Vilja að ríkið greiði hluta af launum sjómanna
Útgerðarfyrirtæki vilja að íslenska ríkið taki þátt í launakostnaði sjómanna. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist um 300 milljarða á örfáum árum og þau eru örlát á styrki til valdra stjórnmálaflokka.
Mikill þrýstingur er frá útgerðarfyrirtækjum um að ríkið beiti sér í kjaradeilu milli þeirra og sjómanna. Þau vilja að ríkið stígi inn í annað hvort með lagasetningu á deiluna eða með því að taka með einhverjum hætti þátt í þeim viðbótarkostnaði sem samningar við sjómenn munu kosta. Sjómenn áætla að viðbótarkostnaðurinn sé um þrír milljarðar króna á ári en útgerðin telur að hann sé nærri fjórum milljörðum króna. Helst birtist sú krafa í því að sjómannaafsláttur, eða sambærilegt fyrirkomulag, verði tekinn aftur upp og að ríkissjóður taki þannig þátt í með beinum hætti að greiða laun sjómanna.
Þessi skoðun kom til að mynda fram í viðtali við Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar sagði Guðmundur, sem stýrir einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, að hann vilji að sjómenn njóti dagpeningagreiðslna en skattafrádráttur er heimill á móti slíkum greiðslum.
Ríkisstjórnin útilokar sértækar aðgerðir
Afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart kjaradeilu sjómanna hefur verið skýr. Sértækar aðgerðir af hálfu hins opinbera koma ekki til greina. Það þýðir að hvorki stendur til að setja lög á verkfall sjómanna né að láta ríkissjóð borga hluta af þeim kostnaði sem samþykkt krafna sjómanna myndi þýða.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kom því skýrt á framfæri í Silfrinu á RÚV á sunnudag að það væri ekki til umræðu að taka upp sjómannaafsláttinn á ný.
En hvað er þessi sjómannaafsláttur? Hann var skattaafsláttur sem sjómenn fengu í 60 ár. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað árið 2009 að afnema afsláttinn í skrefum og var hann að fullu afnuminn í byrjun árs 2014. Árið 2008 var sjómannaafslátturinn um 1,1 milljarður króna á þávirði og dreifðist á um sex þúsund sjómenn. Síðan þá hafa ýmsir stjórnmálamenn kallað eftir því að afslátturinn verði endurvakinn.
Ótrúleg staða íslensks sjávarútvegs
Ástæða þess að sjómannaafslátturinn var afnuminn á sínum tíma var sá að ekki þótti réttlætanlegt að íslenska ríkið væri að niðurgreiða laun í einkareknum atvinnugeira sem stæði ákaflega vel.
Það er erfitt að sjá á tölum að sú röksemdarfærsla eigi ekki enn við. Íslenskur sjávarútvegur hefur aldrei verið jafn vel stæður. Hreinn hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 45 milljarðar króna árið 2015 og eigið fé hans í lok þess árs rúmir 220 milljarðar króna. Eigið féð hafði verið neikvætt um 80 milljarða króna í lok árs 2008 og því hefur það aukist um rúmlega 300 milljarða króna frá lokum hrunsársins og til loka árs 2015. Þá á eftir að taka tillit til þeirra 54,3 milljarða króna sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja greiddu sér í arð frá byrjun árs 2010 og til loka árs 2015. Þeir peningar hafa verið teknir út úr rekstrinum og eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna notað þá til annarra fjárfestinga. Mestur voru arðgreiðslurnar á þriggja ára tímabili, 2013-2015, þegar þær voru samtals 38,2 milljarðar króna.
Þegar arðgreiðslurnar eru lagðar saman við eigið féð hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um rúmlega 354 milljarða króna á örfáum árum. Inn í þessar tölur vantar árið 2016 en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) gera ráð fyrir að framlegð hafi verið 61,5 milljarðar króna (var 70 milljarðar króna árið 2015) og að hún verði 43 milljarðar króna árið 2017. Ástæður þess að hún dregst saman eru fyrst og fremst vegna ytri aðstæðna (hækkun olíuverðs og Brexit) og hins vegar vegna styrkingar krónunnar. Þrátt fyrir versnandi skilyrði mun geirinn samt sem áður skila mjög mikilli framlegð og hagur, að minnsta kosti stærstu útgerðarfyrirtækjanna, halda áfram að vænkast hratt.
Veiðigjöld dregist mikið saman
Samhliða þessu fordæmalausa hagnaðarskeiði sjávarútvegs á Íslandi hafa veiðigjöld sem atvinnugreinin greiðir í ríkissjóð lækkað mikið. Veiðigjald útgerðarinnar fór úr 9,2 milljörðum fiskveiðiárið 2013/2014 í 7,7 milljarða fiskveiðiárið 2014/2015. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði og því er búið að taka tillit til þess þegar hreinn hagnaður er reiknaður út.
Á fiskveiðiárinu 2015/2016 voru þau áætluð 7,4 milljarðar króna og á yfirstandandi fiskveiðiári eru gjöldin áætluð 4,8 milljarðar króna. Það er um átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013, þegar þau voru 12,8 milljarðar króna. Til viðbótar við veiðigjöld greiða sjávarútvegsfyrirtæki landsins einnig umtalsvert í tekjuskatt og tryggingargjald. Samtals námu bein opinber útgjöld sjávarútvegsfyrirtækjanna – veiðigjöld, tekjuskattur og tryggingargjald – 22,6 milljörðum króna árið 2015, sem er nákvæmlega sama upphæð og greidd var af þeim árið 2014 en um tveimur milljörðum minna en greitt var á árinu 2013.
Vilja inngrip ríkisins
Þrátt fyrir þetta er uppi mjög hávær krafa um að ríkið stígi inn í deiluna með einhverjum hætti. Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og formaður atvinnuveganefndar, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hann vildi „ekki útiloka það að ríkið kunni að þurfa að grípa inn í þetta með einhverjum hætti og það er hægt með öðrum hætti en með lagasetningu. Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu.“ Páll bætti við að hann væri ekki talsmaður þess að sjómannaafslátturinn yrði tekinn upp á ný í þeirri mynd sem hann var en að honum fyndist koma til greina að „skoða þann hluta af fæðispeningum sjómanna sem má líta á eins og dagpeninga annarra stétta, þ.e.a.s. kostnaður sjómanna sem hlýst af því að þeir geta ekki borðað heima hjá sér og þurfa að borga fyrir fæðið annars staðar. Aðrar stéttir, þ.m.t. opinberir starfsmenn, hafa dagpeninga sem eru skattlausir að þessu leyti.“
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir með Páli og sagði að það væri hægt að stíga inn í deiluna með því að nota skattkerfið til að „liðka fyrir“. Þegar Gunnar Bragi var spurður hvort hann væri að tala um sjómannaafslátt eða eitthvað slíkt, svaraði hann:
„Já til dæmis eitthvað slíkt.“
87 prósent styrkja úr sjávarútvegi til Sjálfstæðisflokks og Framsóknar
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa lengi verið mjög áberandi á meðal þeirra sem styrkja stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Enginn einn atvinnuvegur styður meira við starfsemi íslenskra stjórnmálaflokka en útvegurinn. En það er mjög mismunandi hversu vel hann styður við flokka, og helgast það af mjög ólíkri afstöðu íslenskra stjórnmálaflokka til þess hvernig kerfi er utan um íslenskan sjávarútveg og hvað hann eigi að greiða hátt gjald til samneyslunnar fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Og það eru fyrst og síðast þingmenn þeirra flokka sem fá hæstu framlögin frá sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru að kalla eftir að ríkið beiti sér í kjaradeilu útgerðarfyrirtækja og sjómanna.
Ríkisendurskoðun heldur utan um upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka og prófkjörsþátttakenda. Í útdrætti úr ársreikningi Sjálfstæðisflokks vegna ársins 2015 sem er að finna á vef stofnunarinnar kemur til að mynda í ljós að fyrirtæki tengd sjávarútvegi styrktu flokkinn um tæplega 7,6 milljónir króna á því ári. Um er að ræða 40 prósent af öllum styrkjum sem flokkurinn fékk frá lögaðilum á því ári.
Framsóknarflokkurinn hefur einnig notið góðs af styrkjum frá sjávarútvegnum. Á árinu 2015 kom um helmingur allra styrkja lögaðila til flokksins, alls um 5,2 milljónir króna, frá sjávarútvegsfyrirtækjum.
Samfylkingin fékk einnig sinn skerf af sjávarútvegsstyrkjum. Samtals sjö lögaðilar tengdir sjávarútvegi gáfu flokknum tæpar tvær milljónir króna á árinu 2015. Það er um 40 prósent af öllum styrkjum sem flokkurinn fékk á því ári. Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð þáðu ekki styrki frá lögaðilum á árinu 2015, og fengu þar af leiðandi enga slíka frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Samkvæmt þessum tölum fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn samtals um 87 prósent af öllum styrkjum sem fyrirtæki tengd sjávarútvegi gáfu stjórnmálaflokkum á árinu 2015.
Mikið af styrkjum í Suðurkjördæmi
Sjávarútvegsfyrirtæki styrkja líka einstaklinga í baráttu þeirra um að ná sem hæst á framboðslistum flokka sinna. Í prófkjörsbaráttu fyrir síðustu kosningar þurftu allir frambjóðendur sem eyddu yfir 400 þúsund krónum að skila inn uppgjöri. Þeir sem eyddu undir þeirri fjárhæð þurftu einungis að skila yfirlýsingu þess efnis til Ríkisendurskoðunar.
Níu þátttakendur í prófkjöri Samfylkingarinnar hafa þegar skilað inn yfirlýsingum um að þeir hafi eytt minna en 400 þúsund krónum í sína baráttu. Enginn frambjóðandi flokksins hefur skilað útdrætti úr uppgjöri og enn vantar upplýsingar um marga frambjóðendur flokksins. Allir frambjóðendur í prófkjöri Pírata hafa skilað inn yfirlýsingu um að hafa ekki eytt meira en 400 þúsund krónum. Fjórir þingmenn Framsóknar hafa gert slíkt hið sama en enn vantar upplýsingar um kostnað annarra frambjóðenda flokksins. Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð röðuðu á lista og frambjóðendur lögðu því ekki út í prófkjörskostnað.
Alls eyddu 15 frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins meira en 400 þúsund krónum í prófkjörsbaráttu sína. Þar af vörðu níu frambjóðendur meira en milljón krónum í baráttu sína fyrir sæti á lista. Mestu eyddi Páll Magnússon, sem var í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi. Prófkjörsbarátta hans kostaði ríflega 3,4 milljónir króna. Þar af komu rúmar 2,2 milljónir króna frá lögaðilum og ein milljón króna af þeim styrkjum kom frá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Nokkrir frambjóðendur flokksins fengu áberandi hærri styrki frá sjávarútvegsfyrirtækjum en aðrir.
Ásmundur Friðriksson, sem sat í öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í sama kjördæmi, fékk fjórðu hæstu framlögin af frambjóðendum flokksins. Hann fékk tæplega 2,7 milljónir króna. Þar af komu 2,4 milljónir króna frá lögaðilum og 1,1 milljón króna af þeirri upphæð frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Vilhjálmur Árnason, lenti í þriðja sæti í Suðurkjördæmi og eyddi alls 850 þúsund krónum í prófkjörsbaráttu sína. Þar af komu 620 þúsund krónur frá lögaðilum og af þeirri tölu komu næstum tvær af hverjum þremur krónum, samtals 400 þúsund krónur, frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, eyddi samtals tæplega 1,4 milljónum króna í prófkjörsbaráttu sína. Þar af kom 1,3 milljónir króna frá lögaðilum og 700 þúsund krónur af þeirri upphæð kom frá fyrirtækjum í sjávarútvegi, eða rúmlega helmingur hennar.