Óflokkað

Engar tilkynningar vegna peningaþvættis í gegnum fjárfestingarleið

Peningaþvættisskrifstofu bárust engar tilkynningar um að fjárfestar sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hefðu verið að koma illa fengnu fé inn í landið. Bankar segjast allir hafa kannað viðskiptavini sína.

Allir við­skipta­bank­arnir fjórir litu svo á að það hefði verið í þeirra verka­hring að stað­festa áreið­an­leika við­skipta­manna sinna sem tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands. Þeir segj­ast allir hafa kannað þá fjár­festa úr við­skipta­manna­hópi sínum sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina með til­liti til laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Þrír bank­anna, Íslands­banki, Arion banki og Lands­bank­inn, vilja hins vegar ekki svara því hvort þau hafi sent ein­hverjar til­kynn­ingar til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu (Fin­ancial Intelli­g­ence Unit) vegna gruns um að ein­hverjir úr við­skipta­manna­hópi þeirra hafi þvættað pen­inga með því að nýta sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina. Einn banki, Kvika banki, seg­ist hins vegar ekki hafa sent neinar til­kynn­ingar til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu vegna þessa. Emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara, en pen­inga­þvætt­is­skrif­stofan heyrir undir það, segir að eftir því sem næst verður kom­ist þá hafi ekki borist neinar til­kynn­ingar frá fjár­mála­fyr­ir­tækjum vegna fjár­festa sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina.

Inn­lendir komu með 35 pró­sent af 200 millj­örðum

Alls fóru fram 21 útboð eftir fjár­­­fest­inga­­leið­inni frá því í febr­­úar 2012 til febr­­úar 2015, þegar síð­­asta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 millj­­ónir evra til lands­ins á grund­velli útboða fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­­ar­inn­­ar, sem sam­svarar um 206 millj­­örðum króna. f þeir sem komu með þennan gjald­eyri til Íslands hefðu skipt þeim á opin­beru gengi Seðla­­bank­ans, líkt og venju­­legt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 millj­­arða króna fyrir hann. Virð­is­aukn­ingin sem fjár­­­fest­inga­­leiðin færði eig­endur gjald­eyr­is­ins í íslenskum krónum var því 48,7 millj­­arðar króna. 

794 inn­­­lendir aðilar komu með pen­inga inn í íslenskt hag­­kerfi í gegnum útboð fjár­­­fest­ing­­ar­­leiðar Seðla­­banka Íslands. Pen­ingar þeirra námu 35 pró­­sent þeirrar fjár­­hæðar sem alls komu inn í landið með þess­­ari leið, en hún tryggði um 20 pró­­sent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir pen­ing­anna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 millj­­arða króna fyrir þann gjald­eyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur sam­­kvæmt skil­­málum útboða fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­­ar­inn­­ar. Afslátt­­ur­inn, eða virð­is­aukn­ing­in, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjald­eyr­inum á skráðu gengi Seðla­­bank­ans er um 17 millj­­arðar króna. 

Kom illa fengið fé inn í landið í gegnum leið­ina?

Í skýrslu starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­svæð­um, sem birt var í byrjun jan­ú­ar, er fjallað um fjár­­­fest­ing­­ar­­leið Seðla­­banka Íslands og því meðal ann­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­magn­inu frá aflands­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­ina.

Orð­rétt segir í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­lýs­inga um fjár­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­taka í fjár­­­fest­ing­­ar­­leið Seðla­­bank­ans er ekki til stað­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­bank­ans þegar um grun­­sam­­legar fjár­­­magnstil­­færslur er að ræða. Æski­­legt má telja að sam­­starf væri um miðlun upp­­lýs­inga á milli þess­­ara stofn­ana.“

Kjarn­inn beindi fyr­ir­spurn til Seðla­banka Íslands um málið í kjöl­far­ið. Í svari hanssegir bank­inn að hann hafi ekki sent neinar til­kynn­ingar vegna gruns um pen­inga­þvætti þeirra sem nýttu sér fjár­­­fest­ing­­ar­­leið hans á meðan hún var opin á árunum 2012-2015. Alls komu 206 millj­­arðar króna til lands­ins í gegnum leið­ina og virð­is­aukn­ing þeirra sem hana nýttu var tæp­­lega 50 millj­­arðar króna. Seðla­­bank­inn sagð­ist enn fremur ekki haft neinar laga­heim­ildir til að velja eða hafna þátt­tak­endum sem tóku þátt í fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­inni á grund­velli þess frá hvaða land­­svæði þeir komu, hvort sem það var aflands­­svæði eða ekki.

Sam­kvæmt svari Seðla­­bank­ans áttu þau fjár­­­mála­­fyr­ir­tæki sem voru milli­­liðir þeirra sem nýttu sér fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­ina átt að kanna hvort um mög­u­­legt pen­inga­þvætti væri að ræða. Seðla­­bank­inn sjálfur hefði engum skyldum að genga í því til­­liti.

Þrír bankar upp­lýsa ekki um til­kynn­ingar

Kjarn­inn beindi því fyr­ir­spurn til við­skipta­bank­anna fjög­urra um hvernig eft­ir­liti með við­skipta­mönnum þeirra sem tók þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni, og eftir atvikum til­kynn­ingum til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu, væri hátt­að.Fjárfestingarleið Seðlabankans stóð yfir í þrjú ár og það komu rúmlega 200 milljarðar króna til landsins í gegnum hana. Már Guðmundsson er seðlabankastjóri.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Íslands­banki segir í svari sínu að bank­inn kanni alla við­skipta­vini sína með til­liti til laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka og „stað­festi það við Seðla­bank­ann með því að hafa milli­göngu um ein­stök við­skipt­i.“ Bank­inn vill ekki svara því til hvort hann hafi sent ein­vverjar til­kynn­ingar til peninga­þvætt­is­skrif­stofu en segir að hann sendi alltaf „slíkar til­kynn­ingar ef grunur vaknar um að fjár­magns­færslur séu tengdar slíkri starf­sem­i.“

Arion banki segir að hann fram­kvæmi áreið­an­leika­könnun á öllum sínum við­skipta­vinum í sam­ræmi við lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Í svari bank­ans er stað­fest að slík könnun hafi farið fram á þeim við­skipta­mönnum sem tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans. Arion banki telur sig hins vegar óheim­ilt að upp­lýsa um hvort til­kynn­ingar hafi verið sendar til lög­reglu.

Lands­bank­inn seg­ist hafa gert áreið­an­leika­könnun á þeim við­skipta­vinum Lands­bank­ans sem fóru þessa leið eins og lög gera ráð fyr­ir. „Ef grunur leikur á lög­brotum er það til­kynnt til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu hér­aðs­sak­sókn­ara. Lands­bank­inn veitir ekki upp­lýs­ingar um hvort grunur hafi vaknað um lög­brot eða hversu margar til­kynn­ingar bank­inn hefur sent vegna slíks gruns.“

Kvika segir að bank­inn stað­festi áreið­an­leika við­skipta­manna sem tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni og að hann hafi verið kann­aður hjá þeim við­skipta­mönnum sem tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni. Kvika er eini bank­inn sem svarar því hvort að hann hafi sent ein­hverja til­kynn­ingu til Pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu vegna gruns um pen­inga­þvættis við­skipta­manna hans. Svarið er ein­falt: nei.

Engar til­kynn­ingar borist

Pen­inga­þvætt­is­skrif­stofan heyrði áður undir rík­is­lög­reglu­stjóra. Hún flutt­ist yfir til emb­ættis sér­staks sak­sókn­ara á miðju ári 2015 og sú starf­semi rann síðar inn í emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara þegar það var stofnað ára­mótin 2015-2016.  Út­boð eftir fjár­fest­ing­ar­leið­inni fóru fram frá febr­úar 2012 til febr­úar 2015, þegar skrif­stofan heyrði enn undir rík­is­lög­reglu­stjóra.

Í svari Ólafs Þórs Hauks­sonar hér­aðs­sak­sókn­ara við fyr­ir­spurn Kjarn­ans segir að einn starfs­maður hafi flust yfir með pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni frá rík­is­lög­reglu­stjóra á sínum tíma. Sá starfs­maður hefur nú látið af störf­um. „ Á þeim tíma sem fjár­fest­inga­leið Seðla­bank­ans var starf­rækt var pen­inga­þvætt­is­skrif­stofan hjá rík­is­lög­reglu­stjóra en ekki hjá sér­stökum sak­sókn­ara eða hér­aðs­sak­sókn­ara.  Svör emb­ætt­is­ins eru því sett fram með þeim fyr­ir­vara. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni ekki borist til­kynn­ingar frá fjár­mála­fyr­ir­tækjum vegna fjár­festa sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina.“

Tíu stað­reyndir um fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar