Birgir Þór Harðarson

Þessir einstaklingar blekktu stjórnvöld, almenning og fjölmiðla

Aflandsfélag fjármagnað af Kaupþingi var eigandi hlutarins sem Hauck & Aufhäuser var sagt hafa keypt. Þýska bankanum var tryggt algjört skaðleysi. Tvö önnur aflandsfélög högnuðust um milljarða á viðskiptunum. Annað í eigu Ólafs Ólafssonar, hitt líklegast í eigu Kaupþings.

„Í íslensku lagamáli nær hugtakið blekking almennt til þess að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd manns um einhver atvik. Telja verður raunar að almennur skilningur á þessu hugtaki sé í meginatriðum á sömu lund. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þessari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótvíræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“

Þetta kemur fram í niðurstöðuhluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003.

Leynilegir samningar voru gerðir til að blekkja Íslendinga til að halda að erlendur banki væri að kaupa í íslenskum banka, þegar kaupandinn var í reynd aflandsfélagsfélagið Welling & Partner, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Kaupþing í Lúxemborg fjármagnaði það félag og allur nettóhagnaður sem varð að viðskiptunum, sem á endanum var rúmlega 100 milljónir dal, um 11,4 milljarðar króna á núvirði, rann annars vegar til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og hins vegar til aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að Kaupþing eða stjórnendur þess hafi stýrt. Sá hagnaður sem rann til Ólafs var endurfjárfestur í erlendum verðbréfum fyrir hans hönd. Ekkert er vitað um hvað var um þann hagnað sem rann til hins aflandsfélagsins, sem rannsóknarnefndin ályktar að Kaupþing eða stjórnendur hans hafi haft yfirráð yfir.

Hagnaðurinn varð til vegna þess að eignarhlutur Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum, sem þá hafði sameinast Kaupþingi, hafði hækkað mjög í verði frá því að hann var keyptur og þar til að hann var að fullu seldur. Ávinningnum var skipt á milli Ólafs Ólafssonar og aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að hafi verið stýrt af Kaupþingi. Samandregið þá kom Ólafur Ólafsson með ekkert eigið fé inn í viðskiptin um kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Hann hagnaðist hins vegar gríðarlega á þeirri fléttu sem búin var til í bakherbergjum.

Þýskur þingmaður þátttakandi í fléttunni

Í þessu ferli voru íslensk stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar blekktir til að halda að Hauck & Aufhäuser hafi keypt hlut í íslenskum viðskiptabanka, þegar ljóst var að svo var ekki. Starfsmenn franska stórbankans Societe General, sem létu að því liggja að sá banki hefði áhuga á að kaupa hlutinn, tóku þátt í blekkingunni og voru trúnaðarmenn Ólafs Ólafssonar í gjörningnum. Þegar framkvæmdanefnd um einkavæðingu var kynnt að Societe General hefði áhuga á að vera hluti af S-hópnum sem ætlaði að kaupa í Búnaðarbankanum, þá var voru starfsmenn franska bankans að blekkja hana fyrir hönd Ólafs.

Starfsmenn Hauck & Aufhäuser tóku líka þátt í fléttunni. Peter Gatti, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hauck & Aufhäuser, sem settist meðal annars í stjórn Búnaðarbankans og var viðstaddur þegar kaup S-hópsins voru kláruð, gengdi þar lykilhlutverki. Það gerði Martin Zeil, fyrrverandi forstöðumann lögfræðisviðs bankans og síðar þingmaður í Þýskalandi, kom einnig að málinu.

Rannsóknarnefndin segir í skýrslu sinni að hún telji rétt að taka fram að í gögnum hennar hafi ekkert komið fram um að aðrir einstaklingar sem voru í forsvari fyrir aðila innan S-hópsins, þ.e. þeir Kristján Loftsson, stjórnarformaður Kers hf., Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, Finnur Ingólfsson, framkvæmdastjóri VÍS hf. og Axel Gíslason, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, hafi á nokkru stigi haft vitneskju um gerð, tilvist, áhrif eða síðari framkvæmd þeirra baksamninga sem um ræðir í skýrslunni.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar telur nefndin einnig hafið yfir allan vafa að tilteknir starfsmenn Kaupþings hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A hafi annars vegar átt beinan og verulegan þátt í eða hins vegar haft vitneskju um baksamninganna og gerð þeirra. „Ljóst er að drög að baksamningunum voru m.a. samin og fullgerð af Bjarka Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi hf. á þessum tíma. Þá fylgdust ýmsir stjórnendur Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg með gerð samninganna og tóku ákvarðanir um ráðstafanir sem tengdust þeim og framkvæmd þeirra. Þar á meðal voru Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings hf., Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar í Kaupþingi hf., og Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., eins og rakið er í 5. kafla skýrslunnar.“

Ólafur Ólafsson lagði ekkert fé í kaupin á Búnaðarbankanum en hagnaðist um milljarða á blekkingarleiknum með þýska bankanum.

Að mati nefndarinnar liggur fyrir að Sigurður Einarsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, fékk sendar upplýsingar í tölvupóstum um lánveitingu Kaupþings til Welling & Partners og fyrirmæli um símgreiðslur vegna þess láns inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. „Af gögnum rannsóknarnefndar verður hins vegar ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort Sigurður hafi á þeim tíma öðlast vitneskju um gerð baksamninganna og efni þeirra, , enda verður hvorki séð að hann hafi komið að ráðstöfunum þeim tengdum eða sent öðrum upplýsingar eða fyrirmæli þar um. Í bréfi Sigurðar til nefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kvaðst hann því miður ekki geta aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að honum væri beint.“

Nefndin telur ljóst að innan Kaupþings í Lúxemborg hafi bæðiMagnús Guðmundsson, annar framkvæmdastjóra bankans, og Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá bankanum, vitneskju um gerð baksamninganna, auk þess sem þeir tóku virkan þátt í ráðstöfunum sem þeim tengdust og síðari framkvæmd þeirra. Í því sambandi nutu þeir aðstoðar Karim Van den Ende hjá félaginu KV Associates S.A. sem útvegaði félagið Welling & Partners, auk þess að annast ýmsa umsýslu í tengslum við félagið og framkvæmd baksamninganna með þeim hætti sem rakið er í þessari skýrslu.“

Ekkert bendir til að einkavæðingarnefnd hafi vitað

Ekkert í gögnum rannsóknarnefndar bendir til þess að nefndarmenn í framkvæmdanefnd um einkavæðingu, starfsmenn nefndarinnar, ráðherrar sem sátu í ráðherranefnd um einkavæðingu eða raunar nokkur annar fulltrúi eða starfsmaður íslenskra stjórnvalda eða stofnana þeirra hafi á nokkru stigi haft vitneskju um hver aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. hafi verið í reynd og „þá með hvaða hætti staðið var að þeim málum bak við tjöldin af hálfu Ólafs Ólafssonar, Guðmundar Hjaltasonar, tiltekinna starfsmanna Kaupþings hf., svo og einstakra starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A og Hauck & Aufhäuser.“

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var einnig í lykilhlutverki í fléttunni samkvæmt skýrslunni.

Þá hefur ekkert komið fram við rannsókn nefndarinnar sem bent gæti til þess að neinn þessara aðila hafi haft hugmynd um að fjárhagslegur ávinningur af viðskiptum með þá hluti í Eglu hf. sem Hauck & Aufhäuser var í orði kveðnu eigandi að hafi frá upphafi verið áskilinn og í reynd á endanum runnið til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd., sem nefnin ályktar að hafi verið undir yfirráðum Kaupþings. 

Í skýrslunni segir um þetta félag: „Við rannsókn nefndarinnar komu ekki fram upplýsingar um raunverulega eigendur síðastnefnda félagsins. Með vísan til þess að Kaupþing hf. lagði fram fjármuni til þeirra viðskipta sem baksamningarnir lutu að, bar í reynd alla fjárhagslega áhættu af baksamningunum og að öðru leyti annars sem rakið hefur verið í skýrslunni varðandi þátt starfsmanna Kaupþings hf. í gerð og síðari framkvæmd hinna leynilegu baksamninga telur nefndin þó að líkur standi til þess að Kaupþing sjálft eða aðilar því tengdir hafi verið raunverulegir eigendur Dekhill Advisors eða notið þeirra fjármuna sem þangað runnu. Í bréfi Hreiðars Más Sigurðssonar sem vitnað er til hér að framan kvaðst hann aldrei hafa heyrt minnst á þetta félag fyrr en í bréfi nefndarinnar. Svör Bjarka Diego og Magnúsar Guðmundssonar í fyrrnefndum bréfum þeirra sama dag voru á sömu leið. Í svarbréfum Sigurðar Einarssonar, Kristínar Pétursdóttur og Steingríms Kárasonar var spurningum nefndarinnar um Dekhill Advisors ekki svarað sérstaklega. Í bréfum Sigurðar Einarssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, Steingríms Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar var hins vegar fullyrt að þeir hefðu aldrei sjálfir notið fjárhagslegs ávinnings af viðskiptum sem tengdust þeim baksamningnum sem fyrirspurnir til þeirra lutu að. Þá hafa þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir svarað fyrirspurnum nefndarinnar um félagið á þann veg að þá reki ekki minni til atriða sem því tengjast.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None