Greint var frá því í DV í dag að Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hefði keypt um eitt prósent hlut í smásölurisanum Högum fyrir skemmstu á um 600 milljónir króna. Kaupin eru í gegnum félag hennar SM Investments.
Krúnudjásnin í Högum eru annars vegar Bónus-keðjan og hins vegar Hagkaup. Jón Ásgeir og fjölskylda hans stofnuðu Bónus á sínum tíma og faðir Ingibjargar stofnaði Hagkaup. Fyrirtækin tvö runnu svo saman á tíunda áratug síðustu aldar og urðu að Högum. Þau hjón eru því að kaupa sig aftur inn í félagið sem myndaði undirstöðuna að risi þeirra en sem kröfuhafar tóku til sín eftir hrunið þrátt fyrir harða baráttu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans til að koma í veg fyrir það.
Neytendur í hendi Baugs
Baugur Group var sú viðskiptasamsteypa sem hafði mest áhrif á daglegt líf Íslendinga á fyrstu árunum eftir aldamót. Sá sem vildi kaupa sér matvöru, aðra dagvöru, tískufatnað, íþróttavörur, byggingarefni, raflagnir, húsgögn, blóm, tryggingar, bankaþjónustu, tölvu eða tölvuleik, farsímaþjónustu, sjónvarpsáskrift eða bók átti varla kost á öðru en að versla við Baug. Ef einhver fór í kvikmyndahús, hlustaði á útvarp, las blað, fór á tónleika, keypti sér plötu eða DVD-disk eða horfði á sjónvarpsþátt sem framleiddur var á Íslandi þá var sá hinn sami líklegast að borga Baugi fyrir. Ef fjölskylda fór í Smáralind eða Kringluna þá var hún í heimsókn hjá Baugi. Ef einhver gisti á Nordica hótelinu, leigði íbúð í Skuggahverfinu, skrifstofuaðstöðu í B26-húsinu í Borgartúni, kíkti í heimsókn til Kauphallarinnar eða steig bara fæti inn í atvinnuhúsnæði á rúmlega 130 mismunandi stöðum þá var viðkomandi í fasteign sem Baugur átti. Það var ekki einu sinni hægt að fara í Bláa lónið til að komast undan Baugshendinni. Félagið átti einnig óbeinan hlut í því. Baugur var alltumlykjandi og neytendur voru í hendi hans.
Á meðal eigna á Íslandi sem Baugur og tengd félög áttu í voru Bónus, Hagkaup, 10-11, Útilíf, Zara, Topshop, Oasis, Karen Millen, Warehouse, Evans, Coast, Whistles, The Shoe Studio, Dorothy Perkins, All Saints, Húsasmiðjan, Ískraft, Egg, Blómaval, Stöð 2, Fréttablaðið, Bylgjan, Vísir.is, Birtíngur, DV, Skuggi Forlag, Saga Film, Vodafone, Sko, Kögun, EJS, Skýrr, Landssteinar Strengur, Humac (sem var með uppboð fyrir Apple vörur á Íslandi og í Skandinavíu), Tryggingamiðstöðin, Geysir Green Energy (og þar af leiðandi HS Orka), Landic Property, Íslenska fasteignafélagið, Fasteignafélagið Eik, Þyrping fasteignafélag og auðvitað Glitnir banki.
Davíð og pabbi hans gegn Golíat
Alfa og omega í Baugi var Jón Ásgeir Jóhannesson. Innreið Jóns Ásgeirs og upphaf þess sem síðar varð Baugur má rekja aftur til 8. apríl 1989. Þá opnuðu hann og Jóhannes faðir hans fyrstu Bónus-verslunina í 400 fermetra húsnæði í Skútuvogi. Bónus markaði sér sérstöðu með mun lægra vöruverði en áður hafði þekkst. Því náðu feðgarnir fram með því að staðgreiða birgjum og neita að taka við kreditkortum. Þess utan innleiddu þeir notkun strikamerkja í matvöruverslunum og þar af leiðandi tölvuvætt birgðahald á tímum þegar slíkt var nær óþekkt.
Sagan sem alltaf hefur fylgt stofnun Bónus og þeir feðgar hafa ítrekað farið með á opinberum vettvangi er nokkuð dramatísk. Samkvæmt henni var Jóhannesi sagt upp sem verslunarstjóra hjá Sláturfélagi Suðurlands. Jón Ásgeir hætti samstundis menntaskólanámi sínu og þeir feðgar ákváðu að ráðast saman gegn risunum. Davíð og pabbi hans gegn Golíat.
Í ágúst 1992, þegar verslunum Bónus hafði fjölgað, tók sú barátta aðra stefnu þegar tilkynnt var um að Hagkaup, sem þá var ráðandi á íslenskum matvörumarkaði, hefði keypt helmingshlut í Bónusverslunum þeirra feðga. Kaupin áttu sér stað rúmu ári eftir andlát Pálma Jónssonar, stofnanda og aðaleiganda Hagkaupa. Við fráfall Pálma urðu börnin hans fjögur, Sigurður Gísli, Jón, Ingibjörg Stefanía og Lilja Sigurlína, aðaleigendur Hagkaupa.
Í frétt Morgunblaðsins um kaupin kom fram að markaðshlutsdeild hins sameinaða fyrirtækis yrði rúmlega 30 prósent á matvörumarkaði. Þó er vert að taka fram að mælingar á markaðshlutdeild á þessum tíma voru óáreiðanlegar. Kaupverðið var trúnaðarmál og aðilar málsins neituðu að gefa það upp þegar á þá var gengið. Í fréttinni var einnig haft eftir Sigurði Gísla Pálmasyni og Jóhannesi Jónssyni að „kaupin væru gerð til þess að styrkja stöðu beggja fyrirtækjanna og búa þau undir hugsanlega samkeppni erlendis frá með tilkomu Evrópsks efnahagssvæðis [EES]. Með sameiginlegum innkaupum fyrirtækjanna sé hægt að ná fram stærðarhagkvæmni sem geri mögulegt að lækka vöruverð, sem muni koma neytendum til góða“.
Eftir á að hyggja er erfitt að draga aðra ályktun en að síðari ástæðan hafi verið ráðandi þáttur þegar ráðist var í kaupin. Erlend samkeppni á matvörumarkaði eftir samþykkt Íslands á EES-samningum varð engin. Ekki ein einasta erlenda matvöruverslanakeðja hefur reynt að hasla sér völl á Íslandi. Sameiginleg innkaup voru eitthvað sem gat unnið mjög með báðum fyrirtækjunum sem stóðu að samningnum, þótt þau hafi lýst því yfir að ætlunin væri að vera áfram í mikilli samkeppni. Ári síðar, árið 1993, var stofnað nýtt fyrirtæki til að samhæfa innkaupin fyrir verslanir Bónus og Hagkaup. Það fyrirtæki hlaut nafnið Baugur.
Friðurinn rofinn
Samstarfið gekk ágætlega fyrstu árin og fyrirtækjasamsteypan hélt áfram að vaxa. Svo virtist sem Sigurður Gísli, stjórnarformaður Hagkaupa, og Jón Ásgeir væru í góðu sambandi. Á það féll þó skuggi snemma árs 1998 þegar Hagkaupsbræðurnir óskuðu eftir því við Jón Ásgeir að fá að kaupa þann helming í Bónus sem þeir áttu ekki þá þegar. Ef einhverjar breytingar hefðu átt að vera á eignarhaldinu hefði þessi leið verið raunhæfust. Hagkaup var rótgróið og stórt fyrirtæki sem hafði starfað lengi á smásölumarkaði á Íslandi. Bónus hafði ekki verið til í áratug. Hagkaup var klárlega stærri aðilinn í sambandi þeirra, eigendur þess betur stæðir og þeir því mun líklegri til að gleypa Jón Ásgeir ef þannig aðstæður myndu skapast. Jón Ásgeir var ekki á því að láta það ganga eftir.
Í Ævintýraeyjunni, bók Ármanns Þorvaldssonar, fyrrum forstjóra Kaupthing Singer&Friedlander, er aðdraganda þessara viðskipta lýst þannig að Jón Ásgeir hafi leitað til Kaupþings á Íslandi eftir fjármögnun fyrir yfirtökunni. Kaupþing var þá lítið fjármálafyrirtæki en í örum vexti. Kaupin þóttu risavaxin á þessum tíma. Heildarvirði pakkans var um átta milljarðar króna. Ármann segir þessa þróun mála „og ástarsamband Jóns Ásgeirs og Hagkaupsdótturinnar, Ingibjargar, en þau giftust síðar, [hafa orðið] til þess að samband hans og bræðranna versnaði. Á endaspretti kaupanna var orðið svo kalt á milli þeirra að Jón Ásgeir gat ekki lagt bílnum sínum fyrir utan skrifstofur okkar. Bræðurnir neituðu að stíga fæti inn í húsið ef þeir vissu af honum þar“.
Eftir að gengið hafði verið frá kaupunum var starfsemin sameinuð undir Baugs-nafninu. Innkaupahlutinn sem áður hafði borið það nafn var nefndur Aðföng. Í viðskiptunum var Hagkaupum skipt upp þannig að Jón Ásgeir, með liðsinni Kaupþings og annarra, keypti reksturinn en Hagkaupsfjölskyldan átti áfram stórt fasteignasafn sem var inni í fyrirtækinu. Jón Ásgeir og fjölskylda hans stækkaði síðan ört við sig í Baugi, í gegnum fjárfestingafélagið Gaum, og var í ráðandi stöðu innan félagsins. Vorið 1999 var Baugur síðan skráður á markað.
Það stóð þó ekki lengi. Vorið 2003, fjórum árum eftir að félagið var skráð, gerðu Jón Ásgeir, fjölskylda hans og tengdir aðilar yfirtökutilboð í Baug, eignuðust 92 prósenta hlut og afskráðu félagið af markaði.
Eftir afskráningu Baugs varð vöxturinn ævintýralegur. Ekki reyndist þó innstæða fyrir honum, enda var hann drifinn áfram af óhóflegum lánum. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að „sá fyrirtækjahópur sem umfangsmestur var í viðskiptum við íslensku bankana var Baugur Group hf. og tengdir aðilar. Útlán til Baugshópsins voru veruleg í öllum þremur bönkunum; Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum“.
Hrikti í stoðum Baugs
Töluvert fyrir hrun var orðið ljóst að það hrikti allverulega í stoðum Baugs. Um vorið 2008 tók Kaupþing til að mynda yfir fjármögnun einnar af erlendu verslunarkeðjum Baugs og Landsbankinn keypti hlut í verðmætustu eign félagsins, Iceland Foods matvörukeðjunni. Jafnframt keyptu stóru bankarnir þrír allir verulegt magn eigna af Baugi til að félagið gæti greitt niður skuldir sem það átti í vandræðum með. Þessi staða var þó ekki opinber. Út á við var allt enn í blóma og vexti. Sú blekking gekk svo vel að í apríl 2008 fékk Baugur útflutningsverðlaun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir forystuhlutverk sitt og árangur í íslensku útrásinni. Auk þess var unnið að því að innrétta nýjar höfuðstöðvar Baugs í 900 fermetra húsnæði á efstu hæðinni í Borgartúni 26. Þar var engu til sparað, meðal annars voru sérpantaðar leðurflísar frá Bandaríkjunum til að leggja á gólfin.
Við bankahrunið tapaðist eignarhlutur FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir, í Glitni. Baugur var á þessum tíma stærsti einstaki eigandi Stoða og hafði fall Glitnis eðlilega mikil áhrif á stöðu félagsins. Því var lagt upp með sérstaka áætlun um endurreisn Baugs, sem kölluð var Project Sunrise. Hún var kynnt í janúar 2009 og samkvæmt yfirliti sem henni fylgdi voru skuldir Baugs umfram eignir 148 milljarðar króna. Til að gera langa sögu stutta féllust kröfuhafar Baugs ekki á þessar hugmyndir og fóru fram á að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Þann 11. mars 2009, nítján árum og ellefu mánuðum eftir opnun fyrstu Bónusverslunarinnar, synjaði Héraðsdómur Reykjavíkur Baugi um áframhaldandi greiðslustöðvun og í kjölfarið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við gjaldþrot Baugs tapaðist stærsti hluti veldisins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, og fylgihnettir þeirra höfðu byggt upp. Baráttan um fjölskyldudjásnið Haga átti þó enn eftir að klárast. Högum, sem héldu á innlendum verslunarrekstri fjölskyldunnar, hafði verið skotið út úr Baugi sumarið 2008 og fyrirtækið fært inn í Gaum, annað félag í hennar eigu með fulltingi Kaupþings.
Lýstar kröfur í bú Baugs námu 319 milljörðum króna og samþykktar kröfur voru 240 milljarðar króna. Þar af voru kröfur Landsbankans, sem var stærsti kröfuhafinn, um 100 milljarðar króna. Búist var við að um sjö milljarðar króna myndu fást upp í skuldir, sem nemur um 2,9 prósent af samþykktum kröfum í búið. Um er að ræða langstærsta gjaldþrot Íslandssögunnar ef horft er framhjá falli bankanna þriggja.
1998 fléttan
Strax í upphafi marsmánaðar 2008 höfðu helstu stjórnendur Kaupþings miklar áhyggjur af stöðu Baugs og Gaums, aðaleiganda félagsins. Í kynningu sem útbúin var til að reyna að leysa margháttaðan vanda félaganna kom fram að Baugur hafði tapað umtalsverðum fjárhæðum mánuðina á undan og að Gaumur væri metinn með neikvætt eigið fé. Þar sagði einnig að miðað við það lausafé sem Baugur þyrfti á næstu mánuðum væri augljóst að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar nema með utanaðkomandi hjálp.
Kynningin lagði til tvær lausnir á þessum vanda. Önnur snerist um að Kaupþing keypti eignir fyrir á annan tug milljarða króna af Baugi og að féð yrði notað til að borga niður skuldir félagsins við bankann. Hin lausnin, sem var nefnd „Gaumur lausnir“, snerist um að nýtt félag, 1998 ehf., yrði stofnaði og að Kaupþing myndi lána því 30,6 milljarða króna.
Í rannsóknarskýrslu Alþingis var fjallað ítarlega um þessa fléttu. Þar segir að „félagið 1998 keypti því næst Haga út úr Baugi fyrir 30 milljarða króna, af því notaði Baugur 10,2 milljarða króna til að greiða upp lán til Kaupþings og 4,7 milljarða króna til að greiða upp lán við Glitni. Baugur keypti síðan eigin hlutabréf af Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. (7,2 ma.kr.), Gaumi Holding ehf. (1,6. ma.kr.), Eignarhaldsfélaginu ISP (4,9 ma.kr.) og Bague S.A. (1,3 ma. kr.)“. Eigendur þessara félaga voru að mestu leyti Jón Ásgeir og fjölskylda, sem eiga Gaums-félögin, eiginkonan Ingibjörg Pálmadóttir, sem á ISP, og samstarfsmaðurinn Hreinn Loftsson og nokkrir aðrir, sem eiga Bague S.A.
Rannsóknarnefndin gaf þessari fléttu ekki háa einkunn og vakti athygli á því að Baugur hefði notað „hluta af sölutekjum sínum af því að selja Haga til 1998 ehf. til að kaupa eigin hlutabréf af stærstu eigendum sínum. Í þessu tilviki var um að ræða 15 milljarða króna virði hlutafjár, að því gefnu að hlutirnir hafi verið rétt verðlagðir, og ekki verður séð að félagið hafi selt öðrum þetta hlutafé síðar. Raunin var því sú að eigendur Baugs voru með þessu að taka til sín hluta af fjármunum félagsins, án þess að nokkuð lægi fyrir um hvort hagnaður yrði af rekstri félagsins árið 2008. Í eðli sínu jafngildir þetta arðgreiðslu, en með útgreiðslu á þessu formi var komist hjá því að uppfylla þyrfti skilyrði sem lög setja fyrir arðgreiðslum úr félögum. Baugur hf. var ekki búinn að selja hlutabréfin aftur út úr félaginu við fall bankanna, og hafði fyrirtækið heldur ekki farið þá leið að færa niður hlutaféð. Reglum um arðgreiðslu og lækkun hlutafjár er ætlað að vernda hagsmuni kröfuhafa en á þessum tíma voru þeir m.a. Landsbanki Íslands, lífeyrissjóðir og peningamarkaðssjóðir. [...] Nefndin telur ljóst af þeim gögnum sem hún hefur kynnt sér að sú aðferð sem þarna var viðhöfð við kaup Baugs á eigin hlutabréfum hafi verið til þess fallin að rýra hagsmuni og stöðu þeirra fjármálafyrirtækja sem áttu kröfur á Baug og rannsókn nefndarinnar tekur til“.
Eftir að Baugur var farinn í þrot og augljóst virtist að 1998 ehf. gæti ekki með nokkrum hætti staðið við afborganirnar af þeim lánum sem Kaupþing hafði veitt félaginu í Gaums-lausna-fléttunni var komin upp sú staða að Arion banki, sem byggður var á innlendum eignum Kaupþings, gat leyst Haga til sín, því bankinn átti veð í nánast öllu félaginu. Það gerðist snemma í nóvember 2009. Í tilkynningu frá bankanum kom fram að yfirtakan á hlutabréfunum væri liður í því að tryggja hagsmuni hans í því úrlausnarferli á skuldamálum 1998 ehf. sem framundan væri. Verklagsreglum yrði fylgt og í þeim sagði meðal annars „að bankinn leggi áherslu á samstarf við eigendur og stjórnendur í vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja. Þannig er eigendunum gefið tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum að lausn á vandamálum fyrirtækja sinna [...] Þótt eigendur fyrirtækja fái tækifæri til að leggja fram hugmyndir að lausn á skuldavanda félaga sinna er ljóst að þær þurfa að vera raunhæfar. Þær þurfa þannig að standast samanburð við aðra möguleika í stöðunni og vera í takt við kröfu bankans um að endurheimta sem mest af verðmætum sínum“.
Með öðrum orðum átti að veita þeim feðgum, Jóni Ásgeiri og Jóhannesi, tækifæri til að koma með lausn á þessu vandamáli. Bankinn átti enda mikið undir. Um var að ræða eitt stærsta einstaka útistandandi lánið sem flutt var til hans úr gamla bankanum eftir hrunið, undir var stærsti smásali á Íslandi og viðsemjendurnir voru einhverjir umdeildustu menn landsins. Það fór vægast sagt öfugt ofan í íslenskt samfélag að menn sem skulduðu fleiri hundruð milljarða króna meira en þeir áttu myndu mögulega fá að halda einhverjum eigna sinna, á meðan verðbólga og gengisfall át upp eignir annarra. Slíkt var einfaldlega ofar skilningi hins venjulega manns. Reiðin sem braust út á þessum tíma var næstum áþreifanleg.
Skömmu síðar, 23. nóvember 2009, var tilkynnt um að Arion banka hefði borist tilboð frá „Jóhannesi Jónssyni, erlendum fjárfestum og stjórnendum Haga um fjárhagslega endurskipulagningu 1998 ehf., móðurfélags Haga. Samkvæmt tilboðinu kemur ekki til neinna afskrifta 1998 ehf.“ Bankinn ætlaði í kjölfarið að taka sér um tvo mánuði til að meta tilboðið.
Samkvæmt því sem Jón Ásgeir hefur látið hafa eftir sér opinberlega hafði fjölskylda hans og breskir velgjörðarmenn hennar þá þegar lagt fram tilboð sem í fólst að allar skuldir Haga og 1998 ehf. yrðu greiddar til baka með tveggja prósenta vöxtum á sjö árum. Því tilboði var hafnað, enda þótti afar óljóst hvernig hópurinn ætlaði að fjármagna þessi kaup. Skuldir 1998 ehf. höfðu þá hækkað upp í um 50 milljarða króna vegna gengisfalls krónunnar. Þótt tilboðið hljómaði vel voru stjórnendur innan Arion banka ekki í rónni yfir því að afhenda hópnum yfirráð yfir Högum í sjö ár með það fyrir augum að hann myndi kannski borga á endanum. Árangur hópsins við að borga lán var nefnilega ekkert sérlega beysinn.
Í janúar 2010 bauð síðan Baugsfjölskyldan, erlendir fjárfestar á hennar vegum og stjórnendur Haga um tíu milljarða króna í 51 prósenta hlut í Högum. Því tilboði var einnig hafnað. Í byrjun febrúar sama ár var síðan tilkynnt um málamiðlun: Jóhannes og stjórnendur félagsins fengju að kaupa 15 prósent í Högum. Afgangurinn yrði seldur í gegnum Kauphöllina eftir að Hagar yrðu skráðir á markað. Jóhannes átti áfram að vera stjórnarformaður Haga.
Þessi niðurstaða vakti heldur ekki mikla almenna kátínu. Ljóst var að ef eftir henni yrði farið myndu Baugsfjölskyldan og stjórnendur sem með henni höfðu unnið árum saman verða stærsti einstaki eigandinn í Högum. Auk þess óttuðust margir að fjölskyldan og aðilar henni tengdir myndu kaupa stóran hlut þegar félagið yrði skráð og styrkja sig þannig enn frekar í sessi. Neytendur yrðu kannski ekki lengur í hendi Baugs, en þeir yrðu í hendi Baugsfjölskyldunnar.
Niðurstaðan horfði því sérkennilega við mörgum. Arion banki þurfti enda að afskrifa yfir 30 milljarða króna vegna fjölskyldunnar, þótt það tap lenti reyndar að öllu leyti á þrotabúi Kaupþings. Fólk átti erfitt með að skilja hvernig fjölskylda gat sett félag svo rosalega á höfuðið en samt haldið hluta af eignum sínum. Finnur Sveinbjörnsson, þáverandi bankastjóri Arion banka, sagði út á við að hann væri ánægður með þessa lausn. Í einkasamtölum vörðu stjórnendur bankans þessa ákvörðun meðal annars með því að öll viðskiptasambönd, til dæmis um innkaup fyrir verslanir Haga, væru persónuleg sambönd Baugsfjölskyldunnar. Þau gætu glatast ef henni yrði úthýst úr rekstrinum. Sömuleiðis höfðu þeir áhyggjur af því að stjórnendur ákveðinna hluta innan samstæðunnar myndu einfaldlega ráða sig til samkeppnisaðila og þar með myndi sérþekking tapast.
Þessi skoðun var síðan gerð opinber að hluta til nokkrum dögum síðar þegar Arion banki neyddist til að senda frá sér fréttatilkynningu vegna viðbragðanna sem urðu við tíðindunum. Þar sagði meðal annars að bankinn teldi „mikilvægt í söluferlinu að núverandi stjórnendur Haga sinni áfram störfum sínum og lýsi því yfir að þeir hafi áhuga á að gerast hluthafar í fyrirtækinu“. Hagar áttu síðan, samkvæmt lausninni, að fara á markað um sumarið 2010. Af því varð þó ekki.
Skráning undirbúin
Í byrjun júní 2010 tók Höskuldur H. Ólafsson formlega við starfi bankastjóra Arion banka. Á þeim tíma hafði bankinn verið að þreifa fyrir sér á meðal stórra fagfjárfesta um að koma að Högum þegar félagið yrði skráð á markað. Fyrirtækjaráðgjöf bankans hélt kynningarfundi og almennt virtist sem fjárfestum litist afar vel á fyrirtækið. Skemmst er frá því að segja að nokkrir stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem eru langstærstu innlendu fagfjárfestarnir, komu þeim skilaboðum skýrt á framfæri við forsvarsmenn Arion banka að þeir myndu ekki fjárfesta í Högum með Jóhannes Jónsson innanborðs. Sjóðirnir töldu ekki forsvaranlegt að semja um að taka þátt í viðskiptum með honum eða fjölskyldu hans. Ástæður þess voru opinberaðar þegar úttektarskýrsla á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins var gefin út í febrúar 2012. Þar kom fram að lífeyrissjóðir landsins hefðu tapað samtals 77.182 milljónum króna á hluta- og skuldbréfum sem þeir höfðu keypt á Baug og tengda aðila. Tapið nam samtals um 20 prósentum af heildartapi þeirra vegna slíkra bréfa. Einungis einn fyrirtækjahópur kostaði sjóðina meiri peninga en Baugur og tengdir aðilar og sá hópur var Exista.
Einn forsvarsmanna stóru lífeyrissjóðanna sagði eftirfarandi um málið: „Við gáfum þau skilaboð að það væri ekki efst á óskalistanum okkar að fara aftur í gang að fjárfesta með mönnum sem við höfðum þegar fjárfest með en ekkert gengið. Ef við horfum á Bónus-fjölskylduna þá höfum við átt skuldabréf á fyrirtæki sem tengjast henni og höfum lent í vandræðum með að fá endurgreitt. Það er því ekki vilji fyrir því að fara í sama farið. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banki hefur alveg heyrt það á okkur að það væri ekki efst á baugi hjá okkur að fjárfesta aftur með sömu aðilum og höfðu verið ráðandi í ýmsum fyrirtækjum sem gefið höfðu út skuldabréf.“
Því var vinnan við að vinda ofan af febrúar-samkomulaginu þegar hafin innan Arion banka á meðan Finnur Sveinbjörnsson, sem hafði verið gerður að tímabundnum bankastjóra eftir hrunið, stýrði enn bankanum. Arion banki hafði orðið fyrir gríðarlegri gagnrýni fyrir að semja eins og bankinn gerði. Innanhússmaður hjá bankanum lýsti ástandinu þegar samkomulagið var gert þannig: „Auðvitað veit maður aldrei. Þetta er eins og póker. Hvað hefði gerst ef bankinn hefði sagt við Jóhannes „éttu það sem úti frýs“ og við tökum bara sénsinn á að þetta lykilfólk hjá Högum verði áfram þegar til kastanna kemur. Kannski hefði það gengið upp, kannski ekki. Við tókum enn sénsinn á því.“
Í lok ágúst tilkynnti Arion banki að Jóhannesi Jónssyni hefði verið vikið úr stjórn Haga, að forkaupsréttur hans á hlutafé í félaginu hefði verið felldur úr gildi og að söluferli Haga yrði í kjölfarið endurhugsað. Jóhannes fékk í staðinn, í nokkurs konar sárabætur, að kaupa valdar eignir út úr Högum. Á móti samþykkti hann ströng skilyrði um að hann og aðilar honum nátengdir mættu ekki efna til samkeppni við Haga í 18 mánuði frá undirritun samkomulagsins. Við það var staðið, en fjölskyldan opnaði matvöruverslunina Iceland tæpum tveimur árum síðar.
Síðar kom í ljós að Hagar, þá enn undir stjórn Jóns Ásgeirs, hafði leikið lykilhlutverk í að hjálpa honum að halda einni mikilvægustu eign hans eftir hrun, fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum.
Í nóvember 2008 skuldaði 365 sex milljarða króna og 1,5 milljarður var á gjalddaga 5. nóvember 2008. Stjórn félagsins ákvað að selja alla fjölmiðlana út úr félaginu til félagsins Rauðsólar, í eigu Jóns Ásgeirs, á 1,5 milljarð króna. Auk þess myndu hluti skulda fylgja með. Enginn annar fékk að bjóða. Reyndar var verðmiðanum breytt eftir á þegar ljóst var að Jón Ásgeir gat ekki greitt meira en 1.350 milljónir króna.
Þorri þeirra peninga sem notaðir voru til að kaupa fjölmiðlana út, 810 milljónir króna, kom frá Högum, sem Jón Ásgeir stýrði þá enn, en kröfuhafar tóku skömmu síðar yfir. Engar viðskiptalegar forsendur voru fyrir þvi að Hagar lánuðu þessa upphæð. Helmingur var endurgreiddur eftir dúk og disk en hinn helmingurinn var greiddur sem auglýsingainneign hjá 365 miðlum sem dregið var á árum saman.
Gríðarlegur hagnaður þeirra sem keyptu fyrst
Hagar voru fyrsta félagið sem skráð var á markað eftir hrunið. Í aðdraganda þess hóf bankinn leit að einhverjum til að taka kjölfestuhlut í Högum áður en félagið yrði skráð á markað. Vorið 2010 hafði starfsmaður Arion banka samband við fjárfestanna Árna Hauksson og Hallbjörn Karlsson til að kanna áhuga þeirra á að fylla þetta hlutverk. Þeir höfðu ekki áhuga þá, enda stóð til fá þá til að kaupa 30 prósenta hlut. Það fannst þeim of mikið.
Í nóvember sama ár rann síðan út óskuldbindandi frestur til að skila inn tilboðum í kjölfestuhlut í Haga. Tíu aðilar, innlendir og erlendir, gerðu tilboð. Einn þessara aðila var Stefnir, sjóðstýringarfyrirtæki í eigu Arion banka. Yfirmenn Stefnis buðu í kjölfarið Árna og Hallbirni aftur að vera með, og taka nú minni hlut. Eftir tveggja tíma umhugsun þáðu þeir það. Þeir buðu vini sínum til áratuga, Sigurbirni Þorkelssyni, og Tryggingamiðstöðinni að vera með sér og saman mynduðu þessir aðilar félagið Hagamel.
Vogabakki, fjárfestingarfélag þeirra Árna og Hallbjörns, hafði fjárfest erlendis og gengið vel. Allar eignir þess voru utan hafta. Þeir fengu fyrirgreiðslu hjá Íslandsbanka, sínum viðskiptabanka, fyrir kaupunum sem var með veði í erlendum eignum þeirra. Þannig þyrftu þeir ekki að flytja neina peninga inn í gjaldeyrishöftin. Því fengu þeir lánað fyrir kaupunum.
Hagamelur leiddi hóp sem kallaðist Búvellir og fékk að kaupa 34 prósenta hlut í Högum á 10 krónur á hlut áður en félagið var sett á markað. Aðrir í Búvöllum voru lífeyrissjóðir og sjóðir í stýringu hjá Stefni. Inni í samkomulaginu var líka forkaupsréttur á 10 prósentum til viðbótar á genginu 11 krónur á hlut áður en restin af hlutafé Haga var skráð á markað í desember 2011. Þann forkaupsrétt nýttu Búvellir sér. Félagið var síðan leyst upp og hver eining hélt eftir það sínum hlut. TM fór auk þess út úr Hagamelssamstarfinu og eftir sátu þar þeir Árni, Hallbjörn og Sigurbjörn.
Hlutur þeirra var 8,2 prósent. Upprunalega greiddi félagið fyrir hann 982 milljónir króna. Þegar Hagar voru skráðir á markað var byrjunargengi bréfanna 13,5 krónur á hlut. Áður en viðskipti hófust hafði því Hagamelshópurinn hagnast um 314 milljónir króna. Sá hagnaður átti eftir að aukast mikið. Snemma árs 2014 fóru þeir að kanna þann möguleika á að selja hlut sinn í Högum. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var áhuginn á að kaupa gríðarlegur. Hagamelur hefði auðveldlega getað selt allan hlut sinn, sem þarna hafði þynnst í um 7,9 prósent. Af varð hins vegar að félagið seldi um 6,4 prósent á genginu 42 krónur á hlut. Fyrir það fengust rúmlega 3,2 milljarðar króna. Það þýddi að Hagamelur innleysti um 2,2 milljarða króna hagnað og hélt samt sem áður eftir 1,53 prósenta hlut í Högum. Þeir hafa síðan selt meira af bréfum.
Hluthöfum Haga hefur fækkað gríðarlega frá því að útboðið á bréfum þess átti sér stað. Þá voru þeir 2.744 talsins. Í dag eru þeir um 960. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa verið duglegir við að ryksuga upp bréf í félaginu. Þeir eiga samanlagt yfir 50 prósent bréfa þess.
Arðvænlegt félag
Hagar eru afar arðvænlegt félag. á síðasta rekstrarári þess nam velt þess 78,4 milljörðum króna. Til samanburðar var hún 66,7 milljarðar króna rekstrarárið 2010-2011. Hreinn hagnaður Haga var 3,6 milljarðar króna. Skuldir félagsins voru einungis 13,3 milljarðar króna í lok febrúar síðastliðins en eignir þess voru metnar á 30,2 milljarða króna. Til samanburðar þá voru eignir Haga 21,8 milljarðar króna í lok febrúar 2011 en skuldir 18,2 milljarðar króna. Þess utan hafa milljarðar króna verið greiddar í arð til hluthafa félagsins á undanförnum árum.
Í síðustu viku var greint frá því að Hagar hefðu keypt lyfjasölufyrirtækið Lyfju af íslenska ríkinu á 6,7 milljarðar króna.
Fréttaskýringin byggir að hluta til á bókinni Ísland ehf. - auðmenn og áhrif eftir hrun, sem kom út 2013.