Eigið fé sjávarútvegs aukist um 300 milljarða frá 2008
Hreinn hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 45 milljarðar króna á árinu 2015 og eigið fé rúmir 220 milljarðar króna í lok þess árs. Veiðigjöld fara hins vegar lækkandi en arðgreiðslur til eigenda voru 38,2 milljarðar króna árin 2013,2014 og 2015.
Eigið fé íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var rúmlega 220 milljarðar króna í lok árs 2015. Það var neikvætt um 80 milljarða króna í lok árs 2008 og jókst því um rúmlega 300 milljarða króna frá þeim tíma. Þá á eftir að taka tillit til þeirra 54,3 milljarða króna sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér út í arð frá byrjun árs 2010 og til loka árs 2015, enda hafa þeir peningar verið greiddir út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum til eigenda þeirra. Alls voru 38,2 milljarðar króna greiddir í arð árin 2013, 2014 og 2015.
Þegar sú upphæð er lögð saman við eigið féð hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um rúmlega 354 milljarða króna á örfáum árum. Upplýsingarnar um eigið fé sjávarútvegarins, bæði veiða og vinnslu, koma fram í nýjum hagtíðindum Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu árið 2015.
Hagnaðurinn 45,4 milljarðar á einu ári
Hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt á árinu 2015 var tæplega 70 milljarðar króna. Hreinn hagnaður sjávarútvegs var 45,4 milljarðar króna á því ári þegar búið var að standa skil á öllum kostnaði. Samanlagt skilaði íslenskur sjávarútvegur hreinum hagnaði upp á 287 milljarða króna á sjö ára tímabili, frá 2009 til loka árs 2015.
Veiðigjald útgerðarinnar fór úr 9,2 milljörðum fiskveiðiárið 2013/2014 í 7,7 milljarða fiskveiðiárið 2014/2015. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði og því er búið að taka tillit til þess þegar hreinn hagnaður er reiknaður út. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 voru þau áætluð 7,4 milljarðar króna og á yfirstandandi fiskveiðiári er það áætlað 4,8 milljarðar króna. Það er um átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013, þegar þau voru 12,8 milljarðar króna. Veiðigjöldin sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs hafa því lækkað um átta milljarða króna á sama tíma og fyrirtækin hafa hagnast með fordæmalausum hætti.
Eiginfjárhlutfallið 37,3 prósent
Í hagtíðindum Hagstofunnar kemur fram að samkvæmt efnahagsreikningi hafi heildareignir sjávarútvegs í árslok 2015 verið rúmir 590 milljarðar króna, heildarskuldir voru tæpir 370 milljarðar og eigið fé því rúmir 220 milljarðar. „Verðmæti heildareigna hækkaði um 2,7 prósent frá 2014 og fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 11,8 prósent. Skuldir lækkuðu um 4,9 prósent. Eiginfjárhlutfallið reyndist 37,3 prósent en var 32,3 prósent í árslok 2014. Eiginfjárhlutfallið hefur vaxið úr engu í 37,3 prósent síðastliðin 5 ár,“ segir enn fremur í úttektinni.
Ytri skilyrði voru atvinnuveginum mjög hagstæð á árinu 2015. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum hækkaði um 6,5 prósent frá fyrra ári og verð á olíu í íslenskum krónum lækkaði að meðaltali um 17 prósent á milli ára. Gengi dollarans styrkist um 12,9 prósent en gengi evrunnar seig um 5,5 prósent á milli ára. „Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild jókst um 8,5 prósent, og nam 265 milljörðum króna á árinu 2015, verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi hækkaði um rúm 7 prósent og magn útfluttra sjávarafurða jókst um rúmt 1 prósent.“
Um 7800 manns starfaði við sjávarútveg í heild árið 2015 sem er um 4,2 prósent af vinnuafli á Íslandi.
Greiða tugi milljarða í skatta og tryggingargjald
Til viðbótar við veiðigjald greiða sjávarútvegsfyrirtæki landsins einnig umtalsvert í tekjuskatt og tryggingargjald. Samkvæmt samantekt Deloitte um stöðu sjávarútvegarins, sem birt var í nóvember 2016, hafa tekjuskattsgreiðslur frá lokum árs 2009 til loka árs 2015 til að mynda numið samtals 36,5 milljörðum króna. Á sama tíma hefur útgerðin greitt 35,2 milljarða króna í tryggingargjald. Samtals námu bein opinber útgjöld sjávarútvegsfyrirtækjanna – veiðigjöld, tekjuskattur og tryggingargjald – 22,6 milljörðum króna árið 2015, sem er nákvæmlega sama upphæð og greidd var af þeim árið 2014 en um tveimur milljörðum minna en greitt var á árinu 2013.