365 vodafone

Stærsti samruni fjölmiðlunar og fjarskipta í Íslandssögunni

Eignir 365 miðla hafa staðið öðrum fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækjum til boða á meðan að verið var að ganga frá samningum við Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, um kaup á þeim. Viðskiptin þykja frábær fyrir eigendur 365 en líka góð fyrir Fjarskipti vegna samlegðaráhrifa. Arion banki þrýsti mjög á kaupin.

Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um sölu á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla til Fjarskipta, móðurfélags Vodafone á Íslandi, síðsumars 2016 hefur gengið erfiðlega að klára hana. Í desember var tilkynnt um að verðmiðinn hefði verið lækkaður um 1,2 milljarða króna og þegar endanlegur kaupsamningur var kynntur í gær kom í ljós að fréttavefnum Vísi.is og fréttastofu ljósvakamiðla 365 hafði verið bætt við kaupin á lokametrunum.

Á fjárfestakynningu sem Fjarskipti héldu í gær kom fram að kaupverðið er sett fram á verðbili. Á neðri og efri mörkum þess munar 150 milljónum króna og er það háð afkomu hins keypta á árinu 2017 hvort verður ofan á. Fjárfestar túlkuðu þetta á þann veg að svo stutt væri síðan að Vísi var bætt í pakkann að ekki hafi gefist almenningur tími til að átta sig á hvert raunverulegt verðmæti vefsins væri.

Viðmælendur Kjarnans innan fjarskipta- og fjölmiðlageirans segja þó að því fari fjarri að augljóst væri að samningar myndu nást. 365-megin var málinu stýrt af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi aðaleiganda fyrirtækisins og eiginmanns núverandi aðaleiganda, Ingibjargar Pálmadóttur. Það eru allir sem rætt er við, hvort sem það er innan 365 miðla eða hjá viðsemjendum fyrirtækisins, að Jón Ásgeir stýrir því sem skuggastjórnandi, þótt hann sé ekki á neinu skipuriti. Sú staða opinberaðist ágætlega í gær þegar kaup Fjarskipta voru kynnt á starfsmannafundi í mötuneyti 365 miðla. Þar sá Jón Ásgeir um að kynna söluna fyrir starfsmönnunum.

Viðræður við aðra

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að upphaflega var tilkynnt um áform Fjarskipta um að kaupa hluta af starfsemi 365 miðla hefur Jón Ásgeir, og aðrir sem koma að stjórnun 365, líka reynt að selja fyrirtækið, sérstaklega valda hluta þess, til annarra aðila. Þannig sást oft til Jóns Ásgeirs funda með helstu stjórnendum Símans á undanförnum mánuðum í höfuðstöðvum fjarskiptarisans.

Heimildir Kjarnans herma að þar hafi Símanum bæði verið boðið að kaupa ákveðnar eignir út úr 365 auk þess sem verið var að semja um skuldir 365 við Símans, sem eru tilkomnar vegna veittrar fjarskiptaþjónustu og aðgengis að sjónvarpsdreifikerfi Símans. Á endanum varð ekkert úr því að Síminn reyndi með formlegum hætti að kaupa neitt af eignum 365.

Heimildir Kjarnans herma einnig að Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, hafi verið boðið að kaupa útvarpssvið 365 miðla, en þær umleitanir skiluðu heldur ekki neinum árangri.

Arion banki þrýsti mjög á kaupin

Helsti drifkrafturinn á bak við sölu á hluta af 365 til Fjarskipta er Arion banki. Bankinn endurfjármagnaði skuldir 365, nokkuð óvænt, haustið 2015. Áður hafði fyrirtækið verið í bankaviðskiptum við Landsbankann. Við þá breyt­ingu juk­ust lang­tíma­skuldir 365 miðla úr 3,6 millj­örðum króna í 4,8 millj­arða króna.

Rekstur 365 hefur hins vegar ekki verið að ganga neitt frábærlega. 365 miðlar töp­uðu 1,4 millj­arði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skatta­skuld sem það hefur þegar verið dæmt til að greiða í rekstr­ar­reikn­ing 2015 hefði tapið verið 350 millj­ónir króna það árið. Alls skuldaði fyrirtækið um tíu milljarða króna í lok þess árs, en af þeirri tölu voru áðurnefndir 4,8 milljarðar króna vaxtaberandi langtímaskuldir . Restin var í formi viðskipta- og skammtímaskulda (um fjórir milljarðar króna), skammtímaskuldir upp rúmlega 400 milljónir króna og fyrir fram innheimtar tekjur upp á rúmlega 700 milljónir króna. Í samkomulaginu við Fjarskipti eru yfirteknar viðskiptaskuldir upp á 1.550 milljónir króna en viðskiptakröfur verða skildar eftir hjá seljanda við afhendingu.

Sævar Freyr Þráinsson tilkynnti í gær að hann væri hættur sem forstjóri hjá 365 miðlum og tekur við starfi bæjarstjóra á Akranesi. Innan 365 er sterklega búist við því að ekki verði pláss fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins þegar flutningur þess yfir til Fjarskipta verður yfirstaðinn.


Samkvæmt ársreikningi 365 fyrir árið 2015 áttu endurgreiðslur af endurfjármögnuðu lánunum sem fengust hjá Arion banka að hefjast fyrir alvöru í ár, á árinu 2017. Þá átti 365 að greiða bankanum 396 milljónir króna. Miðað við rekstur 365 á undanförnum árum hefði orðið erfitt að mæta þeim gjalddaga.

Hvernig fyrirtæki verður 365 miðlar nú?

Fjarskipti er að kaupa alla fjarskiptaþjónustu sem 365 veitir. Markaðshlutdeild hennar í farsímaþjónustu er 3,7 prósent og í internetþjónustu 11,8 prósent. Auk þess fara allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 miðla yfir til Fjarskipta. Þar á meðal eru Stöð 2, allar íþróttarásir, Bylgjan, FM957 og X-ið. Auk þess var ákveðið á lokasprettinum, líkt og áður sagði, að fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa ljósvakamiðla myndi fylgja með í kaupunum.

Á fjárfestakynningunni sem haldin var í gær kom fram að aðilar hafi „samið um miðlun fréttaefnis og samstarf sín á milli í kjölfar viðskipta.“ Í þessu felst aðallega að efni úr Fréttablaðinu heldur áfram að birtast á Vísi, á grunni gerðs þjónustusamnings.

Eftirlitsstofnanir eiga eftir að segja skoðun sína á slíku samstarfi. Á kynningunni kom einnig fram að Fréttablaðinu, sem verður skilið eitt eftir í 365 miðlum með tímaritinu Glamour, má stofna eigin vefsíðu en takmarkanir eru á því hvað Fréttablaðið má gera á þeirri síðu, samkvæmt samkomulagi milli aðila.

Þar kom hins vegar ekki fram hvernig fréttastofu 365 miðla verði skipt upp. Eins og staðan er í dag er einn aðalritstjóri, Kristín Þorsteinsdóttir, yfir henni allri og hún rekin sem ein eining. Fleiri hafa fljótandi hlutverk innan fyrirtækisins sem snertir fleiri en einn tegund miðla.

Helstu tekjurnar frá áskriftum að sjónvarpsstöðvum

Í fjárfestakynningunni kemur einnig fram að tekjur þeirra eininga sem keyptar verða af 365 hafi verið 8,5 milljarðar króna á árinu 2016. Þar af voru fjarskiptatekjur 1,7 milljarðar króna og auglýsingatekjur voru tæplega 1,8 milljarðar króna. Uppistaðan í tekjuflæðinu voru áskriftatekjur sjónvarps. Þær voru 58 prósent allra tekna, eða tæpir fimm milljarðar króna.

Það eru fá viðskiptamódel sem eiga meira undir högg að sækja en sala á dýrum áskriftum að sjónvarpsstöðvum, líkt og Stöð 2 og tengdar stöðvar hafa byggt rekstur sinn upp á. Pakkar sem innihalda Stöð 2, og eru til sölu hjá 365, kosta til að mynda frá 9.900 krónum á mánuði upp í 22.990 krónur á mánuði. Mánaðaráskrift að efnisveitunni Netflix kostar til samanburðar undir eitt þúsund krónum.

Það var enda tiltekið sem einn helst áhættuþátturinn í viðskiptunum að viðskiptavinum í áskriftarsjónvarpi muni fækka með aukinni samkeppni frá erlendum efnisveitum. Þeim viðskiptavinum hefur nú þegar fækkað mjög á undanförnum árum og erfitt að sjá hvernig hægt verður að halda viðskiptavinum í því að borga margfalt meira fyrir aðgang að efni sem hægt er að mestu að nálgast á mun ódýrari hátt annars staðar.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, sagði í Kastljósi í gær að félagið hefði mikla reynslu af því að byggja  upp áskriftarþjónustu eftir að hafa farið í gegnum þann fasa með sölu á Play-þjónustunni á undanförnum misserum. Nú séu viðskiptavinir hennar um tíu þúsund. Það er hins vegar mun ódýrara að kaupa Play-þjónustu Vodafone en að kaupa þá sjónvarpsþjónustu sem 365 hefur boðið upp á. Verðið fyrir Play-pakka er á bilinu 2.490 til 3.990 krónur á mánuði.

Frábær samningur fyrir stærstu eigendur 365

Það eru flestir viðmælendur Kjarnans á því að salan á eignunum til Fjarskipta  sé frábær fyrir eigendur 365 miðla. Þeir sitja eftir með litlar skuldir, um einn og hálfan milljarð króna í reiðufé, halda Fréttablaðinu og fá 10,9 prósent hlut í Fjarskiptum sem gerir þá að einum af stærstu hluthöfunum í félaginu.

Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eru stærstu eigendur 365. Þau verða mjög stórir eigendur í Fjarskiptum gangi kaupin eftir. Auk þess verður fjárhagsstaða 365 miðla mjög góð.

En það þarf ekki að þýða að kaupin séu endilega slæm fyrir Fjarskipti. Það er mikil samlegð fólgin í kaupunum sem er metin á um 1,1 milljarða króna á ári þegar hún er að fullu komin fram. Miðað við það ættu kaupin að borga sig upp á nokkrum árum fyrir Fjarskipti.

Þar af er sparnaður í tæknimálum metinn á 600 milljónir króna á ári. Um er að ræða samlegð sem myndi ekki koma fram hjá neinum öðrum kaupanda en fjarskiptafyrirtæki og því ekki margir aðilar sem myndu ná fram þeirri samlegð aðrir en Vodafone. Líklega bara Síminn. Samlegðin felst í því að 365, sem á ekki eigin fjarskiptakerfi, hættir að kaupa þjónustu af Símanum og fer inn á kerfi Vodafone sem er þegar til staðar.

Þorri þeirrar samlegðar sem á að ná til viðbótar er vegna lægri rekstrarkostnaðar. Lægri kostnaður þýðir vanalega færra starfsfólk, enda stærsti kostnaður þjónustufyrirtæki vanalega launakostnaður. Auk þess eykst velta Fjarskipta til muna við kaupin og verður 22 milljarðar króna. Þá er áætluð EBITDA (hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta) sameinaðs félags, þegar samlegð er að fullu komin fram, um fimm milljarðar króna.

Þótt að búið sé að ganga frá kaupsamningi þá er ekki þar með sagt að kaupin séu frágengin. Samkeppniseftirlitið á enn eftir að segja sína skoðun á þeim og í fjárfestakynningu Fjarskipta kom fram að einn helsti áhættuþáttur viðskiptanna væri sá að eftirlitið banni eða setji kaupunum íþyngjandi skilyrði. Það á því enn margt eftir að gerast áður en þessi stærsti samruni fjarskipta og fjölmiðlunar í Íslandssögunni fær að eiga sér stað.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar