Er eftirsóknarvert að sitja í næstu ríkisstjórn?
Fram undan eru stór verkefni til að takast á við, lítill tími til að marka stefnu í mörgum þeirra og erfitt verður að finna jafnvægið á milli þess að mæta uppsafnaðri fjárfestingarþörf og að standa á bremsunni í eyðslu til að ofhita ekki hagkerfið.
Allir stjórnmálaflokkar sem náðu inn fulltrúa á Alþingi í lok október reyna nú að komast að í ríkisstjórn. Fyrir liggur að myndun slíkrar verður afar flókin og samsetning hennar verður alltaf óvenjuleg í sögulegum samanburði. Hún gæti líka þurft að undirbúa sig fyrir það að standa fljótlega frammi fyrir ansi krefjandi verkefnum, sem krefjast úrlausna sem munu ekki falla í kramið hjá öllum.
Efnahagsaðstæður á Íslandi eru um margt mjög góðar og hafa verið það um nokkurt skeið. Þar spila inn í auknar útflutningstekjur, fyrst vegna makrílveiða, og síðar vegna ofurvaxtar í ferðaþjónustu. Veik króna og fjármagnshöft hjálpuðu mjög til að flýta efnahagslegu endurreisninni. Þegar kostnaður, t.d. laun, er í ódýrum krónum en síauknar tekjur í mun verðmeiri gjaldeyri verður allur rekstur íslenska hagkerfisins mun auðveldari.
Samkomulag við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir gæfu eftir þorra innlendra eigna sinna gegn því að fá að losa um erlendar eignir sínar gerði stöðuna enn betri. Loks var hægt að fara að losa um fjármagnshöft og stöðugleikaeignirnar munu gera það að verkum að afgangur ríkissjóðs á þessu ári verður hátt í 400 milljarðar króna. Þótt að enn eigi eftir að koma töluverðu af þeim eignum í verð liggur fyrir að það eru tækifæri til að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum samfélagsins á næstu misserum.
Það skortir ekki á verkefni sem þarf að ráðast í og flest eiga þau það sameiginlegt að kosta mikla peninga. Í ljósi þess að íslenska hagkerfið er líklega á hápunkti efnahagsuppsveiflunnar, og mun standa frammi fyrir áskorunum á þeim vettvangi í náinni framtíð, verður af nógu að taka hjá þeirri ríkisstjórn sem tekur við að loknum stjórnarmyndunarviðræðum. Og nær ómögulegt verður að halda öllum ánægðum í þeirri jafnvægislist sem þarf að stunda milli þess að mæta kröfum um úrbætur í samfélaginu og því að reka ábyrga efnahagsstefnu.
Innviðafjárfestingar
Þótt að nóg sé til að peningum í ríkiskassanum er ekki auðvelt að forgangsraða í hvað þeir eiga að fara. Kreppa og féleysi undanfarinnar ára hafa gert það að verkum að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum á Íslandi er gífurleg. Fjármálafyrirtækið Gamma mat hana á 230 milljarða krónaí nýlegri skýrslu.
Þar er átt við uppsafnaða þörf í fjárfestingu bæði efnahags- og samfélagsinnviða. Efnahagsinnviðir eru til dæmis samgöngumannvirki, flutningar, framleiðsla og flutningur á orku og vatns og fjarskiptainnviðir.
Arion banki hélt því fram í nýlegri úttekt að uppsöfnuð fjárfesting í vegakerfinu einu saman, miðað við fjölgun bifreiða sem nota það vegna ofurvaxtar í ferðaþjónustu, sé yfir 23 milljarðar króna á árunum 2011-2015. Þessi uppsafnaða fjárfestingaþörf er til komin vegna þess að niðurskurður til vegamála hefur verið 90 prósent ef miðað er við meðaltal áranna 2002 til 2007. Árið 2015 var fjárfesting í vegum og brúm helmingi minni en hún var árið 1995.
Samfélagsinnviðir eru síðan menntun, heilbrigðiskerfið, réttarkerfið, menning og afþreying. Nokkuð almenn sátt er um það hjá öllum stjórnmálaflokkum, og hjá almenningi, að gríðarlega fjármuni vanti inn í heilbrigðiskerfið til að það standist þau viðmið sem íslenskt samfélag krefst.
Byggja þarf nýjan spítala, fjölga heilsugæslustöðvum, fjárfesta í tækjabúnaði og byggja hjúkrunarheimili til að mæta því að öldruðum Íslendingum mun fjölga hratt á næstu áratugum. Hagstofan spáir því að Íslendingum á aldrinum 67 ára og eldri muni fjölga úr 39 þúsund árið 2016 í 86 þúsund árið 2050 eða um 121 prósent. Á sama tíma er reiknað með að heildarfjöldi íbúa vaxi úr 332 þúsund í 422 þúsund eða um 27 prósent. Hlutfall 67 ára af mannfjölda mun því hækka úr 12 prósentum í 20 prósent.
Þá hefur Ísland dregist hratt aftur úr í fjárfestingum í menntamálum. Meðalframlag íslenskra ríkisins á hvern nema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna á meðan að meðaltalið á hinum Norðurlöndunum er rúmlega 2,2 milljónir króna. Þriðjung vantar til að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna.
Þá verður líka að fara varlega í fjárfestingu hins opinbera. Það er mikil þensla í íslenska hagkerfinu og stjórnvöld ættu að vera með fótinn á bremsunni í aukningu útgjalda við slíkar aðstæður, undir venjulegum kringumstæður. En hin mikla uppsafnaða fjárfestingarþörf gerir það mjög erfitt, og óvinsælt, að sýna tilhlýðilega ráðdeild og nota t.d. aukna umframfjármuni ríkisins til að greiða niður skuldir þess.
Ytri aðstæður
Ísland er ákaflega viðkvæmt fyrir efnahagslegum ytri áhrifum sem íslensk stjórnvöld geta ekki haft nein áhrif á. Þar skiptir t.d. heimsmarkaðsverð á olíu miklu máli. Mikil lækkun á því, ásamt hraðri styrkingu krónunnar, hafa verið þeir helstu kraftar sem togað hafa á móti innlendri þenslu undanfarin ár og komið í veg fyrir háa verðbólgu. Líkur eru á því að heimsmarkaðsverðið geti hækkað skarpt á næstu misserum. OPEC-ríkin, með Sádi-Arabíu sem stærsta einstaka olíuframleiðsluríkið í broddi fylkingar, komust að óformlegu samkomulagi um að draga úr olíuframleiðslu til að stuðla að meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði í lok september. Það leiddi strax til skarprar hækkunar á olíu.
Lykilákvörðun OPEC ríkja, á formlegum vettvangi samtakanna, verður tekin á fundi þeirra 30. nóvember og má gera ráð fyrir að sú ákvörðun hafi dýpri áhrif á markaðinn.
Seðlabankinn bendir enn fremur á í nýjustu Peningamálum sínum að horfur séu á að vöxtur heimsframleiðslunnar minnki í ár frá fyrra ári og verði hinn minnsti síðan árið 2009. Hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands hafa heldur versnað og „munar þar mest um lakari horfur í Bretlandi í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu. Líkt og áður er talin meiri hætta á að mat á alþjóðahorfum reynist of bjartsýnt.“
Þá eru fram undan skref í átt að losun fjármagnshafta. Þau munu auka frelsi íslenskra fyrirtækja til að starfa alþjóðlega og liðka fyrir innflæði á erlendri fjárfestingu. En að sama skapi mun losun hafta auka á viðkvæmni íslenska hagkerfisins. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að hið alþjóðlega fjármálakerfi hefur oftar en einu sinni fundið leiðir til að spila á örríkið með örmyntina til að græða svívirðilegt magn af peningum, en skilja okkur Íslendinga eftir með afleiðingarnar.
Órói á vinnumarkaði
Staðan á íslenskum vinnumarkaði er viðkvæm, svo vægt sé til orða tekið. Mjög háar launahækkanir ákveðinna stétta á undanförnum árum, nú síðast þingmanna, ráðherra og forseta, hafa ekki hjálpað til að róa óánægjuna sem þar ríkir. Laun þingmanna voru til að mynda hækkuð um 44 prósent. Lagt hefur verið upp með að hætta hinu svokallaða höfrungahlaupi í launaþróun, þar sem hver hópurinn eltir annan með kröfur um tugprósenta launahækkanir. Hið svokallaða Salek-samkomulag, um hóflegar launahækkanir í takti við aðra hagvísa, snýst fyrst og síðast um þetta. Hækkun á launum ráðamanna, sem ákveðin var af Kjararáði, setti það samkomulag í uppnám.
Það stefnir því í miklar deilur á vinnumarkaði í nánustu framtíð, sem ný ríkisstjórn verður að takast á við. Á meðal þeirra stétta sem eru án samninga eru grunnskólakennarar. Þeir hafa nú verið án samnings frá því í júní og hafa í tvígang fellt kjarasamninga. Hljóðið í þeim er þungt og verulegar líkur verða að teljast á því að kennarar fari í verkfall nema semjist um miklar kjarabætur.
Þá á enn eftir að nást sátt um frumvarp sem kynnt var í september og á að stuðla að því að eitt samræmt lífeyriskerfi verði fyrir allt launafólk á Íslandi óháð því hvort það vinni fyrir hið opinbera eða á hinum almenna markaði og að launakjör milli markaðanna tveggja verði jöfnuð. Helst þarf að klára það mál fyrir áramót, þótt óraunhæft sé að svo verði í ljósi þess að ekki er enn komin ný ríkisstjórn, um sjö vikur eru eftir af árinu og enn á eftir að fara í gegnum fjárlagaafgreiðslu.
Til viðbótar er skýr krafa um að bæta kjör öryrkja og aldraðra sem felur í sér milljarða króna viðbótarkostnað við rekstur almannatryggingakerfisins. Þá er ótalin krafa um frekari hækkun hámarksgreiðslu fæðingarorlofs í 600 þúsund krónur á mánuði, lengingu þess í 12 mánuði og að leikskóladvöl verði tryggð að loknu orlofi.
Samkeppnishæfni
Auknar gjaldeyristekur Íslands, vegna ofurvaxtar í ferðaþjónustu og makrílveiða, hafa umbreytt íslensku efnahagsástandi á skömmum tíma. Hagvöxtur hér er gríðarlegur og mun meiri en í samanburðarríkjum. í nýjum Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem birt voru í gær, er því spáð að hann verði áfram hár á næsta ári, eða 4,5 prósent.
Þessi þróun hefur gert það að verkum að íslenska krónan hefur styrkst geysilega mikið, geysilega hratt. Frá byrjun árs 2015 hefur hún styrkst um 25 prósent gagnvart evru, 16,5 prósent gagnvart Bandaríkjadal og um 43 prósent gagnvart breska pundinu, en þar á Brexit líka hlut að máli. Þessi þróun hefur neikvæð áhrif á hagvöxt sem er því mun frekar drifin áfram af einkaneyslu en viðskiptaafgangi.
Sem sagt, miklar launahækkanir, og eyðsla þeirra, er orðin ríkari ástæða fyrir hagvexti en áður og styrking krónu dregur úr mikilvægi tekna gjaldeyrisskapandi greina í þeim málum. Saman stuðla þær launahækkanir og mikil styrking krónu að minnkandi samkeppnishæfni íslensks gjaldeyrisskapandi atvinnulífs. Launin hækka en tekjurnar, í krónum talið, lækka.
Viðskiptaráð fjallaði um helstu verkefni næsta kjörtímabils í úttekt sem það birti í gær. Þar er mikilvægasta verkefni komandi ríkisstjórnar sagt vera að móta langtímastefnu um auka alþjóðlega samkeppnishæfni. Þar standi tveir þættir okkur aðallega fyrir þrifum: Framleiðni vinnuafls er umtalsvert lægri hér en hjá nágrannaþjóðum og helstu útflutningsgreinar okkar standa frammi fyrir vaxtaskorðum vegna takmarkaðs eðlis náttúruauðlinda.
Inn með ódýrt erlent vinnuafl, út með menntaða Íslendinga
Þótt atvinnuástandið hafa batnað ótrúlega hratt hérlendis, og atvinnuleysi sé nánast horfið, þá er sá mikli vöxtur eftirspurnar sem hér er farinn að reyna á þanþol þjóðarbúsins. Seðlabankinn segir að farið sé að bera á skorti á vinnuafli og innflutningur þess mun aukast umtalsvert á næstu misserum.
Frá bankahruni og fram að síðustu áramótum urðu til rúmlega 16 þúsund ný störf hérlendis. Bróðurpartur þeirra er tilkominn vegna ferðaþjónustu og tengda greina, eins og byggingaiðnaðar. Þessi störf krefjast flest ekki mikillar sérhæfingar eða menntunar og virðast því ekki mæta nema að hluta til væntingum Íslendinga um starfsvettvang og starfskjör. Með öðrum orðum þá eru flest nýju störfin sem orðið hafa til lágt launuð þjónustustörf. Þau tólf þúsund störf sem hurfu í hruninu voru hins vegar að stórum hluta sérfræðingastörf, t.d. í fjármálageiranum.
Þessi þróun hefur skilað því að fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur hafa aldrei verið hætta hlutfall af mannfjöldanum sem hér býr, eða 10,8 prósent. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands verða innflytjendur og afkomendur þeirra fjórðungur landsmanna árið 2065.
Á sama tíma flytja sífellt fleiri Íslendingar erlendis. Það sem af er þessu ári hafa 250 fleiri Íslendingar flutt burt en hafa flutt aftur heim. Í fyrra fluttu 1.265 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en fluttu til landsins. Árið var eitt mesta brottflutningsár frá því að mælingar á þessu hófust, og aðeins fimm sinnum frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta, samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar. Það var alltaf í kjölfar kreppuára. Árin 2014 og 2015 eru fyrstu árin þar sem fleiri Íslendingar hafa flutt burt en hafa komið til baka á meðan að ekki ríkir kreppa. Og allt bendir til þess að það séu sérfræðingar sem skila sér síður til baka eða ákveða að leita tækifæra annars staðar. Íslenskt atvinnulíf er einfaldlega ekki samkeppnishæft um það fólk.
Það er því nóg af verkefnum fyrir komandi ríkisstjórn að takast á við, lítill tími til að marka stefnu í mörgum þeirra og afar erfitt verður að mæta óskum allra í þeim málum.