Í aðdraganda hrunsins ríkti ákveðið orkuæði á Íslandi. Það tók á sig ýmsar myndir. Ein var sú að íslenska ríkið ákvað að Landsvirkjun skyldi byggja 690 megawatta vatnsaflsvirkjun við Kárahnjúka til að sjá álveri Alcoa í Reyðarfirði fyrir mjög ódýrri raforku til ársins 2048.
Önnur var sú að áhættusæknustu fjárfestar á Íslandi og vafasöm pólitík, með milljarða króna í lánsfé frá Glitni, voru langt komin með að búa til útrásarfyrirtæki úr íslenskum orkuiðnaði þegar Geysi Green Energy og Reykjavík Energy Invest var slegið saman síðla árs 2007.
Samhliða var búið að skipuleggja virkjun allskyns auðlinda langt fram í tímann og kaupa túrbínur til að skapa orku úr þeim án þess að tilskilin leyfi eða fjármögnun lægju fyrir.
Við hrunið breyttist þetta allt. Öll þrjú orkufyrirtæki landsins fóru í ákveðna endurskoðun á stefnu sinni. HS Orka komst að nánast öllu leyti í hendur erlendra aðila sem höfðu ekki áhuga á að selja orku á slikk til erlendrar stóriðju, Orkuveita Reykjavíkur þurfti að leggja í erfiðan samdráttarleiðangur til að bjarga rekstri sínum eftir oflátungshátt síðari ára og Landsvirkjun fór að horfa á allt öðruvísi viðskiptavini, sem voru tilbúnir að borga hærra verð, en áður. Alþingi samþykkti meira að segja fyrstu rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða 14. janúar 2013. Með henni voru hugmyndir um orkunýtingu flokkaðar í nýtingar-, verndar- eða biðflokk og átti áætlunin að vera málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða.
Sá tími þegar alþjóðleg álfyrirtæki gátu komið til Íslands og gengið að ódýrri orku var liðinn. Svona hér um bil. Eftir stóð ein fortíðarsynd; orkusölusamningur sem HS Orka gerði við Norðurál vegna byggingu álvers í Helguvík. Samningurinn var svo lélegur fyrir HS Orku að staðfest var að hann gæti ekki skilað fyrirtækinu arðsemi. Það hefur eytt bróðurparti síðustu níu ára í að reyna að losna undan honum. Það tókst um síðustu mánaðarmót. Og með því hvarf pípudraumurinn um fleiri álver á Íslandi.
Pólitískur þrýstingur skapast
Lengi hefur verið nokkuð ljóst að ólíkleg sé að nýtt álver rísi á Íslandi. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú helsta er að heimsmarkaðsverð á áli er allt og lágt til þess að það borgi sig. Í júní 2013 var Júlíus Jónsson, þáverandi forstjóri HS Orku, í viðtali við Viðskiptablaðið. Þar sagði hann að álverð væri einfaldlega allt of lágt til að álver í Helguvík gæti borið sig og að virkjanir sem ráðast þyrfti í til að sjá því fyrir orku gætu orðið arðbærar. „Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp. Miðað við það sem þeir eru viljugir til að greiða fyrir orkuna þá gengur það ekki upp hjá okkur og miðað við það sem við þurfum að fá greitt þá gengur það ekki upp hjá þeim,“ sagði Júlíus.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem enn er iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var ekki sammála þessu mati. Á haustfundi Landsvirkjunar 2013 sagðist hún vera „orðin ansi óþreyjufull og ég vil fara að sjá árangur og að verkefnin verði að veruleika. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Ég get nefnt álverið í Helguvík, framkvæmd sem ekki bara mun skipta Suðurnesjamenn máli heldur landsmenn alla og hefur beðið allt of lengi“. Þess má geta að Ragnheiður Elín er sjálf af Suðurnesjunum.
Í desember 2013 svaraði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fyrir sig í viðtali við RÚV og sagði að heimsmarkaðsverð á áli þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent til þess að hægt yrði að ljúka samningum um raforkuframleiðslu fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Þá var heimsmarkaðsverð á áli, miðað við þriggja mánaða framvirka samninga, um 1.739 dalir á tonnið. Í dag er það 1.747 dalir á tonnið, eða nánast það sama.
Skóflustunga án þess að orka væri tryggð
Skóflustunga fyrirhugaðs álvers Norðuráls, í eigu Century Aluminum, í Helguvík, var tekin 6. júní 2008, eða fyrir rúmum níu árum síðan. Gangsetja átti álverið árið 2010, fyrir rúmum sex árum síðan. Fullbyggt álver í Helguvík átti að vera með framleiðslugetu á bilinu 270 til 360 þúsund tonn. Til þess að byggja stærri útgáfu þess þyrfti rúmlega 600 megawött af orku. Um 150 megawött áttu að koma frá HS Orku, sem undirritaði orkusölusamning þess efnis í apríl 2007. Orkuveita Reykjavíkur skuldbatt sig einnig til að selja orku til verkefnisins og hóf raunar afhendingu á henni á árinu 2011, þótt ekkert álver væri risið.
Samningurinn var, vægast sagt óhagstæður fyrir HS Orku. Fyrirtækið hefur nánast allan þann tíma sem liðin er frá undirritun hans reynt að losna undan samningnum. Fyrir því voru tvær ástæður. Sú fyrri er að hann var einfaldlega það slakur að samningurinn gat ekki skilað HS Orku arðsemi. Hin síðari sú að Norðurál var ekkert að flýta sér við að klára að byggja álverið í Helguvík og taka við orkunni.
Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, var spurður út í Helguvíkurálverið á fundi með fjárfestum í tilefni af hálfsársuppgjöri fyrirtækisins í júlí 2014. Þar sagði hann að það væri engin breyting á stöðu verkefnisins á milli ársfjórðunga. „Það sem við virkilega þurfum er að ríkisorkufyrirtækið, Landsvirkjun, standi upp í leiðtogahlutverk í þessu verkefni ef við ætlum að koma hlutunum í gang í náinni framtíð“. Það var því orðin forsenda þess að álverið myndi verða byggt að Landsvirkjun seldi til þess orku.
Líkt og áður sagði eru engar líkur á því. Til þess þyrfti heimsmarkaðsverð á áli að hækka um tugi prósenta auk þess sem Landsvirkjun telur sig einungis eiga til reiðu lítið brot af þeirri orku sem Helguvíkurálver þyrfti.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sló málið síðan enn frekar út af borðinu í lok september 2016 við sérstakar umræður á Alþingi. Þar sagði hann um fyrirhugað álver í Helguvík: „ Ég sé ekki að það álver sé að verða sér út um rafmagn. Það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því og að öðru leyti þá sé ég ekki að það sé afl til að stefna á slík verkefni á næstunni.“ Hann bætti við að hann sæi ekki fyrir sér að álverum muni yfir höfuð fjölga á Íslandi í framtíðinni.
Alltaf gott að vera vitur eftir á
Undanfarin ár hefur HS Orka reynt allt sem fyrirtækið getur til að losna undan samningnum, enda bindur hann þá orku sem mögulegt væri að fá út þeim virkjanakostum þess sem eru í nýtingarflokki. Og hann er nánast brjálæðislega óhagkvæmur. Ef HS Orka myndi selja Norðuráli orku til verkefnisins samkvæmt samningnum væri verðið sem fyrir fengist langt frá því að skila viðunandi arðsemi fyrir orkufyrirtækið. Gerðardómur í Svíþjóð staðfesti þann skilning í desember 2011.
HS Orka stefndi Norðuráli aftur fyrir gerðardóm í sumarið 2014 til að reyna að slíta samningnum. Norðurál tók til varna í því máli og vill endilega halda orkusölusamningnum í gildi, þrátt fyrir að málareksturinn kosti báða aðila hundruð milljóna króna og standi í veg fyrir að orka sem augljóslega er ekki að fara í álver í Helguvík nýtist í annarri uppbyggingu á Íslandi.
Niðurstaðan kom loks um síðustu mánaðamót. Hún var á þá leið að sökum tiltekinna kringumstæðna sé samningurinn ekki lengur í gildi og að lok samningsins séu ekki af völdum HS Orku. Þá var kröfum Norðuráls Helguvíkur í málinu hafnað. Fyrirtækið hefur þó ekki formlega slegið af áformin um að klára byggingu álversins. Í frétt á vef Norðuráls sem birtist 1. desember síðastliðinn var haft eftir Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, að niðurstaða gerðardómsins væru vonbrigði. „Við munum nú fara ítarlega yfir forsendur úrskurðarins og meta út frá því hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Þá munum við kanna hvort mögulegt sé að afla orku til verkefnisins í Helguvík eftir öðrum leiðum.“
Ragnheiður Elín, sem hafði barist hart fyrir álveri í Helguvík árum saman, viðurkenndi það í viðtali við RÚV 3. desember að líklega væri álver í Helguvík úr sögunni, þótt að ákvörðun um það væri ekki sín. Aðspurð hvort það hafi verið mistök að leggja ofuráherslu á byggingu álversins sagði hún: „Það er alltaf gott og auðvelt að vera vitur eftir á.“