Mynd: EPA

Þrátefli í Afghanistan

Yfirhershöfðingi NATO í Afganistan viðurkennir að barátta afganskra öryggissveita við Talibana hafi snúist upp í þrátefli. Talibanar ráða nú stórum hluta landsins. Á fjórða þúsund almennir borgarar féllu á síðasta ári, og hátt í sjö þúsund hermenn.

John W. Nichol­son, æðsti yfir­maður Atl­ants­hafs­banda­lags­ins (NATO) í Afganistan var nýlega í yfir­heyrslu frammi fyrir her­mála­nefnd öld­unga­deildar Banda­ríkja­þings, þar sem hann lét þessi orð falla í svari til Johns McCain, for­manns nefnd­ar­inn­ar.

Þetta mat Nichol­sons á stöð­unni í Afganistan verður að telj­ast raun­sætt, miðað við hvernig þróun mála hefur verið þar síð­ustu árin eftir að NATO hætti beinum hern­aði í Afganistan í lok árs 2014. Afganski her­inn og lög­reglan, sam­tals á fjórða hund­rað þús­und manns, hafa átt í sívax­andi erf­ið­leikum með að halda yfir­ráðum yfir dreifðum byggðum lands­ins, bæði gegn Tali­bön­um, sem og liðs­mönnum sveita sem lýst hafa yfir aðild að Daesh (sam­tökin sem kenna sig við Ríki Íslams). Tali­banar eru nú taldir ráða yfir um tíunda hluta lands­ins og hafa ítök og áhrif enn víð­ar. Þó þeim hafi til þessa mis­tek­ist að leggja undir sig þétt­býl­iskjarna og borgir, þá hafa þeir um tíma náð yfir­ráðum, til dæmis í Kunduz í norð­ur­hluta lands­ins. Við­var­andi átök hafa einnig verið í Helmand-hér­aði, í námunda við Laskhar Gah, stærstu borg­ina þar og Tali­banar ráða í raun stórum svæðum í Helmand. Sjálfs­morðs­sprengjuárásir eru næstum dag­legt brauð í Kabúl og öðrum stórum borgum Afganist­ans; nán­ast allar opin­berar stofn­an­ir, erlend sendi­ráð og bæki­stöðvar alþjóð­aliðs­ins eru víg­girtar og flestir starfs­menn erlendra stofn­ana í Kabúl ferð­ast um í bryn­vörðum bif­reiðum eða með þyrlum, vegna hætt­unnar á sprengju­árás­um.

John W. Nicholson, æðsti yfirmaður NATO í Afganistan.
Mynd: EPA

Hlut­verk NATO og alþjóð­aliðs­ins

Síðan í byrjun árs­ins 2015 hefur hlut­verk NATO í Afganistan falist í að þjálfa, ráð­leggja og aðstoða afgönsk stjórn­völd og örygg­is­sveitir þeirra, sem nú eru í fram­lín­unni í bar­átt­unni gegn Tali­bönum og liðs­mönnum Daesh. Þessi aðgerð gengur undir nafn­inu Resolute Supp­ort og að henni standa aðild­ar­þjóðir NATO og önnur ríki sem starfa með banda­lag­inu. Til hliðar við Resolute Supp­ort er banda­ríski her­inn svo með sér­staka aðgerð, Freedom Sentin­el, sem bein­ist gegn liðs­mönnum og for­sprökkum hermd­ar­verka­sam­taka í Afganistan (og reyndar einnig stundum í Pakistan). Banda­rískar her­flug­vélar hafa einnig í auknum mæli verið not­aðar til að gera loft­árásir á liðs­menn Tali­bana, í þeim til­gangi að styðja við hern­að­ar­að­gerðir afganska sveita. Þeim árásum hefur fjölgað síðan um mitt síð­asta ár, þegar banda­rískir her­for­ingjar fengu auknar heim­ildir til að beita loft­árásum í þessum til­gangi. Þótt strangar reglur gildi um slíkar árás­ir, til að minnka lík­urnar á því að almennir borg­arar verði fyrir barð­inu á þeim, þá hefur það gerst í nokkrum til­vik­um. Í nóv­em­ber á síð­asta ári féllu til að mynda 33 almennir borg­arar og 27 særð­ust eftir að loft­árás var gerð í Kund­uz, þar sem afganskar her­sveitir ásamt banda­rískum ráð­gjöfum voru í bar­daga við Tali­bana. Yfir­maður banda­ríska hers­ins baðst í kjöl­farið afsök­unar, en gaf þá útskýr­ingu að liðs­menn Tali­bana hefðu falið sig meðal almennra borg­ara og ráð­ist þaðan á her­sveit­ir.

Nú eru 39 aðild­ar- og sam­starfs­þjóðir NATO með her­lið eða starfs­fólk í Afganistan, sam­tals um 13.500 manns, auk þess sem á milli tutt­ugu og þrjá­tíu þús­und verk­takar (í mörgum til­fellum fyrr­ver­andi her­menn) starfa á vegum NATO og Banda­ríkja­hers. Nichol­son, yfir­hers­höfð­ingi NATO í Afganistan sagði nýlega að hann þyrfti fleiri her­menn í verk­efni NATO í land­inu, en að hann hefði nægan mann­skap til að sinna Freedom Sentinel verk­efn­inu gegn hermd­ar­verka­sam­tök­um.

Erfitt er að ná utan um það fjár­magn sem streymt hefur til Afganistan frá ein­stökum löndum og alþjóða­sam­tök­um. Langstærsti hlut­inn af þessum fjár­munum hefur hins vegar komið frá Banda­ríkj­un­um; síðan 2002 hefur Banda­ríkja­þing sam­þykkt fram­lög sam­tals upp á meira en 117 millj­arða banda­ríkja­dala til hern­að­ar­að­stoð­ar, þró­un­ar­mála, og ann­arra verk­efna í Afganistan sam­kvæmt skýrslu sem SIGAR gefur reglu­lega út, en það er sér­stök stofnun á vegum Banda­ríkja­stjórnar sem fylgist með og end­ur­skoðar árangur upp­bygg­ing­ar­starfs Banda­ríkja­manna í Afganist­an. Á þessu ári er til dæmis gert ráð fyrir að banda­rísk stjórn­völd verji rúmum 4 millj­örðum banda­ríkja­dala í vopna­bún­að, þjálfun og við­hald fyrir afganska her­inn og lög­regl­una og NATO (auk sam­starfs­þjóða) hafa heitið um 450 milljón banda­ríkja­dölum árlega í sér­stakan sjóð sem styður afganska her­inn.

Við­var­andi átök

Þrátt fyrir allan þennan stuðn­ing vest­rænna ríkja, þá er ljóst að afgönsk stjórn­völd hafa átt í miklum erf­ið­leikum með að halda uppi öryggi í land­inu og vinna bug á sveitum Tali­bana og ann­arra sam­taka.

„Ástand örygg­is­mála í Afganistan er senni­lega með versta móti núna síðan 2001,“ segir Sune Engel Rasmus­sen, danskur frétta­maður sem búið hefur í Kabúl síðan 2014 og skrifar fyrir fjöl­miðla á borð við The Guar­di­an, The Economist og Week­enda­visen í Dan­mörku. „Tali­banar hafa aldrei ráðið yfir eins stórum hluta lands­ins; geta her- og lög­reglu­sveita stjórn­valda er tak­mörk­uð, til að mynda vegna mann­falls og þess að her­menn yfir­gefa stöður sín­ar. Ég er ekki að halda því fram að Tali­banar geti lagt undir sig Kab­úl, en eins og staðan er núna, þá virð­ast þeir hafa nægan vilja og getu til að berjast, í stað þess að eiga í raun­veru­legum við­ræðum um frið. Því miður held ég að búast megi við auknum átökum og ofbeldi í Afganistan á þessu ári.“

Í nýj­ustu skýrslu SIGAR til banda­ríska þings­ins kemur fram að yfir­ráð og áhrif stjórn­valda í Kabúl yfir land­svæðum í Afganistan hafi dreg­ist saman á síð­asta ári; að Tali­banar hafi víkkað út yfir­ráða­svæði sitt í land­inu. Töl­fræðin er nokkuð slá­andi: í nóv­em­ber í fyrra voru aðeins 233 sýslur (af sam­tals 403) undir stjórn afganskra yfir­valda, 41 var undir stjórn upp­reisn­ar­manna, og tek­ist var á um 133 sýsl­ur.

Í afganska hernum eru um 150.000 manns og nokkuð fleiri í sveitum lög­reglu. Á ell­efu mán­aða tíma­bili í fyrra féllu næstum sjö þús­und afganskir her- og lög­reglu­menn í átökum í land­inu og hátt í tólf þús­und særðust, Nokkur óvissa er þó í kringum þessar tölur og ýmis­legt bendir til þess að þær gætu verið hærri. Léleg stjórnun og spill­ing eru við­var­andi vanda­mál í hernum og lög­regl­unni, rétt eins og í öðrum geirum sam­fé­lags­ins í Afganistan; her­for­ingjar hafa til dæmis orðið upp­vísir að því að halda úti löngum listum af her­mönnum sem raun­veru­lega eru ekki til stað­ar, og stinga launum þeirra í eigin vasa. Spill­ing er í raun eitt af stærstu vanda­mál­unum í Afganistan, og stór ástæða þess hversu hægt gengur að gera end­ur­bætur á stjórn­kerf­inu.

Almennir borg­arar fara heldur ekki var­hluta af þessum við­var­andi átökum í Afganist­an. Í fyrra féllu um 3500 borg­arar í átökum örygg­is­sveita og upp­reisn­ar­manna í land­inu, og næstum 8000 særðust, sam­kvæmt yfir­liti sem UNA­MA, stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna í Afganistan birti nýlega. Síðan 2009 hafa næstum 25 þús­und almennir borg­arar fallið í átök­unum og ríf­lega 45 þús­und manns hafa særst. Bara í fyrra neydd­ust um 630 þús­und manns til að flýja heim­ili sín vegna átaka í Afganist­an. Yfir­völd standa einnig frammi fyrir því að taka á móti tugum og hund­ruðum þús­unda Afgana sem yfir­völd í Pakistan hafa mark­visst verið að vísa úr landi á síð­ustu mán­uð­um, auk þeirra afgönsku flótta­manna sem kom­ist hafa til Evr­ópu en er verið að senda til baka.

Blóði drifin saga

Saga síð­ustu ára­tuga í Afganistan er blóði drifin og í raun má segja að stærstur hluti íbúa lands­ins, allir þeir sem fæddir eru á und­an­förnum fjör­tíu árum eða svo, hafi aldrei upp­lifað neitt annað en stríðs­á­stand eða ógn­ar­stjórn. Borg­ara­styrj­öld braust út árið 1978, eftir að komm­ún­istar, undir stjórn Mohammads Naji­bullah, tóku völdin í land­inu. Tæpum tveimur árum síð­ar, um jólin 1979, sendu þáver­andi Sov­ét­ríkin fjöl­mennt her­lið til Afganistan, til að styðja við bakið á stjórn­völd­um. Þau inn­grip sner­ust síðan upp í níu ára stríð Sov­ét­manna gegn upp­reisn­ar­mönn­um, sem voru dyggi­lega studdir meðal ann­ars af banda­rískum og paki­stönskum stjórn­völd­um. Um fimmtán þús­und sov­éskir her­menn féllu og tugir þús­unda upp­reisn­ar­manna. Talið er að hátt í tvær millj­ónir almennra borg­ara hafi fall­ið, auk þess sem millj­ónir flúðu land, aðal­lega til Pakist­ans og Írans.

Átökin í land­inu héldu áfram eftir að Sov­ét­menn drógu her­lið sitt til baka árið 1989. Stjórn­völd í Moskvu héldu þó áfram stuðn­ingi sínum við stjórn Naji­bullah í Kab­úl, sem tókst að halda í völdin næstu þrjú árin, eða til 1992. Eftir það tók við sam­steypu­stjórn allra stríð­andi fylk­inga nema einn­ar: Hez­b-e Isla­mi, undir stjórn manns að nafni Gul­buddin Hekt­mata­y­ar. Sá kemur reyndar enn við sögu í stjórn­málum Afghanistan, sem og aðrir stríðs­herrar frá þessum tíma.

Næsta skref Hekt­mata­y­ars og hans manna var að gera linnu­lausar árásir á Kab­úl, þar sem tugir þús­unda íbúa féllu. Hek­mata­yar er stundum kall­aður „slátr­ari Kab­úl“ og ekki að ástæðu­lausu. Með þessu opn­að­ist nýr kafli í borg­ara­stríð­inu í Afganistan, sem beint og óbeint leiddi til þess að Tali­banar náðu hægt og bít­andi völd­um, fyrst í suð­ur­hluta Afganistan og nokkrum árum síðar í öllu land­inu. Ógn­ar­stjórn þeirra byggði á strangri túlkun á reglum Kór­ans­ins, og ein­kennd­ist af mann­rétt­inda­brotum og kúgun kvenna. Í skjóli Tali­bana höfðu svo al-Kaída hryðju­verka­sam­tökin komið sér upp þjálf­un­ar- og bæki­stöðvum í Afganist­an.

Tveir stríðs­herrar héldu lengst út gegn Tali­bön­um: Abdul Ras­hid Dostum (sem nú er vara­for­seti Afganistan) og Ahmad Shah Massoud. Þeir mynd­uðu Norð­ur­banda­lag­ið, sem réð land­svæðum í norð­ur- og aust­ur­hluta Afganist­an. Tali­banar sigr­uðu liðs­menn Dost­ums í bar­dögum nálægt borg­inni Maz­ar-i-S­harif á árunum 1997 til 1998, og í sept­em­ber 2001, tveimur dögum fyrir árás­ina á tví­bura­t­urn­ana í New York, féll Massoud fyrir hendi tveggja hryðju­verka­manna sem höfðu dul­búið sig sem sjón­varps­frétta­menn.

Inn­rás vest­ur­veld­anna, ISAF og Resolute Supp­ort

Ógn­ar­stjórn Tali­bana í Afganistan var steypt af stóli í des­em­ber 2001, eftir að Banda­ríkja­menn réð­ust inn í land­ið. Stjórn­völd í Was­hington höfðu krafið Tali­bana um að fram­selja Osama Bin Laden, höf­uð­paur­inn að baki árás­unum í New York 11. sept­em­ber, en Tali­banar höfn­uðu þeim kröf­um. Hamid Karzai var settur í stól for­seta Afganistan og ISAF (International Security Assistance Force) var komið á lagg­irnar að for­skrift Örygg­is­ráðs Sam­ein­uðu þjóð­anna. NATO tók síðan yfir stjórn ISAF árið 2003.

Síðan þá hafa á annað hund­rað þús­und her­menn verið sendir til Afganistan frá aðild­ar- og sam­starfs­þjóðum NATO, bæði til að þjálfa og aðstoða afganskar örygg­is­sveit­ir, en einnig til að taka þátt í beinum bar­dögum við upp­reisn­ar­menn Tali­bana. Á fjórða þús­und her­menn NATO og ann­arra þjóða hafa fallið í bar­dögum í Afganistan síð­ustu sextán árin; í höf­uð­stöðum NATO í Kabúl er þeirra, sem og fall­inna afganskra her­manna minnst í sér­stakri athöfn sem haldin er hvern föstu­dag.

Brott­hætt stjórn (svo­kall­aðr­ar) ein­ingar og sam­stöðu

Eftir umdeildar for­seta­kosn­ingar árið 2014, þar sem ásak­anir um atkvæða­svindl flugu á alla vegu, stóð Asraf Ghani uppi sem sig­ur­veg­ari og nýr for­seti lands­ins – en aðeins eftir að þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna, John Kerry, kom til Kab­úl, og samdi um að Ghani myndi deila völdum með Abdullah Abdullah, sem hafði ásamt Ghani, kom­ist áfram í aðra umferð kosn­ing­anna. Sér­stök staða nokk­urs konar for­sæt­is­ráð­herra var búin til fyrir Abdullah og til stóð að end­ur­skoða stjórn­ar­skrá lands­ins þannig að staða hans yrði lög­fest. Slík end­ur­skoðun hefur enn ekki farið fram, og átök um völd og áhrif hafa ein­kennt rík­is­stjórn­ina; í fyrra hrikti veru­lega í stoðum hennar þegar Abdullah lýsti því yfir að Ghani væri óhæfur til að gegna starfi for­seta. Báðir gera sér hins vegar grein fyrir afleið­ingum þess að hætta sam­starf­inu, segir Sune Eng­el.

Þeir Abdullah Abdullah og Asraf Ghani fylgjast með John Kerry flytja ræðu.
Mynd: EPA

„Storma­samt sam­band Ghani og Abdullah er stór hluti ástæð­unnar fyrir því að svo erfitt reyn­ist að koma á þeim end­ur­bótum sem Ghani lof­aði í kosn­inga­bar­átt­unni og landið þarf nauð­syn­lega á að halda. Rík­is­stjórnin er í raun lömuð og heldur aftur af til­raunum til að ber­ast gegn spill­ingu og skapa öryggi. Hins vegar tel ég ólík­legt að rík­is­stjórnin falli. Alþjóða­sam­fé­lagið mun ein­fald­lega ekki leyfa því að ger­ast, auk þess sem bæði Ghani og Abdullah vita að ef rík­is­stjórnin spring­ur, þá er raun­veru­leg hætta á borg­ara­styrj­öld í land­inu. Þess vegna tel ég að engin breyt­ing verði á þessu ástandi þar til næst verða haldnar for­seta­kosn­ing­ar.“

Abdul Rashid Dostum

Abdul Rashid Dostum

Stríðsherrar úr átökum undanfarinna áratuga í Afganistan eru margir hverjir enn áhrifamiklir í þjóðlífinu. Dostum er kannski besta dæmið um það. Hann er núna varaforseti Afganistans, en í borgarastríðinu á níunda áratugnum leiddi hann tugi þúsunda liðsmanna sinna í baráttu gegn andstæðum fylkingum, þar á meðal gegn Gulbuddin Hekmatayar (sem hann gekk reyndar síðar í lið með). Dostum flúði land eftir að Talibanar höfðu sigrað liðsmenn hans í Mazar-i-Sharif en kom aftur árið 2001 og tók þátt í sókn bandaríska hersins gegn Talibönum. Dostum hefur verið sakaður um margvíslega stríðsglæpi, þar á meðal fjöldamorð á liðsmönnum Talibana sem gefist höfðu upp í norðurhluta Afganistan. Hann er núna stjórnmálamaður með áru lögmætis, en hagar sér hins vegar oft á tíðum eins og ekkert hafi breyst undanfarin tuttugu ár.

Forsetakosningarnar verða, að öllu óbreyttu haldnar árið 2019. Óvíst er hins vegar hvenær næstu þingkosningar fara fram í Afganistan; síðast var kosið árið 2010 og með réttu hefði átt að kjósa aftur árið 2015. Deilur um endurskoðun kosningalaga og ósættið milli Ghani og Abdullah hafa hins vegar gert það að verkum að engin niðurstaða hefur enn fengist. Ghani lýsti því reyndar nýlega yfir að fullur vilji væri til að halda kosningar en hins vegar er erfitt að ímynda sér hvernig þær ættu að fara fram í ríki þar sem stór hluti landsvæðisins er undir stjórn eða áhrifum uppreisnarmanna.

Er friður í aug­sýn?

Allir sem fjalla um eða skipta sér að ein­hverju leyti af ástandi mála í Afganistan eru sam­mála um að engin leið sé til að koma á friði í land­inu, nema með því að ná samn­ingum við Tali­bana; sigur verði aldrei unn­inn á víg­vell­in­um. Friður hefur hins vegar til þessa reynst vera tál­sýn. Snemma á síð­asta ári var mikið lagt í und­ir­bún­ing við­ræðna við Tali­bana, en þær fóru út um þúfur þegar í ljós kom að stofn­andi og leið­togi Tali­bana, Mullah Mohammed Omar, hefði lát­ist árið 2013. Síðan þá hafa ein­hverjar við­ræður farið fram, en litlar líkur eru taldar á því að þær beri ávöxt, að minnsta kosti á meðan Tali­banar líta svo á að átök, skæru­hern­aður og sprengju­árásir skili sér í auknum yfir­ráðum og áhrifum í Afganist­an.

Stjórn­völd í Kabúl binda hins vegar vonir við að nýgerður frið­ar­samn­ingur við Gul­buddin Hek­mata­yar og liðs­menn hans í Hez­b-e Islami geti orðið að ein­hvers konar fyr­ir­mynd samn­inga við aðra upp­reisn­ar­menn. Sá samn­ingur var stað­festur í Kabúl nýlega og þýðir að Hek­mata­yar og hans lið getur komið úr fel­um; til að liðka fyrir þessu ákvað Örygg­is­ráð Sam­ein­uðu þjóð­anna snemma í febr­úar að aflétta refsi­að­gerðum og for­dæm­ingu á Hek­mata­y­ar. Frið­ar­sam­komu­lagið við hann er þó talið skipta litlu máli hvað átökin sjálf varð­ar, því Hek­mata­yar ræður aðeins yfir nokkur þús­und manna liði, á meðan liðs­menn Tali­bana eru taldir vera um fimm­tíu þús­und. Ákvörðun Örygg­is­ráðs­ins gæti hins vegar orðið til þess að hvetja þá til að hugsa mál­ið.

Það sem flækir svo enn frekar þessa stöðu eru sam­skipti og sam­band stjórn­valda í Kabúl við nágranna­ríki sín. Ráða­menn í Pakistan hafa um langt skeið verið sak­aðir um að hafa stutt Tali­bana leynt og ljóst, til að við­halda ótryggu ástandi í Afganistan; æðstu stjórn­endur Tali­bana hafa um langt skeið verið í leynum í Pakistan og þaðan hafa margir af liðs­mönnum sam­tak­anna kom­ið. Rússar hafa einnig verið að seil­ast til áhrifa á svæð­inu, og í yfir­heyrslum á Banda­ríkja­þingi nýlega sá Nichol­son, yfir­hers­höfð­ingi NATO í Afganistan, raunar ástæðu til að gagn­rýna Rússa fyrir að halda því á lofti að Tali­banar væru gagn­legir í bar­átt­unni gegn Daesh; með því væri verið að gefa Tali­bönum lög­mæti sem þeir ættu ekki skil­ið. Ind­versk stjórn­völd hafa einnig verið að seil­ast til áhrifa í Afganistan, og það hefur að sjálf­sögðu vakið við­brögð og tor­tryggni í Pakistan, enda lít­ill vin­skapur með yfir­völdum í Nýju Deli og Islama­bad. Allt þetta hljómar eins og end­ur­ómur af „The Great Game“; valda­bar­áttu Breta og Rússa á svæð­inu á 19. öld og til­raunum þeirra til að leggja undir sig eða kom­ast til áhrifa í Afganist­an.

Íslenska Friðargæslan í Afganistan

Tugir Íslendinga hafa starfað á vegum Íslensku Friðargæslunnar í Afganistan undanfarin ár, enda er þáttaka Íslands í þessu verkefni sú umfangsmesta sem stjórnvöld hér hafa ráðist í. Rétt eins og önnur NATO ríki, hóf Ísland þátttöku sína þegar bandalagið tók yfir stjórn ISAF árið 2003, en áður hafði verið veitt fjárhagsaðstoð vegna loftflutninga til Afganistans. Árið 2004 tók Íslenska Friðargæslan við stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl og lagði til 17 af þeim rúmlega 300 stöðugildum sem þá þurfti til að reka flugvöllinn. Friðargæslan kom einnig að mönnun hópa sem sendir voru vítt og breitt um Afganistan til að vinna að og fylgjast með endurreisnarstarfi í landinu. Árið 2006 rann rúmur helmingur fjárframlaga til Friðargæslunnar til verkefna í Afganistan; um 300 milljónir króna. Á þeim tíma voru að jafnaði 13 til 15 manns á vegum Friðargæslunnar í Afganistan, eða um helmingur stöðugilda á vegum hennar. Undanfarin ár hefur dregið mjög úr umfangi og aðkomu Íslands og vorið 2015 fóru síðustu tveir starfsmenn Friðargæslunnar frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl. Nú eru tveir starfsmenn Friðargæslunnar í Kabúl, og starfa þar í höfuðstöðvum NATO.

Hvað næst?

Banda­rísk stjórn­völd ákváðu á síð­asta ári að fækka tals­vert í liði sínu í Afganist­an. Þar eru nú um 8.400 banda­rískir her­menn, þótt Barack Obama, fyrr­ver­andi for­seti, hefði upp­haf­lega haft það á stefnu­skrá sinni að draga allt her­lið til baka frá land­inu. Ekki er ljóst hvað núver­andi stjórn­völd í Was­hington ætla sér, en flestir frétta­skýrendur búast þó við að Don­ald Trump muni ekki fækka veru­lega í her­liði Banda­ríkj­anna í Afganist­an. Alþjóða­sam­fé­lag­ið, þar á meðal aðild­ar­ríki NATO hafa heitið stuðn­ingi næstu árin, en samt er ekki ljóst hversu lengi Resolute Supp­ort verk­efnið verður til staðar í Afganist­an. Íhlutun NATO þar er fyrir löngu orðið að stærsta og lengsta verk­efni banda­lags­ins og raunar Banda­ríkj­anna einnig, og miklir hags­munir eru tengdir því að sjá árang­ur; kannski má segja að því lengur sem íhlut­unin vari, því erf­ið­ara verði að hætta henni.

Yfir­lýst mark­mið NATO og Banda­ríkj­anna er að koma í veg fyrir að Afganistan verði aftur hæli hryðju­verka­manna sem geti þaðan skipu­lagt árásir á önnur lönd – og að afganski her­inn og lög­reglan geti að fullu og óstudd séð um að halda uppi öryggi fyrir almenna borg­ara. Reynsla síð­ustu ára sýnir að það er verk­efni sem ekki sér fyrir end­ann á, segir Sune Eng­el.

„Al­þjóð­aliðið virð­ist ekki vera með neina áætlun um hvernig eigi að stilla til friðar í Afganist­an. Hér er rekið sér­stakt verk­efni gegn hryðju­verka­sam­tök­um, þar sem ráð­ist er á litlar sveitir manna sem lýst hafa yfir stuðn­ingi við sam­tökin sem kenna sig við Íslamskt ríki, og hópa úr al-Kaída sam­tök­un­um, en það virð­ist engin lang­tíma­á­ætlun vera til stað­ar. Auð­vitað er það hlut­verk afganskra örygg­is­sveita að sigr­ast á Tali­bön­um, en eins og staðan er núna, þá er alþjóð­aliðið í litlum tengslum við það sem ger­ist á víg­vell­in­um. Það dregur úr vilja afganskra her­manna til að berjast, og gerir lítið til þess að koma í veg fyrir spill­ingu meðal her­for­ingja.“

Um höf­und­inn

Björn Malmquist er fyrr­ver­andi frétta­maður á RÚV og starf­aði sem frið­ar­gæslu­liði á vegum Utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins í Kabúl frá 2015 til 2016.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar