Anton Brink

Baugsfjölskyldurnar eignast aftur hlut í krúnudjásninu

Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson eru aftur orðin eigendur í Högum. Saga félagsins er ævintýraleg og minnir um margt á bandaríska sápuóperu frá níunda áratugnum þar sem ástir og örlög tveggja metnaðarfullra áhrifafjölskyldna sameinast í smásölu á dagvöru.

Greint var frá því í DV í dag að Ingi­björg Pálma­dótt­ir, eig­in­kona Jóns Ásgeirs Jóhann­es­son­ar,  hefði keypt um eitt pró­sent hlut í smá­söluris­anum Högum fyrir skemmstu á um 600 millj­ónir króna. Kaupin eru í gegnum félag hennar SM Invest­ments.

Krún­u­djásnin í Högum eru ann­­ars vegar Bón­us-keðjan og hins vegar Hag­­kaup. Jón Ásgeir og fjöl­­skylda hans stofn­uðu Bónus á sínum tíma og faðir Ing­i­­bjargar stofn­aði Hag­­kaup. Fyr­ir­tækin tvö runnu svo saman á tíunda ára­tug síð­­­ustu ald­ar og urðu að Hög­um. Þau hjón eru því að kaupa sig aftur inn í félagið sem mynd­aði und­ir­stöð­una að risi þeirra en sem kröfu­hafar tóku til sín eftir hrunið þrátt fyrir harða bar­áttu Jóns Ásgeirs og fjöl­skyldu hans til að koma í veg fyrir það.

Neyt­endur í hendi Baugs

Baugur Group var sú við­skipta­sam­steypa sem hafði mest áhrif á dag­legt líf Íslend­inga á fyrstu árunum eftir alda­mót. Sá sem vildi kaupa sér mat­vöru, aðra dag­vöru, tísku­fatn­að, íþrótta­vör­ur, bygg­ing­ar­efni, raf­lagn­ir, hús­gögn, blóm, trygg­ing­ar, banka­þjón­ustu, tölvu eða tölvu­leik, far­síma­þjón­ustu, sjón­varps­á­skrift eða bók átti varla kost á öðru en að versla við Baug. Ef ein­hver fór í kvik­mynda­hús, hlust­aði á útvarp, las blað, fór á tón­leika, keypti sér plötu eða DVD-disk eða horfði á sjón­varps­þátt sem fram­leiddur var á Íslandi þá var sá hinn sami lík­leg­ast að borga Baugi fyr­ir. Ef fjöl­skylda fór í Smára­lind eða Kringl­una þá var hún í heim­sókn hjá Baugi. Ef ein­hver gisti á Nor­dica hót­el­inu, leigði íbúð í Skugga­hverf­inu, skrif­stofu­að­stöðu í B26-­hús­inu í Borg­ar­túni, kíkti í heim­sókn til Kaup­hall­ar­innar eða steig bara fæti inn í atvinnu­hús­næði á rúm­lega 130 mis­mun­andi stöðum þá var viðkomandi í fast­eign sem Baugur átti. Það var ekki einu sinni hægt að fara í Bláa lónið til að kom­ast undan Baugs­hend­inni. Félagið átti einnig óbeinan hlut í því. Baugur var alltum­lykj­andi og neyt­endur voru í hendi hans.Félag í eigu Ingibjargar, sem Jón Ásgeir stýrði, kom fyrir í Panamaskjölunum. Félagið, Guru Invest, fjárfesti bæði á Íslandi og í Bretlandi og ljóst er að í því voru umtalsverðir fjármunir.

Á meðal eigna á Íslandi sem Baugur og tengd félög áttu í voru Bón­us, Hag­kaup, 10-11, Úti­líf, Zara, Tops­hop, Oas­is, Karen Mil­len, Warehou­se, Evans, Coast, Whist­les, The Shoe Studio, Dorothy Perk­ins, All Saints, Húsa­smiðj­an, Ískraft, Egg, Blóma­val, Stöð 2, Frétta­blað­ið, Bylgj­an, Vís­ir.is, Birtíng­ur, DV, Skuggi For­lag, Saga Film, Voda­fo­ne, Sko, Kög­un, EJS, Skýrr, Lands­steinar Streng­ur, Humac (sem var með upp­boð fyrir Apple vörur á Íslandi og í Skand­in­av­íu), Trygg­inga­mið­stöð­in, Geysir Green Energy (og þar af leið­andi HS Orka), Landic Proper­ty, Íslenska fast­eigna­fé­lag­ið, Fast­eigna­fé­lagið Eik, Þyrp­ing fast­eigna­fé­lag og auð­vitað Glitnir banki.

Davíð og pabbi hans gegn Gol­íat

Alfa og omega í Baugi var Jón Ásgeir Jóhann­es­son. Inn­reið Jóns Ásgeirs og upp­haf þess sem síðar varð Baugur má rekja aftur til 8. apríl 1989. Þá opn­uðu hann og Jóhannes faðir hans fyrstu Bón­us-versl­un­ina í 400 fer­metra hús­næði í Skútu­vogi. Bónus mark­aði sér sér­stöðu með mun lægra vöru­verði en áður hafði þekkst. Því náðu feðgarnir fram með því að stað­greiða birgjum og neita að taka við kredit­kort­um. Þess utan inn­leiddu þeir notkun strik­a­merkja í mat­vöru­versl­unum og þar af leið­andi tölvu­vætt birgða­hald á tímum þegar slíkt var nær óþekkt.

Sagan sem alltaf hefur fylgt stofnun Bónus og þeir feðgar hafa ítrekað farið með á opin­berum vett­vangi er nokkuð dramat­ísk. Sam­kvæmt henni var Jóhann­esi sagt upp sem versl­un­ar­stjóra hjá Slát­ur­fé­lagi Suð­ur­lands. Jón Ásgeir hætti sam­stundis mennta­skóla­námi sínu og þeir feðgar ákváðu að ráð­ast saman gegn ris­un­um. Davíð og pabbi hans gegn Gol­í­at.

Í ágúst 1992, þegar versl­unum Bónus hafði fjölg­að, tók sú bar­átta aðra stefnu þegar til­kynnt var um að Hag­kaup, sem þá var ráð­andi á íslenskum mat­vöru­mark­aði, hefði keypt helm­ings­hlut í Bón­usversl­unum þeirra feðga. Kaupin áttu sér stað rúmu ári eftir and­lát Pálma Jóns­son­ar, stofn­anda og aðal­eig­anda Hag­kaupa. Við frá­fall Pálma urðu börnin hans fjög­ur, Sig­urður Gísli, Jón, Ingi­björg Stef­anía og Lilja Sig­ur­lína, aðal­eig­endur Hag­kaupa.

Í frétt Morg­un­blaðs­ins um kaupin kom fram að mark­aðs­hluts­deild hins sam­ein­aða fyr­ir­tækis yrði rúm­lega 30 pró­sent á mat­vöru­mark­aði. Þó er vert að taka fram að mæl­ingar á mark­aðs­hlut­deild á þessum tíma voru óáreið­an­leg­ar. Kaup­verðið var trún­að­ar­mál og aðilar máls­ins neit­uðu að gefa það upp þegar á þá var geng­ið. Í frétt­inni var einnig haft eftir Sig­urði Gísla Pálma­syni og Jóhann­esi Jóns­syni að „kaupin væru gerð til þess að styrkja stöðu beggja fyr­ir­tækj­anna og búa þau undir hugs­an­lega sam­keppni erlendis frá með til­komu Evr­ópsks efna­hags­svæðis [EES]. Með sam­eig­in­legum inn­kaupum fyr­ir­tækj­anna sé hægt að ná fram stærð­ar­hag­kvæmni sem geri mögu­legt að lækka vöru­verð, sem muni koma neyt­endum til góða“.Eftir á að hyggja er erfitt að draga aðra ályktun en að síð­ari ástæðan hafi verið ráð­andi þáttur þegar ráð­ist var í kaup­in. Erlend sam­keppni á mat­vöru­mark­aði eftir sam­þykkt Íslands á EES-­samn­ingum varð eng­in. Ekki ein ein­asta erlenda mat­vöru­versl­ana­keðja hefur reynt að hasla sér völl á Íslandi. Sam­eig­in­leg inn­kaup voru eitt­hvað sem gat unnið mjög með báðum fyr­ir­tækj­unum sem stóðu að samn­ingn­um, þótt þau hafi lýst því yfir að ætl­unin væri að vera áfram í mik­illi sam­keppni. Ári síð­ar, árið 1993, var stofnað nýtt fyr­ir­tæki til að sam­hæfa inn­kaupin fyrir versl­anir Bónus og Hag­kaup. Það fyr­ir­tæki hlaut nafnið Baug­ur.

Frið­ur­inn rof­inn

Sam­starfið gekk ágæt­lega fyrstu árin og fyr­ir­tækja­sam­steypan hélt áfram að vaxa. Svo virt­ist sem Sig­urður Gísli, stjórn­ar­for­maður Hag­kaupa, og Jón Ásgeir væru í góðu sam­bandi. Á það féll þó skuggi snemma árs 1998 þegar Hag­kaups­bræð­urnir ósk­uðu eftir því við Jón Ásgeir að fá að kaupa þann helm­ing í Bónus sem þeir áttu ekki þá þeg­ar. Ef ein­hverjar breyt­ingar hefðu átt að vera á eign­ar­hald­inu hefði þessi leið verið raun­hæfust. Hag­kaup var rót­gróið og stórt fyr­ir­tæki sem hafði starfað lengi á smá­sölu­mark­aði á Íslandi. Bónus hafði ekki verið til í ára­tug. Hag­kaup var klár­lega stærri aðil­inn í sam­bandi þeirra, eig­endur þess betur stæðir og þeir því mun lík­legri til að gleypa Jón Ásgeir ef þannig aðstæður myndu skap­ast. Jón Ásgeir var ekki á því að láta það ganga eft­ir.

Í Ævin­týra­eyj­unni, bók Ármanns Þor­valds­son­ar, fyrrum for­stjóra Kaupt­hing Sin­ger&Fried­land­er, er aðdrag­anda þess­ara við­skipta lýst þannig að Jón Ásgeir hafi leitað til Kaup­þings á Íslandi eftir fjár­mögnun fyrir yfir­tök­unni. Kaup­þing var þá lítið fjár­mála­fyr­ir­tæki en í örum vexti. Kaupin þóttu risa­vaxin á þessum tíma. Heild­ar­virði pakk­ans var um átta millj­arðar króna. Ármann segir þessa þróun mála „og ást­ar­sam­band Jóns Ásgeirs og Hag­kaups­dótt­ur­inn­ar, Ingi­bjarg­ar, en þau gift­ust síð­ar, [hafa orð­ið] til þess að sam­band hans og bræðr­anna versn­aði. Á enda­spretti kaupanna var orðið svo kalt á milli þeirra að Jón Ásgeir gat ekki lagt bílnum sínum fyrir utan skrif­stofur okk­ar. Bræð­urnir neit­uðu að stíga fæti inn í húsið ef þeir vissu af honum þar“.

Eftir að gengið hafði verið frá kaup­unum var starf­semin sam­einuð undir Baugs-­nafn­inu. Inn­kaupa­hlut­inn sem áður hafði borið það nafn var nefndur Aðföng. Í við­skipt­unum var Hag­kaupum skipt upp þannig að Jón Ásgeir, með lið­sinni Kaup­þings og ann­arra, keypti rekst­ur­inn en Hag­kaups­fjöl­skyldan átti áfram stórt fast­eigna­safn sem var inni í fyr­ir­tæk­inu. Jón Ásgeir og fjöl­skylda hans stækk­aði síðan ört við sig í Baugi, í gegnum fjár­fest­inga­fé­lagið Gaum, og var í ráð­andi stöðu innan félags­ins. Vorið 1999 var Baugur síðan skráður á mark­að.

Það stóð þó ekki lengi. Vorið 2003, fjórum árum eftir að félagið var skráð, gerðu Jón Ásgeir, fjöl­skylda hans og tengdir aðilar yfir­tökutil­boð í Baug, eign­uð­ust 92 pró­senta hlut og afskráðu félagið af mark­aði.

Eftir afskrán­ingu Baugs varð vöxt­ur­inn ævin­týra­leg­ur. Ekki reynd­ist þó inn­stæða fyrir hon­um, enda var hann drif­inn áfram af óhóf­legum lán­um. Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþingis segir að „sá fyr­ir­tækja­hópur sem umfangs­mestur var í við­skiptum við íslensku bank­ana var Baugur Group hf. og tengdir aðil­ar. Útlán til Baugs­hóps­ins voru veru­leg í öllum þremur bönk­un­um; Glitni, Kaup­þingi og Lands­bank­an­um“.

Hrikti í stoðum Baugs

Tölu­vert fyrir hrun var orðið ljóst að það hrikti all­veru­lega í stoðum Baugs. Um vorið 2008 tók Kaup­þing til að mynda yfir fjár­mögnun einnar af erlendu versl­un­ar­keðjum Baugs og Lands­bank­inn keypti hlut í verð­mæt­ustu eign félags­ins, Iceland Foods mat­vöru­keðj­unni. Jafn­framt keyptu stóru bank­arnir þrír allir veru­legt magn eigna af Baugi til að félagið gæti greitt niður skuldir sem það átti í vand­ræðum með. Þessi staða var þó ekki opin­ber. Út á við var allt enn í blóma og vexti. Sú blekk­ing gekk svo vel að í apríl 2008 fékk Baugur útflutn­ings­verð­laun for­seta Íslands, Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fyrir for­ystu­hlut­verk sitt og árangur í íslensku útrásinni. Auk þess var unnið að því að inn­rétta nýjar höf­uð­stöðvar Baugs í 900 fer­metra hús­næði á efstu hæð­inni í Borg­ar­túni 26. Þar var engu til spar­að, meðal ann­ars voru sér­pant­aðar leð­ur­flísar frá Banda­ríkj­unum til að leggja á gólf­in.

Við banka­hrunið tap­að­ist eign­ar­hlutur FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoð­ir, í Glitni. Baugur var á þessum tíma stærsti ein­staki eig­andi Stoða og hafði fall Glitnis eðli­lega mikil áhrif á stöðu félags­ins. Því var lagt upp með sér­staka áætlun um end­ur­reisn Baugs, sem kölluð var Project Sun­rise. Hún var kynnt í jan­úar 2009 og sam­kvæmt yfir­liti sem henni fylgdi voru skuldir Baugs umfram eignir 148 millj­arðar króna. Til að gera langa sögu stutta féllust kröfu­hafar Baugs ekki á þessar hug­myndir og fóru fram á að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta.

Í apríl 2008 fékk Baugur útflutningsverðlaun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir forystuhlutverk sitt og árangur í íslensku útrásinni.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Þann 11. mars 2009, nítján árum og ell­efu mán­uðum eftir opnun fyrstu Bón­usversl­un­ar­inn­ar, synj­aði Hér­aðs­dómur Reykja­víkur Baugi um áfram­hald­andi greiðslu­stöðvun og í kjöl­farið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjald­þrota­skipta. Við gjald­þrot Baugs tap­að­ist stærsti hluti veld­is­ins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Jóhannes Jóns­son, og fylgi­hnettir þeirra höfðu byggt upp. Bar­áttan um fjöl­skyldu­djá­snið Haga átti þó enn eftir að klár­ast. Hög­um, sem héldu á inn­lendum versl­un­ar­rekstri fjöl­skyld­unn­ar, hafði verið skotið út úr Baugi sum­arið 2008 og fyr­ir­tækið fært inn í Gaum, annað félag í hennar eigu með full­tingi Kaup­þings.

Lýstar kröfur í bú Baugs námu 319 millj­örðum króna og sam­þykktar kröfur voru 240 millj­arðar króna. Þar af voru kröfur Lands­bank­ans, sem var stærsti kröfu­haf­inn, um 100 millj­arðar króna. Búist var við að um sjö millj­arðar króna myndu fást upp í skuld­ir, sem nemur um 2,9 pró­sent af sam­þykktum kröfum í búið. Um er að ræða langstærsta gjald­þrot Íslands­sög­unnar ef horft er fram­hjá falli bank­anna þriggja.

1998 fléttan

Strax í upp­hafi mars­mán­aðar 2008 höfðu helstu stjórn­endur Kaup­þings miklar áhyggjur af stöðu Baugs og Gaums, aðal­eig­anda félags­ins. Í kynn­ingu sem útbúin var til að reyna að leysa marg­hátt­aðan vanda félag­anna kom fram að Baugur hafði tapað umtals­verðum fjár­hæðum mán­uð­ina á undan og að Gaumur væri met­inn með nei­kvætt eigið fé. Þar sagði einnig að miðað við það lausafé sem Baugur þyrfti á næstu mán­uðum væri aug­ljóst að félagið gæti ekki staðið við skuld­bind­ingar sínar nema með utan­að­kom­andi hjálp.

Kynn­ingin lagði til tvær lausnir á þessum vanda. Önnur sner­ist um að Kaup­þing keypti eignir fyrir á annan tug millj­arða króna af Baugi og að féð yrði notað til að borga niður skuldir félags­ins við bank­ann. Hin lausn­in, sem var nefnd „Gaumur lausnir“, sner­ist um að nýtt félag, 1998 ehf., yrði stofn­aði og að Kaup­þing myndi lána því 30,6 millj­arða króna.

Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþingis var fjallað ítar­lega um þessa fléttu. Þar segir að „fé­lagið 1998 keypti því næst Haga út úr Baugi fyrir 30 millj­arða króna, af því not­aði Baugur 10,2 millj­arða króna til að greiða upp lán til Kaup­þings og 4,7 millj­arða króna til að greiða upp lán við Glitni. Baugur keypti síðan eigin hluta­bréf af Fjár­fest­inga­fé­lag­inu Gaumi ehf. (7,2 ma.kr.), Gaumi Hold­ing ehf. (1,6. ma.kr.), Eign­ar­halds­fé­lag­inu ISP (4,9 ma.kr.) og Bague S.A. (1,3 ma. kr.)“. Eig­endur þess­ara félaga voru að mestu leyti Jón Ásgeir og fjöl­skylda, sem eiga Gaum­s-­fé­lög­in, eig­in­konan Ingi­björg Pálma­dótt­ir, sem á ISP, og sam­starfs­mað­ur­inn Hreinn Lofts­son og nokkrir aðr­ir, sem eiga Bague S.A.

Rann­sókn­ar­nefndin gaf þess­ari fléttu ekki háa ein­kunn og vakti athygli á því að Baugur hefði notað „hluta af sölu­tekjum sínum af því að selja Haga til 1998 ehf. til að kaupa eigin hluta­bréf af stærstu eig­endum sín­um. Í þessu til­viki var um að ræða 15 millj­arða króna virði hluta­fjár, að því gefnu að hlut­irnir hafi verið rétt verð­lagð­ir, og ekki verður séð að félagið hafi selt öðrum þetta hlutafé síð­ar. Raunin var því sú að eig­endur Baugs voru með þessu að taka til sín hluta af fjár­munum félags­ins, án þess að nokkuð lægi fyrir um hvort hagn­aður yrði af rekstri félags­ins árið 2008. Í eðli sínu jafn­gildir þetta arð­greiðslu, en með útgreiðslu á þessu formi var kom­ist hjá því að upp­fylla þyrfti skil­yrði sem lög setja fyrir arð­greiðslum úr félög­um. Baugur hf. var ekki búinn að selja hluta­bréfin aftur út úr félag­inu við fall bank­anna, og hafði fyr­ir­tækið heldur ekki farið þá leið að færa niður hluta­féð. Reglum um arð­greiðslu og lækkun hluta­fjár er ætlað að vernda hags­muni kröfu­hafa en á þessum tíma voru þeir m.a. Lands­banki Íslands, líf­eyr­is­sjóðir og pen­inga­mark­aðs­sjóð­ir. [...] Nefndin telur ljóst af þeim gögnum sem hún hefur kynnt sér að sú aðferð sem þarna var við­höfð við kaup Baugs á eigin hluta­bréfum hafi verið til þess fallin að rýra hags­muni og stöðu þeirra fjár­mála­fyr­ir­tækja sem áttu kröfur á Baug og rann­sókn nefnd­ar­innar tekur til“.Eftir að Baugur var far­inn í þrot og aug­ljóst virt­ist að 1998 ehf. gæti ekki með nokkrum hætti staðið við afborg­an­irnar af þeim lánum sem Kaup­þing hafði veitt félag­inu í Gaum­s-­lausn­a-flétt­unni var komin upp sú staða að Arion banki, sem byggður var á inn­lendum eignum Kaup­þings, gat leyst Haga til sín, því bank­inn átti veð í nán­ast öllu félag­inu. Það gerð­ist snemma í nóv­em­ber 2009. Í til­kynn­ingu frá bank­anum kom fram að yfir­takan á hluta­bréf­unum væri liður í því að tryggja hags­muni hans í því úrlausn­ar­ferli á skulda­málum 1998 ehf. sem framundan væri. Verk­lags­reglum yrði fylgt og í þeim sagði meðal ann­ars „að bank­inn leggi áherslu á sam­starf við eig­endur og stjórn­endur í vinnu við end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tækja. Þannig er eig­end­unum gefið tæki­færi til að koma á fram­færi hug­myndum að lausn á vanda­málum fyr­ir­tækja sinna [...] Þótt eig­endur fyr­ir­tækja fái tæki­færi til að leggja fram hug­myndir að lausn á skulda­vanda félaga sinna er ljóst að þær þurfa að vera raun­hæf­ar. Þær þurfa þannig að stand­ast sam­an­burð við aðra mögu­leika í stöð­unni og vera í takt við kröfu bank­ans um að end­ur­heimta sem mest af verð­mætum sín­um“.

Með öðrum orðum átti að veita þeim feðgum, Jóni Ásgeiri og Jóhann­esi, tæki­færi til að koma með lausn á þessu vanda­máli. Bank­inn átti enda mikið und­ir. Um var að ræða eitt stærsta ein­staka útistand­andi lánið sem flutt var til hans úr gamla bank­anum eftir hrun­ið, undir var stærsti smá­sali á Íslandi og við­semj­end­urnir voru ein­hverjir umdeild­ustu menn lands­ins. Það fór væg­ast sagt öfugt ofan í íslenskt sam­fé­lag að menn sem skuld­uðu fleiri hund­ruð millj­arða króna meira en þeir áttu myndu mögu­lega fá að halda ein­hverjum eigna sinna, á meðan verð­bólga og geng­is­fall át upp eignir ann­arra. Slíkt var ein­fald­lega ofar skiln­ingi hins venju­lega manns. Reiðin sem braust út á þessum tíma var næstum áþreif­an­leg.

Skömmu síð­ar, 23. nóv­em­ber 2009, var til­kynnt um að Arion banka hefði borist til­boð frá „Jó­hann­esi Jóns­syni, erlendum fjár­festum og stjórn­endum Haga um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu 1998 ehf., móð­ur­fé­lags Haga. Sam­kvæmt til­boð­inu kemur ekki til neinna afskrifta 1998 ehf.“ Bank­inn ætl­aði í kjöl­farið að taka sér um tvo mán­uði til að meta til­boð­ið.

Sam­kvæmt því sem Jón Ásgeir hefur látið hafa eftir sér opin­ber­lega hafði fjöl­skylda hans og breskir vel­gjörð­ar­menn hennar þá þegar lagt fram til­boð sem í fólst að allar skuldir Haga og 1998 ehf. yrðu greiddar til baka með tveggja pró­senta vöxtum á sjö árum. Því til­boði var hafn­að, enda þótti afar óljóst hvernig hóp­ur­inn ætl­aði að fjár­magna þessi kaup. Skuldir 1998 ehf. höfðu þá hækkað upp í um 50 millj­arða króna vegna geng­is­falls krón­unn­ar. Þótt til­boðið hljóm­aði vel voru stjórn­endur innan Arion banka ekki í rónni yfir því að afhenda hópnum yfir­ráð yfir Högum í sjö ár með það fyrir augum að hann myndi kannski borga á end­an­um. Árangur hóps­ins við að borga lán var nefni­lega ekk­ert sér­lega beys­inn.

Í jan­úar 2010 bauð síðan Baugs­fjöl­skyld­an, erlendir fjár­festar á hennar vegum og stjórn­endur Haga um tíu millj­arða króna í 51 pró­senta hlut í Hög­um. Því til­boði var einnig hafn­að. Í byrjun febr­úar sama ár var síðan til­kynnt um mála­miðl­un: Jóhannes og stjórn­endur félags­ins fengju að kaupa 15 pró­sent í Hög­um. Afgang­ur­inn yrði seldur í gegnum Kaup­höll­ina eftir að Hagar yrðu skráðir á mark­að. Jóhannes átti áfram að vera stjórn­ar­for­maður Haga.

Þessi nið­ur­staða vakti heldur ekki mikla almenna kátínu. Ljóst var að ef eftir henni yrði farið myndu Baugs­fjöl­skyldan og stjórn­endur sem með henni höfðu unnið árum saman verða stærsti ein­staki eig­and­inn í Hög­um. Auk þess ótt­uð­ust margir að fjöl­skyldan og aðilar henni tengdir myndu kaupa stóran hlut þegar félagið yrði skráð og styrkja sig þannig enn frekar í sessi. Neyt­endur yrðu kannski ekki lengur í hendi Baugs, en þeir yrðu í hendi Baugs­fjöl­skyld­unn­ar.

Nið­ur­staðan horfði því sér­kenni­lega við mörg­um. Arion banki þurfti enda að afskrifa yfir 30 millj­arða króna vegna fjöl­skyld­unn­ar, þótt það tap lenti reyndar að öllu leyti á þrota­búi Kaup­þings. Fólk átti erfitt með að skilja hvernig fjöl­skylda gat sett félag svo rosa­lega á höf­uðið en samt haldið hluta af eignum sín­um. Finnur Svein­björns­son, þáver­andi banka­stjóri Arion banka, sagði út á við að hann væri ánægður með þessa lausn. Í einka­sam­tölum vörðu stjórn­endur bank­ans þessa ákvörðun meðal ann­ars með því að öll við­skipta­sam­bönd, til dæmis um inn­kaup fyrir versl­anir Haga, væru per­sónu­leg sam­bönd Baugs­fjöl­skyld­unn­ar. Þau gætu glat­ast ef henni yrði úthýst úr rekstr­in­um. Sömu­leiðis höfðu þeir áhyggjur af því að stjórn­endur ákveð­inna hluta innan sam­stæð­unnar myndu ein­fald­lega ráða sig til sam­keppn­is­að­ila og þar með myndi sér­þekk­ing tap­ast. 

Þessi skoðun var síðan gerð opin­ber að hluta til nokkrum dögum síðar þegar Arion banki neydd­ist til að senda frá sér frétta­til­kynn­ingu vegna við­bragð­anna sem urðu við tíð­ind­un­um. Þar sagði meðal ann­ars að bank­inn teldi „mik­il­vægt í sölu­ferl­inu að núver­andi stjórn­endur Haga sinni áfram störfum sínum og lýsi því yfir að þeir hafi áhuga á að ger­ast hlut­hafar í fyr­ir­tæk­in­u“. Hagar áttu síð­an, sam­kvæmt lausn­inni, að fara á markað um sum­arið 2010. Af því varð þó ekki.

Skrán­ing und­ir­búin

Í byrjun júní 2010 tók Hösk­uldur H. Ólafs­son form­lega við starfi banka­stjóra Arion banka. Á þeim tíma hafði bank­inn verið að þreifa fyrir sér á meðal stórra fag­fjár­festa um að koma að Högum þegar félagið yrði skráð á mark­að. Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf bank­ans hélt kynn­ing­ar­fundi og almennt virt­ist sem fjár­festum lit­ist afar vel á fyr­ir­tæk­ið. Skemmst er frá því að segja að nokkrir stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, sem eru langstærstu inn­lendu fag­fjár­fest­arn­ir, komu þeim skila­boðum skýrt á fram­færi við for­svars­menn Arion banka að þeir myndu ekki fjár­festa í Högum með Jóhannes Jóns­son inn­an­borðs. Sjóð­irnir töldu ekki for­svar­an­legt að semja um að taka þátt í við­skiptum með honum eða fjöl­skyldu hans. Ástæður þess voru opin­ber­aðar þegar úttekt­ar­skýrsla á starf­semi líf­eyr­is­sjóð­anna í aðdrag­anda efna­hags­hruns­ins var gefin út í febr­úar 2012. Þar kom fram að líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hefðu tapað sam­tals 77.182 millj­ónum króna á hluta- og skuld­bréfum sem þeir höfðu keypt á Baug og tengda aðila. Tapið nam sam­tals um 20 pró­sentum af heild­ar­tapi þeirra vegna slíkra bréfa. Ein­ungis einn fyr­ir­tækja­hópur kost­aði sjóð­ina meiri pen­inga en Baugur og tengdir aðilar og sá hópur var Exista.Höskuldur H. Ólafsson tók við sem bankastjóri Arion banka í byrjun júní 2010.

Einn for­svars­manna stóru líf­eyr­is­sjóð­anna sagði eft­ir­far­andi um mál­ið: „Við gáfum þau skila­boð að það væri ekki efst á óska­list­anum okkar að fara aftur í gang að fjár­festa með mönnum sem við höfðum þegar fjár­fest með en ekk­ert geng­ið. Ef við horfum á Bón­us-­fjöl­skyld­una þá höfum við átt skulda­bréf á fyr­ir­tæki sem tengj­ast henni og höfum lent í vand­ræðum með að fá end­ur­greitt. Það er því ekki vilji fyrir því að fara í sama far­ið. Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Arion banki hefur alveg heyrt það á okkur að það væri ekki efst á baugi hjá okkur að fjár­festa aftur með sömu aðilum og höfðu verið ráð­andi í ýmsum fyr­ir­tækjum sem gefið höfðu út skulda­bréf.“

Því var vinnan við að vinda ofan af febr­ú­ar-­sam­komu­lag­inu þegar hafin innan Arion banka á meðan Finnur Svein­björns­son, sem hafði verið gerður að tíma­bundnum banka­stjóra eftir hrun­ið, stýrði enn bank­an­um. Arion banki hafði orðið fyrir gríð­ar­legri gagn­rýni fyrir að semja eins og bank­inn gerði. Inn­an­húss­maður hjá bank­anum lýsti ástand­inu þegar sam­komu­lagið var gert þannig: „Auð­vitað veit maður aldrei. Þetta er eins og póker. Hvað hefði gerst ef bank­inn hefði sagt við Jóhannes „éttu það sem úti frýs“ og við tökum bara séns­inn á að þetta lyk­il­fólk hjá Högum verði áfram þegar til kast­anna kem­ur. Kannski hefði það gengið upp, kannski ekki. Við tókum enn séns­inn á því.“

Í lok ágúst til­kynnti Arion banki að Jóhann­esi Jóns­syni hefði verið vikið úr stjórn Haga, að for­kaups­réttur hans á hlutafé í félag­inu hefði verið felldur úr gildi og að sölu­ferli Haga yrði í kjöl­farið end­ur­hugs­að. Jóhannes fékk í stað­inn, í nokk­urs konar sára­bæt­ur, að kaupa valdar eignir út úr Hög­um. Á móti sam­þykkti hann ströng skil­yrði um að hann og aðilar honum nátengdir mættu ekki efna til sam­keppni við Haga í 18 mán­uði frá und­ir­ritun sam­komu­lags­ins. Við það var stað­ið, en fjöl­skyldan opn­aði mat­vöru­versl­un­ina Iceland tæpum tveimur árum síð­ar.

Síðar kom í ljós að Hag­ar, þá enn undir stjórn Jóns Ásgeirs, hafði leikið lyk­il­hlut­verk í að hjálpa honum að halda einni mik­il­væg­ustu eign hans eftir hrun, fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­inu 365 miðl­um.

Í nóv­­em­ber 2008 skuld­aði 365 sex millj­­arða króna og 1,5 millj­­arður var á gjald­daga 5. nóv­­em­ber 2008. Stjórn félags­­ins ákvað að selja alla fjöl­mið­l­ana út úr félag­inu til félags­ins Rauð­­sól­ar, í eigu Jóns Ásgeirs, á 1,5 millj­­arð króna. Auk þess myndu hluti skulda fylgja með. Eng­inn annar fékk að bjóða. Reyndar var verð­mið­­anum breytt eftir á þegar ljóst var að Jón Ásgeir gat ekki greitt meira en 1.350 millj­­ónir króna.

Þorri þeirra pen­inga sem not­aðir voru til að kaupa fjöl­mið­l­ana út, 810 millj­­ónir króna, kom frá Hög­um, sem Jón Ásgeir stýrði þá enn, en kröf­u­hafar tóku skömmu síðar yfir. Engar við­­skipta­­legar for­­sendur voru fyrir þvi að Hagar lán­uðu þessa upp­­hæð. Helm­ingur var end­­ur­greiddur eftir dúk og disk en hinn helm­ing­­ur­inn var greiddur sem aug­lýs­inga­inn­­eign hjá 365 mið­l­um sem dregið var á árum sam­an.

Gríð­ar­legur hagn­aður þeirra sem keyptu fyrst

Hagar voru fyrsta félagið sem skráð var á markað eftir hrun­ið. Í aðdrag­anda þess hóf bank­inn leit að ein­hverjum til að taka kjöl­festu­hlut í Högum áður en félagið yrði skráð á mark­að. Vorið 2010 hafði starfs­maður Arion banka sam­band við fjár­fest­anna Árna Hauks­son og Hall­björn Karls­son til að kanna áhuga þeirra á að fylla þetta hlut­verk. Þeir höfðu ekki áhuga þá, enda stóð til fá þá til að kaupa 30 pró­senta hlut. Það fannst þeim of mik­ið.

Í nóv­em­ber sama ár rann síðan út óskuld­bind­andi frestur til að skila inn til­boðum í kjöl­festu­hlut í Haga. Tíu aðil­ar, inn­lendir og erlend­ir, gerðu til­boð. Einn þess­ara aðila var Stefn­ir, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki í eigu Arion banka. Yfir­menn Stefnis buðu í kjöl­farið Árna og Hall­birni aftur að vera með, og taka nú minni hlut. Eftir tveggja tíma umhugsun þáðu þeir það. Þeir buðu vini sínum til ára­tuga, Sig­ur­birni Þor­kels­syni, og Trygg­inga­mið­stöð­inni að vera með sér og saman mynd­uðu þessir aðilar félagið Haga­mel.

Voga­bakki, fjár­fest­ing­ar­fé­lag þeirra Árna og Hall­björns, hafði fjár­fest erlendis og gengið vel. Allar eignir þess voru utan hafta. Þeir fengu fyr­ir­greiðslu hjá Íslands­banka, sínum við­skipta­banka, fyrir kaup­unum sem var með veði í erlendum eignum þeirra. Þannig þyrftu þeir ekki að flytja neina pen­inga inn í gjald­eyr­is­höft­in. Því fengu þeir lánað fyrir kaup­un­um.

Haga­melur leiddi hóp sem kall­að­ist Búvellir og fékk að kaupa 34 pró­senta hlut í Högum á 10 krónur á hlut áður en félagið var sett á mark­að. Aðrir í Búvöllum voru líf­eyr­is­sjóðir og sjóðir í stýr­ingu hjá Stefni. Inni í sam­komu­lag­inu var líka for­kaups­réttur á 10 pró­sentum til við­bótar á geng­inu 11 krónur á hlut áður en restin af hlutafé Haga var skráð á markað í des­em­ber 2011. Þann for­kaups­rétt nýttu Búvellir sér. Félagið var síðan leyst upp og hver ein­ing hélt eftir það sínum hlut. TM fór auk þess út úr Haga­mels­sam­starf­inu og eftir sátu þar þeir Árni, Hall­björn og Sig­ur­björn.

Hlutur þeirra var 8,2 pró­sent. Upp­runa­lega greiddi félagið fyrir hann 982 millj­ónir króna. Þegar Hagar voru skráðir á markað var byrj­un­ar­gengi bréf­anna 13,5 krónur á hlut. Áður en við­skipti hófust hafði því Haga­mels­hóp­ur­inn hagn­ast um 314 millj­ónir króna. Sá hagn­aður átti eftir að aukast mik­ið. Snemma árs 2014 fóru þeir að kanna þann mögu­leika á að selja hlut sinn í Hög­um. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans var áhug­inn á að kaupa gríð­ar­leg­ur. Haga­melur hefði auð­veld­lega getað selt allan hlut sinn, sem þarna hafði þynnst í um 7,9 pró­sent. Af varð hins vegar að félagið seldi um 6,4 pró­sent á geng­inu 42 krónur á hlut. Fyrir það feng­ust rúm­lega 3,2 millj­arðar króna. Það þýddi að Haga­melur inn­leysti um 2,2 millj­arða króna hagnað og hélt samt sem áður eftir 1,53 pró­senta hlut í Hög­um. Þeir hafa síðan selt meira af bréf­um.

Hlut­höfum Haga hefur fækkað gríð­ar­lega frá því að útboðið á bréfum þess átti sér stað. Þá voru þeir 2.744 tals­ins. Í dag eru þeir um 960. Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir hafa verið dug­legir við að ryk­suga upp bréf í félag­inu. Þeir eiga sam­an­lagt yfir 50 pró­sent bréfa þess.

Arð­væn­legt félag

Hagar eru afar arð­væn­legt félag. á síð­asta rekstr­ar­ári þess nam velt þess 78,4 millj­örðum króna. Til sam­an­burðar var hún 66,7 millj­arðar króna rekstr­ar­árið 2010-2011. Hreinn hagn­aður Haga var 3,6 millj­arðar króna. Skuldir félags­ins voru ein­ungis 13,3 millj­arðar króna í lok febr­úar síð­ast­lið­ins en eignir þess voru metnar á 30,2 millj­arða króna. Til sam­an­burðar þá voru eignir Haga 21,8 millj­arðar króna í lok febr­úar 2011 en skuldir 18,2 millj­arðar króna. Þess utan hafa millj­arðar króna verið greiddar í arð til hlut­hafa félags­ins á und­an­förnum árum.

Í síð­ustu viku var greint frá því að Hagar hefðu keypt lyfja­sölu­fyr­ir­tækið Lyfju af íslenska rík­inu á 6,7 millj­arðar króna.  

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á bók­inni Ísland ehf. - auð­menn og áhrif eftir hrun, sem kom út 2013.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar