um stjórnarmyndun er verulegt áhyggjuefni. Það gefur ekki góðar vonir um framhaldið næstu fjögur árin ef einhverjir aðilar að ríkisstjórn, ekki síst ríkisstjórn með naumasta þingmeirihluta, eru svo laustengdir raunveruleikanum að þeir telji brýnast af öllu að blásið verði lífi í þá alræmdu aðildarumsókn,“ sagði síðan í leiðaranum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mun nú reyna að mynda ríkisstjórn, m.a. með flokkum Þorsteins Víglundssonar og Óttarrs Proppé.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þá hefur líka verið fyrirstaða inni í þingflokki Sjálfstæðisflokksins gagnvart myndun ríkisstjórnar með Viðreisn og Bjartri framtíð. Þar er að finna nokkra þingmenn sem hafa lagst hart gegn stjórninni og þrýst mjög á að Framsóknarflokknum verði bætt inn í allar verðandi ríkisstjórnir. Slíkar hugmyndir koma ekki til greina innan Viðreisnar né Bjartrar framtíðar.

Þverpólitísk sátt um stóru málin

Flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi – jafnt þeir sem nú sitja og reyna að mynda ríkisstjórn og hinir sem munu standa utan hennar – gera sér grein fyrir því að ráðast þarf í mjög umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum og velferðarkerfinu. Gríðarleg uppsöfnuð fjárfestingaþörf er í flestum stoðum samfélagsins og ofurvöxtur í ferðaþjónustu hefur aukið enn á nauðsyn þess að bætt verði verulega við hana á næstu árum. Í ljósi þess að afgangur af ríkisfjármálum stefnir í að verða um 400 milljarðar króna í ár vegna stöðugleikaframlaga, og búist er við áframhaldandi bullandi hagvexti á næsta ári, þá er til mikið fjármagn til að ráðast í margar þessar fjárfestingar og viðmælendur Kjarnans innan þeirra flokka sem stóðu að viðræðunum sögðu það ekki verða vandkvæðum bundið að koma sér saman milli flokkanna þriggja hvernig sú fjárfesting verði útfærð. Vandamálið væri mun frekar það að fara ekki fram úr sér í fjárfestingu og ofhita efnahagskerfið um leið. Þá höfðu flokkarnir þrír höfðu náð nokkuð góðri sátt um aðgerðir til að einfalda skattkerfið fyrir atvinnulífið

Það var því eðlilegt að helstu átökin séu um þau mál þar sem stefna Sjálfstæðisflokksins er beinlínis á andstæðum póli við stefnu Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Heimildir Kjarnans herma að vel hafi gengið að ræða um breytingar á landbúnaðarkerfinu og þar hafði náðst samstaða um afnám ýmissa tolla og aðrar aðgerðir sem teljast hefðu mátt sem kerfisbreytingar.

Ákveðið hafði verið að geyma Evrópumálin þar til síðast og dagurinn í dag átti, líkt og áður sagði, að fara í að ræða sig niður á mögulegar lausnir í sjávarútvegsmálum. Það tókst ekki.

Lota eitt búin, lota tvö að hefjast

Innan raða Vinstri grænna hefur það stöðumat verið ríkjandi að ekki sé fýsilegt að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Fátt, ef nokkuð, sameini flokkanna. Þar hafa ráðandi öfl verið meira en tilbúin til að bíða af sér stjórnarmyndunartilraunir Sjálfstæðisflokksins – sem þau telja að muni ekki skila neinum árangri – til að fá stjórnarmyndunarumboðið sjálf og reyna myndun stjórnar frá miðju til vinstri undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Lang líklegast verður að telja að Katrín fái nú tækifæri til þess.

Framsóknarflokkurinn virðist vera mjög tilbúinn til að koma að slíkri miðju-vinstri stjórn, og sömuleiðis stjórn til hægri ef svo ólíklega vildi til að slík yrði á borðinu með hann innanborðs. Aðilar alls staðar að úr hinu pólitíska litrófi segja að Framsókn virðist vera tilbúinn að gera nánast allt til að komast í ríkisstjórn. Þar á meðal að einangra Sigmund Davíð Gunnlaugsson og jafnvel Gunnar Braga Sveinsson.

Lota eitt í stjórnarmyndunarviðræðum eftir einar sögulegustu kosningar í Íslandssögunni er lokið. Lota tvö er að hefjast. Því fer fjarri að fyrir liggi að hún verði sú síðasta.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar