Ein stjórn í myndinni og fylkingar farnar að myndast á þingi
Eina stjórnin sem forsvarsmenn stjórnmálaflokka eru að ræða um að alvöru er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir þrír mynduðu meirihluta ásamt Framsókn í lífeyrissjóðsmálinu.
Þrátt fyrir að 53 dagar séu liðnir frá því að þingkosningar fóru fram, og þrír stjórnmálaleiðtogar séu búnir að fá stjórnarmyndunarumboð, er engin ríkisstjórn í landinu. Sem stendur eru engar formlegar viðræður í gangi um myndun slíkrar en samtöl eru að eiga sér stað um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Flokkarnir þrír hafa tvívegis áður reynt að mynda ríkisstjórn. Þeir fóru í formlegar viðræður í nóvember eftir að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar. Þegar fulltrúar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar töldu ríkisstjórnina nánast í höfn sleit Bjarni viðræðunum 15. nóvember og bar fyrir sig að hann teldi hana ekki nægilega sterka – með sinn eins manns meirihluta – í ljósi þeirra efnahagslegu áskorana sem fram undan eru á næsta ári. Innan hinna flokkanna er sú skoðun hins vegar almenn að viðræðunum hafi verið slitið vegna tillögum um uppboðsleið í sjávarútvegi og andstöðu hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks við samstarf við Viðreisn, sem litið er á sem flokk svikara. Ástæðan er sú að Viðreisn er að hluta til stofnaður af fólki sem flúði Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópumála og skorts á framgangi frjálslyndra viðhorfa.
Eftir að reynt var að mynda fimm flokka ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna var reynt aftur við myndun DAC-ríkisstjórnarinnar, þó óformlega í þetta skiptið. Aftur virtust forsvarsmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vissir um að saman hefði náðst. Búið var að semja um innleiðingu ýmissa frjálslyndra stefnumála sem myndu hafa bein og sýnilega áhrif á íslenskan almúga og framsækna skattastefnu sem ætti að breyta því hvernig byrðarnar dreifðust án þess að auka skatttekjur ríkissjóðs.
Mánudaginn 28. nóvember virtist allt vera klappað og klárt. Þá breyttist afstaða Sjálfstæðismanna hins vegar aftur og í stað þess að mynda DAC-ríkisstjórnina bauð Bjarni Viðreisn stjórnarsamstarf með sér og Framsóknarflokknum, sem var hafnað. Heimildir Kjarnans herma að Bjartri framtíð hafi á sama tíma verið boðið að slíta samstarfi sínu við Viðreisn og reyna að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum. Því tilboði var líka hafnað. Í kjölfarið var viðræðunum hætt aftur.
Við tók önnur tilraun við að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri, sem fyrir lá allan tímann að mynda ekki hafast sökum óbrúanlegs bils milli Vinstri grænna og Viðreisnar í lykilmálum, sérstaklega skattamálum.
Bjarni hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn að fara aftur í viðræður um myndun stjórnar með Viðreisn og Bjartri framtíð. Og óformlegar viðræður um þá stjórn fóru fram um helgina og hafa haldið áfram í þessari viku. Innan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er eðlilega fyrirvari á viðræðunum í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvívegis áður slitið slíkum og reynt í kjölfarið af krafti við myndun ríkisstjórnar með öðrum flokkum. Þeim finnst þeir ekki sætasta stelpan á ballinu eins og er, heldur sú sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að sætta sig við.
Þreyta og þingstörf
Ástæða þess að umfjöllun um stjórnarmyndunarviðræður hefur kólnað er tvíþætt: Annars vegar er málið orðið ansi þvælt og þreytt, og stjórnmálaleiðtogarnir sem eru í hringiðu þess sömuleiðis. Hins vegar eru þingstörf hafin og þar er verið að takast á um mjög stór mál við nær einstæðar aðstæður.
Fjárlagafrumvarp var lagt fram í byrjun desember og þarf að samþykkjast fyrir áramót. Það var lagt fram að fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem situr enn þótt hún hafi ekki lengur þingmeirihluta. Þess vegna duga öll atkvæði þessara tveggja flokka ekki til að samþykkja fjárlagafrumvarpið. Og ljóst er að innan fjárlaganefndar, sem hefur frumvarpið til umfjöllunar, er ágreiningur.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður fjárlaganefndar, segir í Fréttablaðinu í morgun að hún muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu að óbreyttu. Það sé byggt á stefnu síðustu ríkisstjórnar og við það sé margt að athuga. Í ljósi yfirlýsinga og áherslna Vinstri grænna um mikla aukningu til velferðarmála og innviðauppbyggingu verður að teljast nær öruggt að þau muni einnig standa gegn frumvarpinu eins og það er núna.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar sem situr í nefndinni, gagnrýnir hins vegar frumvarpið á sama stað fyrir að vera „mjög bólgið.“ Það hvernig tekst að lenda fjárlagafrumvarpinu mun segja mikið til um hvers konar ríkisstjórn verður hægt að mynda.
Línur dregnar í lífeyrissjóðsmálinu
Tvö önnur mál eru til umfjöllunar á þinginu. Í öðru þeirra eru pólitískar línur farnar að myndast. Það snýst um frumvarp um breytingu á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) sem ætlað er að jafna lífeyrisréttindi í landinu. Málið byggir á samkomulagi við helstu stéttarfélög opinbera starfsmanna frá 19. september síðastliðnum. Vandamálið er að þau hafa nær öll nú snúist gegn frumvarpinu og aðilar samkomulagsins eru ósammála um túlkun á grundvallaratriðum í breytingum sem lúta að því hvernig lífeyriskjör verða tryggð til frambúðar og hvort þau geti talist jafnverðmæt fyrir og eftir breytingar. Þá ríkja miklar efasemdir um að laun opinberra starfsmanna verði jöfnuð við það sem er á almenna markaðnum, gefi þeir eftir betra lífeyriskerfi með ríkisábyrgð.
Þrátt fyrir þennan ágreining var frumvarpið lagt aftur fram í desember og það var afgreitt út úr efnahags- og viðskiptanefnd í gær nær óbreytt. Fjórir flokkar stóðu saman og mynduðu meirihluta um afgreiðslu frumvarpsins til annarrar umræðu: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. Hinir þrír flokkarnir skiluðu allir séráliti og ætla ekki að samþykkja frumvarpið að óbreyttu.
Meiri sátt er hins vegar um þriðja málið sem þarf að afgreiða: breytingar á lögum um kjararáð. Það frumvarp var afgreitt til annarrar umræðu á mánudag með atkvæðum allra nema fulltrúa Pírata. Fulltrúi þeirra leggur þó til að frumvarpið verði samþykkt með ákveðnum breytingum.
Flytur Sigurður Ingi áramótaávarpið?
Miðað við stöðuna eins og hún er nú verður að teljast óvíst, en ekki ómögulegt, að fjárlög verði afgreidd fyrir jól, þótt að dagskrá þingsins geri ráð fyrir því. Á meðan að sú vinna stendur yfir mun formleg stjórnarmyndunarviðræður vera á ís á meðan. Og litlar líkur eru á formlegum fundarhöldum á aðfanga- eða jóladag. Í ljósi þess að búið er að fara tvívegis í gegnum viðræður milli þeirra flokka sem líklegastir eru til að mynda ríkisstjórn þá ættu slíkar hins vegar að taka skamman tíma ef ákveðið verður að láta slag standa.
Ef þörf er á fjárlagavinnu milli jóla og nýárs mun myndun nýrrar ríkisstjórnar þó nær örugglega dragast fram yfir áramót. Og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, þá flytja áramótaávarp forsætisráðherra fyrir hönd minnihluta-starfsstjórnar sinnar.