365 vodafone

Stærsti samruni fjölmiðlunar og fjarskipta í Íslandssögunni

Eignir 365 miðla hafa staðið öðrum fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækjum til boða á meðan að verið var að ganga frá samningum við Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, um kaup á þeim. Viðskiptin þykja frábær fyrir eigendur 365 en líka góð fyrir Fjarskipti vegna samlegðaráhrifa. Arion banki þrýsti mjög á kaupin.

Þrátt fyrir að til­kynnt hafi verið um sölu á ljós­vaka- og fjar­skipta­hluta 365 miðla til Fjar­skipta, móð­ur­fé­lags Voda­fone á Íslandi, síð­sum­ars 2016 hefur gengið erf­ið­lega að klára hana. Í des­em­ber var til­kynnt um að verð­mið­inn hefði verið lækk­aður um 1,2 millj­arða króna og þegar end­an­legur kaup­samn­ingur var kynntur í gær kom í ljós að frétta­vefnum Vísi.is og frétta­stofu ljós­vaka­miðla 365 hafði verið bætt við kaupin á loka­metr­un­um.

Á fjár­festa­kynn­ingu sem Fjar­skipti héldu í gær kom fram að kaup­verðið er sett fram á verð­bili. Á neðri og efri mörkum þess munar 150 millj­ónum króna og er það háð afkomu hins keypta á árinu 2017 hvort verður ofan á. Fjár­festar túlk­uðu þetta á þann veg að svo stutt væri síðan að Vísi var bætt í pakk­ann að ekki hafi gef­ist almenn­ingur tími til að átta sig á hvert raun­veru­legt verð­mæti vefs­ins væri.

Við­mæl­endur Kjarn­ans innan fjar­skipta- og fjöl­miðla­geirans segja þó að því fari fjarri að aug­ljóst væri að samn­ingar myndu nást. 365-­megin var mál­inu stýrt af Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni, fyrr­ver­andi aðal­eig­anda fyr­ir­tæk­is­ins og eig­in­manns núver­andi aðal­eig­anda, Ingi­bjargar Pálma­dótt­ur. Það eru allir sem rætt er við, hvort sem það er innan 365 miðla eða hjá við­semj­endum fyr­ir­tæk­is­ins, að Jón Ásgeir stýrir því sem skugga­stjórn­andi, þótt hann sé ekki á neinu skipu­riti. Sú staða opin­ber­að­ist ágæt­lega í gær þegar kaup Fjar­skipta voru kynnt á starfs­manna­fundi í mötu­neyti 365 miðla. Þar sá Jón Ásgeir um að kynna söl­una fyrir starfs­mönn­un­um.

Við­ræður við aðra

Á þeim tíma sem lið­inn er frá því að upp­haf­lega var til­kynnt um áform Fjar­skipta um að kaupa hluta af starf­semi 365 miðla hefur Jón Ásgeir, og aðrir sem koma að stjórnun 365, líka reynt að selja fyr­ir­tæk­ið, sér­stak­lega valda hluta þess, til ann­arra aðila. Þannig sást oft til Jóns Ásgeirs funda með helstu stjórn­endum Sím­ans á und­an­förnum mán­uðum í höf­uð­stöðvum fjar­skipt­ar­is­ans.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að þar hafi Sím­anum bæði verið boðið að kaupa ákveðnar eignir út úr 365 auk þess sem verið var að semja um skuldir 365 við Sím­ans, sem eru til­komnar vegna veittrar fjar­skipta­þjón­ustu og aðgengis að sjón­varps­dreifi­kerfi Sím­ans. Á end­anum varð ekk­ert úr því að Sím­inn reyndi með form­legum hætti að kaupa neitt af eignum 365.

Heim­ildir Kjarn­ans herma einnig að Árvakri, útgáfu­fé­lagi Morg­un­blaðs­ins, hafi verið boðið að kaupa útvarps­svið 365 miðla, en þær umleit­anir skil­uðu heldur ekki neinum árangri.

Arion banki þrýsti mjög á kaupin

Helsti drif­kraft­ur­inn á bak við sölu á hluta af 365 til Fjar­skipta er Arion banki. Bank­inn end­ur­fjár­magn­aði skuldir 365, nokkuð óvænt, haustið 2015. Áður hafði fyr­ir­tækið verið í banka­við­skiptum við Lands­bank­ann. Við þá breyt­ingu juk­ust lang­­tíma­skuldir 365 miðla úr 3,6 millj­­örðum króna í 4,8 millj­­arða króna.

Rekstur 365 hefur hins vegar ekki verið að ganga neitt frá­bær­lega. 365 miðlar töp­uðu 1,4 millj­­arði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skatta­skuld sem það hefur þegar verið dæmt til að greiða í rekstr­­ar­­reikn­ing 2015 hefði tapið verið 350 millj­­ónir króna það árið. Alls skuld­aði fyr­ir­tækið um tíu millj­arða króna í lok þess árs, en af þeirri tölu voru áður­nefndir 4,8 millj­arðar króna vaxta­ber­andi lang­tíma­skuldir . Restin var í formi við­skipta- og skamm­tíma­skulda (um fjórir millj­arðar króna), skamm­tíma­skuldir upp rúm­lega 400 millj­ónir króna og fyrir fram inn­heimtar tekjur upp á rúm­lega 700 millj­ónir króna. Í sam­komu­lag­inu við Fjar­skipti eru yfir­teknar við­skipta­skuldir upp á 1.550 millj­ónir króna en við­skipta­kröfur verða skildar eftir hjá selj­anda við afhend­ingu.

Sævar Freyr Þráinsson tilkynnti í gær að hann væri hættur sem forstjóri hjá 365 miðlum og tekur við starfi bæjarstjóra á Akranesi. Innan 365 er sterklega búist við því að ekki verði pláss fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins þegar flutningur þess yfir til Fjarskipta verður yfirstaðinn.Sam­kvæmt árs­reikn­ingi 365 fyrir árið 2015 áttu end­ur­greiðslur af end­ur­fjár­mögn­uðu lán­unum sem feng­ust hjá Arion banka að hefj­ast fyrir alvöru í ár, á árinu 2017. Þá átti 365 að greiða bank­anum 396 millj­ónir króna. Miðað við rekstur 365 á und­an­förnum árum hefði orðið erfitt að mæta þeim gjald­daga.

Hvernig fyr­ir­tæki verður 365 miðlar nú?

Fjar­skipti er að kaupa alla fjar­skipta­þjón­ustu sem 365 veit­ir. Mark­aðs­hlut­deild hennar í far­síma­þjón­ustu er 3,7 pró­sent og í inter­net­þjón­ustu 11,8 pró­sent. Auk þess fara allar sjón­varps- og útvarps­stöðvar 365 miðla yfir til Fjar­skipta. Þar á meðal eru Stöð 2, allar íþrótt­ar­ás­ir, Bylgj­an, FM957 og X-ið. Auk þess var ákveðið á loka­sprett­in­um, líkt og áður sagði, að frétta­vef­ur­inn Vís­ir.is og frétta­stofa ljós­vaka­miðla myndi fylgja með í kaup­un­um.

Á fjár­festa­kynn­ing­unni sem haldin var í gær kom fram að aðilar hafi „samið um miðlun frétta­efnis og sam­starf sín á milli í kjöl­far við­skipta.“ Í þessu felst aðal­lega að efni úr Frétta­blað­inu heldur áfram að birt­ast á Vísi, á grunni gerðs þjón­ustu­samn­ings.

Eft­ir­lits­stofn­anir eiga eftir að segja skoðun sína á slíku sam­starfi. Á kynn­ing­unni kom einnig fram að Frétta­blað­inu, sem verður skilið eitt eftir í 365 miðlum með tíma­rit­inu Gla­mour, má stofna eigin vef­síðu en tak­mark­anir eru á því hvað Frétta­blaðið má gera á þeirri síðu, sam­kvæmt sam­komu­lagi milli aðila.

Þar kom hins vegar ekki fram hvernig frétta­stofu 365 miðla verði skipt upp. Eins og staðan er í dag er einn aðal­rit­stjóri, Kristín Þor­steins­dótt­ir, yfir henni allri og hún rekin sem ein ein­ing. Fleiri hafa fljót­andi hlut­verk innan fyr­ir­tæk­is­ins sem snertir fleiri en einn teg­und miðla.

Helstu tekj­urnar frá áskriftum að sjón­varps­stöðvum

Í fjár­festa­kynn­ing­unni kemur einnig fram að tekjur þeirra ein­inga sem keyptar verða af 365 hafi verið 8,5 millj­arðar króna á árinu 2016. Þar af voru fjar­skipta­tekjur 1,7 millj­arðar króna og aug­lýs­inga­tekjur voru tæp­lega 1,8 millj­arðar króna. Uppi­staðan í tekju­flæð­inu voru áskrifta­tekjur sjón­varps. Þær voru 58 pró­sent allra tekna, eða tæpir fimm millj­arðar króna.

Það eru fá við­skipta­módel sem eiga meira undir högg að sækja en sala á dýrum áskriftum að sjón­varps­stöðv­um, líkt og Stöð 2 og tengdar stöðvar hafa byggt rekstur sinn upp á. Pakkar sem inni­halda Stöð 2, og eru til sölu hjá 365, kosta til að mynda frá 9.900 krónum á mán­uði upp í 22.990 krónur á mán­uði. Mán­að­ar­á­skrift að efn­isveit­unni Net­flix kostar til sam­an­burðar undir eitt þús­und krón­um.

Það var enda til­tekið sem einn helst áhættu­þátt­ur­inn í við­skipt­unum að við­skipta­vinum í áskrift­ar­sjón­varpi muni fækka með auk­inni sam­keppni frá erlendum efn­isveit­um. Þeim við­skipta­vinum hefur nú þegar fækkað mjög á und­an­förnum árum og erfitt að sjá hvernig hægt verður að halda við­skipta­vinum í því að borga marg­falt meira fyrir aðgang að efni sem hægt er að mestu að nálg­ast á mun ódýr­ari hátt ann­ars stað­ar.

Stefán Sig­urðs­son, for­stjóri Voda­fone, sagði í Kast­ljósi í gær að félagið hefði mikla reynslu af því að byggja  upp áskrift­ar­þjón­ustu eftir að hafa farið í gegnum þann fasa með sölu á Play-­þjón­ust­unni á und­an­förnum miss­er­um. Nú séu við­skipta­vinir hennar um tíu þús­und. Það er hins vegar mun ódýr­ara að kaupa Play-­þjón­ustu Voda­fone en að kaupa þá sjón­varps­þjón­ustu sem 365 hefur boðið upp á. Verðið fyrir Play-­pakka er á bil­inu 2.490 til 3.990 krónur á mán­uði.

Frá­bær samn­ingur fyrir stærstu eig­endur 365

Það eru flestir við­mæl­endur Kjarn­ans á því að salan á eign­unum til Fjar­skipta  sé frá­bær fyrir eig­endur 365 miðla. Þeir sitja eftir með litlar skuld­ir, um einn og hálfan millj­arð króna í reiðu­fé, halda Frétta­blað­inu og fá 10,9 pró­sent hlut í Fjar­skiptum sem gerir þá að einum af stærstu hlut­höf­unum í félag­inu.

Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eru stærstu eigendur 365. Þau verða mjög stórir eigendur í Fjarskiptum gangi kaupin eftir. Auk þess verður fjárhagsstaða 365 miðla mjög góð.

En það þarf ekki að þýða að kaupin séu endi­lega slæm fyrir Fjar­skipti. Það er mikil sam­legð fólgin í kaup­unum sem er metin á um 1,1 millj­arða króna á ári þegar hún er að fullu komin fram. Miðað við það ættu kaupin að borga sig upp á nokkrum árum fyrir Fjar­skipti.

Þar af er sparn­aður í tækni­málum met­inn á 600 millj­ónir króna á ári. Um er að ræða sam­legð sem myndi ekki koma fram hjá neinum öðrum kaup­anda en fjar­skipta­fyr­ir­tæki og því ekki margir aðilar sem myndu ná fram þeirri sam­legð aðrir en Voda­fone. Lík­lega bara Sím­inn. Sam­legðin felst í því að 365, sem á ekki eigin fjar­skipta­kerfi, hættir að kaupa þjón­ustu af Sím­anum og fer inn á kerfi Voda­fone sem er þegar til stað­ar.

Þorri þeirrar sam­legðar sem á að ná til við­bótar er vegna lægri rekstr­ar­kostn­að­ar. Lægri kostn­aður þýðir vana­lega færra starfs­fólk, enda stærsti kostn­aður þjón­ustu­fyr­ir­tæki vana­lega launa­kostn­að­ur. Auk þess eykst velta Fjar­skipta til muna við kaupin og verður 22 millj­arðar króna. Þá er áætluð EBITDA (hagn­aður fyrir afskrift­ir, fjár­magns­kostnað og skatta) sam­ein­aðs félags, þegar sam­legð er að fullu komin fram, um fimm millj­arðar króna.

Þótt að búið sé að ganga frá kaup­samn­ingi þá er ekki þar með sagt að kaupin séu frá­geng­in. Sam­keppn­is­eft­ir­litið á enn eftir að segja sína skoðun á þeim og í fjár­festa­kynn­ingu Fjar­skipta kom fram að einn helsti áhættu­þáttur við­skipt­anna væri sá að eft­ir­litið banni eða setji kaup­unum íþyngj­andi skil­yrði. Það á því enn margt eftir að ger­ast áður en þessi stærsti sam­runi fjar­skipta og fjöl­miðl­unar í Íslands­sög­unni fær að eiga sér stað.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar