Anton Brink

Baugsfjölskyldurnar eignast aftur hlut í krúnudjásninu

Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson eru aftur orðin eigendur í Högum. Saga félagsins er ævintýraleg og minnir um margt á bandaríska sápuóperu frá níunda áratugnum þar sem ástir og örlög tveggja metnaðarfullra áhrifafjölskyldna sameinast í smásölu á dagvöru.

Greint var frá því í DV í dag að Ingi­björg Pálma­dótt­ir, eig­in­kona Jóns Ásgeirs Jóhann­es­son­ar,  hefði keypt um eitt pró­sent hlut í smá­söluris­anum Högum fyrir skemmstu á um 600 millj­ónir króna. Kaupin eru í gegnum félag hennar SM Invest­ments.

Krún­u­djásnin í Högum eru ann­­ars vegar Bón­us-keðjan og hins vegar Hag­­kaup. Jón Ásgeir og fjöl­­skylda hans stofn­uðu Bónus á sínum tíma og faðir Ing­i­­bjargar stofn­aði Hag­­kaup. Fyr­ir­tækin tvö runnu svo saman á tíunda ára­tug síð­­­ustu ald­ar og urðu að Hög­um. Þau hjón eru því að kaupa sig aftur inn í félagið sem mynd­aði und­ir­stöð­una að risi þeirra en sem kröfu­hafar tóku til sín eftir hrunið þrátt fyrir harða bar­áttu Jóns Ásgeirs og fjöl­skyldu hans til að koma í veg fyrir það.

Neyt­endur í hendi Baugs

Baugur Group var sú við­skipta­sam­steypa sem hafði mest áhrif á dag­legt líf Íslend­inga á fyrstu árunum eftir alda­mót. Sá sem vildi kaupa sér mat­vöru, aðra dag­vöru, tísku­fatn­að, íþrótta­vör­ur, bygg­ing­ar­efni, raf­lagn­ir, hús­gögn, blóm, trygg­ing­ar, banka­þjón­ustu, tölvu eða tölvu­leik, far­síma­þjón­ustu, sjón­varps­á­skrift eða bók átti varla kost á öðru en að versla við Baug. Ef ein­hver fór í kvik­mynda­hús, hlust­aði á útvarp, las blað, fór á tón­leika, keypti sér plötu eða DVD-disk eða horfði á sjón­varps­þátt sem fram­leiddur var á Íslandi þá var sá hinn sami lík­leg­ast að borga Baugi fyr­ir. Ef fjöl­skylda fór í Smára­lind eða Kringl­una þá var hún í heim­sókn hjá Baugi. Ef ein­hver gisti á Nor­dica hót­el­inu, leigði íbúð í Skugga­hverf­inu, skrif­stofu­að­stöðu í B26-­hús­inu í Borg­ar­túni, kíkti í heim­sókn til Kaup­hall­ar­innar eða steig bara fæti inn í atvinnu­hús­næði á rúm­lega 130 mis­mun­andi stöðum þá var viðkomandi í fast­eign sem Baugur átti. Það var ekki einu sinni hægt að fara í Bláa lónið til að kom­ast undan Baugs­hend­inni. Félagið átti einnig óbeinan hlut í því. Baugur var alltum­lykj­andi og neyt­endur voru í hendi hans.



Félag í eigu Ingibjargar, sem Jón Ásgeir stýrði, kom fyrir í Panamaskjölunum. Félagið, Guru Invest, fjárfesti bæði á Íslandi og í Bretlandi og ljóst er að í því voru umtalsverðir fjármunir.

Á meðal eigna á Íslandi sem Baugur og tengd félög áttu í voru Bón­us, Hag­kaup, 10-11, Úti­líf, Zara, Tops­hop, Oas­is, Karen Mil­len, Warehou­se, Evans, Coast, Whist­les, The Shoe Studio, Dorothy Perk­ins, All Saints, Húsa­smiðj­an, Ískraft, Egg, Blóma­val, Stöð 2, Frétta­blað­ið, Bylgj­an, Vís­ir.is, Birtíng­ur, DV, Skuggi For­lag, Saga Film, Voda­fo­ne, Sko, Kög­un, EJS, Skýrr, Lands­steinar Streng­ur, Humac (sem var með upp­boð fyrir Apple vörur á Íslandi og í Skand­in­av­íu), Trygg­inga­mið­stöð­in, Geysir Green Energy (og þar af leið­andi HS Orka), Landic Proper­ty, Íslenska fast­eigna­fé­lag­ið, Fast­eigna­fé­lagið Eik, Þyrp­ing fast­eigna­fé­lag og auð­vitað Glitnir banki.

Davíð og pabbi hans gegn Gol­íat

Alfa og omega í Baugi var Jón Ásgeir Jóhann­es­son. Inn­reið Jóns Ásgeirs og upp­haf þess sem síðar varð Baugur má rekja aftur til 8. apríl 1989. Þá opn­uðu hann og Jóhannes faðir hans fyrstu Bón­us-versl­un­ina í 400 fer­metra hús­næði í Skútu­vogi. Bónus mark­aði sér sér­stöðu með mun lægra vöru­verði en áður hafði þekkst. Því náðu feðgarnir fram með því að stað­greiða birgjum og neita að taka við kredit­kort­um. Þess utan inn­leiddu þeir notkun strik­a­merkja í mat­vöru­versl­unum og þar af leið­andi tölvu­vætt birgða­hald á tímum þegar slíkt var nær óþekkt.

Sagan sem alltaf hefur fylgt stofnun Bónus og þeir feðgar hafa ítrekað farið með á opin­berum vett­vangi er nokkuð dramat­ísk. Sam­kvæmt henni var Jóhann­esi sagt upp sem versl­un­ar­stjóra hjá Slát­ur­fé­lagi Suð­ur­lands. Jón Ásgeir hætti sam­stundis mennta­skóla­námi sínu og þeir feðgar ákváðu að ráð­ast saman gegn ris­un­um. Davíð og pabbi hans gegn Gol­í­at.

Í ágúst 1992, þegar versl­unum Bónus hafði fjölg­að, tók sú bar­átta aðra stefnu þegar til­kynnt var um að Hag­kaup, sem þá var ráð­andi á íslenskum mat­vöru­mark­aði, hefði keypt helm­ings­hlut í Bón­usversl­unum þeirra feðga. Kaupin áttu sér stað rúmu ári eftir and­lát Pálma Jóns­son­ar, stofn­anda og aðal­eig­anda Hag­kaupa. Við frá­fall Pálma urðu börnin hans fjög­ur, Sig­urður Gísli, Jón, Ingi­björg Stef­anía og Lilja Sig­ur­lína, aðal­eig­endur Hag­kaupa.

Í frétt Morg­un­blaðs­ins um kaupin kom fram að mark­aðs­hluts­deild hins sam­ein­aða fyr­ir­tækis yrði rúm­lega 30 pró­sent á mat­vöru­mark­aði. Þó er vert að taka fram að mæl­ingar á mark­aðs­hlut­deild á þessum tíma voru óáreið­an­leg­ar. Kaup­verðið var trún­að­ar­mál og aðilar máls­ins neit­uðu að gefa það upp þegar á þá var geng­ið. Í frétt­inni var einnig haft eftir Sig­urði Gísla Pálma­syni og Jóhann­esi Jóns­syni að „kaupin væru gerð til þess að styrkja stöðu beggja fyr­ir­tækj­anna og búa þau undir hugs­an­lega sam­keppni erlendis frá með til­komu Evr­ópsks efna­hags­svæðis [EES]. Með sam­eig­in­legum inn­kaupum fyr­ir­tækj­anna sé hægt að ná fram stærð­ar­hag­kvæmni sem geri mögu­legt að lækka vöru­verð, sem muni koma neyt­endum til góða“.



Eftir á að hyggja er erfitt að draga aðra ályktun en að síð­ari ástæðan hafi verið ráð­andi þáttur þegar ráð­ist var í kaup­in. Erlend sam­keppni á mat­vöru­mark­aði eftir sam­þykkt Íslands á EES-­samn­ingum varð eng­in. Ekki ein ein­asta erlenda mat­vöru­versl­ana­keðja hefur reynt að hasla sér völl á Íslandi. Sam­eig­in­leg inn­kaup voru eitt­hvað sem gat unnið mjög með báðum fyr­ir­tækj­unum sem stóðu að samn­ingn­um, þótt þau hafi lýst því yfir að ætl­unin væri að vera áfram í mik­illi sam­keppni. Ári síð­ar, árið 1993, var stofnað nýtt fyr­ir­tæki til að sam­hæfa inn­kaupin fyrir versl­anir Bónus og Hag­kaup. Það fyr­ir­tæki hlaut nafnið Baug­ur.

Frið­ur­inn rof­inn

Sam­starfið gekk ágæt­lega fyrstu árin og fyr­ir­tækja­sam­steypan hélt áfram að vaxa. Svo virt­ist sem Sig­urður Gísli, stjórn­ar­for­maður Hag­kaupa, og Jón Ásgeir væru í góðu sam­bandi. Á það féll þó skuggi snemma árs 1998 þegar Hag­kaups­bræð­urnir ósk­uðu eftir því við Jón Ásgeir að fá að kaupa þann helm­ing í Bónus sem þeir áttu ekki þá þeg­ar. Ef ein­hverjar breyt­ingar hefðu átt að vera á eign­ar­hald­inu hefði þessi leið verið raun­hæfust. Hag­kaup var rót­gróið og stórt fyr­ir­tæki sem hafði starfað lengi á smá­sölu­mark­aði á Íslandi. Bónus hafði ekki verið til í ára­tug. Hag­kaup var klár­lega stærri aðil­inn í sam­bandi þeirra, eig­endur þess betur stæðir og þeir því mun lík­legri til að gleypa Jón Ásgeir ef þannig aðstæður myndu skap­ast. Jón Ásgeir var ekki á því að láta það ganga eft­ir.

Í Ævin­týra­eyj­unni, bók Ármanns Þor­valds­son­ar, fyrrum for­stjóra Kaupt­hing Sin­ger&Fried­land­er, er aðdrag­anda þess­ara við­skipta lýst þannig að Jón Ásgeir hafi leitað til Kaup­þings á Íslandi eftir fjár­mögnun fyrir yfir­tök­unni. Kaup­þing var þá lítið fjár­mála­fyr­ir­tæki en í örum vexti. Kaupin þóttu risa­vaxin á þessum tíma. Heild­ar­virði pakk­ans var um átta millj­arðar króna. Ármann segir þessa þróun mála „og ást­ar­sam­band Jóns Ásgeirs og Hag­kaups­dótt­ur­inn­ar, Ingi­bjarg­ar, en þau gift­ust síð­ar, [hafa orð­ið] til þess að sam­band hans og bræðr­anna versn­aði. Á enda­spretti kaupanna var orðið svo kalt á milli þeirra að Jón Ásgeir gat ekki lagt bílnum sínum fyrir utan skrif­stofur okk­ar. Bræð­urnir neit­uðu að stíga fæti inn í húsið ef þeir vissu af honum þar“.

Eftir að gengið hafði verið frá kaup­unum var starf­semin sam­einuð undir Baugs-­nafn­inu. Inn­kaupa­hlut­inn sem áður hafði borið það nafn var nefndur Aðföng. Í við­skipt­unum var Hag­kaupum skipt upp þannig að Jón Ásgeir, með lið­sinni Kaup­þings og ann­arra, keypti rekst­ur­inn en Hag­kaups­fjöl­skyldan átti áfram stórt fast­eigna­safn sem var inni í fyr­ir­tæk­inu. Jón Ásgeir og fjöl­skylda hans stækk­aði síðan ört við sig í Baugi, í gegnum fjár­fest­inga­fé­lagið Gaum, og var í ráð­andi stöðu innan félags­ins. Vorið 1999 var Baugur síðan skráður á mark­að.

Það stóð þó ekki lengi. Vorið 2003, fjórum árum eftir að félagið var skráð, gerðu Jón Ásgeir, fjöl­skylda hans og tengdir aðilar yfir­tökutil­boð í Baug, eign­uð­ust 92 pró­senta hlut og afskráðu félagið af mark­aði.

Eftir afskrán­ingu Baugs varð vöxt­ur­inn ævin­týra­leg­ur. Ekki reynd­ist þó inn­stæða fyrir hon­um, enda var hann drif­inn áfram af óhóf­legum lán­um. Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþingis segir að „sá fyr­ir­tækja­hópur sem umfangs­mestur var í við­skiptum við íslensku bank­ana var Baugur Group hf. og tengdir aðil­ar. Útlán til Baugs­hóps­ins voru veru­leg í öllum þremur bönk­un­um; Glitni, Kaup­þingi og Lands­bank­an­um“.

Hrikti í stoðum Baugs

Tölu­vert fyrir hrun var orðið ljóst að það hrikti all­veru­lega í stoðum Baugs. Um vorið 2008 tók Kaup­þing til að mynda yfir fjár­mögnun einnar af erlendu versl­un­ar­keðjum Baugs og Lands­bank­inn keypti hlut í verð­mæt­ustu eign félags­ins, Iceland Foods mat­vöru­keðj­unni. Jafn­framt keyptu stóru bank­arnir þrír allir veru­legt magn eigna af Baugi til að félagið gæti greitt niður skuldir sem það átti í vand­ræðum með. Þessi staða var þó ekki opin­ber. Út á við var allt enn í blóma og vexti. Sú blekk­ing gekk svo vel að í apríl 2008 fékk Baugur útflutn­ings­verð­laun for­seta Íslands, Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fyrir for­ystu­hlut­verk sitt og árangur í íslensku útrásinni. Auk þess var unnið að því að inn­rétta nýjar höf­uð­stöðvar Baugs í 900 fer­metra hús­næði á efstu hæð­inni í Borg­ar­túni 26. Þar var engu til spar­að, meðal ann­ars voru sér­pant­aðar leð­ur­flísar frá Banda­ríkj­unum til að leggja á gólf­in.

Við banka­hrunið tap­að­ist eign­ar­hlutur FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoð­ir, í Glitni. Baugur var á þessum tíma stærsti ein­staki eig­andi Stoða og hafði fall Glitnis eðli­lega mikil áhrif á stöðu félags­ins. Því var lagt upp með sér­staka áætlun um end­ur­reisn Baugs, sem kölluð var Project Sun­rise. Hún var kynnt í jan­úar 2009 og sam­kvæmt yfir­liti sem henni fylgdi voru skuldir Baugs umfram eignir 148 millj­arðar króna. Til að gera langa sögu stutta féllust kröfu­hafar Baugs ekki á þessar hug­myndir og fóru fram á að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta.

Í apríl 2008 fékk Baugur útflutningsverðlaun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir forystuhlutverk sitt og árangur í íslensku útrásinni.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Þann 11. mars 2009, nítján árum og ell­efu mán­uðum eftir opnun fyrstu Bón­usversl­un­ar­inn­ar, synj­aði Hér­aðs­dómur Reykja­víkur Baugi um áfram­hald­andi greiðslu­stöðvun og í kjöl­farið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta. Við gjald­þrot Baugs tap­að­ist stærsti hluti veld­is­ins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Jóhannes Jóns­son, og fylgi­hnettir þeirra höfðu byggt upp. Bar­áttan um fjöl­skyldu­djá­snið Haga átti þó enn eftir að klár­ast. Hög­um, sem héldu á inn­lendum versl­un­ar­rekstri fjöl­skyld­unn­ar, hafði verið skotið út úr Baugi sum­arið 2008 og fyr­ir­tækið fært inn í Gaum, annað félag í hennar eigu með full­tingi Kaup­þings.

Lýstar kröfur í bú Baugs námu 319 millj­örðum króna og sam­þykktar kröfur voru 240 millj­arðar króna. Þar af voru kröfur Lands­bank­ans, sem var stærsti kröfu­haf­inn, um 100 millj­arðar króna. Búist var við að um sjö millj­arðar króna myndu fást upp í skuld­ir, sem nemur um 2,9 pró­sent af sam­þykktum kröfum í búið. Um er að ræða langstærsta gjald­þrot Íslands­sög­unnar ef horft er fram­hjá falli bank­anna þriggja.

1998 fléttan

Strax í upp­hafi mars­mán­aðar 2008 höfðu helstu stjórn­endur Kaup­þings miklar áhyggjur af stöðu Baugs og Gaums, aðal­eig­anda félags­ins. Í kynn­ingu sem útbúin var til að reyna að leysa marg­hátt­aðan vanda félag­anna kom fram að Baugur hafði tapað umtals­verðum fjár­hæðum mán­uð­ina á undan og að Gaumur væri met­inn með nei­kvætt eigið fé. Þar sagði einnig að miðað við það lausafé sem Baugur þyrfti á næstu mán­uðum væri aug­ljóst að félagið gæti ekki staðið við skuld­bind­ingar sínar nema með utan­að­kom­andi hjálp.

Kynn­ingin lagði til tvær lausnir á þessum vanda. Önnur sner­ist um að Kaup­þing keypti eignir fyrir á annan tug millj­arða króna af Baugi og að féð yrði notað til að borga niður skuldir félags­ins við bank­ann. Hin lausn­in, sem var nefnd „Gaumur lausnir“, sner­ist um að nýtt félag, 1998 ehf., yrði stofn­aði og að Kaup­þing myndi lána því 30,6 millj­arða króna.

Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþingis var fjallað ítar­lega um þessa fléttu. Þar segir að „fé­lagið 1998 keypti því næst Haga út úr Baugi fyrir 30 millj­arða króna, af því not­aði Baugur 10,2 millj­arða króna til að greiða upp lán til Kaup­þings og 4,7 millj­arða króna til að greiða upp lán við Glitni. Baugur keypti síðan eigin hluta­bréf af Fjár­fest­inga­fé­lag­inu Gaumi ehf. (7,2 ma.kr.), Gaumi Hold­ing ehf. (1,6. ma.kr.), Eign­ar­halds­fé­lag­inu ISP (4,9 ma.kr.) og Bague S.A. (1,3 ma. kr.)“. Eig­endur þess­ara félaga voru að mestu leyti Jón Ásgeir og fjöl­skylda, sem eiga Gaum­s-­fé­lög­in, eig­in­konan Ingi­björg Pálma­dótt­ir, sem á ISP, og sam­starfs­mað­ur­inn Hreinn Lofts­son og nokkrir aðr­ir, sem eiga Bague S.A.

Rann­sókn­ar­nefndin gaf þess­ari fléttu ekki háa ein­kunn og vakti athygli á því að Baugur hefði notað „hluta af sölu­tekjum sínum af því að selja Haga til 1998 ehf. til að kaupa eigin hluta­bréf af stærstu eig­endum sín­um. Í þessu til­viki var um að ræða 15 millj­arða króna virði hluta­fjár, að því gefnu að hlut­irnir hafi verið rétt verð­lagð­ir, og ekki verður séð að félagið hafi selt öðrum þetta hlutafé síð­ar. Raunin var því sú að eig­endur Baugs voru með þessu að taka til sín hluta af fjár­munum félags­ins, án þess að nokkuð lægi fyrir um hvort hagn­aður yrði af rekstri félags­ins árið 2008. Í eðli sínu jafn­gildir þetta arð­greiðslu, en með útgreiðslu á þessu formi var kom­ist hjá því að upp­fylla þyrfti skil­yrði sem lög setja fyrir arð­greiðslum úr félög­um. Baugur hf. var ekki búinn að selja hluta­bréfin aftur út úr félag­inu við fall bank­anna, og hafði fyr­ir­tækið heldur ekki farið þá leið að færa niður hluta­féð. Reglum um arð­greiðslu og lækkun hluta­fjár er ætlað að vernda hags­muni kröfu­hafa en á þessum tíma voru þeir m.a. Lands­banki Íslands, líf­eyr­is­sjóðir og pen­inga­mark­aðs­sjóð­ir. [...] Nefndin telur ljóst af þeim gögnum sem hún hefur kynnt sér að sú aðferð sem þarna var við­höfð við kaup Baugs á eigin hluta­bréfum hafi verið til þess fallin að rýra hags­muni og stöðu þeirra fjár­mála­fyr­ir­tækja sem áttu kröfur á Baug og rann­sókn nefnd­ar­innar tekur til“.



Eftir að Baugur var far­inn í þrot og aug­ljóst virt­ist að 1998 ehf. gæti ekki með nokkrum hætti staðið við afborg­an­irnar af þeim lánum sem Kaup­þing hafði veitt félag­inu í Gaum­s-­lausn­a-flétt­unni var komin upp sú staða að Arion banki, sem byggður var á inn­lendum eignum Kaup­þings, gat leyst Haga til sín, því bank­inn átti veð í nán­ast öllu félag­inu. Það gerð­ist snemma í nóv­em­ber 2009. Í til­kynn­ingu frá bank­anum kom fram að yfir­takan á hluta­bréf­unum væri liður í því að tryggja hags­muni hans í því úrlausn­ar­ferli á skulda­málum 1998 ehf. sem framundan væri. Verk­lags­reglum yrði fylgt og í þeim sagði meðal ann­ars „að bank­inn leggi áherslu á sam­starf við eig­endur og stjórn­endur í vinnu við end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tækja. Þannig er eig­end­unum gefið tæki­færi til að koma á fram­færi hug­myndum að lausn á vanda­málum fyr­ir­tækja sinna [...] Þótt eig­endur fyr­ir­tækja fái tæki­færi til að leggja fram hug­myndir að lausn á skulda­vanda félaga sinna er ljóst að þær þurfa að vera raun­hæf­ar. Þær þurfa þannig að stand­ast sam­an­burð við aðra mögu­leika í stöð­unni og vera í takt við kröfu bank­ans um að end­ur­heimta sem mest af verð­mætum sín­um“.

Með öðrum orðum átti að veita þeim feðgum, Jóni Ásgeiri og Jóhann­esi, tæki­færi til að koma með lausn á þessu vanda­máli. Bank­inn átti enda mikið und­ir. Um var að ræða eitt stærsta ein­staka útistand­andi lánið sem flutt var til hans úr gamla bank­anum eftir hrun­ið, undir var stærsti smá­sali á Íslandi og við­semj­end­urnir voru ein­hverjir umdeild­ustu menn lands­ins. Það fór væg­ast sagt öfugt ofan í íslenskt sam­fé­lag að menn sem skuld­uðu fleiri hund­ruð millj­arða króna meira en þeir áttu myndu mögu­lega fá að halda ein­hverjum eigna sinna, á meðan verð­bólga og geng­is­fall át upp eignir ann­arra. Slíkt var ein­fald­lega ofar skiln­ingi hins venju­lega manns. Reiðin sem braust út á þessum tíma var næstum áþreif­an­leg.

Skömmu síð­ar, 23. nóv­em­ber 2009, var til­kynnt um að Arion banka hefði borist til­boð frá „Jó­hann­esi Jóns­syni, erlendum fjár­festum og stjórn­endum Haga um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu 1998 ehf., móð­ur­fé­lags Haga. Sam­kvæmt til­boð­inu kemur ekki til neinna afskrifta 1998 ehf.“ Bank­inn ætl­aði í kjöl­farið að taka sér um tvo mán­uði til að meta til­boð­ið.

Sam­kvæmt því sem Jón Ásgeir hefur látið hafa eftir sér opin­ber­lega hafði fjöl­skylda hans og breskir vel­gjörð­ar­menn hennar þá þegar lagt fram til­boð sem í fólst að allar skuldir Haga og 1998 ehf. yrðu greiddar til baka með tveggja pró­senta vöxtum á sjö árum. Því til­boði var hafn­að, enda þótti afar óljóst hvernig hóp­ur­inn ætl­aði að fjár­magna þessi kaup. Skuldir 1998 ehf. höfðu þá hækkað upp í um 50 millj­arða króna vegna geng­is­falls krón­unn­ar. Þótt til­boðið hljóm­aði vel voru stjórn­endur innan Arion banka ekki í rónni yfir því að afhenda hópnum yfir­ráð yfir Högum í sjö ár með það fyrir augum að hann myndi kannski borga á end­an­um. Árangur hóps­ins við að borga lán var nefni­lega ekk­ert sér­lega beys­inn.

Í jan­úar 2010 bauð síðan Baugs­fjöl­skyld­an, erlendir fjár­festar á hennar vegum og stjórn­endur Haga um tíu millj­arða króna í 51 pró­senta hlut í Hög­um. Því til­boði var einnig hafn­að. Í byrjun febr­úar sama ár var síðan til­kynnt um mála­miðl­un: Jóhannes og stjórn­endur félags­ins fengju að kaupa 15 pró­sent í Hög­um. Afgang­ur­inn yrði seldur í gegnum Kaup­höll­ina eftir að Hagar yrðu skráðir á mark­að. Jóhannes átti áfram að vera stjórn­ar­for­maður Haga.

Þessi nið­ur­staða vakti heldur ekki mikla almenna kátínu. Ljóst var að ef eftir henni yrði farið myndu Baugs­fjöl­skyldan og stjórn­endur sem með henni höfðu unnið árum saman verða stærsti ein­staki eig­and­inn í Hög­um. Auk þess ótt­uð­ust margir að fjöl­skyldan og aðilar henni tengdir myndu kaupa stóran hlut þegar félagið yrði skráð og styrkja sig þannig enn frekar í sessi. Neyt­endur yrðu kannski ekki lengur í hendi Baugs, en þeir yrðu í hendi Baugs­fjöl­skyld­unn­ar.

Nið­ur­staðan horfði því sér­kenni­lega við mörg­um. Arion banki þurfti enda að afskrifa yfir 30 millj­arða króna vegna fjöl­skyld­unn­ar, þótt það tap lenti reyndar að öllu leyti á þrota­búi Kaup­þings. Fólk átti erfitt með að skilja hvernig fjöl­skylda gat sett félag svo rosa­lega á höf­uðið en samt haldið hluta af eignum sín­um. Finnur Svein­björns­son, þáver­andi banka­stjóri Arion banka, sagði út á við að hann væri ánægður með þessa lausn. Í einka­sam­tölum vörðu stjórn­endur bank­ans þessa ákvörðun meðal ann­ars með því að öll við­skipta­sam­bönd, til dæmis um inn­kaup fyrir versl­anir Haga, væru per­sónu­leg sam­bönd Baugs­fjöl­skyld­unn­ar. Þau gætu glat­ast ef henni yrði úthýst úr rekstr­in­um. Sömu­leiðis höfðu þeir áhyggjur af því að stjórn­endur ákveð­inna hluta innan sam­stæð­unnar myndu ein­fald­lega ráða sig til sam­keppn­is­að­ila og þar með myndi sér­þekk­ing tap­ast. 

Þessi skoðun var síðan gerð opin­ber að hluta til nokkrum dögum síðar þegar Arion banki neydd­ist til að senda frá sér frétta­til­kynn­ingu vegna við­bragð­anna sem urðu við tíð­ind­un­um. Þar sagði meðal ann­ars að bank­inn teldi „mik­il­vægt í sölu­ferl­inu að núver­andi stjórn­endur Haga sinni áfram störfum sínum og lýsi því yfir að þeir hafi áhuga á að ger­ast hlut­hafar í fyr­ir­tæk­in­u“. Hagar áttu síð­an, sam­kvæmt lausn­inni, að fara á markað um sum­arið 2010. Af því varð þó ekki.

Skrán­ing und­ir­búin

Í byrjun júní 2010 tók Hösk­uldur H. Ólafs­son form­lega við starfi banka­stjóra Arion banka. Á þeim tíma hafði bank­inn verið að þreifa fyrir sér á meðal stórra fag­fjár­festa um að koma að Högum þegar félagið yrði skráð á mark­að. Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf bank­ans hélt kynn­ing­ar­fundi og almennt virt­ist sem fjár­festum lit­ist afar vel á fyr­ir­tæk­ið. Skemmst er frá því að segja að nokkrir stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, sem eru langstærstu inn­lendu fag­fjár­fest­arn­ir, komu þeim skila­boðum skýrt á fram­færi við for­svars­menn Arion banka að þeir myndu ekki fjár­festa í Högum með Jóhannes Jóns­son inn­an­borðs. Sjóð­irnir töldu ekki for­svar­an­legt að semja um að taka þátt í við­skiptum með honum eða fjöl­skyldu hans. Ástæður þess voru opin­ber­aðar þegar úttekt­ar­skýrsla á starf­semi líf­eyr­is­sjóð­anna í aðdrag­anda efna­hags­hruns­ins var gefin út í febr­úar 2012. Þar kom fram að líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hefðu tapað sam­tals 77.182 millj­ónum króna á hluta- og skuld­bréfum sem þeir höfðu keypt á Baug og tengda aðila. Tapið nam sam­tals um 20 pró­sentum af heild­ar­tapi þeirra vegna slíkra bréfa. Ein­ungis einn fyr­ir­tækja­hópur kost­aði sjóð­ina meiri pen­inga en Baugur og tengdir aðilar og sá hópur var Exista.



Höskuldur H. Ólafsson tók við sem bankastjóri Arion banka í byrjun júní 2010.

Einn for­svars­manna stóru líf­eyr­is­sjóð­anna sagði eft­ir­far­andi um mál­ið: „Við gáfum þau skila­boð að það væri ekki efst á óska­list­anum okkar að fara aftur í gang að fjár­festa með mönnum sem við höfðum þegar fjár­fest með en ekk­ert geng­ið. Ef við horfum á Bón­us-­fjöl­skyld­una þá höfum við átt skulda­bréf á fyr­ir­tæki sem tengj­ast henni og höfum lent í vand­ræðum með að fá end­ur­greitt. Það er því ekki vilji fyrir því að fara í sama far­ið. Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Arion banki hefur alveg heyrt það á okkur að það væri ekki efst á baugi hjá okkur að fjár­festa aftur með sömu aðilum og höfðu verið ráð­andi í ýmsum fyr­ir­tækjum sem gefið höfðu út skulda­bréf.“

Því var vinnan við að vinda ofan af febr­ú­ar-­sam­komu­lag­inu þegar hafin innan Arion banka á meðan Finnur Svein­björns­son, sem hafði verið gerður að tíma­bundnum banka­stjóra eftir hrun­ið, stýrði enn bank­an­um. Arion banki hafði orðið fyrir gríð­ar­legri gagn­rýni fyrir að semja eins og bank­inn gerði. Inn­an­húss­maður hjá bank­anum lýsti ástand­inu þegar sam­komu­lagið var gert þannig: „Auð­vitað veit maður aldrei. Þetta er eins og póker. Hvað hefði gerst ef bank­inn hefði sagt við Jóhannes „éttu það sem úti frýs“ og við tökum bara séns­inn á að þetta lyk­il­fólk hjá Högum verði áfram þegar til kast­anna kem­ur. Kannski hefði það gengið upp, kannski ekki. Við tókum enn séns­inn á því.“

Í lok ágúst til­kynnti Arion banki að Jóhann­esi Jóns­syni hefði verið vikið úr stjórn Haga, að for­kaups­réttur hans á hlutafé í félag­inu hefði verið felldur úr gildi og að sölu­ferli Haga yrði í kjöl­farið end­ur­hugs­að. Jóhannes fékk í stað­inn, í nokk­urs konar sára­bæt­ur, að kaupa valdar eignir út úr Hög­um. Á móti sam­þykkti hann ströng skil­yrði um að hann og aðilar honum nátengdir mættu ekki efna til sam­keppni við Haga í 18 mán­uði frá und­ir­ritun sam­komu­lags­ins. Við það var stað­ið, en fjöl­skyldan opn­aði mat­vöru­versl­un­ina Iceland tæpum tveimur árum síð­ar.

Síðar kom í ljós að Hag­ar, þá enn undir stjórn Jóns Ásgeirs, hafði leikið lyk­il­hlut­verk í að hjálpa honum að halda einni mik­il­væg­ustu eign hans eftir hrun, fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­inu 365 miðl­um.

Í nóv­­em­ber 2008 skuld­aði 365 sex millj­­arða króna og 1,5 millj­­arður var á gjald­daga 5. nóv­­em­ber 2008. Stjórn félags­­ins ákvað að selja alla fjöl­mið­l­ana út úr félag­inu til félags­ins Rauð­­sól­ar, í eigu Jóns Ásgeirs, á 1,5 millj­­arð króna. Auk þess myndu hluti skulda fylgja með. Eng­inn annar fékk að bjóða. Reyndar var verð­mið­­anum breytt eftir á þegar ljóst var að Jón Ásgeir gat ekki greitt meira en 1.350 millj­­ónir króna.

Þorri þeirra pen­inga sem not­aðir voru til að kaupa fjöl­mið­l­ana út, 810 millj­­ónir króna, kom frá Hög­um, sem Jón Ásgeir stýrði þá enn, en kröf­u­hafar tóku skömmu síðar yfir. Engar við­­skipta­­legar for­­sendur voru fyrir þvi að Hagar lán­uðu þessa upp­­hæð. Helm­ingur var end­­ur­greiddur eftir dúk og disk en hinn helm­ing­­ur­inn var greiddur sem aug­lýs­inga­inn­­eign hjá 365 mið­l­um sem dregið var á árum sam­an.

Gríð­ar­legur hagn­aður þeirra sem keyptu fyrst

Hagar voru fyrsta félagið sem skráð var á markað eftir hrun­ið. Í aðdrag­anda þess hóf bank­inn leit að ein­hverjum til að taka kjöl­festu­hlut í Högum áður en félagið yrði skráð á mark­að. Vorið 2010 hafði starfs­maður Arion banka sam­band við fjár­fest­anna Árna Hauks­son og Hall­björn Karls­son til að kanna áhuga þeirra á að fylla þetta hlut­verk. Þeir höfðu ekki áhuga þá, enda stóð til fá þá til að kaupa 30 pró­senta hlut. Það fannst þeim of mik­ið.

Í nóv­em­ber sama ár rann síðan út óskuld­bind­andi frestur til að skila inn til­boðum í kjöl­festu­hlut í Haga. Tíu aðil­ar, inn­lendir og erlend­ir, gerðu til­boð. Einn þess­ara aðila var Stefn­ir, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki í eigu Arion banka. Yfir­menn Stefnis buðu í kjöl­farið Árna og Hall­birni aftur að vera með, og taka nú minni hlut. Eftir tveggja tíma umhugsun þáðu þeir það. Þeir buðu vini sínum til ára­tuga, Sig­ur­birni Þor­kels­syni, og Trygg­inga­mið­stöð­inni að vera með sér og saman mynd­uðu þessir aðilar félagið Haga­mel.

Voga­bakki, fjár­fest­ing­ar­fé­lag þeirra Árna og Hall­björns, hafði fjár­fest erlendis og gengið vel. Allar eignir þess voru utan hafta. Þeir fengu fyr­ir­greiðslu hjá Íslands­banka, sínum við­skipta­banka, fyrir kaup­unum sem var með veði í erlendum eignum þeirra. Þannig þyrftu þeir ekki að flytja neina pen­inga inn í gjald­eyr­is­höft­in. Því fengu þeir lánað fyrir kaup­un­um.

Haga­melur leiddi hóp sem kall­að­ist Búvellir og fékk að kaupa 34 pró­senta hlut í Högum á 10 krónur á hlut áður en félagið var sett á mark­að. Aðrir í Búvöllum voru líf­eyr­is­sjóðir og sjóðir í stýr­ingu hjá Stefni. Inni í sam­komu­lag­inu var líka for­kaups­réttur á 10 pró­sentum til við­bótar á geng­inu 11 krónur á hlut áður en restin af hlutafé Haga var skráð á markað í des­em­ber 2011. Þann for­kaups­rétt nýttu Búvellir sér. Félagið var síðan leyst upp og hver ein­ing hélt eftir það sínum hlut. TM fór auk þess út úr Haga­mels­sam­starf­inu og eftir sátu þar þeir Árni, Hall­björn og Sig­ur­björn.

Hlutur þeirra var 8,2 pró­sent. Upp­runa­lega greiddi félagið fyrir hann 982 millj­ónir króna. Þegar Hagar voru skráðir á markað var byrj­un­ar­gengi bréf­anna 13,5 krónur á hlut. Áður en við­skipti hófust hafði því Haga­mels­hóp­ur­inn hagn­ast um 314 millj­ónir króna. Sá hagn­aður átti eftir að aukast mik­ið. Snemma árs 2014 fóru þeir að kanna þann mögu­leika á að selja hlut sinn í Hög­um. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans var áhug­inn á að kaupa gríð­ar­leg­ur. Haga­melur hefði auð­veld­lega getað selt allan hlut sinn, sem þarna hafði þynnst í um 7,9 pró­sent. Af varð hins vegar að félagið seldi um 6,4 pró­sent á geng­inu 42 krónur á hlut. Fyrir það feng­ust rúm­lega 3,2 millj­arðar króna. Það þýddi að Haga­melur inn­leysti um 2,2 millj­arða króna hagnað og hélt samt sem áður eftir 1,53 pró­senta hlut í Hög­um. Þeir hafa síðan selt meira af bréf­um.

Hlut­höfum Haga hefur fækkað gríð­ar­lega frá því að útboðið á bréfum þess átti sér stað. Þá voru þeir 2.744 tals­ins. Í dag eru þeir um 960. Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir hafa verið dug­legir við að ryk­suga upp bréf í félag­inu. Þeir eiga sam­an­lagt yfir 50 pró­sent bréfa þess.

Arð­væn­legt félag

Hagar eru afar arð­væn­legt félag. á síð­asta rekstr­ar­ári þess nam velt þess 78,4 millj­örðum króna. Til sam­an­burðar var hún 66,7 millj­arðar króna rekstr­ar­árið 2010-2011. Hreinn hagn­aður Haga var 3,6 millj­arðar króna. Skuldir félags­ins voru ein­ungis 13,3 millj­arðar króna í lok febr­úar síð­ast­lið­ins en eignir þess voru metnar á 30,2 millj­arða króna. Til sam­an­burðar þá voru eignir Haga 21,8 millj­arðar króna í lok febr­úar 2011 en skuldir 18,2 millj­arðar króna. Þess utan hafa millj­arðar króna verið greiddar í arð til hlut­hafa félags­ins á und­an­förnum árum.

Í síð­ustu viku var greint frá því að Hagar hefðu keypt lyfja­sölu­fyr­ir­tækið Lyfju af íslenska rík­inu á 6,7 millj­arðar króna.  

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á bók­inni Ísland ehf. - auð­menn og áhrif eftir hrun, sem kom út 2013.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar