Root

Sýrland er í raun ekki lengur til

Fram að arabíska vorinu var Sýrland leiðinlega, stöðuga ríkið í Miðausturlöndum. Þetta gífurlega söguríka menningarland er ekki lengur til, og það er ekkert sem bendir til annars en áframhaldandi stríðs þar, segir Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor.

„Það er ekk­ert sem bendir til þess að þessu stríði muni ljúka á þessu ári eða á næstu árum. Það sem við sjáum fram á er í raun og veru óend­an­legt stríð á þessu svæði, af því að það er mjög fátt sem hvetur fólk til þess að semja um frið,“ sagði Magnús Þor­kell Bern­harðs­son pró­fessor við Willi­ams-há­skóla í Banda­ríkj­unum undir lok fyr­ir­lest­urs síns um hags­muna­öflin í Sýr­landi, sem hann hélt í Háskóla Íslands í vik­unn­i. 

„Framundan er því miður áfram­hald­andi stríð, og það Sýr­land sem við þekkt­um, það Sýr­land sem var þetta gíf­ur­lega mik­il­væga menn­ing­ar­land, má kannski segja, að það er ekki lengur til­.“ 

Var alltaf leið­in­lega landið

Fram að arab­íska vor­inu árið 2011 var Sýr­land mjög stöðugt og í raun og veru leið­in­legt ríki, sagði Magn­ús, og þess vegna er svo skrýtið hvernig fyrir því er kom­ið. Stöð­ug­leik­inn og leið­indin voru aðdrátt­ar­aflið fyrir náms­menn eins og Magnús á þessum tíma, það gaf fólki mögu­leika á að kynn­ast landi og þjóð og ferð­ast um og læra arab­ísku. 

Eftir fimm ár af blóð­ugri styrj­öld, þar sem hálf milljón manna hefur látið lífið og um helm­ingur allrar sýr­lensku þjóð­ar­innar hefur þurft að flýja heim­ili sín, stendur ekki eftir burð­ugt sam­fé­lag. Áður bjó í Sýr­landi sterk milli­stétt­ar­þjóð, segir Magnús Þor­kell. Nú er staðan þannig að 80 pró­sent íbúa eru undir fátækt­ar­mörk­um, og þar af búa 70 pró­sent við sára fátækt. Atvinnu­leysið er 60 pró­sent og helm­ingur barna gengur ekki í skóla. Lífslík­urnar hafa styst um 20 pró­sent á aðeins fimm árum og löngu horfnir sjúk­dómar eins og tauga­veiki, löm­un­ar­veiki og kól­era grass­era á nýjan leik. Almennt eru það þeir sem gátu það sem eru flún­ir. Milli­stéttin og efri milli­stétt­in, fólkið sem átti vega­bréf og hafði þekk­ingu, pen­inga og sam­bönd til að kom­ast burt. 

Hin­ir, þeir fátæku, öldr­uðu og veiku, sitja hins vegar eft­ir. 

Hvernig gerð­ist þetta? 

Sögu­lega séð var Sýr­land ekki talið sér­stak­lega mik­il­vægt land fram á 21. öld, og Vest­ur­lönd skiptu sér ekki svo mikið af því. Þar var ekki olía eða gas. 

En af hverju braust út stríð? Fyrir því eru auð­vitað margar ástæð­ur, sagði Magn­ús. Sú fyrsta, og sú sem við tölum ekki mjög mikið um, eru umhverf­is­á­stæð­ur. Það voru miklir þurrkar sem leiddu til skorts á land­bún­að­ar­vörum á þessu svæði, og það leiddi til ólgu, sér­stak­lega meðal fólks í dreif­býli. „Inn­rásin í Írak 2003 og her­námið þar og óstöð­ug­leik­inn í Írak hefur haft gíf­ur­lega mikið að segja vegna þess að stríðið sem var háð í Írak hefur flust til Sýr­lands,“ sagði Magnús einnig. Þeir sem börð­ust gegn her­námi Banda­ríkj­anna í Írak hafa nú farið og barist í Sýr­landi, til dæmis fyrr­ver­andi her­menn. Þeir telja stjórn­völd í Írak ekki lög­mæt og telja sig ekki hafa neina fram­tíð í Írak. „Þeir hafa tekið byssur íraska hers­ins og nota þær í Sýr­land­i.“ 

Þriðja ástæðan eru etnískar deilur sem hafa auk­ist mjög á síð­ustu árum. Þar kemur inn í sam­keppni á milli stærstu þjóða súnníta, til dæmis Sádi-­Ar­ab­íu, og stærstu þjóða sjíta eins og Íran. „Nú er komið ein­hvers konar kalt stríð eða valda­bar­átta milli þess­ara þjóða um hvert er vold­ug­asta ríkið á Mið­aust­ur­lönd­um, hver á að stjórna Persafló­an­um, hver á að stjórna umferð­inni í Persafló­an­um, og að ein­hverju leyti teng­ist stríðið í Sýr­landi þessum deilum lík­a.“ 

Svo má ekki gleyma arab­íska vor­inu. „Það bjugg­ust allir við að það væri bylgja fram­fara og nútím­ans og frjáls­lyndra afla.“ Það tókst sums stað­ar, en í ljós kom að sterkir leið­tog­ar, og þeir sem höfðu völd­in, voru ekki alveg til í að gefa upp völdin sín. „Sér­stak­lega kom það okkur á óvart að Bashar al-Assad, for­seti Sýr­lands, skyldi bregð­ast svona ókvæða við.“

Assad og fjölskylda eins og þau birtust í Vogue.
Vogue

Bashar al-Assad átti aldrei að verða leið­togi Sýr­lands, heldur átti eldri bróðir hans að taka við af föður þeirra, en sá lést í bílslysi. Því kom það í hlut Bas­har, augn­læknis í Englandi, að taka við. „Við stóðum í þeirri mein­ingu að augn­lækn­ir­inn sjálfur myndi auð­velda Sýr­lend­ingum að sjá bet­ur, og við töldum að þegar þetta arab­íska vor hófst að hann myndi bara taka millj­arð­ana sína og flytja til Dúbaí eða Sádí-­Ar­abíu og búa í vellyst­ingum þar. Ekki standa í þessu ves­eni. En það kom okkur veru­lega á óvart að hann ákvað að nota þau völd og þær byssur og vopn sem honum stóð til boða og barð­ist vel og kröftu­lega gegn stjórn­ar­and­stæð­ing­um.“ 

Eitt af því sem flækti mál­in, segir Magn­ús, er að það var ekki mikið um stjórn­mála­öfl sem voru reiðu­búin að taka við, og það var engin eig­in­leg stjórn­ar­and­staða þegar upp­reisnin hófst. Margir tóku stjórn­ar­and­stöð­unni fagn­andi en gerðu ekki grein­ar­mun á því hverja þeir voru að styðja. Án þess að vita það fóru ýmsir utan­að­kom­andi að styðja stjórn­ar­and­stöð­una með ráðum og dáð og pen­ingum og vopn­um. 

Einn þessi hópur er hið svo­kall­aða íslamska ríki, sem náði vegna stjórn­leys­is­ins og flók­innar land­fræði, tals­verðu land­svæði í aust­ur­hluta Sýr­lands og vest­ur­hluta Íraks. 

Fylk­ingar breyt­ast dag­lega

Staðan er gíf­ur­lega flókin og á hverjum degi eru nýjar fylk­ingar að mynd­ast. Tyrkir byrj­uðu til dæmis á að vera á móti stjórn­völdum en hafa nú snú­ist í hálf­hring og styðja stjórn­völd. Með mik­illi ein­földun snýst stríðið ann­ars vegar milli Sýr­lands­stjórnar sem nýtur stuðn­ings Rúss­lands, Írans, Tyrk­lands og Hez­bollah í Líbanon. Svo er það íslamska ríkið og svo aðrir upp­reisn­ar­menn sem njóta kannski stuðn­ings Banda­ríkj­anna, Kúr­da, Katar, Ísr­ael og fleiri sem eru að reyna að berj­ast gegn for­set­an­um. 

Tyrkir, Rússar og Íranir eru mjög sér­stök heild og það er algjör­lega ný staða að þessi ríki skil­greini hags­muni sína sam­an. Það gera þeir af mis­mun­andi ástæð­um, en Magnús Þor­kell stað­næmd­ist sér­stak­lega við Tyrki og hvað í ósköp­unum vaki fyrir þeim. Lík­legt er að stjórn­völd í Tyrk­landi vilji fá land­svæði þarna undir sína stjórn, bæði í Írak og Sýr­landi. Þeir vilja líka halda Kúr­dum í skefj­u­m. 

Ríkin eru auð­vitað öll, eins og Magnús seg­ir, að gæta að sínum eigin hags­mun­um. Þau eru ekki að skipta sér af Sýr­landi af því að þau séu svo góð. Þró­unin sem orðið hefur í stríð­inu er að hluta til líka vegna þessa, vegna þess hversu margir aðilar koma inn í það með einum eða öðrum hætt­i. 

Mynd: EPA

Hefur sýnt van­mátt okkar

Vegna þess hversu flókin staðan er, hversu óstöðugt landið er, hversu veik­burða stjórn­völd eru og að upp­reisn­ar­hópar hafa tryggt stöðu sína er ekk­ert sem bendir til þess að stríð­inu ljúki í bráð, sagði Magn­ús. Fólk spái því jafn­vel að Sýr­land verði ein­hvers konar Sómal­ía, þar sem vissu­lega séu stjórn­völd, en þau ráði í raun ekki land­inu. Því verði áfram­hald­andi ófriður og ójafn­væg­i. 

„Það sem Sýr­lands­stríðið núna hefur sýnt okkur er hvað við erum van­máttug og getum í raun og veru lítið gert. Hvað eðli stríðs hefur breyst mik­ið, hvað til­tölu­lega fámennur hópur manna með byssur getur eyði­lagt ótrú­lega mikið og hvað geta stór­veldin í raun gert?“ Þá hafi stríðið líka vakið upp spurn­ingar um hvort við séum að sjá fram á enda­lok mann­rétt­inda í Mið­aust­ur­lönd­um, þar sem ný og gömul stjórn­völd hafi það eitt að mark­miði að tryggja eigin völd. „Eng­inn er að tala um mann­rétt­indi þessa fólks og hvernig við eigum að bregð­ast við. Við erum algjör­lega van­máttug að bregð­ast við glæpum gegn mann­kyni í Mið­aust­ur­lönd­um.“ 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórunn Elísabet Bogadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar