Gríðarlegt umfang skattaskjólseigna Íslendinga
„Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni.“ Þetta segir í skýrslu starfshóps um umfang skattaskjólseigna, sem var birt í dag og varpar ljósi á skattaskjólseignir Íslendinga.
Það varð stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna í apríl á síðasta ári. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í september og kynnti hana í fjármálaráðuneytinu í byrjun október síðastliðins, en hún var ekki kynnt fyrir Alþingi fyrir kosningar. Kjarninn spurðist ítrekað fyrir um málið, og í nóvember var greint frá því að skýrslan kæmi fyrir nýtt Alþingi þegar það kæmi saman. Af því varð ekki, og Kjarninn sagði frá því fyrr í þessari viku að ekkert bólaði á skýrslunni þrátt fyrir að þing hafi komið saman í byrjun desember. Í dag var skýrslan svo gerð opinber, og hún hefur verið send til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Í starfshópnum áttu sæti Sigurður Ingólfsson, formaður, Andrés Þorleifsson frá Fjármálaeftirlitinu, Anna Borgþórsdóttir Olsen frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Björn R. Guðmundsson frá Hagstofu Íslands, Fjóla Agnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðmundur Sigbergsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurður H. Ingimarsson frá skattrannsóknastjóra og Sigurður Jensson frá ríkisskattstjóra. Starfsmaður hópsins var Íris H. Atladóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hópurinn tekur margsinnis fram í skýrslunni að erfitt sé að meta umfang og tap af aflandsfélögum, og að flestar rannsóknir af þessu tagi taki mörg ár, en ekki nokkrar vikur eins og hér var raunin. Þá tekur hópurinn fram að ljóst sé að þær tölur sem kynntar eru í skýrslunni séu aðeins bráðabirgðaniðurstöður og mun ítarlegri greiningar sé þörf. „Telur starfshópurinn að gagnlegt gæti verið að taka upp þráðinn aftur síðar og freista þess að taka á þeim mörgu álitamálum sem upp komu í vinnuferlinu að þessu sinni.“
Stökkbreyting í undanskotum
„Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni,“ segir í skýrslunni. Í henni sé reynt að rekja lauslega þá djúptæku aflandsvæðingu efnahagslífsins sem hafi fylgt þenslu á fyrsta áratug aldarinnar.
„Útrásin sem sést í tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins var ekki nema að hluta til eiginlegt eignarhald Íslendinga erlendis, heldur að miklu leyti það sem kalla mætti fram-og-tilbaka fjárfestingu, (e. round tripping). Það eru málamyndagjörningar sem ekki þjóna öðrum tilgangi en þeim að fela eignarhald, forðast skattgreiðslur og koma eignum úr seilingarfæri lánardrottna. Þar sem þróunin varð alls ólík á hinum Norðurlöndunum, sem búa við svipaðan lagaramma að öðru leyti, vaknar sú spurning óhjákvæmilega, hvort hægt hefði verið að draga úr eða komast hjá þessum mikla fjármagnsflótta með því að fylgja líkri stefnu og þau gerðu.“
Í skýrslunni segir að lengi hafi verið nokkuð um undanskot fjármuna á erlenda leynireikninga, en stökkbreyting varð á árunum fyrir hrun. Aflandsvæðingin á íslenskum eignum var að öðrum þræði „þjóðernissinnuð“ segja skýrsluhöfundar, vegna þess að aflandsfélögin fjárfestu í stórum stíl á Íslandi. Til dæmis var meirihluti úrvalsvísitölu Kauphallarinnar, eða 56%, í eigu aflandsfélaga í árslok 2007, eða um 1.500 milljarðar króna. Félögin voru að langmestu leyti í eigum Íslendinga, og það sama gilti um óskráð félög í aflandseignarhaldi. Á þessum tíma er líklegt að um 70 prósent eignasafns í eignastýringu íslensku bankanna í Lúxemborg hafi verið bundin í íslenskum hlutabréfum. Þetta var nátengt mikilli innlendri eignaverðsþenslu, útlánavexti og róttækri fjármálavæðingu íslensks samfélags á þessum tíma, segir í skýrslunni. Útlán banka tífölduðust á þesum tíma. „Eins og Panamaskjölin gefa til kynna var umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs einstakt í heiminum á þessum tíma. Aflvakinn var íslenska fjármálaundrið og drifkrafturinn skattahagræðing og virk markaðssetning íslenskrar sérbankaþjónustu í Lúxemborg.“
Í skýrslunni kemur einnig fram að rétt eins og Rannsóknarskýrsla Alþingis hafi leitt í ljós að ákveðin lausatök hafi verið í opinberri umgjörð um fjármálakerfið á þessum tíma fyrir hrun, virðist íslensk skattalög hafa gefið meira svigrúm til flutnings eigna úr lögsögunni með löglegum hætti en víða annars staðar, en eftirfylgni og gagnaskráning á þessu sviði hafi ekki haldið í við hraðan vöxt fjármagnsflutninga.
Bara þriðjungur félaga gefinn upp á Íslandi
Starfshópurinn skoðaði skattframtöl Íslendinga á árunum 2000 til 2015 með tilliti til arðgreiðslna af erlendri hlutafjáreign, og leiddi í ljós að framtaldar fjármagnstekjur sem má rekja til aflandsfélaga nema rúmum 30 milljörðum króna. Til viðbótar við það eru upplýsingar um að aðilar hafi selt og innleyst söluhagnað af aflandsfélögum fyrir hátt í 10 milljarða. Auk þess hafi verið talinn fram um milljarður í vaxtatekjur frá slíkum félögum.
Þá kemur fram að 1.629 aflandsfélög hafa fengið íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta.
„Það er eflaust stór hluti virkra aflandsfélaga í eigu Íslendinga, enda leituðu margir eigendanna fyrst og fremst að viðskiptatækifærum hér heima. Félögin í keyptum gögnum skattrannsóknastjóra voru aftur á móti 585 talsins. Þar er því um marktækt úrtak að ræða (36% af þýði). Við samanburð á keyptu gögnunum við skattframtöl kom á daginn að aðeins þriðjungur félaganna höfðu verið gefin upp á Íslandi. Segir það hlutfall auðvitað aðeins hálfa söguna, þar sem ekki er tryggt að umsvif hafi verið talin fram að fullu þótt upplýst hafi verið um félögin sjálf.“