Sýrland er í raun ekki lengur til
Fram að arabíska vorinu var Sýrland leiðinlega, stöðuga ríkið í Miðausturlöndum. Þetta gífurlega söguríka menningarland er ekki lengur til, og það er ekkert sem bendir til annars en áframhaldandi stríðs þar, segir Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor.
„Það er ekkert sem bendir til þess að þessu stríði muni ljúka á þessu ári eða á næstu árum. Það sem við sjáum fram á er í raun og veru óendanlegt stríð á þessu svæði, af því að það er mjög fátt sem hvetur fólk til þess að semja um frið,“ sagði Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor við Williams-háskóla í Bandaríkjunum undir lok fyrirlesturs síns um hagsmunaöflin í Sýrlandi, sem hann hélt í Háskóla Íslands í vikunni.
„Framundan er því miður áframhaldandi stríð, og það Sýrland sem við þekktum, það Sýrland sem var þetta gífurlega mikilvæga menningarland, má kannski segja, að það er ekki lengur til.“
Var alltaf leiðinlega landið
Fram að arabíska vorinu árið 2011 var Sýrland mjög stöðugt og í raun og veru leiðinlegt ríki, sagði Magnús, og þess vegna er svo skrýtið hvernig fyrir því er komið. Stöðugleikinn og leiðindin voru aðdráttaraflið fyrir námsmenn eins og Magnús á þessum tíma, það gaf fólki möguleika á að kynnast landi og þjóð og ferðast um og læra arabísku.
Eftir fimm ár af blóðugri styrjöld, þar sem hálf milljón manna hefur látið lífið og um helmingur allrar sýrlensku þjóðarinnar hefur þurft að flýja heimili sín, stendur ekki eftir burðugt samfélag. Áður bjó í Sýrlandi sterk millistéttarþjóð, segir Magnús Þorkell. Nú er staðan þannig að 80 prósent íbúa eru undir fátæktarmörkum, og þar af búa 70 prósent við sára fátækt. Atvinnuleysið er 60 prósent og helmingur barna gengur ekki í skóla. Lífslíkurnar hafa styst um 20 prósent á aðeins fimm árum og löngu horfnir sjúkdómar eins og taugaveiki, lömunarveiki og kólera grassera á nýjan leik. Almennt eru það þeir sem gátu það sem eru flúnir. Millistéttin og efri millistéttin, fólkið sem átti vegabréf og hafði þekkingu, peninga og sambönd til að komast burt.
Hinir, þeir fátæku, öldruðu og veiku, sitja hins vegar eftir.
Hvernig gerðist þetta?
Sögulega séð var Sýrland ekki talið sérstaklega mikilvægt land fram á 21. öld, og Vesturlönd skiptu sér ekki svo mikið af því. Þar var ekki olía eða gas.
En af hverju braust út stríð? Fyrir því eru auðvitað margar ástæður, sagði Magnús. Sú fyrsta, og sú sem við tölum ekki mjög mikið um, eru umhverfisástæður. Það voru miklir þurrkar sem leiddu til skorts á landbúnaðarvörum á þessu svæði, og það leiddi til ólgu, sérstaklega meðal fólks í dreifbýli. „Innrásin í Írak 2003 og hernámið þar og óstöðugleikinn í Írak hefur haft gífurlega mikið að segja vegna þess að stríðið sem var háð í Írak hefur flust til Sýrlands,“ sagði Magnús einnig. Þeir sem börðust gegn hernámi Bandaríkjanna í Írak hafa nú farið og barist í Sýrlandi, til dæmis fyrrverandi hermenn. Þeir telja stjórnvöld í Írak ekki lögmæt og telja sig ekki hafa neina framtíð í Írak. „Þeir hafa tekið byssur íraska hersins og nota þær í Sýrlandi.“
Þriðja ástæðan eru etnískar deilur sem hafa aukist mjög á síðustu árum. Þar kemur inn í samkeppni á milli stærstu þjóða súnníta, til dæmis Sádi-Arabíu, og stærstu þjóða sjíta eins og Íran. „Nú er komið einhvers konar kalt stríð eða valdabarátta milli þessara þjóða um hvert er voldugasta ríkið á Miðausturlöndum, hver á að stjórna Persaflóanum, hver á að stjórna umferðinni í Persaflóanum, og að einhverju leyti tengist stríðið í Sýrlandi þessum deilum líka.“
Svo má ekki gleyma arabíska vorinu. „Það bjuggust allir við að það væri bylgja framfara og nútímans og frjálslyndra afla.“ Það tókst sums staðar, en í ljós kom að sterkir leiðtogar, og þeir sem höfðu völdin, voru ekki alveg til í að gefa upp völdin sín. „Sérstaklega kom það okkur á óvart að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, skyldi bregðast svona ókvæða við.“
Bashar al-Assad átti aldrei að verða leiðtogi Sýrlands, heldur átti eldri bróðir hans að taka við af föður þeirra, en sá lést í bílslysi. Því kom það í hlut Bashar, augnlæknis í Englandi, að taka við. „Við stóðum í þeirri meiningu að augnlæknirinn sjálfur myndi auðvelda Sýrlendingum að sjá betur, og við töldum að þegar þetta arabíska vor hófst að hann myndi bara taka milljarðana sína og flytja til Dúbaí eða Sádí-Arabíu og búa í vellystingum þar. Ekki standa í þessu veseni. En það kom okkur verulega á óvart að hann ákvað að nota þau völd og þær byssur og vopn sem honum stóð til boða og barðist vel og kröftulega gegn stjórnarandstæðingum.“
Eitt af því sem flækti málin, segir Magnús, er að það var ekki mikið um stjórnmálaöfl sem voru reiðubúin að taka við, og það var engin eiginleg stjórnarandstaða þegar uppreisnin hófst. Margir tóku stjórnarandstöðunni fagnandi en gerðu ekki greinarmun á því hverja þeir voru að styðja. Án þess að vita það fóru ýmsir utanaðkomandi að styðja stjórnarandstöðuna með ráðum og dáð og peningum og vopnum.
Einn þessi hópur er hið svokallaða íslamska ríki, sem náði vegna stjórnleysisins og flókinnar landfræði, talsverðu landsvæði í austurhluta Sýrlands og vesturhluta Íraks.
Fylkingar breytast daglega
Staðan er gífurlega flókin og á hverjum degi eru nýjar fylkingar að myndast. Tyrkir byrjuðu til dæmis á að vera á móti stjórnvöldum en hafa nú snúist í hálfhring og styðja stjórnvöld. Með mikilli einföldun snýst stríðið annars vegar milli Sýrlandsstjórnar sem nýtur stuðnings Rússlands, Írans, Tyrklands og Hezbollah í Líbanon. Svo er það íslamska ríkið og svo aðrir uppreisnarmenn sem njóta kannski stuðnings Bandaríkjanna, Kúrda, Katar, Ísrael og fleiri sem eru að reyna að berjast gegn forsetanum.
Tyrkir, Rússar og Íranir eru mjög sérstök heild og það er algjörlega ný staða að þessi ríki skilgreini hagsmuni sína saman. Það gera þeir af mismunandi ástæðum, en Magnús Þorkell staðnæmdist sérstaklega við Tyrki og hvað í ósköpunum vaki fyrir þeim. Líklegt er að stjórnvöld í Tyrklandi vilji fá landsvæði þarna undir sína stjórn, bæði í Írak og Sýrlandi. Þeir vilja líka halda Kúrdum í skefjum.
Ríkin eru auðvitað öll, eins og Magnús segir, að gæta að sínum eigin hagsmunum. Þau eru ekki að skipta sér af Sýrlandi af því að þau séu svo góð. Þróunin sem orðið hefur í stríðinu er að hluta til líka vegna þessa, vegna þess hversu margir aðilar koma inn í það með einum eða öðrum hætti.
Hefur sýnt vanmátt okkar
Vegna þess hversu flókin staðan er, hversu óstöðugt landið er, hversu veikburða stjórnvöld eru og að uppreisnarhópar hafa tryggt stöðu sína er ekkert sem bendir til þess að stríðinu ljúki í bráð, sagði Magnús. Fólk spái því jafnvel að Sýrland verði einhvers konar Sómalía, þar sem vissulega séu stjórnvöld, en þau ráði í raun ekki landinu. Því verði áframhaldandi ófriður og ójafnvægi.
„Það sem Sýrlandsstríðið núna hefur sýnt okkur er hvað við erum vanmáttug og getum í raun og veru lítið gert. Hvað eðli stríðs hefur breyst mikið, hvað tiltölulega fámennur hópur manna með byssur getur eyðilagt ótrúlega mikið og hvað geta stórveldin í raun gert?“ Þá hafi stríðið líka vakið upp spurningar um hvort við séum að sjá fram á endalok mannréttinda í Miðausturlöndum, þar sem ný og gömul stjórnvöld hafi það eitt að markmiði að tryggja eigin völd. „Enginn er að tala um mannréttindi þessa fólks og hvernig við eigum að bregðast við. Við erum algjörlega vanmáttug að bregðast við glæpum gegn mannkyni í Miðausturlöndum.“