Mynd: EPA

Þrátefli í Afghanistan

Yfirhershöfðingi NATO í Afganistan viðurkennir að barátta afganskra öryggissveita við Talibana hafi snúist upp í þrátefli. Talibanar ráða nú stórum hluta landsins. Á fjórða þúsund almennir borgarar féllu á síðasta ári, og hátt í sjö þúsund hermenn.

John W. Nicholson, æðsti yfirmaður Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Afganistan var nýlega í yfirheyrslu frammi fyrir hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, þar sem hann lét þessi orð falla í svari til Johns McCain, formanns nefndarinnar.

Þetta mat Nicholsons á stöðunni í Afganistan verður að teljast raunsætt, miðað við hvernig þróun mála hefur verið þar síðustu árin eftir að NATO hætti beinum hernaði í Afganistan í lok árs 2014. Afganski herinn og lögreglan, samtals á fjórða hundrað þúsund manns, hafa átt í sívaxandi erfiðleikum með að halda yfirráðum yfir dreifðum byggðum landsins, bæði gegn Talibönum, sem og liðsmönnum sveita sem lýst hafa yfir aðild að Daesh (samtökin sem kenna sig við Ríki Íslams). Talibanar eru nú taldir ráða yfir um tíunda hluta landsins og hafa ítök og áhrif enn víðar. Þó þeim hafi til þessa mistekist að leggja undir sig þéttbýliskjarna og borgir, þá hafa þeir um tíma náð yfirráðum, til dæmis í Kunduz í norðurhluta landsins. Viðvarandi átök hafa einnig verið í Helmand-héraði, í námunda við Laskhar Gah, stærstu borgina þar og Talibanar ráða í raun stórum svæðum í Helmand. Sjálfsmorðssprengjuárásir eru næstum daglegt brauð í Kabúl og öðrum stórum borgum Afganistans; nánast allar opinberar stofnanir, erlend sendiráð og bækistöðvar alþjóðaliðsins eru víggirtar og flestir starfsmenn erlendra stofnana í Kabúl ferðast um í brynvörðum bifreiðum eða með þyrlum, vegna hættunnar á sprengjuárásum.

John W. Nicholson, æðsti yfirmaður NATO í Afganistan.
Mynd: EPA

Hlutverk NATO og alþjóðaliðsins

Síðan í byrjun ársins 2015 hefur hlutverk NATO í Afganistan falist í að þjálfa, ráðleggja og aðstoða afgönsk stjórnvöld og öryggissveitir þeirra, sem nú eru í framlínunni í baráttunni gegn Talibönum og liðsmönnum Daesh. Þessi aðgerð gengur undir nafninu Resolute Support og að henni standa aðildarþjóðir NATO og önnur ríki sem starfa með bandalaginu. Til hliðar við Resolute Support er bandaríski herinn svo með sérstaka aðgerð, Freedom Sentinel, sem beinist gegn liðsmönnum og forsprökkum hermdarverkasamtaka í Afganistan (og reyndar einnig stundum í Pakistan). Bandarískar herflugvélar hafa einnig í auknum mæli verið notaðar til að gera loftárásir á liðsmenn Talibana, í þeim tilgangi að styðja við hernaðaraðgerðir afganska sveita. Þeim árásum hefur fjölgað síðan um mitt síðasta ár, þegar bandarískir herforingjar fengu auknar heimildir til að beita loftárásum í þessum tilgangi. Þótt strangar reglur gildi um slíkar árásir, til að minnka líkurnar á því að almennir borgarar verði fyrir barðinu á þeim, þá hefur það gerst í nokkrum tilvikum. Í nóvember á síðasta ári féllu til að mynda 33 almennir borgarar og 27 særðust eftir að loftárás var gerð í Kunduz, þar sem afganskar hersveitir ásamt bandarískum ráðgjöfum voru í bardaga við Talibana. Yfirmaður bandaríska hersins baðst í kjölfarið afsökunar, en gaf þá útskýringu að liðsmenn Talibana hefðu falið sig meðal almennra borgara og ráðist þaðan á hersveitir.

Nú eru 39 aðildar- og samstarfsþjóðir NATO með herlið eða starfsfólk í Afganistan, samtals um 13.500 manns, auk þess sem á milli tuttugu og þrjátíu þúsund verktakar (í mörgum tilfellum fyrrverandi hermenn) starfa á vegum NATO og Bandaríkjahers. Nicholson, yfirhershöfðingi NATO í Afganistan sagði nýlega að hann þyrfti fleiri hermenn í verkefni NATO í landinu, en að hann hefði nægan mannskap til að sinna Freedom Sentinel verkefninu gegn hermdarverkasamtökum.

Erfitt er að ná utan um það fjármagn sem streymt hefur til Afganistan frá einstökum löndum og alþjóðasamtökum. Langstærsti hlutinn af þessum fjármunum hefur hins vegar komið frá Bandaríkjunum; síðan 2002 hefur Bandaríkjaþing samþykkt framlög samtals upp á meira en 117 milljarða bandaríkjadala til hernaðaraðstoðar, þróunarmála, og annarra verkefna í Afganistan samkvæmt skýrslu sem SIGAR gefur reglulega út, en það er sérstök stofnun á vegum Bandaríkjastjórnar sem fylgist með og endurskoðar árangur uppbyggingarstarfs Bandaríkjamanna í Afganistan. Á þessu ári er til dæmis gert ráð fyrir að bandarísk stjórnvöld verji rúmum 4 milljörðum bandaríkjadala í vopnabúnað, þjálfun og viðhald fyrir afganska herinn og lögregluna og NATO (auk samstarfsþjóða) hafa heitið um 450 milljón bandaríkjadölum árlega í sérstakan sjóð sem styður afganska herinn.

Viðvarandi átök

Þrátt fyrir allan þennan stuðning vestrænna ríkja, þá er ljóst að afgönsk stjórnvöld hafa átt í miklum erfiðleikum með að halda uppi öryggi í landinu og vinna bug á sveitum Talibana og annarra samtaka.

„Ástand öryggismála í Afganistan er sennilega með versta móti núna síðan 2001,“ segir Sune Engel Rasmussen, danskur fréttamaður sem búið hefur í Kabúl síðan 2014 og skrifar fyrir fjölmiðla á borð við The Guardian, The Economist og Weekendavisen í Danmörku. „Talibanar hafa aldrei ráðið yfir eins stórum hluta landsins; geta her- og lögreglusveita stjórnvalda er takmörkuð, til að mynda vegna mannfalls og þess að hermenn yfirgefa stöður sínar. Ég er ekki að halda því fram að Talibanar geti lagt undir sig Kabúl, en eins og staðan er núna, þá virðast þeir hafa nægan vilja og getu til að berjast, í stað þess að eiga í raunverulegum viðræðum um frið. Því miður held ég að búast megi við auknum átökum og ofbeldi í Afganistan á þessu ári.“

Í nýjustu skýrslu SIGAR til bandaríska þingsins kemur fram að yfirráð og áhrif stjórnvalda í Kabúl yfir landsvæðum í Afganistan hafi dregist saman á síðasta ári; að Talibanar hafi víkkað út yfirráðasvæði sitt í landinu. Tölfræðin er nokkuð sláandi: í nóvember í fyrra voru aðeins 233 sýslur (af samtals 403) undir stjórn afganskra yfirvalda, 41 var undir stjórn uppreisnarmanna, og tekist var á um 133 sýslur.

Í afganska hernum eru um 150.000 manns og nokkuð fleiri í sveitum lögreglu. Á ellefu mánaða tímabili í fyrra féllu næstum sjö þúsund afganskir her- og lögreglumenn í átökum í landinu og hátt í tólf þúsund særðust, Nokkur óvissa er þó í kringum þessar tölur og ýmislegt bendir til þess að þær gætu verið hærri. Léleg stjórnun og spilling eru viðvarandi vandamál í hernum og lögreglunni, rétt eins og í öðrum geirum samfélagsins í Afganistan; herforingjar hafa til dæmis orðið uppvísir að því að halda úti löngum listum af hermönnum sem raunverulega eru ekki til staðar, og stinga launum þeirra í eigin vasa. Spilling er í raun eitt af stærstu vandamálunum í Afganistan, og stór ástæða þess hversu hægt gengur að gera endurbætur á stjórnkerfinu.

Almennir borgarar fara heldur ekki varhluta af þessum viðvarandi átökum í Afganistan. Í fyrra féllu um 3500 borgarar í átökum öryggissveita og uppreisnarmanna í landinu, og næstum 8000 særðust, samkvæmt yfirliti sem UNAMA, stofnun Sameinuðu þjóðanna í Afganistan birti nýlega. Síðan 2009 hafa næstum 25 þúsund almennir borgarar fallið í átökunum og ríflega 45 þúsund manns hafa særst. Bara í fyrra neyddust um 630 þúsund manns til að flýja heimili sín vegna átaka í Afganistan. Yfirvöld standa einnig frammi fyrir því að taka á móti tugum og hundruðum þúsunda Afgana sem yfirvöld í Pakistan hafa markvisst verið að vísa úr landi á síðustu mánuðum, auk þeirra afgönsku flóttamanna sem komist hafa til Evrópu en er verið að senda til baka.

Blóði drifin saga

Saga síðustu áratuga í Afganistan er blóði drifin og í raun má segja að stærstur hluti íbúa landsins, allir þeir sem fæddir eru á undanförnum fjörtíu árum eða svo, hafi aldrei upplifað neitt annað en stríðsástand eða ógnarstjórn. Borgarastyrjöld braust út árið 1978, eftir að kommúnistar, undir stjórn Mohammads Najibullah, tóku völdin í landinu. Tæpum tveimur árum síðar, um jólin 1979, sendu þáverandi Sovétríkin fjölmennt herlið til Afganistan, til að styðja við bakið á stjórnvöldum. Þau inngrip snerust síðan upp í níu ára stríð Sovétmanna gegn uppreisnarmönnum, sem voru dyggilega studdir meðal annars af bandarískum og pakistönskum stjórnvöldum. Um fimmtán þúsund sovéskir hermenn féllu og tugir þúsunda uppreisnarmanna. Talið er að hátt í tvær milljónir almennra borgara hafi fallið, auk þess sem milljónir flúðu land, aðallega til Pakistans og Írans.

Átökin í landinu héldu áfram eftir að Sovétmenn drógu herlið sitt til baka árið 1989. Stjórnvöld í Moskvu héldu þó áfram stuðningi sínum við stjórn Najibullah í Kabúl, sem tókst að halda í völdin næstu þrjú árin, eða til 1992. Eftir það tók við samsteypustjórn allra stríðandi fylkinga nema einnar: Hezb-e Islami, undir stjórn manns að nafni Gulbuddin Hektmatayar. Sá kemur reyndar enn við sögu í stjórnmálum Afghanistan, sem og aðrir stríðsherrar frá þessum tíma.

Næsta skref Hektmatayars og hans manna var að gera linnulausar árásir á Kabúl, þar sem tugir þúsunda íbúa féllu. Hekmatayar er stundum kallaður „slátrari Kabúl“ og ekki að ástæðulausu. Með þessu opnaðist nýr kafli í borgarastríðinu í Afganistan, sem beint og óbeint leiddi til þess að Talibanar náðu hægt og bítandi völdum, fyrst í suðurhluta Afganistan og nokkrum árum síðar í öllu landinu. Ógnarstjórn þeirra byggði á strangri túlkun á reglum Kóransins, og einkenndist af mannréttindabrotum og kúgun kvenna. Í skjóli Talibana höfðu svo al-Kaída hryðjuverkasamtökin komið sér upp þjálfunar- og bækistöðvum í Afganistan.

Tveir stríðsherrar héldu lengst út gegn Talibönum: Abdul Rashid Dostum (sem nú er varaforseti Afganistan) og Ahmad Shah Massoud. Þeir mynduðu Norðurbandalagið, sem réð landsvæðum í norður- og austurhluta Afganistan. Talibanar sigruðu liðsmenn Dostums í bardögum nálægt borginni Mazar-i-Sharif á árunum 1997 til 1998, og í september 2001, tveimur dögum fyrir árásina á tvíburaturnana í New York, féll Massoud fyrir hendi tveggja hryðjuverkamanna sem höfðu dulbúið sig sem sjónvarpsfréttamenn.

Innrás vesturveldanna, ISAF og Resolute Support

Ógnarstjórn Talibana í Afganistan var steypt af stóli í desember 2001, eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í landið. Stjórnvöld í Washington höfðu krafið Talibana um að framselja Osama Bin Laden, höfuðpaurinn að baki árásunum í New York 11. september, en Talibanar höfnuðu þeim kröfum. Hamid Karzai var settur í stól forseta Afganistan og ISAF (International Security Assistance Force) var komið á laggirnar að forskrift Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. NATO tók síðan yfir stjórn ISAF árið 2003.

Síðan þá hafa á annað hundrað þúsund hermenn verið sendir til Afganistan frá aðildar- og samstarfsþjóðum NATO, bæði til að þjálfa og aðstoða afganskar öryggissveitir, en einnig til að taka þátt í beinum bardögum við uppreisnarmenn Talibana. Á fjórða þúsund hermenn NATO og annarra þjóða hafa fallið í bardögum í Afganistan síðustu sextán árin; í höfuðstöðum NATO í Kabúl er þeirra, sem og fallinna afganskra hermanna minnst í sérstakri athöfn sem haldin er hvern föstudag.

Brotthætt stjórn (svokallaðrar) einingar og samstöðu

Eftir umdeildar forsetakosningar árið 2014, þar sem ásakanir um atkvæðasvindl flugu á alla vegu, stóð Asraf Ghani uppi sem sigurvegari og nýr forseti landsins – en aðeins eftir að þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, kom til Kabúl, og samdi um að Ghani myndi deila völdum með Abdullah Abdullah, sem hafði ásamt Ghani, komist áfram í aðra umferð kosninganna. Sérstök staða nokkurs konar forsætisráðherra var búin til fyrir Abdullah og til stóð að endurskoða stjórnarskrá landsins þannig að staða hans yrði lögfest. Slík endurskoðun hefur enn ekki farið fram, og átök um völd og áhrif hafa einkennt ríkisstjórnina; í fyrra hrikti verulega í stoðum hennar þegar Abdullah lýsti því yfir að Ghani væri óhæfur til að gegna starfi forseta. Báðir gera sér hins vegar grein fyrir afleiðingum þess að hætta samstarfinu, segir Sune Engel.

Þeir Abdullah Abdullah og Asraf Ghani fylgjast með John Kerry flytja ræðu.
Mynd: EPA

„Stormasamt samband Ghani og Abdullah er stór hluti ástæðunnar fyrir því að svo erfitt reynist að koma á þeim endurbótum sem Ghani lofaði í kosningabaráttunni og landið þarf nauðsynlega á að halda. Ríkisstjórnin er í raun lömuð og heldur aftur af tilraunum til að berast gegn spillingu og skapa öryggi. Hins vegar tel ég ólíklegt að ríkisstjórnin falli. Alþjóðasamfélagið mun einfaldlega ekki leyfa því að gerast, auk þess sem bæði Ghani og Abdullah vita að ef ríkisstjórnin springur, þá er raunveruleg hætta á borgarastyrjöld í landinu. Þess vegna tel ég að engin breyting verði á þessu ástandi þar til næst verða haldnar forsetakosningar.“

Abdul Rashid Dostum

Abdul Rashid Dostum

Stríðsherrar úr átökum undanfarinna áratuga í Afganistan eru margir hverjir enn áhrifamiklir í þjóðlífinu. Dostum er kannski besta dæmið um það. Hann er núna varaforseti Afganistans, en í borgarastríðinu á níunda áratugnum leiddi hann tugi þúsunda liðsmanna sinna í baráttu gegn andstæðum fylkingum, þar á meðal gegn Gulbuddin Hekmatayar (sem hann gekk reyndar síðar í lið með). Dostum flúði land eftir að Talibanar höfðu sigrað liðsmenn hans í Mazar-i-Sharif en kom aftur árið 2001 og tók þátt í sókn bandaríska hersins gegn Talibönum. Dostum hefur verið sakaður um margvíslega stríðsglæpi, þar á meðal fjöldamorð á liðsmönnum Talibana sem gefist höfðu upp í norðurhluta Afganistan. Hann er núna stjórnmálamaður með áru lögmætis, en hagar sér hins vegar oft á tíðum eins og ekkert hafi breyst undanfarin tuttugu ár.

Forsetakosningarnar verða, að öllu óbreyttu haldnar árið 2019. Óvíst er hins vegar hvenær næstu þingkosningar fara fram í Afganistan; síðast var kosið árið 2010 og með réttu hefði átt að kjósa aftur árið 2015. Deilur um endurskoðun kosningalaga og ósættið milli Ghani og Abdullah hafa hins vegar gert það að verkum að engin niðurstaða hefur enn fengist. Ghani lýsti því reyndar nýlega yfir að fullur vilji væri til að halda kosningar en hins vegar er erfitt að ímynda sér hvernig þær ættu að fara fram í ríki þar sem stór hluti landsvæðisins er undir stjórn eða áhrifum uppreisnarmanna.

Er friður í augsýn?

Allir sem fjalla um eða skipta sér að einhverju leyti af ástandi mála í Afganistan eru sammála um að engin leið sé til að koma á friði í landinu, nema með því að ná samningum við Talibana; sigur verði aldrei unninn á vígvellinum. Friður hefur hins vegar til þessa reynst vera tálsýn. Snemma á síðasta ári var mikið lagt í undirbúning viðræðna við Talibana, en þær fóru út um þúfur þegar í ljós kom að stofnandi og leiðtogi Talibana, Mullah Mohammed Omar, hefði látist árið 2013. Síðan þá hafa einhverjar viðræður farið fram, en litlar líkur eru taldar á því að þær beri ávöxt, að minnsta kosti á meðan Talibanar líta svo á að átök, skæruhernaður og sprengjuárásir skili sér í auknum yfirráðum og áhrifum í Afganistan.

Stjórnvöld í Kabúl binda hins vegar vonir við að nýgerður friðarsamningur við Gulbuddin Hekmatayar og liðsmenn hans í Hezb-e Islami geti orðið að einhvers konar fyrirmynd samninga við aðra uppreisnarmenn. Sá samningur var staðfestur í Kabúl nýlega og þýðir að Hekmatayar og hans lið getur komið úr felum; til að liðka fyrir þessu ákvað Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna snemma í febrúar að aflétta refsiaðgerðum og fordæmingu á Hekmatayar. Friðarsamkomulagið við hann er þó talið skipta litlu máli hvað átökin sjálf varðar, því Hekmatayar ræður aðeins yfir nokkur þúsund manna liði, á meðan liðsmenn Talibana eru taldir vera um fimmtíu þúsund. Ákvörðun Öryggisráðsins gæti hins vegar orðið til þess að hvetja þá til að hugsa málið.

Það sem flækir svo enn frekar þessa stöðu eru samskipti og samband stjórnvalda í Kabúl við nágrannaríki sín. Ráðamenn í Pakistan hafa um langt skeið verið sakaðir um að hafa stutt Talibana leynt og ljóst, til að viðhalda ótryggu ástandi í Afganistan; æðstu stjórnendur Talibana hafa um langt skeið verið í leynum í Pakistan og þaðan hafa margir af liðsmönnum samtakanna komið. Rússar hafa einnig verið að seilast til áhrifa á svæðinu, og í yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi nýlega sá Nicholson, yfirhershöfðingi NATO í Afganistan, raunar ástæðu til að gagnrýna Rússa fyrir að halda því á lofti að Talibanar væru gagnlegir í baráttunni gegn Daesh; með því væri verið að gefa Talibönum lögmæti sem þeir ættu ekki skilið. Indversk stjórnvöld hafa einnig verið að seilast til áhrifa í Afganistan, og það hefur að sjálfsögðu vakið viðbrögð og tortryggni í Pakistan, enda lítill vinskapur með yfirvöldum í Nýju Deli og Islamabad. Allt þetta hljómar eins og endurómur af „The Great Game“; valdabaráttu Breta og Rússa á svæðinu á 19. öld og tilraunum þeirra til að leggja undir sig eða komast til áhrifa í Afganistan.

Íslenska Friðargæslan í Afganistan

Tugir Íslendinga hafa starfað á vegum Íslensku Friðargæslunnar í Afganistan undanfarin ár, enda er þáttaka Íslands í þessu verkefni sú umfangsmesta sem stjórnvöld hér hafa ráðist í. Rétt eins og önnur NATO ríki, hóf Ísland þátttöku sína þegar bandalagið tók yfir stjórn ISAF árið 2003, en áður hafði verið veitt fjárhagsaðstoð vegna loftflutninga til Afganistans. Árið 2004 tók Íslenska Friðargæslan við stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl og lagði til 17 af þeim rúmlega 300 stöðugildum sem þá þurfti til að reka flugvöllinn. Friðargæslan kom einnig að mönnun hópa sem sendir voru vítt og breitt um Afganistan til að vinna að og fylgjast með endurreisnarstarfi í landinu. Árið 2006 rann rúmur helmingur fjárframlaga til Friðargæslunnar til verkefna í Afganistan; um 300 milljónir króna. Á þeim tíma voru að jafnaði 13 til 15 manns á vegum Friðargæslunnar í Afganistan, eða um helmingur stöðugilda á vegum hennar. Undanfarin ár hefur dregið mjög úr umfangi og aðkomu Íslands og vorið 2015 fóru síðustu tveir starfsmenn Friðargæslunnar frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl. Nú eru tveir starfsmenn Friðargæslunnar í Kabúl, og starfa þar í höfuðstöðvum NATO.

Hvað næst?

Bandarísk stjórnvöld ákváðu á síðasta ári að fækka talsvert í liði sínu í Afganistan. Þar eru nú um 8.400 bandarískir hermenn, þótt Barack Obama, fyrrverandi forseti, hefði upphaflega haft það á stefnuskrá sinni að draga allt herlið til baka frá landinu. Ekki er ljóst hvað núverandi stjórnvöld í Washington ætla sér, en flestir fréttaskýrendur búast þó við að Donald Trump muni ekki fækka verulega í herliði Bandaríkjanna í Afganistan. Alþjóðasamfélagið, þar á meðal aðildarríki NATO hafa heitið stuðningi næstu árin, en samt er ekki ljóst hversu lengi Resolute Support verkefnið verður til staðar í Afganistan. Íhlutun NATO þar er fyrir löngu orðið að stærsta og lengsta verkefni bandalagsins og raunar Bandaríkjanna einnig, og miklir hagsmunir eru tengdir því að sjá árangur; kannski má segja að því lengur sem íhlutunin vari, því erfiðara verði að hætta henni.

Yfirlýst markmið NATO og Bandaríkjanna er að koma í veg fyrir að Afganistan verði aftur hæli hryðjuverkamanna sem geti þaðan skipulagt árásir á önnur lönd – og að afganski herinn og lögreglan geti að fullu og óstudd séð um að halda uppi öryggi fyrir almenna borgara. Reynsla síðustu ára sýnir að það er verkefni sem ekki sér fyrir endann á, segir Sune Engel.

„Alþjóðaliðið virðist ekki vera með neina áætlun um hvernig eigi að stilla til friðar í Afganistan. Hér er rekið sérstakt verkefni gegn hryðjuverkasamtökum, þar sem ráðist er á litlar sveitir manna sem lýst hafa yfir stuðningi við samtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki, og hópa úr al-Kaída samtökunum, en það virðist engin langtímaáætlun vera til staðar. Auðvitað er það hlutverk afganskra öryggissveita að sigrast á Talibönum, en eins og staðan er núna, þá er alþjóðaliðið í litlum tengslum við það sem gerist á vígvellinum. Það dregur úr vilja afganskra hermanna til að berjast, og gerir lítið til þess að koma í veg fyrir spillingu meðal herforingja.“

Um höfundinn

Björn Malmquist er fyrrverandi fréttamaður á RÚV og starfaði sem friðargæsluliði á vegum Utanríkisráðuneytisins í Kabúl frá 2015 til 2016.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar