Nýr tónn í ávörpum æðstu ráðamanna
Áherslur áramótaávarpa forseta og forsætisráðherra um áramótin 2015/2016 voru á mennina sem fluttu þau og þeirra verk. Áherslurnar nú voru allt aðrar.
Nýir menn fluttu áramótaávörp sem forsætisráðherra og forseti Íslands um liðna helgi. Sigurður Ingi Jóhannsson flutti sitt fyrsta áramótaávarp sem forsætisráðherra á gamlársdag, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði flutt þrjú síðustu ávörp á meðan að hann gegndi starfinu. Þá flutti Guðni Th. Jóhannesson, sjötti forseti lýðveldisins, sitt fyrsta nýársávarp í fyrradag. Áður hafði Ólafur Ragnar Grímsson flutt slík 20 ár í röð.
Töluverður áherslumunur var á ávörpum mannanna tveggja sem fluttu þau nú og hinna tveggja sem fluttu þau um síðustu áramót. Kjarninn tók saman það helsta úr áramótaávarpi forsætisráðherra árin 2015 og 2016 og úr nýársávarpi forseta Íslands sömu ár.
Peningastefna, staða íslenskunnar og óttinn við að sagan endurtaki sig
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra var ekki alveg öruggur með að flytja sitt fyrsta ávarp sem leiðtogi ríkisstjórnar, þar sem hann leiðir starfsstjórn sem hefur minnihluta atkvæða á bak við sig. Ef ný ríkisstjórn hefði verið mynduð á grundvelli niðurstöðu alþingiskosninga sem fram fóru 29. október fyrir lok síðasta árs þá hefði nýr forsætisráðherra flutt ávarpið. Daginn áður en það var flutt fékk Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, raunar formlegt stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands til að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Sigurður Ingi var hófsamur í áramótaávarpi sínu. Hann sagði að í haust hafi verið tímamót í hagsögu Íslands þegar að erlendar eignir landsmanna urðu í fyrsta sinn meiri en skuldir okkar. Sérstakrar aðgæslu væru þó þörf á uppgangstímum eins og þeim sem við nú lifum. Og mikil eyðsla leiði til þenslu og verðbólgu.
Mesta athygli í ávarpinu vöktu orð Sigurðar Inga um að endurskoða þyrfti peningastefnu Íslands heildstætt og hvort að það kerfi sem við styðjumst við nú sé best til þess fallið að viðhalda lágri verðbólgu og stöðugleika. „Ég óttast því miður að sagan gæti að einhverju leyti endurtekið sig þar sem gengi krónunnar hefur hækkað um tugi prósenta á aðeins nokkrum árum og stefnir nú hraðbyri á sömu slóðir og fyrir 2008,“ sagði Sigurður Ingi.
Stöðugt gengi skipti mestu máli og í huga starfandi forsætisráðherra væri mikil gengishækkun jafn skaðleg og gengislækkun. Leita þurfi nýrra lausna í peningamálum og hætta að leggja ofuráherslu á vexti. „Ég gæti nefnt þætti líkt og aðhald í ríkisfjármálum, sjóðasöfnun hins opinbera og einnig ýmislegt annað sem hefur verið tengt við hugtakið þjóðhagsvarúð þar sem meðal annars er hugað að útlánum fjármálastofnana[...]Grípa þarf í taumanna til að koma í veg fyrir frekari gengisstyrkingu sem mun gera íslenska framleiðslu ósamkeppnishæfa í útlöndum.“
Sigurður Ingi talaði einnig um stöðu íslenskunnar og sagði rétt að leggja við hlustir þegar fræðimenn töluðu um að raunveruleg hætta væri á því að tungumálið gæti dáið út. Þá nefndi hann einnig að Ísland ætti að vera í fararbroddi í loftlagsmálum þótt það yrði töluvert átak að ná þeim markmiðum sem sett voru í Parísarsamkomulaginu.
Hvatti landsmenn til að viðurkenna árangur sinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti sitt síðasta áramótaávarp, að minnsta kosti í bili, á gamlársdag 2015. Atburðir sem áttu sér stað í apríl 2016, í hinu svokallaða Wintris-máli, gerðu það að verkum að hann var knúinn til að segja af sér embætti og kosningum var flytt fram á haust.
Í ávarpinu lagði Sigmundur Davíð fyrst og síðast áherslu á þann góða árangur sem hann taldi ríkisstjórn sína hafa náð fyrir landsmenn. Þótt margir ættu við erfiðleika að stríða, og til þeirra ætti að hugsa, væri líka mikilvægt að minnast þess góða og láta það verða hvatningu til framfara.
„Árið 2015 reyndist farsælt fyrir íslensku þjóðina. Flest hefur gengið okkur í hag undanfarin misseri og betur en víðast hvar annars staðar.[...]Vel hefur tekist til með stór mál. Stutt er síðan skuldavandi stóð efnahagslegri framtíð landsins fyrir þrifum en nú hefur skuldahlutfall heimilanna lækkað það mikið og hratt að skuldir íslenskra heimila eru orðnar hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannalöndum okkar.
Uppgjör slitabúa bankanna og losun fjármagnshafta gerbreyta efnahagslegri stöðu okkar og möguleikum til framtíðar.[...]Á nýju ári ræðst hvort okkur auðnast að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefur náðst. Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel. Hluti af því er að við viðurkennum árangurinn og látum hann þannig verða okkur að hvatningu.“
Sigmundur Davíð sagði að þegar fólk upplifi velgengni, framfarir og árangur þá dragi það athyglina að undantekningunum. „En þegar það er árangurinn sem beinir athyglinni að undantekningunum væri synd að líta á undantekningarnar sem réttlætingu fyrir því að umbylta öllu, telja allt vonlaust og ætla að byrja frá grunni, gera eitthvað allt annað. Þegar gengur vel, mjög vel, gefast menn ekki upp og segja að fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi. Slíkt hefur alltaf endað illa.“
Forsætisráðherrann hvatti svo til þess að hið manngerða umhverfi, bæir og sveitir, yrðu gerð sífellt meira aðlaðandi og að arfleið víkingatímans yrði gert hærra undir höfði ásamt annarri sögu okkar og menningu.„Samfélag okkar virkar vel og í krafti þess getum við haldið áfram að bæta það. Mestu hætturnar sem við stöndum frammi fyrir eru kæruleysi, það að við lítum á árangurinn sem sjálfgefinn, og neikvæðni.“
Styrkur þjóðfélags ekki mældur í hagvexti heldur framkomu við þá sem minna mega sín
Guðni Th. Jóhannesson, sjötti forseti Íslands, flutti í fyrsta sinn nýársávarp á sunnudag. Þar var sleginn nýr tónn. Guðni Th. hóf ávarp sitt á því að fjalla stuttlega um þann tíma sem hann hefur setið í embættinu, en hann tók við því 1. ágúst síðastliðinn. Hann hafi upplifað að Íslendingar beri mikla virðingu fyrir embætti forseta Íslands en um leið megi hann ekki telja sig yfir aðra hafinn. Öllum sé hollt að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og sagði Guðni Th. að Helgi Björnsson hafi orðað það þannig í nýlegu dægurlagi: „Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert. Láttu það flakka, dansaðu í vindinum. Faðmaðu heiminn, elskaðu.“
Guðni Th. sagði að samfélag okkar hafi lengi verið einsleitt. Ekki væri langt síðan að Íslendingar voru nær allir í þjóðkirkjunni og öðrum kristnum trúfélögum, hvítir á hörund, áttu íslensku að móðurmáli og báru auðsýnilega íslenskt nafn. „Þetta er liðin tíð sem kemur ekki á ný. Framfarir um okkar daga byggjast á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi. Sömuleiðis væri heillaráð að kynna fyrir þeim sem hér vilja setjast að þau þjóðareinkenni sem hafa hjálpað okkur að komast af á hinu harðbýla landi okkar: þrautseigju og þrjósku, samstöðu þegar þörf krefur en sundurlyndi þess á milli, og þá blöndu af agaleysi og æðruleysi sem kemur okkur í vandræði en út úr þeim aftur – og má draga saman í orðtakinu góða: „Þetta reddast.““
Forsetinn sagði að hann hyggi að flestir Íslendingar séu einhuga um að meginstoðir okkar samfélags séu jafn réttur allra til grunnmenntunar og lækninga, óháð efnahag. „Sátt virðist líka ríkja um nauðsyn þess að heilbrigðis- og menntakerfi landsins standi undir nafni. Sé þannig að verki staðið er minni hætta en ella á því að fólk festist í fátækt og forlagafjötrum. Um leið eiga allir að geta spreytt sig, skarað fram úr, efnast, gert vel við sig og sína en goldið sanngjarnan skerf til samfélagsþarfa. Höfum þó í huga að aukin misskipting veldur sundrungu og spennu. Mannkyni mun aldrei farnast vel ef eitt prósent jarðarbúa á eins mikinn auð og hin 99 prósentin til samans. Ógn stafar af fjármagnsskipulagi sem örfáir stýra og tekur ekki mið af hagsmunum fjöldans. Þannig hafa Barack Obama Bandaríkjaforseti og vísindamaðurinn Stephen Hawking nýlega komist að orði og undir þessi sjónarmið má taka.“
Guðni Th. sagði að styrkur ríkis og þjóðfélags væri ekki metinn eftir hagvexti, þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Þótt að við Íslendingar fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta séu þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. „Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd. Í samanburði við mörg önnur ríki og okkar eigin fortíð megum við vel við una. En við getum ætíð gert enn betur.“
Taldi óhætt að stíga frá þar sem helstu áskoranir væru úr vegi
Ólafur Ragnar Grímsson flutti nýársávarp forseta Íslands í síðasta sinn fyrir einu ári og einum degi síðan. Hann hafði þá setið sem forseti í tæp 20 ár. Ávarpsins var beðið með mikilli eftirvæntingu enda hafi forsetinn gefið það út að hann myndi tilkynna um hvort hann ætlaði sér að sækjast eftir endurkjöri eða ekki í því.
Ávarp Ólafs Ragnars fjallaði framan af um embættið sjálft og þann fjölþætta vitnisburð sem árið 2015 hafði fært um trausta stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þar minntist Ólafur Ragnar sérstaklega á þing Hringborðs Norðurslóða og þau erlendu fyrirmenni sem höfðu annað hvort haldið ræður eða komið að þeim vettvangi en forsetinn fyrrverandi var sjálfur helsti hvatamaður vettvangsins.
Ólafur Ragnar rakti síðan fleiri ferðir sínar erlendis og sagði frá þeim vilja sem fram hefði komið hjá erlendum ríkjum að nýta kunnáttu Íslendinga og hæfni, t.d. í sjálfbærum veiðum og vinnslu og varðandi orkubúskap.
Hann snéri sér síðan að stemmningunni í samfélaginu og sagði: „Þótt erfiðleikar í kjölfar bankahrunsins, glíman við fjármálakreppuna og andstreymið sem við mættum víða hafi á stundum nánast þaggað niður umræður um ágæti Íslands og styrkleika þjóðarinnar, er áríðandi nú, þegar mestur vandinn er að baki, að við höldum til haga hinum góðu kostum, skiljum hve gjöful framtíðin getur reynst landsmönnum öllum og sækjum svo aukinn styrk í þá virðingu sem Íslendingar njóta víða um veröld.“
Ólafur Ragnar fór síðan yfir helstu auðlindir þjóðarinnar sem væru að verða sífellt verðmætari. Þær væri fiskistofnar, gæði landsins til að framleiða matvæli, orkan í iðrum jarðar, fegurð landsins, menning þess og ótrúlegur árangur Íslendinga í vísindum og tækni. „Allt eru þetta sterkir strengir í stöðu Íslands, burðarvirki í þeirri byggingu sem helguð er framtíð okkar.“
Í niðurlagi ávarps síns hvatti Ólafur Ragnar til þess að Íslendingar ættu að nýta bætta stöðu sína til að laga haf aldraðra og öryrkja og útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.
Þjóðinni hafi þó, þrátt fyrir allt, miðað vel og leyst úr flestum þeim þrautum sem vegferð hennar hefði fært henni í hendur. Sú óvissa sem mótaði afstöðu margra til forsetakjörs nokkrum árum áður væri ekki lengur fyrir hendi. Búið væri að leggja til hliðar aðild að Evrópusambandinu, uppgjör föllnu bankanna og afnám hafta væri senn í höfn og deilur um stjórnarskrána hefðu vikið fyrir sátt.
„Í ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs.
Nú er góður tími fyrir þjóðina að ganga með nýjum hætti til ákvörðunar um forseta; sess Íslands og innviðir þjóðlífsins eru traustari en um langan tíma. Þótt annar muni halda um forsetastýrið verð ég áfram reiðubúinn að sinna verkum á þjóðarskútu okkar Íslendinga; er á engan hátt að hverfa frá borði; verð ætíð fús að leggjast með öðrum á árar.“