EPA

Karlalandsliðið fékk 846 milljónir í bónus vegna EM

Evrópumótið í knattspyrnu gjörbreytti efnahag KSÍ, sem var þó góður fyrir. Veltan fór úr rúmum milljarði króna í um þrjá milljarða og rekstrarhagnaður var um 861 milljónir króna. Það er svipuð upphæð og leikmenn og þjálfarar fengu í bónusgreiðslur vegna m

Velta Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) tæplega þrefaldaðist á árinu 2016, bónusar til leikmanna og þjálfara A-landsliðs karla námu 846 milljónum króna og greiðslur til aðildarfélaga fjórfölduðust. Þetta kemur fram í ársreikningi sambandsins sem birtur var í gær.

Alls námu tekjur sambandsins rúmum þremur milljörðum króna en þær voru um 1,1 milljarður króna árið 2015. Þessi aukna velta skilaði því að rekstrarhagnaður KSÍ var 861 milljón króna á síðasta ári en hann hafði verið 156 milljónir króna árið áður. Þegar búið var að taka tillit til greiðslu til aðildarfélaga KSÍ var hagnaður sambandsins samt sem áður 317 milljónir króna, en hann hafði verið um tíu milljónir króna árið áður. Það þýðir að eignir KSÍ hafa vaxið um 338 milljónir króna á milli ára og standa í rúmum milljarði króna. Óráðstafað eigið fé var 539 milljónir króna um síðustu áramót.

Ástæðan er fyrst þátttaka íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi í fyrrasumar og síðan góður árangur liðsins á mótinu. Helsta tekjulind KSÍ eru styrkir frá UEFA og umfang þeirra er beintengd árangri. Þannig hækkuðu styrkir og framlög um tæpa tvo milljarða króna á árinu 2016.

846 milljónir króna í bónus

Þátttökunni fylgdi líka aukin kostnaður. Þannig jókst kostnaður við rekstur landslið úr 448 milljónum króna árið 2015 í um 1,6 milljarð króna í fyrra. Þar munaði mest um A-landsliðin en rekstrarkostnaður þeirra fór úr 287 milljónum króna í 1,4 milljarð króna. Kostnaður vegna reksturs A-landsliðs karla á Evrópumótinu námu um 1,1 milljarði króna. Stóru stærðirnar í þeim kostnaði eru tvær: annars vegar nam flug- og dvalarkostnaður íslenska liðsins um 250 milljónum króna og hins vegar námu greiðslur til leikmanna og þjálfara vegna þátttöku þeirra í mótinu 846 milljónum króna. Til viðbótar námu laun og launatengd gjöld til starfsmanna KSÍ 164 milljónum króna og hækkuðu um 28 milljónir króna milli ára. Þar af fengu Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og Geir Þorsteinsson, formaður sambandsins, samtals 33,4 milljónir króna.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins, og félagar hans fengu dágóða summu hver fyrir frábæran árangur á EM í sumar.
Mynd: EPA

Þátttakan í Evrópumótinu margfaldaði þau framlög sem aðildarfélög KSÍ fá úr sjóðum sambandsins. Árið 2015 skiptu þau á milli sín 147 milljónum króna en í fyrra nam sú upphæð 561 milljónum króna.

Framlög frá ÍSÍ og getraunum 1,7 prósent af tekjum

KSÍ er langstærsta sérsambandið á Íslandi og tekjur þess meiri en samanlagðar tekjur allra annarra sérsambanda. Líkt og áður sagði skiptir þar mestu máli að KSÍ fær háa styrki frá UEFA og FIFA auk þess sem sjónvarpstekjur þess eru háar. Alls komu níu af hverjum tíu krónum sem skiluðu sér í kassann hjá KSÍ í fyrra úr þessum þremur liðum og þar munaði langmest um 2,2 milljarða króna styrk frá UEFA.

Í ljósi þessarar sterku stöðu hefur verið uppi krafa hjá öðrum sérsamböndum um að KSÍ fari út úr ÍSÍ og leyfi öðrum ­sér­sam­böndum sem eiga mun erf­ið­ara með að láta enda ná saman og sækja að njóta þeirra tekna sem til falla vegna styrkja rík­is­sjóðs og hlut­deildar sér­sam­banda í get­raun­ar­tekj­u­m. Á árinu 2016 fékk KSÍ fái 46 millj­ónir króna fram­lag frá ÍSÍ og 5,5 millj­ónir króna ­vegna íslenskra get­rauna. Sam­an­lagt er þessi tala, 51,5 millj­ónir króna, 1,7 ­pró­sent af tekjum KSÍ og ljóst að þær skipta sam­bandið ekki öllu máli. Þetta er hins vegar fé sem gæti skipt sköpum hjá mörgum minni sér­sam­bönd­um.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar