Birgir Þór Harðarson

Sumir unnu margfalt í húsnæðislottóinu

Frá 2010 hefur húsnæðisverð hækkað um 65 prósent og langt umfram verðbólgu. Eigið fé þeirra sem eiga fasteignir hefur hækkað um hundruð milljarða, en þeim sem ekki geta eignast húsnæði fjölgað. Samt þurfti að greiða verðtryggðum íbúðareigendum 80,4 milljarða króna í Leiðréttingu og enn hafa ekki fengist almennileg svör um hvernig hún skiptist.

Afgreiðsla skýrslu um hvernig Leiðréttingin, niðurfærsla verðtryggðra fasteignaveðlána, skiptist á milli fólks mun bíða nýrrar ríkisstjórnar.  Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Tæplega fjórtán mánuðir eru liðnir frá því að tíu stjórnarandstöðuþingmenn lögðu fram beiðni um skýrsluna, sem átti að skýra frekar hvernig Leiðréttingin dreifðist á milli þeirri sem hana fengu. 

Leiðréttingin er aðgerð sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ákvað á ráðast í. Aðgerðin snerist um að hluti þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 fengu 80,4 milljarða króna greidda úr ríkissjóði vegna þess að lán þeirra hækkuðu í kjölfar verðbólguskots á þeim árum. 

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu (rúmlega 70 prósent Leiðréttingarinnar fór á Suðvesturhorn landsins), sem mælir hækkun á íbúðarverði, hefur hækkað um 66 prósent frá árslokum 2009. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkaði um 13,4 prósent upphafi hrunsins haustið 2008 og til loka árs 2009. Frá hruni og fram til dagsins í dag hefur vísitalan hækkað um 38,9 prósent. 

Því er ljóst að íbúðaverð hefur hækkað langt umfram verðbólgu á þeim tíma sem liðinn er frá hruni og eigendur húsnæðis með verðtryggð lán fengið umtalsverða eignamyndun umfram verðbólgu á því tímabili. Auk þess hafa lánskjör batnað umtalsvert á Íslandi, vextir lækkað og aðgangshindranir til að endurfjármagna á betri kjörum verið rutt úr vegi. Þetta hefur leitt til þess að eigendur fasteigna á Íslandi hafa séð eign sína aukast um mörg hundruð milljarða króna. 

Til viðbótar við þá eignamyndun fékk hluti þeirra 80,4 milljarða króna úr ríkissjóði.

Sáttmáli kynslóðanna

Leiðréttingin var kynnt undir yfirskriftinni „Sáttmáli kynslóðanna“ með lúðrablæstri á fundi leiðtoga ríkisstjórnarinnar í Hörpu haustið 2013. Næsta árið voru haldnir tveir slíkir fundir til viðbótar, sá síðasti í nóvember 2014.

Auglýsing

Á síðasta fundinum var farið yfir valin dæmi um hvernig Leiðréttingin átti að virka. Meðal annars var sýnt að 27.193 einstaklingar sem skulduðu undir tíu milljónum króna fengu niðurfellingu á skuldum sínum vegna aðgerðarinnar og að 30 prósent upphæðarinnar sem ríkissjóður greiddi út hafi varið til hjóna sem áttu meira en 25 milljónir króna í eigin fé í húsnæði sínu og einstaklinga sem sem áttu meira en ellefu milljónir króna í eigin fé.

Í þeim gögnum sem birt voru á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins samhliða kynningunni voru flestar upplýsingar hins vegar settar fram með hlutfallsbilum og ómögulegt var að sjá út skiptingu milli aldurs-, tekju- og eignahópa utan þeirra dæma sem valin voru sérstaklega við kynningu á niðurstöðum aðgerðarinnar. 

Stjórnarandstöðuþingmönnum þóttu þær upplýsingar sem veittar höfðu verið um skiptingu 80,4 milljarða króna af skattfé á milli hópa ekki nægjanlegar. Þann 11. nóvember 2014 lagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fram fyrirspurn á Alþingi í 15 liðum im Leiðréttinguna. Tæpum mánuði síðar barst svar frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Í svarinu var engum spurninga Katrínar svarað efnislega en svörum lofað á vorþingi 2015 með með fram­lagn­ingu sér­­stakrar skýrslu ráð­herra um aðgerð­ina. 

Málið olli nokkru upp­­­námi á Alþingi og svar­aði ráð­herra í kjöl­farið fimm af 15 spurn­ingum Katrínar 29. jan­ú­­ar 2015. Beðið var eftir frek­­ari svörum í fimm mán­uði til við­­bótar og 29. júní 2015 birti fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra svo skýrslu sína um lækkun höf­uð­stóls verð­­tryggðra hús­næð­is­veð­lána. Hún hafði upphaflega átt að birtast í desember 2014 og verið í „lokafrágangi“ frá því í maí 2015. 

Smá ljósi varpað á skiptingu

Skýrslan varpaði skýrara ljósi á því hvernig Leiðréttingin skiptist á milli þeirra sem hana fengu, en svaraði ekki öllum þeim spurningum sem fram höfðu verið lagðar.  Kjarninn þurfti að óska sérstaklega eftir tölum sem lágu á bak við skýringarmyndir sem birtar voru í skýrslunni til að fá geta áttað sig hvernig upphæðin skiptist á milli fólks eftir aldri, búsetu og tekjum. 

Að ein­hverju leyti voru upp­lýs­ing­arnar sem komu fram í skýrsl­unni end­ur­birt­ing á þeim upp­lýs­ingum sem birtar voru í Hörpu í nóv­em­ber 2014. Þar segir að um 94 þús­und ein­stak­lingar hafi átt rétt á að fá niðurfelldar verðtryggðar skuldir vegna verð­bólgu­skots­ins sem varð á Íslandi á árunum 2008 og 2009. Á þeim árum voru um 80 þús­und Íslend­ingar yngri en 18 ára. Ætla má að um 30 pró­sent þeirra barna séu börn „leið­réttra“ Íslend­inga. Því má segja að sá hópur sem hafi verið „leið­rétt­ur“ vegna verð­bólgu­skots eft­ir­hrunsár­anna telji um 117 þús­und manns. Með­al­fjöldi Íslend­inga árið 2008 og 2009 var 317.413 manns. Það þýðir að rúm­lega 200 þús­und Íslend­ingar eru „óleið­rétt­ir“.

Þar kom enn fremur fram að flestir sem sóttu um leiðréttingu voru um eða yfir fimmtugt. Þannig fengu þeir sem eru yfir 56 ára alls 26,4 milljarða króna úr ríkissjóði vegna aðgerðarinnar en þeir sem voru yngri en 35 ára 4,4 milljarða króna. Rúmlega 70 prósent útdeilds fjármagns fór til íbúa á höfuðborgarsvæðinu eða þeirra sem bjuggu á Suðvesturlandi. 

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 65 prósent frá 2010. Það er langt umfram verðbólgu frá hruni, líka þegar tillit er tekið til „leiðrétta“ timabilsins.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þá staðfesti skýrslan að tekjuhæstir fengu mest út úr Leiðréttingunni. Alls fékk tekju­hæsti hóp­ur­inn, þar sem heim­il­is­tekjur voru yfir 21,3 millj­ónir króna á ári, 10,4 millj­arða króna. Sá næst­tekju­hæsti fékk 9,4 millj­arða króna. Sam­tals fengu þessir hópar (þar sem mán­að­ar­legar með­al­tekjur voru ann­ars vegar tæp­lega 1,8 millj­ónir króna á mán­uði og hins vegar tæp­lega 1,2 til tæp­lega 1,8 millj­ónir króna á mán­uði) 19,8 millj­arða króna í leið­rétt­ingu. Með­al­upp­hæð leið­rétt­ing­ar­greiðslu var 7,6 pró­sent af árs­tekjum efsta bils­ins. Til sam­an­burðar nam heild­ar­upp­hæð leið­rétt­ingar 62 pró­sentum af árs­tekjum lægsta tekju­bils­ins sem fékk greiðslu vegna Leiðréttingarinnar.

Stóreignafólk fékk milljarða í Leiðréttingu

Engar upp­lýs­ingar eru um eignastöðu þeirra sem fá leið­rétt­ingu í skýrsl­unni. Þar mátti hins vegar sjá að tæpur þriðj­ungur þeirra heim­ila sem fengu gef­ins fé úr rík­is­sjóði í aðgerðinni skuld­aði undir tíu millj­ónum króna. Til að setja töluna í samhengi má benda á að meðalupphæð gerðs kaupsamnings vegna íbúðarkaupa á höfuðborgarsvæðinu síðustu rúmu þrjá mánuði er 44,6 milljónir króna. 

Það eina sem kemur fram um eignastöðu þiggj­enda er sú að alls hafi 1.250 manns sem greiddu auðlegðarskatt árið 2013 höf­uð­stólslækk­un. Til að borga auðlegðarskatt, sem nú hefur verið aflagð­ur, þurftu hjón að eiga meira en 100 millj­ónir króna í hreinni eign (ein­stak­lingur þurfi að eiga 75 millj­ónir króna). Alls fékk þessi stór­eign­ar­hóp­ur, sem er um fjórð­ungur allra þeirra sem greiða auðlegðarskatt, 1,5 millj­arð króna vegna Leiðréttingarinnar.

Til við­bótar kom fram að þau heim­ili sem skulduðu ekki lengur verð­tryggð hús­næð­is­lán, meðal ann­ars vegna þess að þau höfðu borgað þau upp, fengu svo­kall­aðan sér­stakan per­sónu­af­slátt í stað nið­ur­færslu á höf­uð­stól. Alls fékk sá hópur 5,8 millj­arða króna úr rík­is­sjóði. Í reiðu­fé.

Beiðni um frekari skiptingu

Í ljósi þess að skýrsla Bjarna svaraði ekki nema að hluta til þeim spurningum sem Katrín hafði óskað eftir svörum við lögðu tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar sameiginlega fram beiðni um nýja skýrslu. Beiðnin var fyrst lögð fram í júní 2015 og svo aftur í október sama ár. Seinni beiðnin var samþykkt 20. október 2015. 

Þing­­menn­irnir tíu fóru meðal ann­­ars fram á að fá að vita hvernig heild­­ar­­upp­­hæð leið­rétt­ing­­ar­inn­­ar, um 80,4 millj­­örðum króna, skipt­ist eftir tekjum á milli allra fram­telj­enda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækk­­unar eða ekki og hvernig heild­­ar­­upp­­hæðin dreif­ist á milli allra fram­telj­enda eftir hreinum eign­­um.

Spurn­ing­­arnar fimm sem stjórn­­­ar­and­­stöð­u­­þing­­menn­irnir vilja fá svör við eru eft­ir­far­andi:

  1. Hvernig skipt­ist heild­­ar­­upp­­hæð þeirrar fjár­­hæðar sem varið hefur verið til lækk­­unar verð­­tryggðra fast­­eigna­veð­lána ein­stak­l­inga milli beinnar höf­uð­stólslækk­­unar á fast­­eigna­veð­lánum ein­stak­l­inga og frá­­­drátt­­ar­liða, svo sem fast­­eigna­veð­krafna án veð­­trygg­inga, van­skila og greiðslu­­jöfn­un­­ar­­reikn­inga?
  2. Hverjir eru frá­­­drátt­­ar­lið­irnir og hver er skipt­ingin milli þeirra í krónum talið?
  3. Hvert er heild­­ar­hlut­­fall beinnar höf­uð­stólslækk­­un­­ar, þ.e. lækk­­unar höf­uð­stóls að und­an­­skildum frá­­­drátt­­ar­lið­um, af verð­­tryggðum fast­­eigna­veð­lán­um?
  4. Hvernig dreif­ist heild­­ar­­upp­­hæðin sem varið hefur verið til lækk­­unar verð­­tryggðra hús­næð­is­lána eftir tekjum á milli allra fram­telj­enda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækk­­unar eða ekki? Hvert er hlut­­fall heild­­ar­­upp­­hæð­­ar­innar sem skipt­ist niður á tekju­bil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi fram­telj­enda á bak við hvert tekju­bil?
  5. Hvernig dreif­ist heild­­ar­­upp­­hæðin sem varið hefur verið til lækk­­unar verð­­tryggðra hús­næð­is­lána á milli allra fram­telj­enda árið 2014 eftir hreinum eign­um, þ.e. eignum umfram skuld­ir? Hvert er hlut­­fall heild­­ar­­upp­­hæð­­ar­innar sem skipt­ist niður á eigna­bil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi fram­telj­enda á bak við hvert eigna­bil?

Katrín Jakobsdóttir lagði fram beiðni um nýja skýrslu um skiptingu Leiðréttingarinnar fyrir um fjórtán mánuðum síðan.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Síðan eru liðnir tæplega fjórtán mánuðir og ný skýrsla hefur enn ekki borist.

Ekkert gerst

Kjarninn spurðist fyrir um afdrif skýrslunnar í júní síðastliðnum. Í svörum ráðuneytisins kom fram að ekki væri hægt að fá upplýsingar um hvenær skýrslan yrði tilbúin en að hún yrði send Alþingi um leið og það gerðist. 

Þann 11. október síðastliðinn, rétt rúmum tveimur vikum fyrir kosningar, vakti Katrín Jakobsdóttir athygli á stöðu skýrslugerðarinnar á þingi. „Þessar upp­lýs­ingar hljóta að liggja fyrir og hæstv. ráð­herra gerði þá betur í því að skila bara auðu og segja að hann hafi ekki upp­lýs­ing­arnar ef hann hefur þær ekki. Þetta á auð­vitað að vera löngu kom­ið, herra for­seti. Þetta er ekki boð­leg­t,“ sagði Katrín. Hún sagði að henni hefði verið sagt að rekið hafi verið eftir skýrsl­unni í ráðu­neyt­inu. „Ég fer nú að velta því fyrir mér hvernig hæst­virtir ráð­herrar ætla að sinna skyldum sínum gagn­vart þing­inu þegar þeir kom­ast upp með það í heilt ár að svara ekki skýrslu­beiðni frá tíu þing­mönnum úr öllum stjórn­ar­and­stöðu­flokk­un­um.“ 

Oddný Harðardóttir, þá formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Katrínu og sagði vinnu­brögðin í mál­inu til hábor­innar skammar, að það skuli drag­ast í heilt ár að bregð­ast við skýrslu­beiðni um stærsta kosn­inga­lof­orð­ið. „Maður spyr sig þá hvort þarna séu spurn­ingar sem hæstv. fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra treysti sér ekki til þess að upp­lýsa um svörin við. Þarna er spurt um tekj­ur, eign­ir, hverjir fengu nið­ur­greiðsl­una. Er það ekki einmitt eins og bent hefur verið á að þarna var ríku fólki rétt rík­isfé og stuðn­ing­ur? Ég leyfi mér að full­yrða að þess vegna sé skýrslan ekki komin fram. Meðan ég fæ ekki aðrar skýr­ingar held ég mig við þessa.“ 

Einar K. Guð­finns­son, for­seti Alþing­is, sagð­ist þá ætla að kanna hvernig á þessu stæði og hvers vegna skýrslan væri ekki komin til Alþing­is.

Síðan hefur ekkert gerst.

Eigið fé fasteignaeigenda hefur tvöfaldast

Á vef Alþingis stendur nú um afdrif skýrslunnar að beiðni vegna hennar hafi verið leyfð en að skýrslan hafi ekki borist. Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um stöðu skýrslunnar og í svari þess, sem barst í dag, kemur fram að afgreiðsla skýrslunnar muni bíða nýrrar ríkisstjórnar. 

Það verður því enn nokkur bið á því að almenningur á Íslandi fái nákvæmlega að vita hvernig 80,4 milljarðar króna sem greiddir voru út úr ríkissjóði skiptist niður á landsmenn þrátt fyrir að rúm þrjú ár séu síðan að Leiðréttingin var kynnt í Hörpu. 

Þótt langt sé um liðið, og þegar sé búið að greiða út allt féð, þá skipta upplýsingarnar um skiptingu þess samt sem áður enn miklu máli. Ástæður á íslenskum húsnæðismarkaði eru nefnilega þannig að verð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum og hindrunum þeirra sem eru með lágar tekjur, eiga litlar eignir eða eru bara ungir inn á markaðinn hefur fjölgað mikið. Visitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem mælir hækkun á íbúðarverði, hefur til að mynda hækkað um 48,4 prósent frá árslokum 2009. Það þýðir að íbúð sem kostaði 30 milljónir króna í lok árs 2009 kostar nú tæplega 45 milljónir króna og þörf þeirra sem vilja kaupa fyrir eigið fé hefur vaxið úr sex milljónum króna í tæplega níu milljónir króna, sé miðað við 20 prósent eiginfjárframlag. Íbúðaverð hefur hækkað langt umfram verðbólgu frá hruni, meðal annars þá verðbólgu sem Leiðréttingin var greidd út vegna. Þá hafa vaxtakjör verðtryggðra lána lækkað til muna – meðal annars með innkomu lífeyrissjóða á þann markað – og hindrunum almennings til að skipta um fjármögnun fækkað. Þeir sem fengu leiðrétt en búa enn í verðtryggðu eigninni hafa því hagnast þrefalt á þróuninni hérlendis á undanförnum árum. Virði húsnæðis þeirra hefur hækkað langt umfram verðbólgu, þeir fengu niðurgreiðslu á lánum sínum vegna Leiðréttingarinnar og lánskjör þeirra hafa batnað til muna.

Á sama tíma hefur eftirspurn eftir húsnæði aukist mun hraðar en framboð, meðal annars vegna aukins fjölda ferðamanna. Bygging nýs íbúðarhúsnæðis er órafjarri því að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er eftir húsnæði. Afleiðingin er meðal annars sú að 42 prósent ungs fólks á aldrinum 20-29 ára á höfuðborgarsvæðinu býr nú í foreldrahúsum. Fyrir tíu árum var þetta hlutfall ríflega 30 prósent. Miklu fleiri í þessum aldurshópi búa í foreldrahúsum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Leiguverð hefur líka rokið upp. Í síðasta mánuði var meðalleiguverð í Reykjavík á þriggja herbergja 77 fermetra íbúð 170.670 þúsund krónur á mánuði. Í árslok 2011 kostaði leiga fyrir slíka íbúð 114.884 krónur. 

Á meðan að sífellt stærri hópur glímir við óyfirstíganlegar aðgangshindranir inn á húsnæðismarkað, hvort sem er eignar- eða leigumarkað, verða þeir sem eiga eignir á Íslandi sífellt ríkari. 

Samkvæmt tölum Ríkisskattstjóra var eigið fé landsmanna 2.813 milljarðar króna í lok árs 2015. Ári áður var það 2.443 milljarðar króna. Það jókst því um 370 milljarða króna á árinu 2015. Helsta ástæða þess að eigið fé flestra Íslendinga hefur aukist hratt á síðustu árum er gríðarleg hækkun á húsnæðisverði. Sú hækkun hefur haft áhrif á alla hópa samfélagsins, en þó hlutfallslega mest áhrif á þá sem höfðu eignast fasteignir en áttu lítið eða ekkert í þeim. Þorri eigna venjulegra íslenskra launamanna eru enda bundnar í fasteignum, þegar eign þeirra í lífeyrissjóðum er undanskilin. Frá árinu 2010, þegar fasteignamarkaðurinn náði botni sínum eftir hrunið, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 66 prósent. 

Á því tímabili hefur eigið fé þeirra Íslendinga sem eiga fasteignir tvöfaldast.

Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar