Skjáskot af frétt Morgunblaðsins dag­inn eftir að S-hóp­ur­inn gekk frá kaup­unum á Bún­að­ar­bank­an­um árið 2003. Þar sjást Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson, sem skrifuðu undir kaupin fyrir hönd S-hópsins, keyra á brott. moggi

Sagan um sölu ríkisins á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum

Rannsóknarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á Búnaðarbankanum hafi verið til málamynda. Kaup bankans voru fjármögnuð í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings. Það sem lengi hefur verið haldið virðist staðfest.

Formlega hófst sala á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum á sama tíma og Landsbankanum, með auglýsingu sem birt var 10. júní 2002. Í fundargerðum framkvæmdanefndar um einkavæðingu, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur hins vegar skýrt fram að ekki hafi staðið til að selja jafn stóran hluta í bankanum og á endanum var seldur, heldur ætti að miða að því að selja 20 prósent hlut í september 2002. Í kjölfarið gæti leit hafist að kjölfestufjárfesti í Búnaðarbankanum.

Þessi stefna breyttist skyndilega og strax snemma í júlí 2002 greindi Jón Sveinsson, sem sat sem fulltrúi Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og formanns Framsóknarflokksins í einkavæðingarnefndinni,  nefndinni frá því. Í fundargerð frá 8. júlí 2002 er bókað að „vilji viðskiptaráðherra [Valgerður Sverrisdóttir] stæði til þess að auglýsa báða bankana í einu. Hvað eignarhluta varðaði væri verið að tala um 25-33% í fyrsta áfanga með kauprétti síðar“. Auglýst var eftir áhugasömum kaupendum að þeim hlut.

Næstu mánuði var einkavæðingarnefnd upptekin við að selja Landsbanka Íslands. Hún tók hins vegar aftur upp þráðinn hvað varðar Búnaðarbankann í september þetta sama ár. Þá var búið að samþykkja að fara í einkaviðræður við Samson-hópinn um kaup á Landsbankanum nokkrum dögum áður.

Snéri sér að S-hópnum

Fjórum dögum eftir að einkavæðingarnefnd ákvað að selja Samson-hópnum hlut ríkisins í Landsbankanum, þann 13. september 2002, snéri nefndin sér að því að hefja undirbúning á sölu á Búnaðarbankanum.

Þar sem stórir hlutir í bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum höfðu verið auglýstir til sölu á sama tíma, og tveir hópar, Kaldbakur og S-hópurinn svokallaði, höfðu boðið í þá báða, taldi einkavæðingarnefnd ljóst að báðir þessir hópar væru gjaldgengir til að halda áfram viðræðum um að eignast Búnaðarbankann. Hinir tveir bjóðendurnir sem lýst höfðu áhuga, Íslandsbanki og Þórður Magnússon ásamt meðfjárfestum, var tilkynnt að þeir myndu ekki halda áfram í ferlinu.

Reynt var að fá S-hópinn og Kaldbak til að sameinast. Þær tilraunar áttu sér að hálfu ráðamanna í Framsóknarflokknum, en gengu á endanum frekar illa.

Vert er að rifja upp á að íslenska ríkið hafði lengi lagt mikla áherslu á að eitt af helstu markmiðum einkavæðingar bankanna væri að fá erlenda fjármálastofnun til að koma inn sem eigandi að íslenskum banka. Þar sem hlutur ríkisins í Landsbankanum hafði verið seldur til Samson, sem augljóslega var ekki erlendur banki, þá þótti ljóst að æskilegt væri að bjóðendur í Búnaðarbankann væru með slíkan meðfjárfesti í farteskinu.

Rík tengsl við Framsóknarflokkinn

Mat á hvort tilboðið væri betra hafði breyst frá því sem var þegar ákveðið var hverjum ætti að selja Landsbankann. Nú var vægi verðs aukið og matsþáttum fækkað. Og S-hópurinn átti hæsta boðið.

Hópurinn var leiddur af mönnum með rík tengsl við Framsóknarflokkinn, þeim Ólafi Ólafssyni, sem nú afplánar fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins, og Finni Ingólfssyni, fyrrum varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins. Aðrir lykilmenn í hópnum voru Kristján Loftsson, oftast kenndur við Hval, Margeir Daníelsson, Jón Helgi Guðmundsson, oftast kenndur við Byko, og lögmaðurinn Kristinn Hallgrímsson.

Í mati HSBC, ráðgjafa íslenska ríkisins, á S-hópnum kom meðal annars fram að breski bankinn hefði áhyggjur af miklum krosseignatengslum milli þeirra sem komu að fjárfestingarhópnum því það gerði bankanum erfitt fyrir að meta raunverulega stöðu hans. Þá var ráðandi þáttur í mati á fjármögnun kaupanna í Búnaðarbankanum aðkoma Societe General að verkefninu. Frá þeirri „aðkomu“ verður betur greint síðar, en ljóst að hún skipti miklu máli við rökstuðning á því að S-hópurinn ætti að fá að kaupa.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi bréf þar sem hann fór fram á að aðkoma Hauck & Aufhauser yrði rannsökuð.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

HSBC hafði áhyggjur af fleiri hlutum. Í mati hans stendur einnig að „stjórnendur [Búnaðarbankans] hafa lýst yfir áhyggjum af mögulegum hagsmunaárekstrum: hafa áhyggjur af því að B [Búnaðarbankinn] verði talinn vera mjög nátengdur S-hópnum og pólitískum samböndum hans sem muni gera varðveislu viðskiptavina og öflun nýrra viðskiptavina mun erfiðari.“ Þá kom einnig fram að þeir aðilar sem mynduðu S-hópinn höfðu verið í miklum lánaviðskiptum við Búnaðarbankann. Samtals námu lán til þeirra 4,3 milljörðum króna, eða 2,9 prósentum af heildarútlánum bankans um mitt ár 2002. Við mat á þekkingu og reynslu S-hópsins var sérstaklega tekið tillit til aðkomu Societe General eða annarrar erlendrar fjármálastofnunar og þess tengslanets sem myndi fylgja slíkri aðkomu.

Frönskum risabanka veifað fyrir framan einkavæðingarnefnd

En hvernig tengdist risavaxinn franskur banki með víðfeðma alþjóðlega starfsemi félitlum kaupendahópi með rík pólitísk tengsl við annan stjórnarflokkinn sem langaði að eignast banka á litla Íslandi? Jú, S-hópurinn lét í það skína í upplýsingagjöf sinni til einkavæðingarnefndarSociete General ætlaði að kaupa hlut ríkisins með hópnum. Þeim skilaboðum var fyrst komið á framfæri við ráðgjafa nefndarinnar seint í október eða snemma í nóvember 2002. Aðkoma Societe General virðist á endanum hafa ráðið úrslitum um það að einkavæðingarnefnd ákvað að mæla með því við ráðherranefnd um einkavæðingu, á fundi sínum 4. nóvember 2002, að S-hópurinn fengi að kaupa hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Samsetning hópsins var á þeim tíma reyndar allt önnur en sú sem á endanum keypti hlut ríkisins í bankanum. Skrifað var undir samkomulag um kaup hópsins á hlut í Búnaðarbankanum 15. nóvember 2002.

Í fundargerð einkavæðingarnefndar sem dagsett er 12. desember 2002 segir að gert yrði ráð fyrir því að „aðild Soc.Gen yrði staðfest morguninn eftir.“ Það gerðist hins vegar ekki og þess í stað tilkynntu forsvarsmenn S-hópsins einkavæðingarnefnd að erlendi aðilinn sem átti aðild að hópnum yrði ekki kynntur fyrr en skrifað yrði undir kaupsamninginn. Á fundi sínum þennan dag, 13. desember, ræddi einkavæðingarnefnd um hvernig ætti að bregðast við þessari beiðni. Í fundargerð er bókað að „nefndin taldi nauðsynlegt að vita hverjir væru væntanlegir fjárfestar m.t.t. markmiða ríkisins með sölunni.“ Greinilegt var á viðbrögðunum að þessi afstaða kom nefndarmönnum í opna skjöldu og samkvæmt fundargerðinni var meðal annars rætt um hvort hætta ætti við ferlið. Það var hins vegar ekki gert.

Næsti fundur einkavæðingarnefndar var ekki haldinn fyrr en 6. janúar 2003, 24 dögum síðar og tíu dögum áður en gengið var frá kaupum S-hópsins á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum.

S-hópurinn átti ekki sérstaklega mikla peninga (kaupverðið var að stórum hluta fengið að láni hjá Landsbankanum) og hafði enga reynslu af því að reka banka. Það var því mjög mikilvægt fyrir hann að láta líta svo út að sterkur erlendur aðili væri með í hópnum til að gera einkavæðingarnefnd auðveldara fyrir að selja honum bankann.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Ólafur Ólafsson voru báðir á meðal þeirra sem dæmdir voru í Al Thani-málinu svokallaða.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Þann 9. janúar, viku áður en skrifað var undir samning um kaup S-hópsins á 45,8 prósent hlut hans í Búnaðarbankanum á 11,4 milljarða króna (sem að mestu voru fengnir að láni hjá Landsbankanum), var þeim sem sátu í einkavæðingarnefnd í fyrsta sinn gerð grein fyrir því hver erlendi fjárfestirinn var sem ætlaði að fjárfesta með hópnum. Það reyndist alls ekki vera franski stórbankinn Societe General, heldur þýskur einkabanki að nafni Hauck &Aufhauser.

Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnaðarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.

Litla Kaupþing sem vildi verða risastórt

Þegar einkavæðing bankanna stóð yfir var lítill fjárfestingarbanki farinn að gera sig mjög gildandi á Íslandi. Hann hét Kaupþing og honum var stýrt af Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni. Í bók Ármanns Þorvaldssonar, Ævintýraeyunni, sem kom út árið 2009 er aðkomu Kaupþings að einkavæðingarferlinu lýst. Ármann var einn af helstu stjórnendum Kaupþings á þessum tíma og varð síðar forstjóri Kaupthing Singer&Friedlander í Bretlandi.

Ármann segir frá því að Kaupþing hafi ekki verið í náðinni hjá ráðandi stjórnmálaöflum á þessum tíma, sérstaklega Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Þótt að áhugi hafi verið fyrir því innan bankans að reyna að eignast hlut ríkisins í annað hvort Landsbankanum eða Búnaðarbankanum þá var það ekki talið vera raunverulegur möguleiki vegna þeirrar pólitísku andstöðu.

Ármann sagði að þótt Kaupþing hafi ekki tekið þátt í einkavæðingarferlinu hafi athyglin beinst að bankanum þegar salan á bönkunum tveimur var frágengin. „Bæði nýir eigendur Landsbankans og Búnaðarbankans vildu taka þátt í sameiningu í bankageiranum[...]Báðir höfðu augastað á Kaupþingi[...]Nýir eigendur bankanna höfðu jafnframt mikla trú á stjórnendum Kaupþings og vissu sem var að við höfðum mestu alþjóðlegu reynsluna. Báðir hópar sáu framtíðarvaxtamöguleika bankanna utan landsteinanna og því höfðu þeir mikinn áhuga á að ræða sameiningu við Kaupþing. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson urðu allt í einu „sætustu stelpurnar á ballinu“ og horft var til þeirra lostafullum augum.“

Í bók Ármanns er raunar greint frá því að þreifingar hefðu átt sér stað við S-hópinn á meðan að hann var enn að semja við stjórnvöld um kaup á eignarhlutnum í Búnaðarbankanum. Björn Jón Bragason rakti svipaða sögu í grein sem hann skrifaði í tímaritið Sögu í lok árs 2011. Þar sagði hann að sameining Kaupþings og Búnaðarbankans hafi verið „hönnuð“ á leynifundum mörgum mánuðum áður en einkavæðingin gekk í gegn. Þá fundi sátu, að sögn Björns, Finnur Ingólfsson, Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fjármagnaði Hauck & Aufhäuser í aðdraganda kaupanna og því var þýski bankinn verið að leppa fyrir Kaupþing. Þetta virðist nú vera staðfest í væntanlegri niðurstöðu rannsóknarnefndar á kaupunum.

Sameiningin var frágengin í apríl 2003, tæpum þremur mánuðum eftir að ríkið seldi hlut sinn í Búnaðarbankanum til S-hópsins. Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við rannsóknarnefnd Alþingis að við sameininguna hefðu Kaupþingsmenn fengið það sem þeir þurftu; „lánshæfismat og viðskiptabankagrunn á Íslandi." Afleiðingin er öllum kunn: sameinaður banki orsakaði fimmta stærsta gjaldþrot heims. Helstu stjórnendur hans hafa auk þess verið margdæmdir fyrir lögbrot sem framin voru í starfi bankans.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar